5.3.2006

Helgardvöl í Ósló – evru draumar The Economist.

Þennan pistil skrifa ég frá Ósló, en þar er ég yfir helgina meðal annars til að taka þátt í 70 ára afmæli Lars Roars Langslets, sem er fyrrverandi menningarmálaráðherra Noregs, auk þess að vera þekktur rithöfundur og virkur þátttakandi í norskum umræðum um stjórnmál og menningarmál. Í tilefni afmælisins kemur út bók eftir Lars Roar, þar sem hann segir frá kynnum sínum af listamönnum. Ég hitti hann fyrst sumarið 1970 og síðan hefur haldist með okkur vinátta.

Í Aftenposten í dag, sunnudaginn 5. mars, er heilsíðuviðtal við Lars Roar í tilefni af útgáfu bókar hans og afmælinu. Ég sé einnig minnst á annan gamlan félaga minn, Arne Olav Brundtland, eiginmann Gro Harlem, fyrrverandi forsætisráðherra, en hann hefur starfað á NUPI í áratugi. Þegar ég sinnti erlendum fréttum á Morgunblaðinu, sendi Arne Olav reglulega greinar til blaðsins um alþjóðamál. Ég hafði vonast til að geta hitt hann núna, en eins og segir í Aftenposten fékk hann heilablóðfall fyrir skömmu og glímir nú við afleiðingar þess. Hann er þriðji norski félagi minn frá fyrri árum, sem fær þennan sjúkdóm, hinir eru látnir fyrir aldur fram: Johan Jörgen Holst utanríkisráðherra og Ellmann Ellingsen, framkvæmdastjóri Atlanterhavskomitéen.

 

Ég hef frá því í gær fengið tækifæri til að ræða við gamla félaga mína og fræðimenn á NUPI, Norsk Utenrikspolitisk Institutt, sem hefur fært út starfsemi sína og rannsóknir jafnt og þétt undanfarin ár og segja má, að láti ekkert á sviði alþjóðamála sér óviðkomandi, en beinir um þessar mundir ekki síst athyglinni á því, sem er að gerast í Asíu. Í NUPI er einnig eins og áður fylgst vel með því, sem er að gerast í Rússlandi og á norðurslóðum.

 

Aukin olíuvinnsla Norðmanna og Rússa í Barentshafi á enn eftir að auka áhuga manna á þessum afskekkta heimshluta og ný og betri tækni til olíuvinnslu við erfiðar aðstæður á hafi úti samhliða háu olíuverði gerir fyrirtækjum kleift að sækja olíu á staði, sem fyrir nokkrum árum voru taldir utan hagkvæmra nýtingarsvæða.

 

Fyrir okkur Íslendinga er rík ástæða til að fylgjast náið með því, sem er að gerast í olíuvinnslu í Barentshafi, því að líklegt er, að ferðir stórra olíuskipa þaðan verði í framtíðinni nálægt landi okkar, jafnvel milli Íslands og Grænlands. Við gerð krafna um hæfni nýs varðskips er meðal annars litið til þess, að það hafi afl og búnað til að geta glímt við að bjarga stórum olíuskipum. Á hinn bóginn ræður engin ein þjóð við hættu, sem getur skapast, ef slík risaskip lenda í vandræðum og þess vegna er einnig nauðsynlegt að efla alþjóðlega samvinnu í því skyni að tryggja sem best öryggi við notkun þessara skipa.

 

Meðal þeirra, sem ég hitti, eru einnig þeir, sem geta lagt mat á stöðu Noregs gagnvart Evrópusambandinu, en ríkisstjórnin, sem hér var mynduð sl. haust hefur aðild ekki á dagskrá sinni. Af þeim samtölum, sem ég hef þegar átt, dreg ég þá ályktun, að hér eins og á Íslandi, hafi 10 ára reynsla af aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu verið svo góð, að ástæðulaust sé að huga að ESB-aðild, nema eitthvað verði til þess að gjörbreyta núverandi stöðu. Raunar sagði einn viðmælandi minn í gær, þegar ESB-aðild bar á góma, að ekkert mundi gerast í þeim málum í Noregi, nema Íslendingar sæktu um aðild.

