29.1.2006

Rýnt í könnun – pólitískur þríhyrningur.

Færa má fyrir því rök, að stjórnarandstaðan hafi talið strauma vera að snúast sér í hag undanfarnar vikur. Hún hefði talið ríkisstjórnina í vörn í svo mörgum málum, að kannanir hlytu að sýna vaxandi fylgi stjórnarandstöðuflokkanna, ekki síst stærsta flokks hennar, Samfylkingarinnar. Nefna má sex mál, sem borið hefur hátt og stjórnarandstaðan hefur reynt að nýta sér til framdráttar.

1.     Niðurstaða kjaradóms rétt fyrir jólin.

2.     Ásakanir vegna svonefnds fangaflugs.

3.     Popptónleikar gegn virkjunum og Norðlingaölduveitu sérstaklega.

4.     Ásakanir Stefáns Ólafssonar prófessors um brellur og blekkingar ríkisstjórnarinnar vegna skattalækkana, sem í raun hafi þyngt skattbyrði, ekki síst á þá, sem eldri eru.

5.     Umræður um, að hátt gengi krónunnar sé að fæla fyrirtæki úr landi.

6.     Breyting RÚV í hlutafélag í eigu ríkisins.

 

Fyrir utan mál af þessu tagi hefur athygli beinst að Samfylkingunni með vaxandi þunga vegna prófkjörs hennar í Reykjavík. Þá hefur einnig verið unnið að því að endurskipuleggja pólitíska baráttu flokksins undir forystu nýs framkvæmdastjóra, Skúla Helgasonar, auk þess sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flokksformaður hlýtur, vegna neikvæðrar þróunar í skoðanakönnunum, að hafa vandað sérstaklega hvert skref sitt og miðað markvissara að því en áður að styrkja stöðu flokksins.

 

Með þetta allt í huga, má auðveldlega ímynda sér, að könnun félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 29. janúar, hafi  komið eins og reiðarslag fyrir Samfylkinguna.

 

Samfylkingin varð ekki til í kringum nein sérstök stefnumál, tilgangur hennar hefur frá upphafi verið að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar. Að þetta sé enn megintilgangurinn sést til dæmis af þeim rökum, sem Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir nota, þegar þau ákveða framboð sitt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík – bæði segjast þau gera það til að þétta raðir í því skyni að hindra framgang Sjálfstæðisflokksins – Dagur hættir hlutleysi í stjórnmálum í þessu skyni og Björk kveður vinstri/græna.

 

Niðurstaða könnunarinnar var skýr og ótvíræð traustsyfirlýsing við Sjálfstæðisflokkinn, sem hlaut 44,7% fylgi (33,7% í kosningum 2003), Samfylking fékk 23,6% (31% 2003), Framsóknarflokkurinn 9,6% (17,7% 2003), vinstri/grænir 18,1% (8,8% 2003) og frjálslyndir 3,2% (7,4% 2003).

 

Sagan sýnir, að fylgi Sjálfstæðisflokksins í þessum hæðum sveiflast um nokkur prósentustig á milli kannanna og verður fróðlegt að sjá til samanburðar niðurstöður í könnun Gallups, sem birtist nú í mánaðarlok.

 

Fylgi Samfylkingarinnar hefur dregist saman jafnt og þétt, frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kjörin formaður hennar. Þessi þróun verður ekki skýrð á annan veg en þann, að henni hafi einfaldlega mistekist við stjórn flokksins og helsta ætlunarverk sitt í stjórnmálum, að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar.

 

Vinstri/grænir hafa sterka stöðu á vinstrivængnum og nú skilja aðeins 5,5% þá og Samfylkingu en 21% Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu. Hlýtur sú spurning að gerast áleitin, hvort samfylkingarforystan er ekki að beina spjótum sínum í rangar áttir, þegar gerð er atlaga að Sjálfstæðisflokknum; hvort hún eigi frekar líf sitt undir að verjast vinstri/grænum.

 

Dagana sem könnunin var gerð stóð prófkjörsbarátta framsóknarmanna í Reykjavík hæst og flokkur þeirra var mjög í sviðsljósinu, en athygli beindist um of að átökum innan hans og óvild milli manna. Slíkt skilar sér aldrei til fylgisaukningar í skoðanakönnunum. Þótti ýmsum dæmigert um hitann í baráttu innan flokksins, að Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður segir frá því í Blaðinu 28. janúar, að hún hafi kosið í prófkjöri framsóknarmanna – yfirlýstur hægri krati, en þeir hafa aldrei verið taldir sérstakir vinir Framsóknarflokksins.

 

Frjálslyndi flokkurinn stendur áfram við dauðans dyr.

 

Pólitískur þríhyrningur.

 

Könnun félagsvísindastofnunar var gerð dagana 18. til 25. janúar, en hinn 18. janúar birti Morgunblaðið einmitt í miðopnu sinni grein Stefáns Ólafssonar prófessors undir fyrirsögninni: Skattalækkunarbrellan. Þar sagði meðal annars: „Það eru auðvitað mikil ósannindi að bera á borð fyrir þjóðina að skattar hafi verið lækkaðir, rétt eins og slíkt hafi gilt um alla. Þetta eru líklega með mestu ósannindum íslenskra stjórnmála í marga áratugi.“

 

Stefán Ólafsson prófessor telur ómaklega að sér vegið, þegar látið er í veðri vaka, eins og ég hef til dæmis gert í umsögn um bók hans og Kolbeins Stefánssonar um hnattvæðinguna og þekkingarþjóðfélagið, að hann gangi erinda vinstrisinna. Stefán telur, að rannsóknir sínar séu hafnar yfir alla slíka gagnrýni, þær byggist á hlutlægum grunni og niðurstaðan eigi ekkert skylt við pólitíska flokkadrætti.  Fyrir okkur, sem hikum ekki við að kannast við pólitískar skoðanir okkar, er einkennilegt, þegar litið er á það sem persónulega árás, ef með rökum eru dregnar ályktanir um pólitísk viðhorf þeirra, sem taka til máls um stjórnmál á opinberum vettvangi.

