21.8.2005

Til varnar lögreglu - örlög fjölmiðla - R-listinn allur.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar hinn 19. ágúst birtist viðtal við Páll E. Winkel, framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, þar sem hann tók réttilega upp hanskann fyrir lögreglumenn vegna margvíslegra aðdróttana í þeirra garð undanfarið. Ég birti fréttina hér í heild:

„Framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna er mjög ósáttur við aðdróttanir að undanförnu þess efnis að hægt sé að stjórna lögreglunni að vild.

Páll Winkel er framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna og honum er nóg boðið eftir ásakanir í garð lögreglumanna síðustu vikur og misseri í tengslum við Baugsmálið og málefni mótmælenda.

Páll E. Winkel, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna: Það er annars vegar það að einhverjum detti í hug að utanaðkomandi aðilar geti pantað víðtækar lögregluaðgerðir eins og hafa átt sér stað undanfarið og geti pantað hvernig þeim verði háttað og hversu langt eigi að ganga. Óhugnanlegast er að einhverjum detti í hug að þeir geti einnig pantað niðurstöður rannsókna.

En væri mögulegt fyrir einhvern að ná til yfirmanns innan lögreglunnar sem síðan getur stjórnað sínum undirmönnum til að ná sínu fram?

Páll E. Winkel: Mér dettur það ekki í hug, lögreglumönnum ber að fara að lögmætum fyrirmælum yfirboðara en ekki ólögmætum og það að yfirmaður í lögreglu geti sagt sínum undirmönnum að framkvæma ranga rannsókn og kalla fram ranga niðurstöðu sem ekki er í samræmi við gögn málsins og þessi rannsóknargögn, það er bara hreint fáránlegt.

Páll segir margt styðja þeirra rök og sjónarmið.

Páll E. Winkel: Þau að lögreglan býr við mjög stíft bæði innra- og ytra eftirlit. Í fyrsta lagi tryggja yfirmenn að lögreglumenn undir þeirra umsjá starfi innan lagarammans, ríkissaksóknari hefur lögum samkvæmt eftirlitsskyldu með lögreglu og ég veit ekki annað en að hann sinni því með miklum sóma. Dómstólar veita lögreglumönnum aðhald, tryggja að lögreglumenn starfi í samræmi við réttarfarsákvæði, refsiákvæði og lagaákvæði. Nú svo kannski það sem að skiptir ekki hvað minnstu máli er að við erum bæði með innlendar og erlendar eftirlitsstofnanir sem að hafa eftirlit með störfum lögreglu.

Páll nefnir sérstaklega nefnd á vegum Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með því að lögregla og fangelsismálayfirvöld virði mannréttindi. Þá nefnd segir hann hafa komið hingað til lands á síðasta ári og var niðurstaða hennar að hér væri ekki spilling.“

Ég tek undir hvert orð, sem framkvæmdastjórinn segir og raunar má bæta því við, að hér hafa gengið dómar, sem eru lögreglu og öðrum yfirvöldum til leiðbeiningar um, hvað má betur fara í innra eftirliti lögreglu og víst er, að allar slíkar leiðbeiningar skoða lögregluyfirvöld af mikilli alvöru og taka mið af þeim í störfum sínum. Allar kannanir sýna, að almenningur ber mikið traust til lögreglu og jafnframt hefur hvað eftir annað komið fram, að henni er annt um, að halda því trausti.

Oftar en einu sinni hefur stjórnarfar á Íslandi verið athugað af alþjóðlegum eftirlitsaðilum, sem sérhæfa sig í athugunum á stöðu fanga og þeirra sem sökum eru bornir. Vissulega hafa komið fram ábendingar um ýmislegt, sem betur má fara, en þær hafa aldrei snúist um það, að stjórnmálamenn beiti lögreglu á ólögmætan hátt eða duttlungar þeirra ráði því, hvort ráðist sé í rannsókn á því, hvort um eitthvert saknæmt atferli sé að ræða.

