27.8.2005

Almannatengsl - Mont Pelerin - Stjörnubíósreiturinn.

Með aðstoð Margeirs St. Ingólfssonar hjá Hugsmiðjunni, sem hefur umsjón með vefsíðunni minni, breytti ég útliti forsíðu hennar fimmtudaginn 25. ágúst. Bjorn.is, helsta tæki mitt til almannatengsla, verður vonandi líflegra með þessu nýja sniði, sérstaklega ef ég skrifa reglulega eitthvað í dagbókina. Þarf ég þó ekki að kvarta undan áhuga á síðunni eða skrásetningu á póstlista minn.

Ritstjórnarstefna mín varðandi dagbókina hefur verið sú, að segja þar einkum frá ferðum mínum og atburðum eða tilefnum, sem á einhvern hátt má flokkast undir opinber störf. Reglulega fundi eða viðtalstíma nefni ég sárasjaldan. Stundum hef ég rætt í dagbókinni um menn og málefni og ef til vill geri ég það oftar en til þessa, til að halda einhverju til haga, sem ekki á endilega erindi í hina vikulegu pistla.

Daglega vekja fréttir eða fréttaskýringar í fjölmiðlum hugleiðingar um eitthvað, sem kannski væri tilefni til að ræða í dagbókinni. Í dag, laugardaginn 27. ágúst, sé ég til dæmis, að Guðmundur Magnússon leitast við að gera mér upp þá skoðun í Fréttablaðinu, að mér finnist eitthvað óeðlilegt við, að eigendur fjölmiðla hafi skoðanir á efni þeirra og láti þá skoðun í ljós við þá, sem annast ritstjórn miðlanna. Þetta er algjör misskilningur hjá Guðmundi. Mér finnst ekkert óeðlilegt við þetta. Hitt er síðan annað mál, hvort ritstjórar og blaðamenn fara eftir slíkum ábendingum og hvað gerist, ef það er ekki gert.

Fréttablaðið og aðrir Baugsmiðlar hafa lent í hremmingum vegna ákæra á hendur eigendum miðlanna. Fer Fréttablaðið ekki varhluta af þessu og sömu sögu er að segja um DV, eins og ég rakti í síðasta pistli mínum.

Til marks um kattarþvott Fréttablaðsins vegna gagnrýni á blaðið má vísa til þess, að í dag skrifar Sigríður Dögg Auðunsdóttir greinar í blaðið til að minna lesendur þess á, að almannatengsl geti skipt miklu máli og séu notuð markvisst til að vernda orðspor fyrirtækja, þegar mikið liggi við. Greinin hefst á því að vitna í þann hlutar greinar The Guardian, þar sem sagt er, að ákærur í Baugsmálinu segðu ekki allt, þær gætu „allar átt sér eðilegar og saklausar skýringar. Auk þess virtust þær ekki byggðar á efnahagslegum raunveruleika.“ Sagt er að umfjöllunin og árásir Baugsliða á Davíð Oddsson séu „afrakstur herferðar Baugs, sem vinnur skipulega að því að takmarka þann skaða sem félagið getur orðið fyrir vegna málaferlanna.“

 

Sigríður Dögg snýr sér síðan til Gunnars Steins Pálssonar, og er hann  kynntur til sögunnar sem eigandi almannatengslafyrirtækisins GSP Worldwide Partners. Blaðamaðurinn lætur hjá líða að segja sérstaklega frá störfum Gunnars Steins fyrir Baugsveldið, sem hefði þó átt fullt erindi í frásögn hennar til að lesendur hefðu alla myndina fyrir framan sig.

 

Gunnar Steinn segir í Fréttablaðinu, að menn þurfi að gæta þess að falla ekki í þá gildru „að misnota aðstöðu sína í gegnum eignarhald á einstökum fjölmiðlum.“ Og í sömu andrá flýtir Gunnar Steinn sér til að segja: „Ég vil taka það fram að mér finnst Baugsmenn ekki hafa gerst sekir um að hafa misnotað fjölmiðla í sinni eigu eins og margir hafa haldið fram...“ Gunnar Steinn fagnar því, að „í staðinn fyrir að pukrast með erfið mál fyrir dómstólum leggja menn spilin á borðið, reyndar með sínum skýringum líkt og Baugur gerði núna...“

 

Það er vissulega gott fyrir lesendur Fréttablaðsins að vita, að Gunnar Steinn Pálsson skuli styðja almannatengslastefnu Baugsmanna, þótt hitt hefði þó verið fréttnæmt, ef hann gerði það ekki. Hvers vegna lögðu Baugsmenn ekki spilin á borðið varðandi eignarhald sitt á Fréttablaðinu á sínum tíma? Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að „pukrast“ með ráðgjafastörf Gunnars Steins fyrir Baugsmenn?  Hvers vegna er ekki svarað gagnrýni Mannlífs á tök Baugsmanna á fjölmiðlum þeirra?