 

Af skrifum Stefáns má ráða, að honum er lítið um skoðanir þeirra gefið, sem vilja draga úr hlut ríkisins og auka svigrúm einstaklinga. Þetta er pólitísk afstaða, hvort sem Stefáni líkar betur eða verr. Hann skipar sér í þessum stórpólitísku umræðum vinstra megin við miðju.

 

Hinn 1. desember 2005 kynnti Stefán skýrslu sína: Örorka og velferð á Íslandi, sem hann vann fyrir Öryrkjabandalags Íslands.  Ráðherrar drógu í efa, að skýrslan gæfi rétta mynd, en í fréttum var m.a. haft eftir Stefáni, að það væri líkt og íslenska almannatryggingakerfið hefði að markmiði að festa öryrkja í fátæktarkjörum.

 

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, sagði hinn 7. desember, að hann hefði í hyggju að fá óháðan aðila til að leggja mat á niðurstöður Stefáns.

 

Í fréttum sjónvarpsins kl. 22.00 hinn 8. desember sagði:

 

„En er ekki heilbrigðisráðherra að gengisfella hann sem fræðimann með því að ætla að skipa óháðan fræðimann til að fara yfir skýrsluna.

Stefán Ólafsson: Já ég er nú kannski ekki viðkvæmur fyrir því í sjálfu sér. Það er auðvitað sjálfsagt að taka við gagnrýni og það er sjálfsagt að fleiri komi að og meti en það verður enginn óháður í svona máli nema allir sem að að því koma séu samþykkir um hver það verði sem að fari yfir.

 

Vegna þessarar afstöðu vaknar sú spurning, hvort  skýrsla Stefáns hafi verið óhlutdræg, þar sem Öryrkjabandalag Íslands stóð þar að baki, en ekki var leitað eftir samþykki annarra um, hver skýrsluna samdi.

 

Einar Árnason, hagfræðingur Félags eldri borgara, er þátttakandi með Stefáni í því að rökstyðja kenningarnar um, að skattalækkanir hafi í raun þyngt skattbyrðina. Kannski er Einar óhlutdrægur og hlutlaus, af því að hann starfar fyrir Félag eldri borgara?

 

Þegar við sjálfstæðismenn boðuðum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, að við vildum lækka fasteignaskatta á eldri borgara, gáfu forráðamenn Félags eldri borgara lítið fyrir það, eins og raunar Ingibjörg Sólrún, sem sagði í borgarstjórn, að svona tillögur væru af hinu illa, af því að þær ykju aðeins ójöfnuð í þjóðfélaginu.

 

Stefán Ólafsson hefur með störfum sínum í Háskóla Íslands stýrt svonefndu borgarfræðasetri, sem miðað við reynsluna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002, ætti nú að fara að skríða úr hýði sínu og leggja ráðandi öflum innan borgarstjórnar lið við að gefa ýmsu, sem þau hafa fram að færa, fræðilegan blæ, hefja upp yfir flokkadrætti og gera að einskonar náttúrulögmálum vegna rannsókna, sem að baki búa.

 

Í stjórnmálabaráttu hér á landi gerist hvað eftir annað, að til verður pólitískur þríhyrningur: Fræðimaður (oftast við Háskóla Íslands), hagsmunasamtök (oftast Öryrkjabandalag Íslands eða Félag eldri borgara) og stjórnarandstöðuflokkur. Tilgangur: að sækja gegn stjórnvöldum. Aðferð: Fræðimaður segir rannsóknir sýna rangindi stjórnvalda, hagsmunasamtök tala í nafni þeirra, sem sæta rangindum, stjórnmálaflokkurinn er hinn bjargandi engill.

 

Þegar fjölmiðlun um stjórnmál er orðin á þann veg, að ritstjórar sæta ámæli fyrir að taka afstöðu með einum á móti öðrum, er einfaldast fyrir þá, að haga stjórnmálafréttum á þann veg, að sagt sé frá niðurstöðum háskólarannsókna, viðhorfum hagsmunasamtaka og þeim síðan hampað, sem vilja standa með niðurstöðum rannsókna gegn illum stjórnvöldum.

 

Dagana 18. til 25. janúar – á sama tíma og félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði fylgi stjórnmálaflokkanna – voru fréttir mjög áberandi um skattabrellugrein Stefáns Ólafssonar, prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands – en eins og áður segir, birtist hún 18. janúar.

 

Hinn pólitíski þríhyrningur sækir styrk sinn til þess, að þeir aðilar, sem eiga að vera ópólitískir í honum, haldi því yfirbragði í gegnum þykkt og þunnt. Sé bent á, að sjónarmið þeirra séu í raun flokkspólitísk, snúast þeir harkalega til varnar – takist þeim ekki að verjast, verður þríhyrningurinn að engu.