Ísland hefur sætt athugunum þeirra aðila á vegum Evrópuráðsins, GRECO, sem sérhæfa sig í rannsókn á spillingu og fengið góða einkunn þeirra sérfræðinga en einnig ábendingar eins og þessa frá árinu 2001:

„Rannsóknardeild efnahags- og umhverfisbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra gegnir lykilhlutverki í baráttu gegn efnahagsbrotum í heild sinni. Þar sem deildin hefur nú aðeins tíu rannsóknarlögreglumönnum á að skipa getur hún þó aðeins brugðist við málum sem fyrir hana eru lögð. Nefndin lagði til að deildin nálgaðist fyrirbyggingar-, rannsóknar- og saksóknarstarf þannig að meira yrði sótt á, og að ríkisvaldið útvegaði nauðsynlegt fé í því skyni. Með tilliti til hinnar takmörkuðu reynslu af spillingarmálum myndi starfslið deildarinnar þarfnast frekari þjálfunar til að auka sérhæfingu sína. Þannig gæti deild þessi orðið helsta sérhæfða löggæslustofnunin sem fæst við spillingarafbrot.“

 

Í þessum orðum felst ábending til íslenskra stjórnvalda þess efnis, að þau þurfi frekar að efla efnahagsbrotadeildina en draga úr athafnasemi hennar vegna þess að hún gangi of langt við störf sín. Miðað við mannafla sinn hafi deildin ekki burði til að rannsaka önnur mál, en fyrir hana eru lögð með kæru, hún rannsaki ekki mál að eigin frumkvæði. Vegna mikils álags á deildina unadanfarin misseri hafa fjárveitingar til hennar verið auknar en sú athugasemd GRECO-sérfræðinganna er réttmæt að vinna beri að því að styrkja beri deildina enn meira.

 

Öllum rökum er snúið á haus, þegar látið er í veðri vaka, að það dragi úr tiltrú manna á viðskiptaháttum innan einstakra landa, að öðru hverju séu lögregla og dómstólar að glíma við spurningu um það, hvort stjórnendur stórfyrirtækja hafi farið að lögum eða ekki.

 

Í Fréttablaðinu í dag, sunnudaginn 21. ágúst, er lítil frétt um, að starfsmenn IKEA í Þýskalandi hafi verið sakaðir um að þiggja tugi milljóna króna í mútur frá byggingaverktökum. Lögreglan sé að rannsaka málið og hafi gert húsleit hjá IKEA í Wallau, þar sem höfuðstöðvarnar séu, en einnig í Bremen, Hamborg og Düsseldorf. Í Dagens Industri í Svíþjóð sé þetta haft eftir Evu Stål, upplýsingafulltrúa IKEA í Svíþjóð: „Við erum mjög hneyksluð. Heiðarleiki samstarfsaðila okkar er einn af hornsteinum stefnu okkar og framferðið sem þeim er gefið að sök er algerlega óásættanlegt.“

 

Á að skilja þetta þannig, að Eva Stål sé hneyksluð á lögreglunni fyrir að rannsaka málið og fara inn í höfuðstöðvar IKEA í Þýskalandi og starfsstöðvar annars staðar?  Ég held ekki. Talsmanni IKEA er mikið í mun, að gengið sé úr skugga um, að allt sé með felldu hjá fyrirtækinu í Þýskalandi, til að það verði verði ekki fyrir álitshnekki. Hér hefur hins vegar stjórn Baugs hvað eftir annað valið þann kost að gera lögregluna tortryggilega í stað þess að fara leið talsmanns IKEA.

 

Ég man ekki eftir að hafa séð mikið rætt um, að falla hefði átt frá lögsókn á hendur stjórnendum Enron eða World.com í Bandaríkjunum vegna þess að um málin væri rætt um heim allan og þau kynnu að spilla fyrir öðrum bandarískum fyrirtækjum. Umræður féllu á hinn bóginn almennt í þann farveg, að rannsókn og ákærur væru til þess fallnar að styrkja innviði bandarísks viðskiptalífs. Enginn ætti að þurfa að efast um heiðarleika innan þess, þótt hinir ákærðu teldu auðvitað ómaklega að sér vegið og gripu til margvíslegra raka í málsvörn sinni, líklega í von um að styrkja stöðu sína gagnvart almenningsálitinu.