 

Af hverju sneri Sigríður Dögg sér aðeins til Gunnars Steins við fréttaskýringu sína? Hún hefði til dæmis getað kallað til annan mann með mikla reynslu af almannatengslum, Hall Hallsson, sem segir meðal annars í Morgunblaðinu 27. ágúst: „Af óskiljanlegum ástæðum kusu Baugsfeðgar að saka Davíð Oddsson um að standa á bak við innrás lögreglu í Baug. Þannig hafa þeir skaðað íslenskt þjóðlíf en Baug þó mest. Ásakanir þeirra eru án vafa versta „public-relations“ í íslenskri viðskiptasögu.“

 

Mont Pelerin-ráðstefna.

 

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor gekkst fyrir því, að hér var haldin alþjóðleg ráðstefna á vegum Mont Pelerin-samtakanna í vikunni með þátttöku nokkur hundruð manna en í þeirra hópi var Vaclav Klaus, forseti Tékklands, sem nýtti ferðina í senn til opinberrar heimsóknar og til að flytja erindi á ráðstefnunni.

 

Ég átti þess kost að sitja ráðstefnuna fyrir utan að hitta ýmsa ráðstefnugesti utan funda. Félagar í Mont Pelerin-samtökunum, sem stofnuð voru að lokinni síðari heimsstyrjöldinni, til að halda fram og ræða kenningar manna á borð við Friedrich A. Hayek, sem ávann sér heimsfrægð á stríðsárunum með bókinni Leiðin til ánauðar.  Hayek benti á, að uppgangur nasismans ætti sér ekki rætur í skapgerðargalla Þjóðverja heldur væri hann afleiðing sósíalískra hugmynda, sem hefðu orðið gjaldgengar í Þýskalandi á árunum fyrir stríðið. Hann taldi hættu á því, að svipaðar hugmyndir væru að ná fótfestu og fylgi í Bretlandi og Bandaríkjunum.

 

Leiðin til ánauðar var gefin út 1944 en vegna skorts á pappír í stríðinu gat útgefandinn ekki annað eftirspurn. Reader's Digest í Bandaríkjunum gaf í apríl 1945 út stytta útgáfu á bókinni og náði hún þá til alls almennings.

 

Árið 1949 sendi Hayek frá sér ritgerðina Menntamenn og sósíalismi, þar sem hann leitast við að skýra, hvers vegna sósíalískar kennisetningar höfði til menntamanna. Þetta efni var einmitt til umræðu á Mont Pelerin-ráðstefnunni á hótel Nordica, þegar mér gafst tóm til að sitja hana, síðdegis mánudaginn 22. ágúst.

 

Þá ræddi Hannes Hólmsteinn efnið og lýsti því með vísan til afstöðu Halldórs Laxness til kommúnismans og sósíalismans. Danski prófessorinn Bent Jensen flutti erindi og rifjaði upp ýmislegt af því, sem menntamenn hafa sagt um sósíalismann til að fegra hann og blekkja samtíðarmenn sína. Prófessor Jensen hefur ritað margar bækur um efnið og á næstunni er væntanleg bók frá honum um Gúlagið. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, flutti að lokum erindi, sem framsögumaður undir þessum lið ráðstefnunnar, en honum lauk með því, að David Gress, prófessor í Danmörku, sagði skoðun sína á efnistökum framsögumanna. Prófessor Gress hefur meðal annars ritað bókina From Plato to NATO.  Þar ræðir hann um vestræna menningu, gildi hennar og þróun.

 

Í ræðu sinni sagði Klaus meðal annars:

 

„Eftir að kommúnisminn hefur kolfallið í áliti og á tímum, þegar sósíal-demókratismi í Evrópu er óneitanlega í kreppu, hefur hreinræktaður sósíalismi ekki nægilegt aðdráttarafl fyrir menntamenn. Nú á tímum er erfitt að finna nokkurn menntamann - á Vesturlöndum - , sem vill teljast gjaldgengur og hafa áhrif og kallar sjálfan sig sósíalista. Hinn hreinræktaði sósíalismi hefur tapað aðdráttarafli sínu og við ættum ekki að hafa hann sem helsta keppinaut hugmynda okkar um þessar mundir.

