14.1.2006

Ritstjóraskipti á DV.

Yfirlit

Ritstjórar DV, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sögðu störfum sínum lausum fimmtudaginn 12. janúar, daginn áður en stjórn Dagsbrúnar, sem rekur Baugsmiðlana, kom saman til að ræða atburði vikunnar tengda forsíðufrétt DV mánudaginn 9. janúar, en þessa atburði rakti ég í dagbókarfærslum mínum í vikunni. Frá því að ég hóf að halda þessari síðu úti fyrir tæpum 11 árum, hafa líklega ekki jafnmargir heimsótt hana á einum degi og miðvikudaginn 11. janúar, en þá vitnuðu fjölmiðlar í það, sem ég skrifaði í dagbókina um DV.

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 13. janúar sagði meðal annars:

„Gunnar Smári [Egilsson, framkvæmdastjóri Dagsbrúnar] segir að á stjórnarfundinum hafi ekki komið fram raddir um að leggja blaðið [DV] niður. Reiðin síðustu daga hafi beinst gegn ritstjórnarstefnu blaðsins en ekki gegn blaðinu sjálfu sem hafi komið út í 95 ár. Hann telur að það sé ekki vilji almennings að fækka dagblöðum. Hann segist ekki vilja tjá sig um það hvort DV hafi gengið of langt í umfjöllun sinni, hann hafi ekki beinan aðgang að ritstjórnarstefnu blaðsins og þess vegna tjái hann sig ekki.

Gunnar Smári: Og þess vegna eru mínar skoðanir ekki meira virði en prívatskoðanir hvurs annars.

Gunnar Smári ítrekar að stjórnin hafi ekki komið að uppsögn ritstjóranna. Þeir hafi tilkynnt sér ákvörðun sína.

Gunnar Smári: Ég virði hana, ég er náttúrulega ekki sáttur við niðurstöðuna í sjálfu sér, ég bara virði þessa niðurstöðu og ég hef trú á því að þrátt fyrir þá reiðiöldu sem að hefur ríkt í samfélaginu undanfarna þrjá daga eða svo, að þegar að öllu er á botninn hvolft að þá muni almenningur eða hluti almennings vera sáttur við þá ritstjórnarstefnu og það blað sem að nýir ritstjórar munu móta og halda úti og ég hef trú á þeim, að þeir finni sína fjöl í fjölmiðlalandslaginu.

Pálmi Haraldsson, einn hluthafa í Dagsbrún segir að til greina hafi komið hjá honum og Jóhannesi Kristinssyni að selja bréf sín í félaginu vegna óánægju með ritstjórnarstefnu DV. Hann segist lengi hafa haft megnustu andúð á DV og það hafi verið ástæðan fyrir því að hann gekk úr stjórn á síðasta aðalfundi. Pálmi segir að eigendur verði líka að axla ábyrgð þó að ritstjórar DV hafi sagt upp störfum.“

Í kvöldfréttum sjónvarpsins 13. janúar voru þessi orðaskipti milli Margrétar Margeirsdóttur fréttamanns og Gunnars Smára:

„Margrét Marteinsdóttir: Voru þeir[ritstjórarnir] ekki beittir þrýstingi í gær til að segja af sér?

Gunnar Smári: Nei. Þegar  fyrirtæki er svona samsett að þá er málið náttúrulega fyrst tekið á viðeigandi stað sem er ritstjórn DV. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að sá ófriður sem ríkti um blaðið væri þess eðlis að honum myndi ekki linna nema þeir myndu víkja og þeir taka þá ákvörðun og þar með liggur það raunverulega bara fyrir.

Margrét: Varst þú sáttur við þeirra störf?

Gunnar Smári: Ég tjái mig náttúrulega ekki um verk einstaka fjölmiðla eða ritstjórna hér inni í 365 því að með því væri ég raunverulega að gera mig að einhverskonar yfirritstjóra sem ég sannarlega ekki er.

Margrét: Getur þú eitthvað farið út í það hvernig starfslokasamningar ritstjóranna fyrrverandi hljóða?