 

Evru daumar The Economist

 

Í nýjasta hefti The Economist er undir fyrirsögninni Euro dreams sagt frá heimsókn Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra til Bretlands á dögunum og tækifærið notað til að segja frá þróun mála á Íslandi og tekið fram, að „Iceland’s recent performance is impressive by andy standards. One of Europe’s richest countries boasts one of its fastest-growing economies.“

 

The Economist segir hins vegar, að síðustu tvær vikur „severe financial tremors have joltet Iceland.“ Vísar blaðið þar til matsins frá Fitch og dregur upp dökka mynd, af því sem kynni að vera í vændum og segir meðal annars víðtækan ótta um „a crash in Reykjavík’s dizzy house prices.“ Halldór Ásgrímsson hafi hins vegar ekki virst kippa sér neitt upp við þetta í samtali við blaðið, þegar hann var í London á dögunum. Blaðið segir Halldór hafa tekið við af Davíð Oddssyni, sem nú sér orðinn seðlabankastjóri. Davíð hafi verið einarður efasemdarmaður um Evrópusambandið en Halldór sýni „cautious openness towards the European Union.“

 

Blaðið segir frá því, að Halldór hafi valdið nokkru uppnámi með því að spá í ræðu, að Ísland yrði orðið aðili að ESB árið 2015 og með aðild að EES segi hann Íslendinga þegar þurfa „to abide by most Brussels directives.“ (Það er lúta flestum tilskipunum frá Brussel.)

 

The Economist segir þó engan veginn víst, að Ísland verði aðili að ESB, til dæmis sé Geir Haarde, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á móti því og samkvæmt skoðanakönnunum njóti flokkur hans miklu meiri vinsælda en flokkur Halldórs, en þinkosningar verði á næsta ári. „Fish will always be a problem“ segir The Economist.

 

Sagt er frá því, að skoðanakannanir síðustu þriggja ára hafi sýnt stuðning lítils meirihluta landsmanna við ESB-aðild. Haft er eftir Halldóri, að Íslendingar muni ekki gera sömu mistök og Norðmenn, sem hafi tvisvar sinnum efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild og henni hafi jafnoft verið hafnað. Forsætisráðherra segist vænta þess, að unnt verði að ræða málið vel og lengi og ekki verði tekin ákvörðun um aðild nema hún njóti öflugs stuðnings almennings og samstaða sé um hana meðal stjórnmálaflokkanna.

 

Grein The Economist lýkur á þennan veg:

 

„The biggest argument for joining, put by both Mr. Asgrimsson and many Icelandic businessmen, is not a sudden love for Brussels but a simple desire for currency stability. If Iceland could join only the euro, but not the EU, all might be happy – and it would create one more version of the multi-tier, multi-speed Europe that is anyway emerging.“

 

Hér er ekki vitnað til þessarar greina The Economist til að gagnrýna neitt, sem þar segir, fyrir utan að blaðið endurtekur vitleysuna um, að enginn íslenskur forsætisráðherra hafi heimsótt Downing stræti síðan á áttunda áratugnum þar til nú. Einnig skal það dregið í efa, að Halldór Ásgrímsson hafi sagt Íslendinga verða að lúta flestum tilskipunum frá Brussel, án þess að skýra nánar á hvaða sviðum þessar tilskipanir eru. Rannsóknir sýna, að hér er um 6,5% allra tilskipana frá Brussel að ræða.

 

Lokaorð The Economist eru íhugunarverð. Í fyrsta lagi er málið einfaldað um of með því að láta í veðri vaka, að almenn samstaða sé um nauðsyn þess, að Íslendingar kasti krónunni og taki upp evru. Innlendir og erlendir sérfræðingar hafa bent á, að það kunni síður en svo að vera skynsamlegt, hvað sem öðru líður.

 

Þá segir blaðið, að ESB sé að þróast frá einsleitni til þess að verða margbreytilegt – ríki geti ákveðið aðild að einu en ekki öðru. Þetta er vissulega rétt – það eru ekki öll ESB-ríki evru-ríki, ekki Bretar, Danir og Svíar. Evru-aðild var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Svíþjóð og þar hefur ekki orðið það efnahagslega hrun, sem spáð var að yrði, ef andstæðingar evrunnar sigruðu. Það eru ekki öll ESB-ríki Schengen-ríki, Bretar og Írar standa utan Schengen, en Íslendingar, Norðmenn og Svisslendingar eru í Schengen, þótt þau séu ekki í ESB.

 

Það er vissulega vert og mikilvægt að halda umræðum um Evrópumál vakandi og þær hafa gildi, þótt markmið þeirra sé ekki endilega að sannfæra Íslendinga um nauðsyn aðildar að ESB eða evru-landi ESB. Talsmenn ESB-aðildar virðast oft vera þeirrar skoðunar, að Evrópuumræður séu einskis virð nema þær snúist um aðild Íslands að ESB.