7.5.2006

Fjölmiðlaflóran og DV verður helgarblað.

Ólafur Teitur Guðnason hefur sent frá sér bókina Fjölmiðlar 2005 – Getur þú treyst þeim? Segir í kynningu á bókinni, að hún geymi alla fjölmiðlapistla, sem Ólafur Teitur skrifaði í Viðskiptablaðið á síðasta ári. Sem reglulegur lesandi þessara pistla fagna ég því að fá þá að nýju á einum stað, en á síðasta ári voru pistlar Ólafs Teits frá árinu 2004 gefnir út í samskonar bók af bókafélaginu Ugla, sem gefur meðal annars út tímaritið Þjóðmál undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar, rithöfundar. Þess má geta, að Jakob F. var að endurútgefa minningabókina sem hann skráði eftir Kristjáni Albertssyni Margs er að minnast og fyrst var gefin út fyrir 20 árum – einstæð bók fyrir margra hluta sakir og ekki síst gleðigjafi fyrir okkur, sem minnumst Kristjáns og einstæðrar frásagnarsnilldar hans.

Í pistlum mínum hef ég oft vitnað til þess, sem Ólafur Teitur segir í Viðskiptablaðinu og ætla enn að nýta mér glöggskyggni hans á það, sem er eftirtektarvert í fjölmiðlaflórunni. Í Viðskiptablaðinu föstudaginn 5. maí rifjar hann upp orð fjölmiðlamanna í tilefni af því, að viku áður, 28. apríl, lá fyrir, að daglegri útgáfu á Baugsmiðlinum DV yrði hætt og DV yrði þess í stað vikublað og kom fyrsta eintak blaðsins í nýjum búningi út hinn 6. maí.

 

Ólafur Teitur vitnar í vefpistil Egils Helgasonar á Visir.is frá 28. apríl, þar sem Egill lætur þess getið, að DV hafi verið þægt við eigendur sína, það er Baugsmenn, þess hafi ekki orðið vart, að það hlífði neinum nema eigendunum og Egill segir: „Blaðið lagði bókstaflega lykkju á leið sína til að fjalla ekki um þá [Baugsmenn] – og hafa þeir þó verið býsna áberandi í þjóðlífinu. Í deilumálum tók það undanbragðalaust afstöðu með þeim. Þetta gróf mjög undan trúverðugleika blaðsins.“

 

Ólafur Teitur vitnar einnig í Reyni Traustason, ritstjóra Mannlífs, sem segir meðal annars á vefsíðunni mannlif.is mánudaginn 1. maí:

 

„Vandi DV hins nýja hefur augljóslega verið að Baugur var stærsti eigandinn. Ekki vegna þess að Baugur fjarstýrði fréttum heldur vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins hafa verið stöðugt fréttaefni og miðillinn sem engum mátti hlífa þagði gjarnan eða birti hlutlausar fréttir af gangi mála. Sem sagt steig varlega til jarðar til að meiða ekki eigandann. Þessar hömlur eru ein helsta ástæða þess að DV gat ekki átt langa lífdafa. Á meðan þjóðin beið þess í ofvæni að fá að sjá í DV aðrar hliðar Baugsmálsins þá gerðist ekkert. Og það er svo sem skiljanlegt að ritstjórn DV hafi verið lömuð af innri ritskoðun því það vill enginn míga í bælið sitt að óþörfu. Þessi vandi blaðsins varð enn augljósari þegar hliðsjón er höfð af því að blaðið hlífði ekki öðrum auðjöfrum og fór mikinn þegar fjallað var um fjölskyldu Björgólfs Guðmundssonar, aðaleiganda Landsbankans, sem þó var ekki líkt því eins spennandi fréttaefni og Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus í allri sinni sápuóperu þar sem við sögu kom ástir, svik og svall á Flórída og allt það annað sem gerir sápuóberu spennandi. Þetta hefði átt að vera DV efni í fjöldann allan af söluforsíðum en varð ekki. Það má segja að blaðið hafi kafnað í kærleika Baugs.

 

Þögnin í Baugsmálum hlýtur að hafa verið pirrandi inni á ritstjórninni og eflaust hafa hömlurnar orðið til þess að blaðið fór enn grimmar í mál þar sem Baugur kom ekki nærri, Og þar lá einmitt stóra meinið....“

 

Mér þótti forvitnilegt að lesa eftirmæli Reynis Traustasonar um DV í eigu Baugs. Í pistli, sem ég birti hér á síðunni 25. apríl 2004, sagði meðal annars: „Ég ætla ekki að árétta hér álit mitt á þeim siðareglum, sem ráða ferðinni á DV. Ég læt orð blaðsins og ávítur mér í léttu rúmi liggja, enda eru skilin milli uppspuna og staðreynda að engu orðin í blaðinu undir hinni nýju ritstjórn þess.“ Reynir, sem þá var blaðamaður á DV, reiddist þessum orðum mínum og sendi mér línu og sakaði mig um „rakalausan rógburð“ í garð DV – honum þætti örlög mín sorgleg, þar sem hann hefði talið, að ég væri „að öðru leyti heiðarlegur maður.“  Taldi hann það sérstaklega ámælisvert, að ég hefði leyft mér að nefna DV „Baugstíðindi og fleiri uppnefnum.“ Þegar ég las eftirmæli Reynis um DV, sá ég, að dregur mun dramatískari ályktanir um áhrifin af samneyti DV og Baugs en ég hef nokkru sinni gert.