Gunnar Smári: Nei, þeir eru ekki merkilegir eins og sumir samningar sem við höfum heyrt úr heimi stjórnmálanna og viðskipta að undanförnu. Alls ekki.

Margrét: Sem gamall blaðamaður, hefðir þú lagt blessun þína yfir forsíðufréttina sem kom þessu öllu af stað?

Gunnar Smári: Eins og ég var að segja áðan að þá get ég ekki tjáð mig um einstök efnistök í miðlunum eða einstakar fréttir að einstaka miðla, því að með því væri ég að gera mig að einhverskonar yfirritstjóra sem ég sannarlega ekki er. Þannig að gamlar hugmyndir mínar frá blaðamannaárunum eru bara fyrir mig.

Sagt hefur verið frá því, að Gunnar Smári sé að hefja útrás Dagsbrúnar, sem hafi augastað á Berlingske Tidende. Þar á bæ fylgdust menn með afsögn ritstjóranna á DV og sögðu frá á þennan veg 14. janúar 2006:

„Den 38-årige islandske supershopper Jon Asgeir Johannesson, hvis forretningskæde Baugur efter opkøb af bl.a. Magasin, Illum og Merlin, og nu har folk, der regner på at føje Det Berlingske Officin til indkøbene, er igen kommet i stormvejr på hjemmebane i Island.  Johannesson, der er mediekonge på Island med bl.a. en TV-station, adskillige radiokanaler og to af sagaøens tre største aviser, måtte i går fremtvinge et redaktørskifte på tabloidavisen DV, hvor hans medaktionærer, deriblandt hans egen far, er aktive i stormangrebet.“

Undir lok greinarinnar í Berlingske Tidene sagði:

„Jon Asgeir Johannessons kontrol af islandske medier var for to år siden årsag til en regulær forfatningskrise på Island.

Den daværende statsminister David Oddson skaffede flertal for en lov, der skulle skabe begrænsninger i mulighederne for at sætte sig på medierne, men loven blev erklæret forfatningsstridig af Islands præsident, Olafur Grimsson, der i øvrigt sendte afbud til det danske kronprinsbryllup på grund af balladen. Præsidenten har selv en datter, der arbejdede for Baugur.“

Leiðari Blaðsins í dag 14. janúar heitir:  Af hverju vildi Jón Ásgeir ekki selja DV? Þar segir m. a. :

„Á meðan Jón Ásgeir á bæði Fréttablaðið og síðan blað í anda DV hefur hann treyst á það að geta stjórnað umræðunni á blaðamarkaðnum. Hugmyndafræðin gekk til skamms tíma út á það að ekki væri pláss fyrir fleiri blöð á markaðnum en Morgunblaðið, Fréttablaðið og DV. Morgunblaðið hafði í gegnum tíðina verið íhaldssamt í umfjöllun sinni um menn og málefni og því þurfti hann ekki að óttast mikið úr þeirri áttinni. Undanfarna mánuði hefur hins vegar orðið vart stefnubreytingar og er tónninn orðinn hvassari en áður. Með tilkomu Blaðsins varð síðan breyting á fjölmiðlalandslaginu og Jón Ásgeir þurfti að sætta sig við að til voru fleiri raddir sem hann gat ekki þaggað niður. Hann hefur haldið dauðahaldi í bæði Fréttablaðið og DV. Að gefa DV upp á bátinn gæti þýtt að aðrir aðilar hæfu útgáfu slúðurblaðs sem væri ekki eins vinveitt.“

Tilkoma Blaðsins hefur orðið til þess að halda lífi í DV í þessum hremmingum öllum. Blaðið er í tilvistarkreppu – þar virðast menn ekki átta sig á því, hver er ritstjórnarstefnan – ef DV hefði horfið er líklegt að Blaðinu hefði verið siglt inn í það tómarúm. Leiðara Blaðsns  14. janúar lýkur á þessum orðum:

„Það eru komnir nýir ritstjórar [Björgvin Guðmundsson og Páll Baldvin Baldvinsson] að DV. Annar þeirra hefur þegar lýst því yfir opinberlega að hann styðji þá ritstjórnarstefnu sem DV hefur fylgt til þessa. Það er því ekki von á miklum breytingum.“

Jón Kaldal, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, skrifar leiðara þess á þann veg 14. janúar, að ekki er von á miklum breytingum þar, þrátt fyrir ógöngur ritstjóra DV. Jón fer í fótspor Jónasar Kristjánssonar, þegar hann sat í Kastljósi og reyndi að gera lítið úr reiðinni í garð DV með þeim rökum, að stjórnmálamenn væru að gagnrýna blaðið! Jón Kaldal telur, að afsögn DV-ritstjóranna skapi einhver ný viðmið um ábyrgð fyrir stjórnmálamenn og þeir ættu að segja af sér – þar á meðal ég vegna þess að ég samdi við Hjördísi Hákonardóttur dómstjóra um námsleyfi hennar til rannsókna á lögfræðilegum álitaefnum og gerði það að fengnu áliti kærunefndar jafnréttismála um, að ég ætti að leita að „viðunandi lausn“ á deilu, sem varð vegna skipunar í embætti hæstaréttardómara.

Alla daga eru menn alls staðar að leysa úr ágreiningi með samkomulagi af ýmsu tagi – en að mati aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins á ráðherra, sem leysir úr ágreiningi með samkomulagi að segja af sér, af því að Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason sögðu af sér sem ritstjórar DV.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í málum, sem tengjast eigendum Fréttablaðsins, að gripið er til sérkennilegra ráða af ritstjórn þess. Hinn 16. október 2005 stóð þetta í Staksteinum Morgunblaðsins:

„Aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins í gær er svohljóðandi: „Dómsmálaráðherra talinn vanhæfur.“ Ummæli hvers skyldu nú standa að baki þessari fyrirsögn?

Þegar rýnt er í texta fréttarinnar kemur í ljós, að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segir: „Ef Björn á að fá að ráða því hver ræðst á Baug þá er nú fokið í flest skjól. Hann er algjörlega vanhæfur, það eru allir sammála um það.“

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, sem hefur vakið athygli síðustu daga fyrir snöggsoðnar lagaskýringar segir: „Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, verður að athuga það hvort hann geti talizt hæfur til þess að koma að málum, sem varða Baug og þá sakborninga, sem þar starfa.“

Páll Hreinsson, kennari við lagadeild Háskóla Íslands, segir: „Það er þriðja grein stjórnsýslulaga, sem fjallar um sérstakt hæfi starfsmanna stjórnsýslunnar. Aðalálitaefnið er hvort sjötti töluliður þriðju greinar á við. Það er mjög vandmeðfarin regla svo vægt sé til orða tekið.“

Þegar umsagnir þessara þriggja manna eru skoðaðar kemur í ljós, að fyrirsögn Fréttablaðsins byggist á ummælum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Lögmaður hans gengur ekki einu sinni svo langt að telja dómsmálaráðherra vanhæfan og gengur hann þó langt í lögskýringum. Hann segir að ráðherrann verði að athuga, hvort hann geti talizt hæfur og Páll Hreinsson talar á þann veg, að fyrirsögn fréttarinnar er í engu samræmi við orð hans.

Eftir stendur að sú fullyrðing Fréttablaðsins í fyrirsögn að dómsmálaráðherra sé talinn vanhæfur byggist á orðum forstjóra Baugs sjálfs!

Það er svo annað mál, að þessi vinnubrögð koma engum á óvart. Fréttablaðið gengur erinda eigenda sinna. „Fréttir“ þess verður að lesa með það í huga.

En er hugsanlegt að forstjóri Baugs geti ekki talizt hæfur til að fjalla um hæfi eða vanhæfi dómsmálaráðherra!“

Hinn 9. janúar 2006 felldi hæstiréttur þann dóm, að ég hefði verið hæfur til að setja ríkissaksóknara í Baugsmálinu. Ástæðan fyrir því, að dómurinn tók afstöðu til hæfis míns var krafa verjenda Baugsmanna undir forystu Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Hann beitti þessari röksemd til að bola Baugsmálinu frá dómi.