 

Ófrjálslyndar hugmyndir eru mótaðar, kynntar og ræddar undir heitum hugsjóna og isma, sem eiga ekkert - að minnsta kosti hvorki formlega né að nafni til - skylt við gamaldags, hreinræktaðan sósíalisma. Þessar hugmyndir líkjast honum þó í mörgu tilliti. Í þeim felast alltaf hömlur (eða takmörk) á frelsi mannsins, þar er alltaf rík tilhneiging til að leysa mál með félagslegum úrræðum, þar er alltaf um það að ræða að hinir innvígðu troða „gæðum“ sínum  á óskammfeilinn hátt ofan í aðra gegn vilja þeirra, alltaf er leitast við að ýta venjulegum lýðræðislegum aðferðum til hliðar með annars konar stjórnmálareglum og alltaf er ljóst, að menntamennirnir telja sig sjálfa og markmið sín æðri öðrum.

 

Ég vísa hér til umhverfisisma ( þar sem jörðin á að hafa forgang en ekki frelsið), róttæks mannréttindaisma ( þar sem ekki eru gerð skil milli réttinda og réttindaisma eins og de Jasay hefur nákvæmlega rökstutt) hugmyndafræðinnar um samfélagslegt þjóðfélag („civic society“  eða samfélagsisma), sem er ekki annað en póst-marxísk útgáfa af þjóðfélagsgerð, þar sem skipulagðir hópar skulu njóta sérréttinda, og leiðir þess vegna til nýs lénsskipulags. Ég hef einnig  í huga fjölmenningarisma, femínisma, andpólitískan teknókratisma ( sem byggist á andúð á stjórnmálum og stjórnmálamönnum), alþjóðaisma (og sérstaklega hinn evrópska þátt hans sem kallast Evrópuismi) og hið hraðvaxandi fyrirbæri, sem ég kalla NGO-isma. [NGO er ensk skammstöfun fyrir non-governmental organization eða óháð og frjáls félagasamtök.]

 

Allt byggist þetta á hugmyndafræðilegu ígildi sósíalisma. Allt gefur þetta menntamönnum ný tækifæri, nýtt svigrúm til athafna, nýja bása á markaðstorgi hugmyndanna. Að snúast gegn þessum nýju ismum, að sýna hið sanna eðli þeirra og að vinna bug á þeim getur verið erfiðara en áður fyrr. Það getur verið flóknara en að berjast við gamla, hreinræktaða sósíalismann. Allir vilja búa í heilbrigðu umhverfi, allir vilja sigrast á einmanaleika hins sundraða  póst-móderníska þjóðfélags og taka þátt í jákvæðu starfi í margvíslegum klúbbum, félögum, stofnunum og góðgerðasamtökum; næstum allir eru andstæðingar misréttis vegna kynþáttar, trúar eða kyns; mörg okkar eru andvíg of víðtæku valdi ríkisins o. s. frv. Að draga upp mynd af þeirri hættu, sem af þessu kann að stafa, líkist því þess vegna oft að blása upp í vindinn.“

 

Vaclav Klaus vekur hér máls á þróun, sem vissulega er verðugt að íhuga og með öllu er ástæðulaust að taka af yfirlætisfullri léttúð menntamannsins, sem allt veit betur. Eða að reyna að afgreiða málið á þann billega hátt, að Klaus sé alltaf að flytja sömu ræðuna. Erum við ekki öll að gera það? Ef við erum sjálfum okkur samkvæm í rökræðum og afstöðu til hlutanna, er þá ekki alltaf sami undirtónninn? Vísan í þágu frelsis verður að minnsta kosti aldrei of oft kveðin, þess vegna er ræða Klaus verðugt umhugsunarefni og Mont Pelerin-ráðstefnan fagnaðarefni.

 

Í mínum huga er enginn efi um, að hugmyndafræði okkar, sem aðhyllumst frelsi, hefur sigrað og náð undirtökum í stjórnmálabaráttunni. Galdurinn felst í því að fylgja þessum sigri eftir í framkvæmd, því að þá tekst að bæta þjóðlífið og hag okkar allra enn frekar.

 

Stjörnubíósreiturinn.

