24.9.2005

Styrmisþáttur – styttumál.

Yfirlit

Undir ritstjórn Styrmis Gunnarssonar tók Morgunblaðið aðra afstöðu til fjölmiðlamálsins en Baugsmenn vildu. Blaðið hefur einnig síðustu daga birt sjónarmið annarra en þeirra, sem halda einhliða fram skoðunum hinna ákærðu í Baugsmálinu. Og nú er látið að því liggja í Fréttablaðinu, að Styrmir Gunnarsson sé höfuðpaur í samsæri gegn Baugsfeðgum og félögum þeirra fyrir það eitt að leiðbeina Jónínu Benediktsdóttur og Jóni Gerald Sullenberger við val á lögmanni, þegar Jón Gerald vildi gæta réttar síns gagnvart Baugi. Jóhannes Jónsson í Bónus eða Baugi krefst þess, að Styrmir verði rekinn úr ritstjórastóli.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, hefur undir höndum tölvubréf, sem gengu á milli Styrmis Gunnarssonar og Jónínu Benediktsdóttur á árinu 2002, en þau hafa að geyma staðfestingu á því, að Styrmir veitti Jónínu þessi ráð.

Í 12 ár blaðamaður og aðstoðarritstjóri á Morgunblaðinu, þar á undan fimm ár embættismaður í forsætisráðuneytinu og síðan 1991 alþingismaður, ráðherra og borgarfulltrúi, alltaf öðru hverju hafa einstaklingar leitað til mín með erindi, sem eru þess eðlis, að ekki er unnt að leysa úr þeim nema með aðstoð lögfræðinga. Þá er gjarnan spurt: Getur þú ekki bent mér á einhvern góðan?

Andrúmsloftinu vegna Baugsmálanna um þessar mundir er vel lýst með því einu, að það þyki stórfrétt, að Styrmir Gunnarsson skuli hafa leiðbeint Jónínu Benediktsdóttur, þegar hún leitaði til hans í því skyni að finna lögmann fyrir vin sinn, Jón Gerald Sullenberger, vegna deilna hans við eigendur Baugs.

Undirtónninn hjá Fréttablaðinu er sá, að nú megi örugglega draga þá ályktun, að um eitthvert pólitískt samsæri sé að ræða.  Jóhannes Jónsson í Bónus sagði í kvöldfréttum RÚV 24. september um frétt Fréttablaðsins, hún „gjörbreytir sannleikanum í málinu.“ (?!) Hann ítrekaði kröfuna um, að ég og fjöldi annarra manna segði af sér og höfðaði til eigenda Morgunblaðsins að reka Styrmi.

 

Frétt Sigríðar Daggar í Fréttablaðinu ristir jafngrunnt og annað, sem sett hefur verið á flot til að sanna þá kenningu, að um pólitískt samsæri sé að ræða í Baugsmálinu en ekki niðurstöðu á margra ára lögreglurannsókn, sem leiðir til ákæru.

 

Vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, fyrr í vikunni ályktaði formannafundur Landssambands lögreglumanna meðal annars á þennan veg föstudaginn 23. september: „Ekkert er hæft í því að lögreglumenn séu viljalaus verkfæri í höndum utanaðkomandi aðila og ásakanir þess efnis eru í raun ásakanir um alvarleg hegningarlagabrot fjölda lögreglumanna. Slíkur málflutningur er rakalaus og ekki samboðinn einstaklingum sem ætlast til að orð þeirra séu tekin trúanleg.“

 

Starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafa tvisvar í vikunni séð sig knúna til að mótmæla Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur opinberlega. Í síðari yfirlýsingu starfsmannanna frá 23. september segir meðal annars: „Við fullyrðum öll að „ veiðileyfi“ eða „andrúmsloft“ hafði engin áhrif á að ákvörðun var tekin um að hefja opinbera rannsókn á málefnum stjórnenda Baugs eða rannsóknarvinnu okkar í þessu máli. Málið hófst, sem kunnugt er, með því að kæra var lögð fram ásamt gögnum þar sem settar voru fram ásakanir um saknæmt athæfi. Lögreglu ber skylda til þess að bregðast við slíku, óháð vilja ráðamanna eða pólitísku ástandi sem kann að ríkja. “

 

Orðin „veiðileyfi“ og „andrúmsloft“ eru úr dæmalausum yfirlýsingum Ingibjargar Sólrúnar, sem verða á engan hátt réttlættar með birtingu Fréttablaðsins á tölvubréfum Styrmis Gunnarssonar til Jónínu Benediktsdóttur. Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sagði frétt Fréttablaðsins ekki breyta neinu að því er rannsókn eða niðurstöðu lögreglunnar varðar, þegar fréttamaður Stöðvar 2 leitaði til hans.

