19.6.2005

Aung San Suu Kyi sextug – sögur frá Búrma.

Aung San Suu Kyi, frelsishetja í Búrma, fagnar 60 ára afmæli sínu í dag, 19. júní. Hún getur þó ekki um frjálst höfuð strokið í dag frekar en svo marga daga áður, síðan hún sneri aftur til Búrma árið 1988 og tók að sporna gegn einræði herforingjastjórnarinnar þar. Skömmu eftir að hún kom til landsins var hún sett í stofufangelsi og dvaldi í því til ársins 1995. Hún var að nýju svipt frelsi árið 2000, en sleppt með skilyrðum árið 2002, en í maí 2003 var hún hneppt í fangelsi, þar sem hún dvaldist í þrjá mánuði, þar til hún var flutt í stofufangelsi að nýju og þar dvelst hún enn þann dag í dag. Hún fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1991 fyrir baráttu sína fyrir lýðræði í Búrma.

Aung San Suu Kyi var gift dr. Micahel Aris, sérfræðingi í tíbeskum fræðum og fræðimanni í Oxford. Hann lést úr krabbameini frá konu sinni og tveimur sonum þeirra árið 1999. Þá buðu herforingjarnir í Búrma Aung San Suu Kyi að fara úr landi til að vera við dánarbeð manns síns, en hún hafnaði boðinu af ótta við að fá ekki að snúa til baka.

Jakob F. Ásgeirsson kynntist Micahel Aris og heimili þeirra hjóna, þegar hann stundaði nám í Oxford og ritaði minningargrein í Morgunblaðið við andlát Aris árið 1999 og er hana að finna í bókinni Frá mínum bæjardyrum séð, sem ég sagði frá í síðasta pistli mínum. Í greininni segir Jakob:

 

„Þau tvö ár sem við bjuggum í húsinu stóðu stígvél þeirra hjóna óhreyfð við útidyrnar - hennar gul, hans blá. Michael bað okkur að leyfa þeim að vera þar sem táknrænni von um að einhvern tíma rynni upp sá dagur að heimilislífið færðist í eðlilegt horf á ný.

 

En sú von var í hæsta máta óraunhæf, kona hans átti ekki afturkvæmt, hver svo sem framvindan hefði orðið í Búrma; hún hafði sögulegu hlutverki að gegna í þágu þjóðar sinnar.

 

Hann hafði alltaf vitað að svona kynni að fara, en vonað í lengstu lög að það yrði ekki fyrr en drengirnir væru vaxnir úr grasi. Aung San Suu Kyi var alin upp og menntuð í anda búrmanskra og búddískra siðferðisgilda. Henni voru innrættar lífsreglur föður síns, frelsishetju Búrma, sem fórnaði lífi sínu fyrir þjóð sína. Örlögin höguðu því svo til að hún flutti á unglingsárum frá Búrma, en hún var þess fullviss að einn daginn myndi hún snúa aftur til föðurlandsins - að allt líf hennar væri undirbúningur fyrir framtíðarhlutverk í þjónustu þjóðar sinnar.“

 

Aung San hershöfðingi, faðir Aung San Suu Kyi, er sjálfstæðishetja Búrma. Hann var myrtur úr launsátri, þegar dóttir hans var aðeins tveggja ára, í júlí 1947, sex mánuðum fyrir sjálfstæðisdaginn. Ekkja hans, Dahn Khin Kyi, varð sendiherra lands síns á Indlandi árið 1960 og tók dóttur sína með sér þangað, en hún hélt til Oxford árið 1964, þar sem hún stundaði nám í heimspeki, stjórnmálum og efnahagsmálum og kynntist verðandi eiginmanni sínum. Hún fór til Búrma árið 1988 til að hjúkra veikri móður sinni. Um þær sömu mundir var mikil stjórnmálaókyrrð í landinu, þúsundir námsmanna og munka auk venjulegra borgara mótmæltu einræðisstjórninni á götum úti og kröfðust lýðræðis.

 

Í ræðu, sem Aung San Suu Kyi flutti í Rangoon, höfuðborg Búrma, 26. ágúst 1988 sagði hún: „Ég get ekki sem dóttir föður míns látið atburði líðandi stundar afskiptalausa.“ Þar með var teningunum kastað og síðan hefur hún verið í forystu þeirra, sem berjast á friðsamlegan hátt í anda Martins Luthers Kings og Mahatma Gandhis gegn einræðisherrunum. Frelsisandinn var kæfður af hernum 18. september 1988. Efnt var til þingkosninga í maí 1990. Lýðræðisflokkurinn undir forystu Aung San Suu Kyi vann góðan sigur, þótt hún væri sjálf í stofufangelsi og því ekki í framboði. Hershöfðingjarnir neituðu hins vegar að afsala sér völdum og halda þeim enn.

 

Aung San Suu Kyi hefur verið líkt við Nelson Mandela. Hún nýtur virðingar um heim allan fyrir óbugað þrek og einarða baráttu gegn grimmd og harðræði. Í fangavistinni hefur hún stundað hugleiðslu, lagt stund á frönsku og japönsku auk þess að leika verk eftir Bach á píanó. Á síðustu árum hefur henni verið leyft að ræða við valda menn úr forystu flokks hennar og auk þess einstaka erlenda stjórnarerindreka, þar á meðal Razali Ismail, fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, en BBC hefur eftir honum, að hún sé í hópi hinna merkustu og sterkustu einstaklinga, sem hann hafi hitt.

 

Afmælis Aung San Suu Kyi er minnst víða um heim í dag. Hún er sannkölluð hetja, sem dregur athygli að dapurlegum örlögum þegna einnar mestu harðstjórnar okkar tíma.