 

Skömmu eftir að ég settist í borgarráð sumarið 2002 og eftir borgarstjórnarkosningarnar þá um vorið, varð ég undrandi yfir ofurhraðanum, sem hafður var á ákvörðunum R-listans um að kaupa fyrir 140 milljónir króna lóðarskika við Laugaveginn af Jóni Ólafssyni, sem kenndur er við Skífuna. Stjörnubíó, sem nú hefur verið rifið, stóð á þessari lóð, og þess vegna hefur hún verið kennd við það hús og nefnd Stjörnubíósreiturinn.

 

Ég hef frá upphafi gagnrýnt þessi kaup. Í fyrsta lagi, að til þeirra skyldi gengið, þar sem borgin hefði ekki neina þörf fyrir þessa lóð.  Í öðru lagi hraðferðina við kaupin. Í þriðja lagi kaupverð borgarinnar. Í fjórða lagði þá eftir-á skýringu, að kaupin hafi verið nauðsynleg vegna skorts á bílastæðum eða bílastæðahúsi á þessum stað í borginni.

 

R-listinn hefur aldrei getað fært haldgóð og sannfærandi rök fyrir þessari ráðstöfun á skattfé borgarbúa til Jóns Ólafssonar, en hann glímdi við fjárhagsvanda á þessum tíma og hraðkaup strax að loknum kosningum (R-listinn treysti sér ekki til kaupanna fyrr) voru honum því kær. Jón hefur vafalaust reynt að selja lóðina á frjálsum markaði, án þess að finna þar kaupanda, sem vildi greiða honum jafnhátt verð og R-listinn gerði.  Þegar lóðin var keypt, voru áform um að reisa bílastæðahús í næsta nágrenni hennar, að Laugavegi 77, en það var síður en svo brýnt verkefni á þeim tíma, þar sem nýting á bílastæðahúsi borgarinnar við Vitatorg var sáralítil og eykst hægt.

 

Síðan ákvörðun um kaupin var tekin hefur málið oftar en einu sinni verið rætt í borgarráði og borgarstjórn. Hinn 18. janúar 2005 samþykkti borgarstjórn með 15 atkvæðum tillögu okkar sjálfstæðismanna um, að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði úttekt á kaupum borgarinnar á Stjörnubíósreitnum, m.a. mat á verði lóðarinnar miðað við heimilað byggingarmagn.

 

Eftir að hafa samþykkt tillöguna bókuðu borgarfulltrúar R-listans, að málið væri ekki þess eðlis, að tilefni væri að taka það fram fyrir þau mál, sem endurskoðunardeildin hefði sjálf sett í starfsáætlun sína. Þótt borgarráð eða borgarstjóri gætu falið deildinni einstök verkefni, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í starfsáætlun, yrði samt sem áður að hafa í huga, hvaða sjónarmið það væru sem ráða ættu forgangsröðun verkefna innri endurskoðunardeildar.

 

Af þessari bókun borgarfulltrúa R-listans lá beint við að draga þá ályktun, að þeir hefðu nauðugir viljugir samþykkt tillögu okkar sjálfstæðismanna og kannski hefði innri endurskoðunardeildin hreinlega ekki tíma til að sinna þessu verkefni vegna annarra starfa.

 

Á fundi borgarráðs 18. ágúst sl. var skýrsla innri endurskoðunardeildar um málið lögð fram. Skýrslan er dagsett í júní 2005, þannig að annir annars staðar en í deildinni hafa greinilega tafið, að hún yrði lögð fyrir borgarráð. Við framlagningu skýrslunnar bókaði R-listinn, að skýrslan sýndi, að kaupverð á Stjörnubíósreitnum væri eðlilegt.

 

R-listinn taldi í bókun sinni eðlilegt, að „taka alvarlega“ ábendingar innri endurskoðunar um að skort hefði á „formfestu við ákvarðanatöku og frágang þessa máls“ eins og segir í skýrslunni og síðan segir endurskoðunardeildin: „Eðlilegt hefði verið að málið hefði verið skráð í málaskrárkerfi borgarinnar, tekið formlega fyrir á fundi [Skipulagssjóðs] og þar farið sérstaklega yfir kaupin.“ Með öðrum orðum skýrslan staðfestir, að málið hafi verið afgreitt með óeðlilegum hætti og hraða þessa fyrstu daga eftir kosningar.