 

Kjarni Baugsmálsins felst í ákærunni og meðferð málsins innan réttarkerfisins.

 

Hvers vegna láta Baugsmenn sér ekki nægja að taka til varna á vettvangi dómstóla? Hvers vegna ýta þeir undir pólitískar deilur um málið? Hvers vegna er nú krafist afsagnar Styrmis Gunnarssonar? Hverju breytir um framgang réttvísinnar, að ég hverfi úr embætti eða aðrir?

 

Á málinu eru fleiri hliðar. Tökum dæmi: Watergate-málið snerist um, að stolið var einkagögnum í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Enginn man eftir því, hvað var í þessum gögnum. Allir vita hins vegar, að áhugi fjölmiðla beindist að því að upplýsa, hverjir stóðu að því að stela gögnunum  og böndin bárust inni í Hvíta húsið að samstarfsmönnum Richards Nixons Bandaríkjaforseta, sem varð að segja af sér. Lygavefir og yfirhylmingar dugðu ekki, þegar blaðamenn áttu aðgang að heimildarmanni, sem beindi  þeim á rétta slóð, og lutu ritstjórn, sem vildi, að hinn sanna kæmi fram. Hvað hefði gerst, ef The Washington Post  hefði frekar notað gögnin, sem stolið var úr Watergate-byggingunni, en upplýsa um þjófnaðinn?

 

Hvernig væri sagan, ef aðeins væri fylgt villiljósum?  Nógir eru jafnan til að kveikja þau.

 

Styttumálið.

 

Föstudaginn 23. september var birt niðurstaða í Gallup-könnun um fylgi flokkanna með vísan til væntanlegra borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. 56,1% þeirra, sem afstöðu tóku, sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn, sem fengi 9 menn, 27,8 Samfylkinguna, sem fengi fjóra, 11,4% vinstri/græna, sem fengi tvo, 2,7% Framsóknarflokkinn og 2% frjálslynda en hvorugur kæmi að manni.

 

Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra var greinilega brugðið, þegar leitað var álits hennar á þessari niðurstöðu. Hún er í senn mikið vantraust á R-listasamstarfið og á Samfylkinguna, flokk Steinunnar Valdísar, sem sífellt verður veikari í Reykjavík eins og á landsvísu og heldur áfram að dala jafnt og þétt, frá því að Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður.

 

Á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 20. september var Dagur B. Eggertsson með framsögu um samkomulag borgarinnar við Háskólann í Reykjavík um lóð í Vatnsmýrinni. Framganga R-listans í því máli öllu einkennist af flumbrugangi og innistæðulausri sjálfumgleði – í raun hefur ekkert gerst til dæmis varðandi úttekt á umhverfisáhrifum skólabygginganna síðan í apríl, þegar tilkynnt var að háskólanum hefði verið ætluð þessi lóð – en R-listinn hafnaði þeirri tillögu okkar sjálfstæðismanna, að uppbyggingin færi í umhverfismat, Nú hefur verið skýrt frá því, að Reykjavíkurborg ætli að tryggja að minnsta kosti 1200 bílastæði á þessum viðkvæma stað fyrir utan land undir skólamannvirki og nemendabústaði. Á fundi borgarstjórnar áréttaði ég andstöðu mína við, að gengið væri til þessa verks, án þess að fyrir lægi umhverfismat og upplýsingar um lausn á umferðartæknilegum atriðum.

 

Ég hef ekki séð eða heyrt neinar frásagnir af umræðum um þetta stórmál í fjölmiðlum. Þeim mun meira hefur verið rætt um tillögu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, um að reist skyldi stytta af Tómasi Guðmundssyni skáldi. Ég taldi víst, að samhugur yrði í borgarstjórn um að taka þessari tillögu af velvild en borgarstjóri var á annarri skoðun, hún varð í raun hin versta fyrir hönd kvenna, því að það væru alltof fáar styttur af þeim í borginni!!

 

R-listinn hefur verið við völd í tæp 12 ár, án þess að gera nokkuð í styttumálum fyrir kvenþjóðina og fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það í borgarstjórn sl. þriðjudag, að úr því skyldi bætt, og var hún samþykkt.

