2.6.2007

Lóa Konráðs - hraðamyndavélar - sakbitinn Steingrímur J.

Ólöf Konráðsdóttir (Lóa Kon) var borin til grafar fimmtudaginn 30. maí, en hún nálgaðist nírætt, þegar hún andaðist, fædd 1919. Ég kynntist henni, þegar hún fyrir nokkrum árum tók að iðka qi gong í Þjóðleikhúsinu þrjá morgna í viku milli átta og níu. Hún var manna duglegust að sækja æfingarnar og fyrir eða eftir þær gaf hún sig oft á tal við mig til að ræða hugðarefni sín, ekki síst stjórnmál. Lóa var eindregin stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og forystumanna hans. Safnaði hún úrklippum af fréttum um okkur í blöðum og hélt þeim til haga á heimili sínu við Skólavörðustíg og límdi þær jafnvel á eldhúsveggi sína okkur til heiðurs. Þar var einnig mynd af Búdda en Lóa var vel að sér í fræðum hans og virk í Guðspekifélaginu. Í fallegum minningarorðum séra Arnar Bárðar Jónssonar um Lóu í Fossvogskirkju sagði hann frá því, að hún hefði sótt alfa-námskeið hjá sér en aldrei sætt sig að fullu við hinn kristna boðskap. Raunar sagði hann einnig frá því, þegar Lóa hefði eitt sinn fengið köllun til að koma til sín rétt fyrir messu í Neskirkju, til að hvetja sig til að hverfa frá róttækni sinni og því, sem hún taldi andúð prestsins í garð Sjálfstæðisflokksins – hann gæti hreinlega misst embætti sitt gætti hann sín ekki! Raunar man ég eftir Lóu, frá því áður en við hittumst við qi gong æfingar, því að dag einn um vetur, þegar færð var erfið vegna krapa eða snjóa, var hringt á bjöllunni heima hjá mér, og sá, sem fór til dyra hitti fyrir lágvaxna, granna konu með annan fótinn í gipsi og sagðist hún hafa komið fótgangandi neðan úr bæ til að afhenda mér bók með boðskap Búdda, sem hún var með í hendinni. Fyrir nokkrum vikum sendi hún mér bókina Sólin í hjarta mitt eftir Búddamunkinn Thich Nhat Hanh, sem hún hafði fengið Sigurð A. Magnússon til að þýða, með fylgdi fallegt kort og hlýjar kveðjur. Því miður hitti ég Lóu ekki til að þakka henni og heyrði ekki frekar af henni, fyrr en sameiginlegur qi gong félagi sagði mér, að hann hefði komið á heimili hennar og ætlað að gefa henni mynd, en þá hefðu aðrir verið þar fyrir, þar sem komið hefði verið að henni látinni.

 

Hraðamyndavélar.

 

Í nýjasta tölublaði The Economist er sagt frá því, að á næstunni eigi að gera tilraun í Cumbríu í Bretlandi með hreyfanlegar eftirlitsmyndavélar með umferð, hraðamyndavélar. Lögum hafi nýlega verið breytt og bresku lögreglunni heimilað að nota myndavélar á fleiri vegum en þar sem orðið hefðu mörg banaslys. Myndavélar hafi aukið öryggi, en rannsóknir í Bretlandi sýni, að vélarnar fækki slysum um allt að 24%, en þeim hafi á hinn bóginn fjölgað, þar sem myndavélar eru ekki.

 

Í Cumbríu sé nú beitt hreyfanlegum myndavélum og þær séu meðal annars notaðar til að mæla hraða á löngum vegalengdum, þannig að erfitt sé að leika á vélarnar, eins og menn geri, þar sem vitað er um þær. Í London sé verið að reyna nýjar hátækni myndavélar, sem séu minni en þær, sem nú eru notaðar. og sýni ekki flass við töku mynda, auk þess sem þær verði aldrei filmulausar.

 

Að sjálfsögðu heyrast neiðkvæðar raddir um myndavélavæðinguna í Cumbríu en yfirvöldin láta þær ekki aftra sér og vísa meðal annars til reynslunnar í Queensland í Ástralíu, þar sem notaðar hafa verið hreyfanlegar myndavélar síðan 1987. Þar fækkaði slysum um 35%, eftir að hinar nýju aðferðir komu til sögunnar.

 

Tæknivæðing lögreglu hér á landi eykst jafnt og þétt, meðal annars til umferðareftirlits á grundvelli samnings, sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gerði við embætti ríkislögreglustjóra snemma á árinu. Samkvæmt honum verður um 40 milljónum varið til að kaupa átta lögreglumótorhjól fyrir höfuðborgarsvæðið, þau eru búin ratsjárbúnaði með myndavél (á ensku: Eyewitness). Umferðarstofa fjármagnar einnig kaup á sex ratsjártækjum með myndavélum á mótorhjól sem eru í notkun og 18 slík tæki í lögreglubíla, samtals fyrir um um 36 milljónir króna. Þá fjármagnar Umferðarstofa kaup á 11 öndunarsýnamælum og meðfylgjandi tölvubúnaði og Vegagerðin fjármagnar kaup á 16 hraðamyndavélum auk búnaðar og verða þær afhentar ríkislögreglustjóra. Loks greiðir Umferðarstofa á samningstímanum  tvö stöðugildi hjá ríkislögreglustjóra til að annast verklega framkvæmd við úrvinnslu sekta úr hraðamyndavélum, samtals að hámarki 28 milljónir.

