31.12.2006

Við áramót 2006.

Yfirlit

Á árinu, sem er að líða hafa þessi orð Bertrands Russels oft átt við: „Meginvandi mannkyns er, að fífl og öfgamenn eru alltaf svo öruggir með sig en hinir skynsamari eru svo uppteknir af efasemdum.“

Fyrir tíma alþjóðavæðingarinnar áttu skynsamir menn að jafnaði  nóg með að glíma við „fífl og öfgamenn“ í næsta nágrenni sínu en um þessar mundir eru áhrif þeirra orðin að alþjóðlegu vandamáli og viðbrögðin krefjast sameiginlegra aðgerða margra þjóða.

 

Í stað þess að rifja upp minnisstæða atburði á árinu (þá má raunar finna í dagbókinni hér á síðunni) ætla ég að staldra við orð Bertrands Russels. Ég nefni tíu atriði, sem koma í hugann, þegar litið er til alþjóðamála, en um hvert þeirra mætti skrifa langt mál.

 

1.     Stjórnendur Írans og Norður-Kóreu hóta mannkyni með því að vígbúast með kjarnorkuvopnum.

2.     Í Mið- og Suður-Ameríku eru í nokkrum ríkjum við völd forystumenn, sem hafa mannréttindi að engu og skelfa þjóðir með ógn og ofbeldi.

3.     Ofríki og blóðug átök ógna lífi milljóna manna í Afríku.

4.     Alið er á hatri í garð Vesturlanda og þó sérstaklega Bandaríkjanna og Ísraels meðal múslíma.

5.     Orkuvopni er beitt til að knýja þjóðir til undirgefni.

6.     Ýtt er undir óvild milli fólks af ólíku þjóðerni innan Evrópuríkja.

7.     Skipulögð glæpastarfsemi teygir sig til allra ríkja.

8.     Umræðum um auðlindanýtingu á vísindalegum rökum er hafnað – þjóðir eru settar í skammarkrók með skírskotun til tilfinninga.

9.     Hræðsluáróður um endalok mannkyns er notaður til að knýja fram aðgerðir gegn gróðurhúsaáhrifum.

10. Alþjóðleg spákaupmennska eða neikvæð afstaða alþjóðlegra matsfyrirtækja getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstakar þjóðir.

 

Viðfangsefnin eru mörg. Oft getur reynst erfitt að sameina hina skynsamari um nauðsynlegar gagnráðstafanir eða koma að skynsamlegum rökum gegn öfgasjónarmiðunum.

 

Öllum Íslendingum er ljóst, að hvalveiðar innan þeirra marka, sem þær eru stundaðar hér við land, skaða ekki lífríki hafsins, þær ættu þvert á móti að ýta undir fjölbreytileika þess. Sjónarmið af þessum toga styðjast við vísindaleg rök en þau mega sín lítils gagnvart tilfinningunum. Nefnd eru til sögunnar ýmis tilvik til að sýna, að áhættan, sem tekin er með veiðunum sé þess eðlis, að við séum að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Víst er, að ekki dugar að bíta í skjaldarrenndur hér heima fyrir til að snúa þessum viðhorfum okkur í hag, nema ýtt sé undir þau af innlendum aðilum, sem einblína á hina öfgafullu hlið málsins.

 

Á fyrri hluta árs glímdu íslensk fjármálafyrirtæki við ímyndarvanda vegna neikvæðra dóma greiningardeilda erlendra banka og alþjóðlegra matsfyrirtækja. Snúist var til varnar með því að stofna til rökræðna og á þann veg tókst að breyta ímyndinni og sýna fram á hið rétta. Þessari baráttu er ekki lokið og nú er sótt að krónunni úr þeirri átt, að hún eigi að víkja fyrir erlendum gjaldmiðli, evrunni, en öll rök hníga að því, að evrunni fylgi aðild að Evrópusambandinu og þar með afsal fullveldis, meðal annars til að gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.

 

Glæfraspil einstakra fyrirtækja getur hæglega spillt orðspori allra íslenskra fyrirtækja, sem vilja láta að sér kveða í alþjóðaviðskiptum. Í því felast hrein öfugmæli, að öflugt eftirlit hér á landi með fjármálastofnunum og fyrirtækjarekstri sé til þess fallið að veikja traust á Íslandi og Íslendingum í alþjóðaviðskiptum. Líklegt er, að eftirlitsstarfsemi rekin eingöngu af heimafólki veiti ekki nægilega trúverðugt aðhald á öllum sviðum og þess vegna verði að alþjóðavæða þetta starf hér landi með aukinni þátttöku útlendinga í því eða aukinni samvinnu við alþjóðlega eftirlitsaðila með fjármálaumsvifum.

 

Hin mikla breyting á stöðu Íslands í öryggismálum við brottför varnarliðsins hefur ekki verið rædd til hlítar hvorki á innlendum né erlendum vettvangi. Gleðilegt var að lesa það í Morgunblaðinu 30. desember, að þyrlusveitarmenn Landhelgisgæslu Íslands telja sig jafnvel betur setta eftir brottför varnarliðsins en á meðan þeir treystu á samstarf við þyrlubjörgunarsveit þess.