 

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag, 24. september, eru tvær greinar um styttumálið í tilefni af tillögu Kjartans Magnússonar. Gerður Kristný rithöfundur telur þetta „heldur fáfengilegt baráttumál“ en ræðir það þó í einum dálki og segir: „Stytturnar sem karlar hafa reist hver öðrum til dýrðar hafa lengi verið þyrnir í augum jafnréttissinna sem gagnrýna að afburðakonum skuli ekki vera sýnd sama virðing....Í sumar lögðu nokkrir jafnréttissinnar það á sig að laumast út löngu eftir háttatíma til að binda bleikt tjull á stytturnar í borginni til að vekja athygli á kvenmannsleysinu og þetta er árangurinn.“

 

Ég dreg þá ályktun af orðum Gerðar Kristnýjar, að hér sé ekki um fáfengilegt mál að ræða heldur djúpstæðara jafnréttismál en mér var ljóst, áður en Kjartan mælti fyrir tillögu sinni. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki sé sæmandi að gera Tómas Guðmundsson að bitbeini í jafnréttisdeilu um styttur í borginni – það sé allt annað mál heldur réttmæt ákvörðun um að heiðra minningu Tómasar.

 

Guðni Elísson ritar einnig um styttumálið í Lesbókina. Hann sæi ekki ofsjónum yfir ákvörðun um nýja styttu af Tómasi, en vildi þó frekar sjá ævisögu skáldsins eða safn fræðilegra greina um ljóðlist Tómasar. Meginpunkturinn í grein Guðna er hins vegar gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að sætta sig jafnan við „að sitja á aftasta bekk“ varðandi hlut í íslensku menningarlífi. Flokkurinn hafi ekki haft nægan áhuga á menningunni með því að leggja meiri peninga til hennar og þess vegna ekki virkjað grasrótina eða laðað til sín ungt fólk úr öllum greinum listalífsins, flokksaginn hafi kannski verið of mikill til þess að það tækist, Tómas Guðmundsson hafi hins vegar rekist vel í flokki.

 

Þetta er ótrúleg grunnhyggni. Tómas Guðmundsson var einlægur lýðræðissinni og andstæðingur kommúnisma og sósíalisma og studdi þess vegna Sjálfstæðisflokkinn. Hann var gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn, ef honum þótti ástæða til, eins og við vitum, sem þekktum hann, og áttum þess kost að ræða við hann um þjóðmál. Ég veit ekki, hvaða rök Guðni Elísson hefur fyrir ályktun sinni um afstöðu Tómasar til Sjálfstæðisflokksins.

 

Sjálfstæðisflokkurinn getur verið stoltur af framlagi sínu til menningarmála bæði þar sem hann hefur forystu í sveitarstjórnum og í ríkisstjórn.

 

Guðni Elísson ræðir um það, sem hann kallar „róttæka hægrilist“ en hún fái ekki þrifist nema Sjálfstæðisflokkurinn verði frjálslyndari, flokkurinn verði „að rúma fleiri sjónarmið og læra að sýna ögrandi hugmyndum umburðarlyndi, jafnvel þótt þeim sé beint að sjálfu flokksstarfinu. Annars er hætt við að menningarmálastefna flokksins verði alltaf sérkennilega gamaldags og á skjön við raunverulegan slagkraft íslensks menningarlífs.“

 

Ég hef oft tekið þátt í umræðum um menningarmál á vettvangi Sjálfstæðisflokksins en minnist þess aldrei, að rætt hafi verið um sérstaka stefnu flokksins varðandi listsköpun eða vinnubrögð listamanna.  Ég veit ekki innan hvaða stjórnmálaflokks Guðni Elísson vinnur að því að móta flokkspólitíska listastefnu – sjónarmið Guðna eru verri en gamaldags og þau eiga ekkert skylt við eðlilegt hlutverk stjórnmálaflokka við stefnumörkun í menningarmálum.

 

Listamenn fylgja þeirri stefnu, sem þeir sjálfir kjósa, hlutverk stjórnmálaflokka er að skapa þeim  eins og öðrum borgurum umgjörð til að njóta sín sem best. Að halda því fram, að það hafi ekki verið gert á Íslandi eru öfugmæli og hlutur Sjálfstæðisflokksins í því efni er mikill og góður.