 

Sögur frá Búrma.

 

Nýlega las ég bókina: Secret Histories – Finding George Orwell in a Burmese Teashop en höfundur hennar er Emma Larkin  (dulnefni) og hefur heimsótt Búrma reglulega síðustu 10 ár.

 

Ég mæli með þessari bók við þá, sem hafa áhuga á að kynnast ástandinu í Búrma. Höfundur fetar í fótspor rithöfundarins George Orwells, sem bjó í Búrma á þriðja áratug síðustu aldar, þegar hann var ungur foringi í lögregluliði breska heimsveldisins. Fyrirvaralaust hélt hann frá Búrma til London og sagði sig úr lögreglunni og gerðist rithöfundur, fyrsta skáldsaga hans heitir Burmese Days – Dagar í Búrma  þar lýsir hann reynslu sinni í Austurlöndum fjær. Hann varð síðar heimsfrægur fyrir skáldsögurnar Animal Farm – Dýrabær (sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út 1985 í þýðingu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi) og 1984 -  Nitján hundrað áttatíu og fjögur (sem Hersteinn Pálsson og Thorolf Smith íslenskuðu og kom út 1951 – ári eftir andlát Orwells).

 

Emma Larkin segir, að þessar þrjár bækur lýsi þróun og stöðu mála í Búrma á undanförnum árum. Í Dögum í Búrma sé ástandinu lýst á dögum breska heimsveldisins. Skömmu eftir að Búrma hlaut sjálfstæði frá Bretum á árinu 1948 hafi herforingi einangrað þjóðina í því skyni að láta hana ganga „leið Búrma til sósíalisma“, en fyrir bragðið hafi þjóðin orðið ein sú alfátækasta í Asíu. Dýrabær sé allegoría um sósíalíska byltingu, sem þróist á þann veg, að svínin hrifsi völdin af mönnunum og leggi bæinn í rúst. Í Nítján hundruð áttatíu og fjögur sé dregin upp mynd af alræðisþjóðfélagi, þar sem borgararnir séu undir stöðugu eftirliti og allt miði að því að svipta þá sjálfstæðum vilja – alveg eins og gert sé í Búrma á okkar dögum, þar sem grimmustu einræðisherrar samtímans beiti valdi sínu af miskunnarleysi.

 

Í Búrma gengur sú kaldhæðnislega gamansaga manna á meðal, að Orwell hafi ekki ritað eina bók um Búrma, heldur þríleik Daga í Búrma, Dýrabæ og Nítján hundruð áttatíu og fjögur.

 

Emma Larkin fór fyrst til Búrma 1995 og lýsir þeim kynnum þannig:

 

„Þær þrjár vikur, sem ég var á ferðalagi í póstkorta-landslagi með lifandi mörkuðum, glitrandi hofum og hrörnandi breskum varðstöðvum, þótti mér erfitt að trúa því, að ég væri að ferðast um land, þar sem brot á mannréttindum eru eins og þau gerast verst í heimi. Í mínum huga er þetta undarlegast í Búrma: unnt er að fela kúgun allra, sem mynda 50 milljón manna þjóð. Þéttriðið, víðáttumikið net njósnadeildar hersins og uppljóstrara hennar tryggir, að enginn getur sagt eða gert neitt, sem kann að ógna ríkisvaldinu. Fjölmiðlar í Búrma – bækur, tímarit, kvikmyndir og tónlist – lúta strangri ritskoðun og áróður stjórnvalda birtist ekki aðeins í dagblöðum og sjónvarpi heldur einnig almennum skólum og háskólum. Þessar aðferðir til að stjórna allri framvindu líðandi stundar styðjast við ósýnilega en allt-umlykjandi ógn um pyndingar og fangelsanir.“

 

Undir lok bókar sinnar segir Emma Larkin:

 

„Hinn 30. maí 2003, þegar ég hafði nýlega farið frá Búrma, hvarf Aung San Suu Kyi. Skömmu eftir ljósaskipti þann dag var hún á ferð með um 200 félögum í Lýðræðisflokknum í bílum og á bifhjólum eftir kyrrlátum einbreiðum vegi í Norður-Búrma. Fjórir eða fimm flutningabílar voru rétt á eftir þeim. Ljósgeisli eins bílanna lýsti upp skikkjuklæddan munk, sem stóð á dimmum veginum. Munkurinn gekk að bílnum, þar sem Aung San Suu Kyi sat og bað hana að ávarpa nokkra þorpsbúa, sem hefðu komið saman í von um að hitta hana. Þegar einn lífvarða hennar steig út úr bílnum til að ræða við munkinn, stökk hópur manna með oddhvassar bambusstangir og járnrör á lofti út úr flutningabílunum, sem fylgdu bíla- og bifhjólalestinni. Þeir tóku til við að brjóta bílrúður, hrinda fólki af bifhjólum og lemja það. Félagarnir í Lýðræðisflokknum voru vopnlausir og gátu ekki varist. Fólk hrópaði á hjálp og blóð spýttist á veginn. Síðast sást til Aung San Suu Kyi sitjandi í bíl sínum. Afturrúðan hafði verið brotin og það var blóð á andliti hennar og skyrtujakka.“

 

Almennt er talið, að einræðisstjórnin hafi sett þetta atvik á svið til að geta sakfellt Aung San Suu Kyi  og félaga hennar úr Lýðræðisflokknum fyrir að stofna til vandræða í því skyni að grafa undan stjórn landsins. Eftir atvikið var sett í fangelsi en þremur mánuðum síðar var hún að nýju flutt heim til sín í Rangoon, í stofufangelsi.