22.10.2005

Viðurkenning Viðskiptablaðsins - meiðyrði hér og þar - lögfræðileg álitaefni.

Viðskiptablaðið gaf síðunni minni 10 í einkunn föstudaginn 21. október, þegar Ívar Páll Jónsson blaðamaður gerði úttekt á netnotkun stjórnmálamanna. Hann skiptir stjórnmálaumfjöllun í fimm flokka: Vefsíður þingmanna, stjórnmálabloggsíður annarra, umræðuvefi, vefrit um stjórnmál og vefi stjórnmálafélaga. Ívar Páll segir 27 alþingismenn halda úti vefsíðu og tekur sér fyrir hendur að gefa þeim einkunnina 0 til 10 fyrir framtakið og erum við þrír, sem fáum 10, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson auk mín. Einar K. Guðfinnsson er fast á hæla okkar með 9,5.

 

Til að halda því til haga, sem sagt er um síðu mína, leyfi ég mér að birta það hér í heild:

 

„Frumkvöðullinn á þessu sviði er Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann hefur haldið úti dagbók frá 19. febrúar 1995! Hann var því með allra fyrstu bloggurunum yfir höfuð og auðvitað sá langfyrsti meðal stjórnmálamanna. Fjölmiðlar hafa fengið margar fjölmargar fréttir af bloggsíðu Björns, því hann er ekki feiminn við að láta skoðanir á mönnum og málefnum í ljós. Hann birtir ræður og greinar og pistla, auk fyrrgreindrar dagbókar.“

 

Um leið og ég þakka Ívari Páli viðurkenninguna vil ég benda á, að það er of fast að orði kveðið, að ég hafi verið langfyrstur til að nýta mér þessa tækni meðal stjórnmálamanna. Guðmundur Árni Stefánsson, þáverandi þingmaður Alþýðuflokksins og núverandi sendiherra í Svíþjóð, var í sama mund eða aðeins á undan mér að opna síðu, sem síðan rykféll fljótt, ef ég man rétt.

 

Til að halda því einnig til haga eru aðeins fáeinar vikur síðan ég breytti útliti síðunnar og setti dagbókina á forsíðu hennar og tók að færa þar fleira en aðeins frásögn af opinberum athöfnum og öðru slíku. Mælingar um heimsóknir á síðuna sýna mér, að þetta var rétt ákvörðun, hafi ég viljað kalla fleiri gesti til síðunnar, því að þeim hefur stórfjölgað og nú eru 1246 á póstlista mínum.

 

Meiðyrði hér og þar.

 

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, ritar forvitnilega frásögn í blaðið 21. október undir fyrirsögninni: Hver vill deyja fyrir Hannes?

 

Þar bregður hann ljósi á þau orð, sem urðu tilefni til þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor var í London dæmdur til þess að greiða Jóni Ólafssyni kaupsýslumanni, sem gjarnan er kenndur við Skífuna, himinháar skaðabætur.

 

Sigurður Már segist hafa verið í Reykholti árið 1999, þegar orð Hannesar Hólmsteins, sem síðar rötuðu á ensku inn á vefsíðu hans, sem vistuð var hjá Háskóla Íslands, orðin, sem leiddu til málsóknar af hálfu Jóns í London, voru flutt. Af því tilefni segist Sigurður Már hafa skrifað í Viðskiptablaðið 13. október 1999 frásögn, þar sem hann spyr, hvort eignarhald á íslenskum fjölmiðli sé fallið í hendur manns, sem auðgast hafi á þann hátt, sem hann nefnir og Hannes Hólmsteinn hafi lýst, en hér skal ekki endurtekið, þar sem um vefsíðu er að ræða. Sigurður Már segist hafa undrast mest á þessum tíma, hve litla athygli ummæli Hannesar fengu. Sigurður Már segir: „Virtist jafnvel ástæða til að velta því fyrir sér hvort sá sannleikur sem Hannes lagði á borð fyrir norræna blaðamenn í Reykholti væri of stór fyrir íslenska umræðuhefð.“ Og hann bætir við: „Enginn var að gera sér rellu út af þessu, þetta var bara venjulegur Hannes sem enginn tók mark á hvort sem er. Ekki fyrr en Jón kaus að stefna honum úti í Englandi en einhverra hluta vegna virtust menn taka mark á Hannesi þar úti.“

 

Sigurður Már segir frá fleiru í þessari grein sinni, því að hann var blaðamaður á Morgunpóstinum í mars 1995, þegar ákveðið var að birta í blaðinu upplýsingar um hinn sama Jón Ólafsson úr 20 ára gömlum dómskjölum, en í málinu var Jón ekki sakfelldur. Sigurður Már segir: „Á þeim tíma mat Gunnar Smári Egilsson, þáverandi ritstjóri Morgunpóstsins og núverandi forstjóri 365 miðla [innsk. Baugsmiðlanna], málið svo að nauðsynlegt væri að birta grein um málið. Rökin voru þau að Jón Ólafsson væri enginn venjulegur maður í íslensku samfélagi, heldur væri hann valdamikill eigandi fjölmiðla. Því varðaði málið almenning.“

 

Frásögn Morgunpóstsins var birt í andstöðu við vilja Friðriks Friðriksson, sem sat í blaðstjórninni og taldi fjárhag útgáfufyrirtækisins ekki mundu þola málsókn af hendi Jóns. Grein sinni lýkur Sigurður Már á þessum orðum: „Jón kaus reyndar að stefna ekki Morgunpóstinum á þessum tíma, sjálfsagt metið að þar væri ekki feitan gölt að flá. Öðru máli gilti með Hannes 10 árum síðar.“

 

Mánudaginn 10. október voru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á alþingi og þá vakti Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, máls á þessum málaferlum Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini og sagði meðal annars, að það, sem hér væri undir og hlyti  í framtíðinni að skoðast sem prófmál sneri annars vegar að varnarþingum einstaklinga og hins vegar að netinu sem miðli.  