 

Í frétt Bylgjunnar og viðtalinu við framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna var einnig minnst á aðdróttanir mótmælenda við Kárahnjúka og víðar í garð lögreglunnar. Þær hafa tekið út yfir allan þjófabálk.

 

Kunnur fjölmiðlamaður, Helga Vala Helgadóttir, sagði í útvarpi síðastliðinn laugardag, að vegna framgöngu íslensku lögreglunnar gegn mótmælendum færi „hryllilegt orðspor“ af henni um heim allan.

 

Birgitta Jónsdóttir úr hópi mótmælenda var í mörgum útvarpsviðtölum eftir komu hópsins til Reykjavíkur frá Austurlandi. Hún hélt því fram, að sími sinn væri hleraður, enda hefði „nýjum hryðjuverkalögum“ verið laumað í gegnum alþingi á síðasta degi þess fyrir sumarleyfi nú í vor, án þess að fólk veitti því athygli. Lögin væru afskaplega loðin og það væri auðvelt að nota þau gegn mótmælendum, jafnvel miklu frekar en hryðjuverkahópum. Taldi hún, að hlera mætti síma án dómsúrskurðar samkvæmt þessum nýju lögum.

 

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður var í einum þessara útvarpsþátta og sagði, að atburðir í Evrópu og umræða þar bæði um væntanlegar breytingar á löggjöf og þær breytingar, sem þar hefðu orðið, væri með einhverjum hætti farnar að skila sér til íslensku lögreglunnar, hún ætlaði í einhverju slíku skjóli að ganga enn lengra en áður og segja, að allir sem andmæltu einhverju kynnu að vera einhvers konar hryðjuverk. Vegna þessara orða sagði Ævar Kjartansson þáttarstjórnandi: „Það náttúrlega er alveg rosalegt, það er rosalegt ástand í rauninni.“

 

Málsvarar mótmælenda fara offari í árásum á lögreglu. Birgitta Jónsdóttir hefur greinilega ekki minnstu hugmynd um efni laga, sem alþingi samþykkti síðastliðið vor, þar voru að minnsta kosti ekki samþykkt nein hryðjuverkalög. Íslensk stjórnvöld eiga hins vegar eftir að huga að nauðsynlegum lagabreytingum, eftir að hafa ritað undir sáttmála Evrópuráðsins gegn hryðjuverkum. Þá er það einfaldlega hreinn hugarburður, að íslenska lögreglan hafi heimild til að hlera síma án dómsúrskurðar.

 

Ummæli Ragnars Aðalsteinssonar um framgöngu lögreglunnar eru rakalaus og öfgafull en minna á, hvernig aðgerðum stjórnvalda hér og annars staðar til að halda uppi lögum og rétti er snúið í andhverfu sína af þeim, sem virðast telja mannréttindi einskonar sérréttindi til að traðka á rétti annarra í nafni öfgakennds málstaðar á borð við þann, að ekki megi virkja fallvötn.

 

Ævar Kjartansson útvarpsmaður hefur vonandi náð sér eftir áfallið í þættinum, en hann kallaði ekki neinn til viðtals í þennan þátt sinn til að halda fram öðru en þessum öfgafulla málstað og árásum í garð lögreglu.

 

Örlög fjölmiðla.

 

Í ræðu sem ég flutti yfir íslenskum sendiherrum síðastliðinn föstudag minntist ég þess, að á tímum kalda stríðsins hefðu eigendur Morgunblaðsins leitast við að stöðva gagnrýnin skrif blaðsins um viðskiptin við Sovétríkin. Efnisþætti málsins reifaði ég í ræðunni og endurtek þá ekki hér en að sjálfsögðu er það hvorki neitt nýnæmi né einstakt hér á landi, að eigendur blaða vilji hafa áhrif á efni þeirra. Nú er til dæmis betur sannað en áður, að eigendur Baugsmiðlana gæta þess, að þeirra hagsmunir séu ekki fyrir borð bornir í miðlunum. Skal enn áréttað, að sú staða er einsdæmi, að svo áhrifamikill aðili í viðskiptalífi og smásöluverslun þjóðar ráði yfir um 70% fjölmiðlunar í landi og beiti áhrifum í senn til að hafa áhrif á efni miðlanna og einnig til að skapa sér auglýsingatekjur og annan fjárhagslegan ábata.