 

Sýslumaður Snæfellinga í Stykkishólmi mun annast úrvinnslu gagna úr þessum 16 hraðamyndavélum, sem verða víðsvegar um land. Verði reynslan hin sama hér og í Bretlandi eða Ástralíu eykst umferðarðaröryggi við þessar aðgerðir.

 

Hér eins og þar heyrast að sjálfsögðu úrtöluraddir, því að tæknivæðing mætir oftast andstöðu. Þessum röddum ber að sjálfsögðu að gefa gaum en þær eiga ekki að ráða ferðinni. Sýnileiki löggæslu felst ekki í því einu, að lögreglumenn séu á ferð – hún byggist einnig á þeim búnaði, sem lögregla hefur til að sinna mikilvægum verkefnum sínum og markvissri úrvinnslu á gögnum, sem lögregla aflar.

 

Sakbitinn Steingrímur J.

 

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 30. maí vakti athygli, hve Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, varði löngum tíma til að ræða eigið hlutverk og stöðu. Morgunblaðið skýrði þetta á þann veg í leiðara, að formaðurinn hefði verið að verja eigin stöðu meðal vinstri/grænna. Hann hefði sætt ámæli, vegna þess hve illa hann hefði staðið að málum eftir kosningar.

 

Í ræðu sinni sagði Steingrímur J. að kosningasigur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði gert stjórnarskiptin möguleg eftir kosningar. Það hefði verið út á kosningasigur vinstri grænna sem draumur samfylkingarfólks um að komast loksins í ríkisstjórn rættist. Svo undarlega brygði hins vegar við, að Samfylkingin færi inn í ríkisstjórnina  undir ásökunum í garð vinstri grænna um að Samfylkingin væri ekki að gera eitthvað allt annað. Af því tilefni spurði Steingrímur: „Er þess að vænta að Samfylkingin geri það fljótlega upp við sig hvort þetta er ríkisstjórnin sem hún vill vera í? Er Samfylkingin í þessari ríkisstjórn af því að hún trúir því að hún sé góð? Er Samfylkingin í þessari ríkisstjórn af því að stefna hennar sé ágæt? Eða er Samfylkingin bara í þessari ríkisstjórn af því að sá vondi maður sem hér stendur hrakti hana til þess?“

 

Nú það í sjálfu sér þannig að ég get vel tekið það á mínar herðar fyrir Samfylkinguna ef hana skortir sjálfa réttlætingu fyrir því sem hún er að gera, ef hún hefur engin önnur rök til að réttlæta veru sína undir sænginni hjá íhaldinu en mig, enga aðra afsökun en áburðinn um að ég og við vinstri græn höfum gert myndun annars konar ríkisstjórnar ómögulega. En ég vil þá fá að vita, hvað líður senn, hversu langt guðföðurskyldur mínar ná í þessum efnum. Eiga þær að endast Samfylkingunni sem allsherjarafsökun og réttlæting næstu fjögur ár eða jafnvel lengur? Eða er þetta bara til að sefa óánægjuraddir í baklandi Samfylkingarinnar tímabundið? Ég vona a.m.k. að föðurhlutverk mitt sé ekki svo bókstaflegt að ég sé meðlagsskyldur og verði að borga Geir H. Haarde fósturlaun vegna krógans næstu fjögur árin.

 

Auðvitað er dapurt til þess að vita ef Samfylkingin er nauðug viljug í þessu samstarfi og það leyndi sér vissulega ekki a.m.k. ekki hvað Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra varðaði að honum var það allt þvert um geð sem var að gerast dagana fyrir stjórnarmyndun. Það sá öll þjóðin hversu harmþrungið ráðherraefnið var. En ábyrgðina hefur hinn sjónumhryggi jafnaðarmaður sent og skrifað á réttan stað. Sá voðalegi maður sem ber ábyrgð á því að Össur Skarphéðinsson féllst tárvotum augum og gegn vilja sínum á að gegna ráðherradómi heitir Steingrímur J. Sigfússon og stendur hér. En vonandi fer nú að rætast úr fyrir okkar manni því að hann er þrátt fyrir allt kominn heim á kunnuglegar slóðir, í fangið á íhaldinu þar sem hann undi um skeið sem ráðherra undir merkjum Alþýðuflokksins og lagði þar á skólagjöld og sjúklingaskatta í þágu jafnaðarstefnunnar svo eitthvað sé nefnt. Já, svona er nú hátt á því risið þegar Samfylkingin loksins kemst í ríkisstjórn að það þarf að kenna öðrum um, bera sakir á aðra, varpa ábyrgðinni af sjálfum sér yfir á aðra og kaupa sér fjarvistarsönnun.“

 

Óvenjulegt er, að stjórnmálaforingi ræði svo persónulega um viðburði á vettvangi stjórnmálanna í því skyni að verja eigin hlut vegna ákvarðana annarra. Við myndun stjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar voru áreiðanlega fáir með Steingrím J. í huga. Hann talaði sig einfaldlega frá myndun ríkisstjórnar á fyrstu klukkustundunum, eftir að úrslit kosninganna voru kunn. Þegar hann vildi, að forseti Íslands hæfi viðræður við formenn allra stjórnmálaflokkanna, tók enginn mark á honum – Steingrímur J. missti einfaldlega af strætisvagninum.

 

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, rakti harma Steingríms J. til þess, að hann sæti ekki með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Guðni sagði:

 

„Það merkilega og skemmtilega er að hlusta hér á Steingrím J. Sigfússon, foringja vinstri grænna. Enn grætur hann að vera ekki í bólinu hjá Sjálfstæðisflokknum, enda bað hann þeirra í beinni útsendingu og Ögmundur Jónasson einnig. Þeir vildu vera þar sem við vorum áður.“