 

Þingmaðurinn spurði, hvort skrif á netinu féllu alltaf undir tjáningarfrelsi eða meiðyrðalöggjöf þess lands, þar sem sá, sem birtir skrif á netinu, byggi. Eða hvort það réðist af á hvaða tungu skrifin væru birt, ef þau beindust gegn einstaklingi, sem byggi á því málsvæði, þar sem tungan er töluð. Í umræddum dómi yfir Hannesi Hólmsteini væri um að ræða málssókn gegn Íslendingi á erlendri grund vegna ummæla, sem hefðu fallið á Íslandi. „Birti ég t.d. á heimasíðu minni ummæli á ensku, sem þykja rógur eða níð um mann, sem býr á ensku málsvæði, og yrði sóttur til saka af viðkomandi, hvar á að sækja mig til saka?“ spurði Björgvin og mig síðan að því, hvort ég ætlaði  taka upp einhvers konar endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni í þessu ljósi, þannig að menn vissu hvar þeir stæðu gagnvart slíku þar sem um væri að ræða fordæmi og fordæmalaust mál að mörgu leyti.

 

Ég svaraði á þennan veg:

 

„Ég hef ekki velt fyrir mér að taka meiðyrðalöggjöfina upp í tilefni af þessu máli. Málið er fyrir dómstólunum og þeir munu komast að þeirri niðurstöðu, sem verður leiðbeinandi fyrir okkur eins og aðra í þjóðfélaginu. Ef menn telja nauðsynlegt að breyta íslenskum lögum í tilefni af þessu máli þá er sjálfsagt að huga að því og það geta fleiri en dómsmálaráðherra hugað að því.“

 

Þetta er óneitanlega sérkennilegt mál, hvort heldur hugað er að frásögn Sigurðar Más Jónssonar eða að spurningum Björgvins G. Sigurðssonar.

 

Lögfræðileg álitaefni.

 

Lögfræðileg álitaefni vegna upplýsingatækninnar og netsins eru mörg og þeim á aðeins eftir að fjölga. Ég hef ekki kynnt mér það, sem um þetta mál hefur verið ritað af fræðimönnum, en einn þeirra er Mads Bryde Andersen, prófessor í Kaupmannahöfn, sem var hér í vikunni og flutti fyrirlestra bæði á vegum Lögmannafélags Íslands og lagadeildar Háskólans í Reykjavík í samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Hann hefur ritað rúmlega 1100 blaðsíðna bók um UT-rétt og er hún notuð til kennslu í Háskólanum í Reykjavík og kannski víðar hér á landi. Þetta er réttarsvið, sem var auðvitað ekki til, þegar ég lagði stund á laganám og varð raunar ekki til fyrr en núna um aldamótin.

Mads Bryde Andersen tók þátt í málstofu í Háskólanum í Reykjavík um það, sem kallað hefur verið dómstólavæðing á íslensku og snýst um valdmörkin milli dómsvalds og löggjafarvalds. Hann lítur einkum til þess, hvernig mannréttindadómstóll Evrópu hefur túlkað mannréttindasáttmálann og færir fyrir því rök, að í þeirri túlkun felist viðleitni til að fara inn á svið, sem eðlilegra væri að lytu lagasetningarvaldi einstakra ríkja, þar sem niðurstaða fæst eftir umræður fyrir opnum tjöldum. Þá sé sérstaklega umhugsunarvert, þegar fjölþjóðlegir dómstólar taki til við að teygja sig inn á önnur svið, en ætla hefði mátt, því að þeir búi ekki við þann aga dómstóla einstakra ríkja, sem felst í því, að löggjafinn grípi til sinna ráða og setji dómurunum skorður með nýjum lögum, telji hann þörf á því. Sambærilegt agavald sé ekki fyrir hendi gagnvart fjölþjóðlegum dómstólum, alþjóðasamningum verði ekki breytt eins auðveldlega og landslögum.

 

Danski prófessorinn lýsti undrun sinni yfir því, að þeir, sem leggja harðast að sér í almennum umræðum til varnar mannréttindum, skyldu aldrei leggjast á árar með þeim, sem vara við því, að mannréttindadómstóllinn kynni að vera á rangri braut með túlkun sinni. Málflutningurinn væri jafnan á eina hlið og jafnvel leitast við að gera þá tortryggilega, sem andæfðu, þótt málflutningur þeirra byggðist á skýrum dæmum og rökum.

 

Í umræðunum tók Mads Bryde Andersen hvað eftir annað fram, að hann ætlaði ekki að ræða um innflytjendalöggjöf í samhengi við mannréttindaumræðuna, því að það væri svo eldfimt mál, að ekki væri ráðlegt að hreyfa því. Hann lét þó orð falla, sem mátti skilja á þann veg, að þeir væru á þunnum ís, sem teldu sig geta gagnrýnt svonefnda 24-ára reglu á grundvelli mannréttinda. Virtist hann vera sömu skoðunar og Bertel Haarder, þáverandi innflytjendaráðherra Dana, sem sagði, þegar hann fékk athugasemd frá mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins vegna 24-ára reglunnar, að þar væri um pólitíska skoðun að ræða, sem hann væri ósammála.