Í Morgunblaðinu 10. janúar segir Gestur Jónsson í tilefni af þessum dómi hæstaréttar: „Það er hins vegar mjög merkilegt í þessum dómi að dómurinn telur greinilega að það hafi verið mikið álitamál hvort hæfi Björns Bjarnasonar hafi verið fyrir hendi.“

Þetta er skrýtin yfirlýsing hjá lögmanninum, svo að ekki sé meira sagt. Hann lagði  fyrir dómara, að þeir skyldu hætta við Baugsmálið, vegna þess að ég væri vanhæfur. Þegar dómararnir hafna þessari kröfu með skýrum lögfræðilegum rökum, sem sýna, að hún var með öllu tilefnislaus, snýr lögmaðurinn málinu á þann veg, að engu er líkara en hann vilji láta lesendur Morgunblaðsins halda, að dómararnir hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að huga að því, hvort ég væri hæfur eða ekki.

Krafan um vanhæfi mitt byggðist aldrei á neinum lagarökum, hún er liður í þeirri viðleitni að hafa stjórn á umræðunni, sem Blaðið lýsti í leiðara sínum: Af hverju vildi Jón Ásgeir ekki selja DV?

 

Eftirskrift.

Í Staksteinum Morgunblaðsins sunnudaginn 15. janúar birtist þetta:

Maðurinn á bak við ritstjórnarstefnu DV eins og hún hefur verið rekin undanfarin ár, Gunnar Smári Egilsson, núverandi forstjóri Dagsbrúnar, útskýrði afstöðu eigenda blaðsins í viðtali við Eyrúnu Magnúsdóttur í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld, eftir að ritstjórar DV sögðu af sér.

Eyrún spurði í samtalinu: „Þú sagðir í fréttunum í dag að þú værir ekki sáttur, að þú virtir þeirra ákvörðun en værir í raun ekki sáttur við niðurstöðuna. Við hvað ertu ósáttur?“ Gunnar Smári: „Ég kannast nú ekki við að hafa sagt að ég væri ekki sáttur.“

Eyrún: „En þú segir það í fréttum: „Ég virði niðurstöðuna. Ég er náttúrlega ekki sáttur við niðurstöðuna í sjálfu sér. En ég bara virði þessa niðurstöðu.““

Gunnar Smári: „Ætli ég hafi ekki verið að meina það sem svo að þetta er ekki einhver óskaniðurstaða. Þessi vika, sem hefur liðið, það er ekki óskaniðurstaða mín að ritstjórarnir segi af sér.“

Eyrún: „Þannig að þú hefðir viljað hafa Jónas og Mikael áfram við stjórnvölinn.“

Gunnar Smári: „Að atburðir þessarar viku hefðu ekki átt sér stað. Ég hugsa að ég sé ekki eini maðurinn á Íslandi, sem hefði óskað þess að þessir atburðir hefðu ekki átt sér stað.“

Eyrún: „En hefðirðu stutt þá áfram? Ef við gefum okkur að þessir atburðir hafa nú þegar átt sér stað, hefðirðu viljað að Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason hefðu stýrt DV áfram og hefðirðu stutt þá til að halda áfram þeirri ritstjórnarstefnu, sem viðhöfð hefur verið undanfarin ár?“

Gunnar Smári: „Ég bara get ekki verið að svara ef að ske og ef að mundi-spurningum. Ég sé enga ástæðu til þess.“

Enn spurði Eyrún Magnúsdóttir: „Þú réðst þessa menn til starfa. Finnst þér þeir hafa brugðizt?“

Gunnar Smári: „Mér finnst að þeir hafi tekið ákvörðun sem er fullur sómi að.“

Enn spurði Eyrún: „Hafa eigendur alveg verið sáttir við að reka fjölmiðil eins og DV?“

Gunnar Smári: „Það má bara lesa það af verkunum. DV er gefið út.““