 

Þegar við stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd, að Bandaríkjamenn ætluðu að kalla allan liðsafla sinn héðan, taldi ég brýnasta verkefnið að búa þannig um hnúta, að ekki yrði slakað á leitar- og björgunarstarfi við landið og tryggðar yrðu þyrlur til að koma í stað hinna bandarísku. Ég taldi, að þetta yrði að gera í tveimur skrefum, það er til bráðabirgða með leiguþyrlum, þar til framtíðarlausn yrði fundin. Fyrsta skrefið verður stigið til fulls, þegar fjórða þyrlan kemur í sveit landhelgisgæslunnar nú í byrjun næsta árs. Markvisst hefur verið unnið að því að búa sem best um hnúta vegna lokaskrefsins.

 

George W. Bush og ríkisstjórn hans sætir harðnandi gagnrýni heima fyrir vegna framgöngu hennar í utanríkis- og öryggismálum. Þessi gagnrýni kemur bæði frá hægri og vinstri og snýst hún mest um, hve illa hefur verið haldið á málum í Írak. Eftir ósigur í þingkosningum í nóvember sl. leitaðist Bush við að bæta eigin hlut með því að láta Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra víkja úr embætti.

 

Ég tel Bandaríkjastjórn og þá sérstaklega bandaríska varnarmálaráðuneytið hafa sýnt ótrúlega skammsýni í samskiptum við okkur Íslendinga í tengslum við brottför varnarliðsins. Hvað sem líður nýrri hernaðarstefnu Bandaríkjanna, hreyfanleika herafla og endurnýjun allra viðbragðsáætlana á heimsvísu, kemur ekkert í stað aðstöðu á hernaðarlega mikilvægum stöðum, þessari aðstöðu hafa Bandaríkjamenn nú stefnt í voða hér á landi. Þetta gera þeir, þótt augljóst sé, að mikilvægi siglingaleiðanna í nágrenni Íslands vegna orkuöryggis sé að aukast, eins og ég reifaði í ræðu, sem ég flutti í Aþenu í byrjun þessa mánaðar. Virðist einsýnt, að stjórnmálaleg rök hafa ekki ráðið ferðinni í Washington heldur þröngir hagsmunir í varnarmálaráðuneytinu undir stjórn Rumsfelds, sem hafði málað sjálfan sig út í horn, áður en hann var látinn víkja.

 

Frá því að við blasti, að bandaríska varnarliðið myndi hverfa héðan, hafa umræður um öryggismál okkar verið í sama gamla farinu og margir láta, að það sé vandi annarra en okkar sjálfra að tryggja öryggi lands og þjóðar. Spurt er: Hvað ætla Danir eða Norðmenn að gera? Þegar vitlaust er spurt, verða svörin einnig vitlaus. Spurningin er auðvitað þessi: Hvað ætlum við Íslendingar að gera? Hve langt erum við reiðubúnir að ganga til að tryggja eigið öryggi?

 

Ríkisstjórnin gaf út sögulega yfirlýsingu í tengslum við brottför varnarliðsins um aðgerðir á innlendum vettvangi – þær falla margar undir verksvið mitt sem dóms- og kirkjumálaráðherra og hefur verið unnið að framkvæmd þeirra. Við getum ekki stofnað til hernaðarsamstarfs við aðrar þjóðir nema heimild til þess sé veitt í lögum, við getum hins vegar átt samstarf á sviði löggæslu, landhelgisgæslu og landamæraeftirlits auk þess að skapa aðstöðu í landinu fyrir erlenda bandamenn til að athafna sig hér með flugvélar, herskip og til heræfinga – við höfum aðeins varnarsamning við Bandaríkin!

 

Íslendingar eiga meira undir því nú en nokkru sinni að huga vel að stöðu sinni í heiminum. Þjóðfélagið hefur breyst meira vegna alþjóðavæðingar síðustu ára en við blasir við fyrstu sýn. Straumarnir, sem liggja um allar æðar íslensks samfélags, eru allt aðrir en þeir voru fyrir aðeins fáeinum árum. Í umræðum um þessa stöðu gætir hins sama og Bertrand Russel nefndi og vitnað var til í upphafi – það er vandasamt að finna skynsamlegan umræðugrundvöll. Ef hann finnst ekki, er hætt við, að öfgarnar ráði meiru að lokum en skynsemin.

 

Að lokum alþjóðavædd gamanyrði:

 

Á ensku er til nafnorðið Goldwynism (GOLD-wi-niz-em)um gamanyrði eða setningu, sem byggist á öfugmælum og er kennt við Samuel Goldwyn (1879 – 1974), bandarískan kvikmyndaframleiðanda, f. í Póllandi, sem þekktur er fyrir slík ummæli. Hann bar nafnið Schmuel Gelbfisz við fæðingu, breytti því í Samuel Goldfish, eftir hann hélt til Bretlands, og síðan í Samuel Goldwyn, þegar hann settist að í Bandaríkjunum.

 

Hér eru nokkur dæmi um Goldwynism:

 

o Include me out.

o When I want your opinion I will give it to you. (Þegar ég vil vita skoðun þína, skal ég láta þig vita, hver hún er.)

o I'll give you a definite maybe. (Ég tek örugglega af skarið kannski.)

o If I could drop dead right now, I would be the happiest man alive. (Ef ég gæti drepist einmitt núna, væri enginn glaðari að vera á lífi en ég.)

o Anybody who goes to a psychiatrist ought to have his head examined. (Allir sem fara til geðlæknis ættu að láta skoða á sér höfuðið.)

o I may not always be right, but I am never wrong. (Ég hef kannski ekki alltaf rétt fyrir mér, en ég hef aldrei rangt fyrir mér.)

o In two words im-possible. (Í tveimur orðum ó-mögulegt.)

 

Gleðilegt ár!