 

Gunnar Smári Egilsson stjórnar nú fjölmiðlaveldi Baugs undir heitinu 365 miðlar en í nýjasta hefti tímaritsins Mannlífs (ágúst 2005, 8. tbl. 22. árg.) segir Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, sem var látinn hætta, eftir að Baugur keypti Norðurljós, í samtali við Lindu Blöndal: „Ég var aldrei í innsta hring hjá Jóni Ásgeiri, eins og Gunnar Smári, sem frá 2002 hefur átt allt sitt undir honum. Við slíkar aðstæður gæti ég ekki unnið.“

 

Í Mannlífi segir Linda Blöndal einnig:

 

„Sigurður segir að gleggsta dæmið sem hann þekki um að forsvarsmenn Baugs hafi viljað beita valdi sínu á fjölmiðla sé tölvupóstur sem sér hafi borist haustið 2002. Það var eftir viðtal Þórhalls Gunnarssonar og Jóhönnu Vilhjálmsdóttur við Jóhannes í Bónus í Ísland í bítið á Stöð 2. Þáttastjórnendur lögðu fram gögn sem sýna áttu óeðlilega hækkun vöruverðs á leiðinni frá Bandaríkjunum í verslanir Baugs og gagnrýndu Baug mikið og deildu hart við Jóhannes. „Jón Ásgeir sendi mér tölvupóst strax eftir þáttinn og tilkynnti að Baugur myndi ekki auglýsa í fjölmiðlum Norðurljósa framar. Svo þakkaði hann fyrir að til væri Ríkisútvarp,“ segir Sigurður. „Ég sendi Jóni Ásgeiri póst til baka og benti honum á að fyrirtæki hans væru bundin af samningum sem þegar hefðu verið gerðir en honum væri frjálst að velja þá miðla sem auglýst væri í af hálfu Baugsfyrirtækja. Baugur varð síðar stór hluthafi í Norðurljósum og Skarphéðinn Berg Steinarsson stjórnarformaður félagsins. Þegar þar var komið hafði Jón Ásgeir sérstakan áhuga á að koma Jóhönnu Vilhjálmsdóttur úr starfi með þeim orðum að það væri ekki ánægja með hana í Túngötunni og átti þar sennilega við á skrifstofum Baugs.“

 

Í Mannlífi  segir ennfremur:

 

„Hvers vegna vill Jón Ásgeir reka fjölmiðla? Slík starfsemi hér á landi er sannarlega ekki til þess fallin að skila hagnaði og skapa gróða. Bein afskipti Jóns Ásgeirs af fréttaflutningi í miðlum sínum svara ef til vill spurningunni. Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrum blaðamaður á visir.is, sagði frá afskiptum Jóns Ásgeirs árið 2003. „Við birtum frétt á vefnum frá fréttastofu Stöðvar 2 um ásakanir Jóns Geralds Sullenberger á hendur Jóni Ásgeiri. Soffía Steingrímsdóttir ritstjóri sendi mér fljótlega tölvupóst og sagði mér að eyða fréttinni. Hún sagði Jón Ásgeir hefði haft samband og að fréttin væri röng. Í póstinum var mér sagt að hafa samband strax. Ég neitaði að verða við þessu og bauð Jóni Ásgeiri að bregðast við fréttinni. Það kom ekki til greina. Mér var bara sagt, að Jón Ásgeir vildi fréttina út og það strax. Skömmu síðar var hún horfin af vefnum. Enginn vildi gangast við því að hafa eytt fréttinni. Svör Soffíu yfirmanns míns voru þessi þegar ég krafðist skýringa: „Áður hefur komið upp álíka mál vegna níðingsfréttar um Baug og Jón Ásgeir og þá var frétt eytt...Hafa þarf í huga hver eigandi miðilsins er...Hafa ber í huga þessa einföldu reglu - hafa samband við forsvarsmenn Baugs áður en svona fréttir eru birtar.“ Satt að segja óttaðist ég nokkuð um stöðu mína innan fyrirtækisins eftir að ég mótmælti þessu og tel ég að sá ótti hafi verið á rökum reistur,“ segir Sigurður Hólm sem fékk ekki endurráðningu skömmu síðar. Ágúst Borgþór Sverrisson, fyrrum blaðamaður á visir.is, [hann er mikilvirkur og skemmtilegur bloggari] hefur tekið undir frásagnir Sigurðar. Annað dæmi kemur frá blaðamanni sem eitt sinn starfaði á Fréttablaðinu: „Við lögðum til að taka opnuviðtal við Jónínu Benediktsdóttur. Gunnar Smári Egilsson ritstjóri svaraði því til að enginn hefði áhuga á því sem hún hefði að segja. Við vissum öll að það var vitleysa. Hún var skilin við Jóhannes í Bónus og vildi tjá sig um margt, ýmsa hluti sem núna eru í hámæli.“ Hvort Jón Ásgeir gangi svo langt að velja persónulega sína blaðamenn og ritstjóra fæst ekki staðfest. Við suma hefur hann alltént náð góðu trúnaðarsambandi.“