 

Í hinni nýju bók Ólafs Teits les ég, að hinn 28. október 2005 skrifaði hann: „Ég nefni sjaldan DV, annars vegar vegna þess að ég les það helst aldrei, hins vegar vegna þess að með því væri gefið í skyn að blaðið væri í lagi fyrir utan fáeinar undantekningar.“

 

Vissulega hefði verið léttara yfir vefsíðu minni, ef ég hefði tekið sama pól í hæðina og Ólafur Teitur og leitt DV einfaldlega hjá mér, eftir að það komst undir ritstjórn, sem starfaði á þann veg, sem Reynir Traustason lýsir hér fyrir ofan.

 

Reynir nefnir, hvernig DV fjallaði um Björgólf Guðmundsson og fjölskyldu hans. Um miðjan janúar 2006  urðu umræður á opinberum vettvangi um, að Björgólfur og sonur hans Björgólfur Thor hefðu tvisvar sinnum gert Baugsmönnum tilboð um að kaupa DV af þeim í því skyni að hætta útgáfu blaðsins. Þótti þetta nokkur bíræfni og mátti skilja á viðbrögðum Baugsveldisins, að fráleitt væri að fara þá leið að hætta útgáfu DV, enda var um svipað leyti og fréttir bárust af þessum tilboðum Björgólfsfeðga ákveðið að skipta um ritstjóra á DV.

Í forystugrein Morgunblaðsins 30. apríl sagði í tilefni af brotthvarfi DV:

 

„Sögu DV síðustu árin þekkja menn. Blaðið hefur verið umdeilt en blöð á borð við DV hafa alltaf verið til í nálægum löndum og hafa sinnt því hlutverki að bregða upp annarri sýn á samfélagið en aðrir fjölmiðlar gera.

Nú er komið í ljós, að ekki er fyrir hendi viðskiptalegur grundvöllur til útgáfu dagblaðs af því tagi, sem DV hefur orðið hin síðustu ár. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, hefur upplýst að umtalsverður taprekstur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafi orðið til þess að útgáfu blaðsins sem dagblaðs hafi verið hætt. Þar með er ákveðnum kapítula lokið í sögu dagblaða á Íslandi.

Páll Baldvin Baldvinsson, ritstjóri DV, sagði í samtali við fréttastofu ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld, að ákveðinn hópur fólks vildi ekki lesa það blað, sem DV hefði verið og rakti það m.a. til sorglegra atburða á Vestfjörðum seint á síðasta ári, sem leiddu til ritstjóraskipta á blaðinu. Það segir auðvitað nokkra sögu um það samfélag, sem við búum í.

DV kemur áfram út sem helgarblað. Það er eðlileg ákvörðun hjá útgefendum blaðsins að láta á það reyna, hvort rekstrargrundvöllur verði fyrir blaðinu sem slíku.

Eftir standa tvö fríblöð og Morgunblaðið. Ekki er líklegt að þessi breyting á útgáfu DV hafi mikil áhrif á samkeppnina á milli þessara þriggja blaða. Ólíklegt má telja, að einhverjir fylgi í kjölfarið á DV að fenginni reynslu. Hins vegar má vel vera, að markaður hafi opnast fyrir harðari fréttamennsku almennt sem snúist þá um annað en ofbeldi og glæpi. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort annað hvort fríblaðanna nýtir sér það tómarúm en bæði hafa hingað til fylgt þeirri stefnu hinna upphaflegu útgefenda fríblaða, að þeir, sem komi óboðnir heim til fólks, eigi að sýna af sér ákveðna lágmarks kurteisi.“

Fyrsta endurgert helgarblað DV birtist hinn 6. maí. Hinn 7. maí mátti lesa á visir.is:

„Skíðasamband Íslands gagnrýnir harðlega frétt DV í gær en þar var fjallað um smygl á 140 grömmum af kókaíni en birt mynd af Elsu Guðrúnu Jónsdóttur, Íslandsmeistara í skíðagöngu, með fréttinni þrátt fyrir að hún tengist ekki málinu.

 „Við erum mjög svekktir yfir því að vinnubrögðin skyldu ekki vera betri en þetta og með þessum hörmulegu afleiðingum,“ segir Friðrik Einarsson, fyrrverandi formaður sambandsins, en hann lét af formennsku í gær.

„Svo erum við óánægðir með það að sagt var í fréttinni að skíðakona skuli hafa smyglað inn fíkniefnum en þessi kona hefur ekki stundað skíði í þrjú ár. Samkvæmt þessu ættu þá nær allir Íslendingar að vera skíðamenn eða konur. Þetta teljum við vera aðför að skíðahreyfingunni.“

„Við hörmum þessi alvarlegu mistök innilega,“ segir Páll Baldvin Baldvinsson, ritstjóri DV. Hann segir að blaðamaður hafi haft samband við Elsu Guðrúnu og beðist velvirðingar á mistökunum.

„Þetta kallar á endurskoðun á reglum um vinnslu blaðsins,“ bætir hann við. Mistökin urðu með þeim hætti að myndin af Elsu Guðrúnu birtist þegar nafn stúlkunnar sem fréttin fjallar um var slegið inn á leitarvef.

„Við munum leiðrétta þetta en þar sem næsta blað kemur ekki út fyrr en um næstu helgi fögnum við því að hafa getað komið leiðréttingunni á framfæri í öðrum fjölmiðlum,“ segir hann.  

Hann segir að notað hafi verið orðið skíðakona þar sem viðkomandi var þekkt fyrir afrek sín á þeim vettvangi en þvertekur ekki fyrir gagnrýni Friðriks.“