 

Í bókun sinni 18. ágúst í borgarráði sagði R-listinn einnig: „Undir forystu núverandi dómsmálaráðherra var málið í heild sinni dregið niður á afar lágt plan. Þessi úttekt staðfestir að kaupverðið á eigninni var eðlilegt og sýnir svo ekki verði um villst að sjálfstæðismenn í borgarstjórn fóru offari í málinu.“

 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins létu þess getið í bókun sinni, að þeir væru að sjá skýrsluna í fyrsta sinn og þeir áskildu „sér rétt til að bóka síðar vegna þessa máls og meðferð þess enda margt þar sem krefst frekari athugunar og skýringa.“

 

Ég frétti fyrst af þessari skýrslu, þegar ég hlustaði á fréttir af þessum borgarráðsfundi og sérstökum árásum borgarráðsmanna R-listans á mig vegna niðurstöðu innri endurskoðunar.

 

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna gekk til þess verks að bera skýrslu innri endurskoðenda borgarinnar undir sérfróða menn og þá blasti við sú hryggilega staðreynd, að verðmatið í skýrslunni er svo illa unnið, að hún er í raun ekki marktæk um þennan meginþátt sinn. Þess vegna bókuðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarráðs 25. ágúst, að í skýrslunni kæmi „fram mikil ónákvæmni og ýmsum hugtökum er þar ruglað saman. Þær forsendur sem liggja til grundvallar skýrslunni eru því að miklu leyti rangar. Miðað við leiðréttar forsendur verður niðurstaðan sú að kaupin á Stjörnubíósreit séu 68-73 milljónum króna yfir raunverulegum viðmiðunum.“ Í bókuninni eru færð skýr og málefnaleg rök fyrir því, hvernig komist er að þessari ályktun um ágalla og rangar verðtölur í skýrslunni. Á vefsíðunni betriborg.is er unnt að nálgast bókun sjálfstæðismanna í heild og greinargerðina með henni.

 

Sjálfstæðismenn töldu vinnubrögð innri endurskoðunar óvönduð og þau sýndu ekki þekkingu á viðfangsefninu. Þeir sögðu alvarlegt fyrir borgarfulltrúa og borgarbúa almennt ef ekki væri unnt að treysta á hlutlausa og nákvæma niðurstöðu innri endurskoðunar. Þá kröfðust þeir þess, að skýrslan yrði dregin til baka og leiðrétt og síðan yrði hún lögð fyrir borgarráðs á fundi þess 1. september næstkomandi.


Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista brugðust illa við þessum athugasemdum sjálfstæðismanna 25. ágúst en hvorki þá né síðar hafa þeir svarað þeim efnislega heldur kosið að ræða málið með vísan til þess, að sjálfstæðismenn hafi ekki rætt við innri endurskoðanda, áður en þeir lögðu fram bókun sína og gagnrýni! Ef endurskoðandinn hefði lagt skýrsluna fyrir sjálfstæðismenn, áður en hann birti hana opinberlega, væri hann ekki í þeirri stöðu núna, að sjálfstæðismenn kynntu gagnrýni sína opinberlega í borgarráði. Leið þó tími frá því í júní til 18. ágúst, frá því að forstöðumaðurinn dagsetti skýrslu sína og lagði hana fram í borgarráði. Hvað tafði framlagningu? Datt forstöðumanninum aldrei í hug að sýna sjálfstæðismönnum skýrslu sína, áður en hann kynnti hana opinberlega?

 

Sjálfstæðismenn lögðu bókun sína og athugasemdir fram um hádegisbil 25. ágúst. Morgunblaðið ræðir við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra að minnsta kosti sólarhring síðar og birtir viðtal við hana í blaðinu 27. ágúst. Ef Steinunn hefði rök til að hnekkja niðurstöðum sjálfstæðismanna, hefði henni verið í lófa lagið og leggja þau fram í Morgunblaðinu. Borgarstjóri gerir það ekki heldur talar áfram um málið með vísan til tilfinninga og samúðar með forstöðumanni innri endurskoðunar, sem hafi verið „skotinn án þess að reynt sé að fara yfir það með honum hvaða forsendur liggi að baki.“ Allt var þetta lagt fyrir borgarráð, en þar situr forstöðumaðurinn. 

 

Borgarstjóri sagði einnig í Morgunblaðinu: „Kjartan Magnússon og Björn Bjarnason hafa talað um mútur og spillingu."  Ég skora á Steinunni Valdísi að upplýsa mig og aðra um, hvar ég hef látið þau orð falla, að um mútur hafi verið að ræða í þessu máli. Ég veit, að Kjartan Magnússon er maður til að svara fyrir sig.