 

Enn segir í Mannlífi:

 

„En hvar eru DV-menn nú? spyr fólk. Af hverju var ekki slegið upp forsíðu undir yfirskriftinni „Ákærðir!“  og myndir birtar af öllum ákærðu í Baugsmálinu, þar með talið Jóni Ásgeiri? Svo virðist sem sannleikspósturinn í Skaftahlíðinni hafi ekki áhuga á stærstu auðgunarbrotarannsókn Íslandssögunnar. Það má eðlilega skoðast í því ljósi að DV er í eigu og á ábyrgð Baugs.“

 

Í útvarpsþætti laugardaginn 20. ágúst sagðist Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður fegin því að vera komin til starfa á Blaðinu hún hefði ekki getað starfað í andrúmsloftinu á Fréttablaðinu, þar hefðu verið svo miklar reglur um allt milli himins og jarðar, til dæmis sú vitlausa regla, að ekki mætti láta viðmælendur lesa yfir viðtöl við sig, það mætti bara lesa þau fyrir þá. Ég er sammála Kolbrúnu um hve heimskuleg og raunar óskiljanleg þessi regla er - hin er þó enn verri, sem sagt er frá í Mannlífi: „Hafa ber í huga þessa einföldu reglu - hafa samband við forsvarsmenn Baugs áður en svona fréttir eru birtar.“ Þarna er vísað til frétta um málefni eigendanna, sem hafa verið til umræðu, frá því að efnahagsbrotadeild lauk rannsókn sinni.

 

Ég veit ekki, hvort enn er sami ritstjóri á visir.is og sagt er frá í Mannlífi - ég sá það ekki í fljótu bragði með því að fara inn á visir.is, hver er þar ritstjóri, en á dögunum sendi Þröstur Emilsson mér tölvupóst fyrir hönd visir.is, en hann var blaðamaður á Fréttablaðinu á síðasta ári, þegar nafn hans bar á góma í deilunum vegna fjölmiðlamálsins, þegar ég sagði frá tölvubréfi, sem ég hafði fengið frá honum.

 

Það er kannski tímanna tákn um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi, að lesa þurfi þessa skorinorðu lýsingu á afskiptum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af efnistökum fjölmiðla í Mannlífi og um hana verði ekki miklar umræður annars staðar. Jón Ásgeir Jóhannesson var í Kastljósi sjónvarpsins í liðinni viku og var þá gerð sú undantekning að sjónvarpa samtalinu ekki beint en tekið var fram, að það hefi ekki verið klippt eftir upptökuna. Það kom ekki fram, hvort lögfræðingar hans hefur hlustað á þáttinn, áður en hann var sendur út, eins og sagt var, að þeir hefðu lesið viðtalið við hann í Fréttablaðinu.

 

Ef marka má Reykjavíkurbréfið, sem birtist í Morgunblaðinu  í dag, sunnudaginn 21. ágúst, hefur ritstjórn þess verið undir miklum þrýstingi að birta ekki „of“ mikið um Baugsmálið eða leggja málið þannig fyrir lesendur sína, að þeir átti sig á því um hvað málið snýst, en mér segir svo hugur að þeir séu sárafáir, sem lesið hafa ákæruna í málinu eða lögfræðilegar útlistanir málsvara Baugsliða á einstökum liðum hennar. Blöð hafa að sjálfsögðu því hlutverki að gegna að skýra flókin mál af þessu tagi fyrir lesendum sínum og þurfa síður en svo að afsaka það á neinn hátt

 

Er nokkur undrandi á því, að fylgi vaxi við þá skoðun, að nauðsynlegt hafi verið að setja lög um fjölmiðla á síðasta ári? Vegur þeirra, sem lögðust gegn því, minnkar í réttu hlutfalli við frásagnir af því tagi, sem lýst er hér að ofan og er raunar dapurlegt, að saga starfsmanna þessara miðla við eigendur þeirra lægi ekki skýrar fyrir á þeim tíma, en eins og menn muna, voru það fyrstu viðbrögð eigendanna, eftir að fjölmiðlafrumvarpið var kynnt, að láta í veðri vaka að allir starfsmenn Norðurljósa myndu missa vinnuna og létu þeir fréttastofu hljóðvarps ríkisins flytja þá ósannindafrétt.

 

Við blasir nú, að Baugsmiðlarnir segja á allt annan hátt frá ákærunum á hendur eigendum sínum en flokkast undir eðlilega blaða- og fréttamennsku. Þess vegna er ekki einkennilegt, þótt spurt sé: Ætlar Baugur að halda áfram að eiga og reka þessa miðla, eftir að þeir hafa þjónað þessu hlutverki fyrir eigendur sína?

 

R-listinn allur.

 

Klukkan 08.00 að morgni þriðjudagsins 16. ágúst var þessi frétt sögð í hljóðvarpi ríkisins:

 

„Almennur félagsfundur Vinstri grænna í gærkvöld [15. ágúst] samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að bjóða fram eigin lista í borgarstjórnarkosningunum í vor. Því er ljóst að R-listi í núverandi mynd heyrir sögunni til eftir næstu kosningar. 68 greiddu atkvæði með framboði Vinstri-grænna, 28 vildu halda áfram samstarfi Reykjavíkurlistans.“

 

Klukkan 08.00 að morgni fimmtudagsins 18. ágúst var þessi frétt sögð í hljóðvarpi ríkisins:

 

„Samfylkingin býður að óbreyttu fram undir eigin merkjum í komandi borgarstjórnarkosningum þó til greina komi að bjóða stuðningsmönnum Reykjavíkurlistans að fylkja sér að baki flokknum. Á fundi fulltrúaráðs flokksins í gærkvöld [17. ágúst] voru hátt í 100 manns. Formaður ráðsins lagði fram tillögu um að fela stjórn þess að móta hugmyndir um framboðsmálin.“

 

Dagur B. Eggertsson hefur tilkynnt, að hann sé hættur afskiptum af stjórnmálum, að minnsta kosti fyrst um sinn, og muni helga sig læknislistinni.

 

Í fréttum Stöðvar 2 klukkan 18.30 fimmtudaginn 18. ágúst sagði:

 

„Skýr merki þess að R-listaflokkarnir séu farnir að berjast innbyrðis um hylli kjósenda birtust á borgarráðsfundi í dag þegar Alfreð Þorsteinsson lagði til að hætt yrði við umdeilda hækkun leikskólagjalds sem Stefán Jón Hafstein hafði aðeins klukkustund áður reynt að verja á fundi með fulltrúum háskólastúdenta.

Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs borgarinnar hefur undafarna daga staðið í því að verja yfirvofandi hækkun leikskólagjalda gagnvart fjölskyldum þar sem annað foreldri er í námi, síðast á fundi með fulltrúum stúdentaráðs í morgun. Þegar Stefán mætti svo á borgarráðsfund í hádeginu lagði Alfreð Þorsteinsson fram tillögu um að fallið yrði frá hækkuninni.“

 

Um endalok R-listans verður ekki meira sagt að sinni.