13.6.2005

Tvær bækur – af skipulagsumræðum.

Bókafélagið Uglan hefur nýlega gefið út tvær athyglisverðar bækur – þær hafa að geyma greinar eftir þjóðkunna þátttakendur í umræðum líðandi stundar. Hér er annars vegar um að ræða bækurnar Frá mínum bæjardyrum séð eftir Jakob F. Ásgeirsson rihöfund og Fjölmiðlar 2004 eftir Ólaf Teit Guðnason blaðamann.

Áhugamenn um stjórnmál og fjölmiðla hafa vafalaust lesið margar þessara greina eða um þær á undanförnum árum og misserum. Ólafur Teitur ritaði greinar sínar í Viðskiptablaðið á síðasta ári, en þar gerir hann vikulega úttekt á störfum fjölmiðlamanna. Greinar Jakobs hafa birst í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu á árunum 1998 til 2004.

Spyrja má: Til hvers er verið að gefa svo nýlegar greinar út á bókum? Eru þær ekki lesendum í fersku minni? Er ekki unnt að nálgast þær á vefsíðum viðkomandi blaða?

 

Þótt ég hafi lesið meginhluta þessara greina áður og geti auðveldlega notað vefsíður til að afla mér upplýsinga eða glugga í efni, sem vekur áhuga minn, þykir mér verulegur fengur af þessum bókum. Þær eru vel úr garði gerðar sem ódýrar kiljur. Í bók Jakobs eru bæði atriðisorðaskrá og nafnaskrá og í bók Ólafs Teits er mannanafnaskrá. Bækurnar hafa að geyma viðhorf til málefna, sem borið hefur hátt á þeim tíma, sem greinarnar voru skráðar, og veita því leiðsögn um þjóðmálabaráttuna. Sjónarhorn höfundanna er skýrt og þeir fara ekki í launkofa með skoðanir sínar. (Mér finnst Ólafur Teitur eigi að gera meira af því að nafngreina þá frétta- eða blaðamenn, sem koma við hans sögu. Fjölmiðlar sjálfir persónubinda fréttir mun meira en áður og úttekt á fjölmiðlum ætti að endurspegla það.)

 

Í janúar 2004 ritar Jakob grein í Viðskiptablaðið undir fyrirsögninni: Þörfin fyrir frjálslynt tímarit. Hann segist lengi hafa undrast hversu deigir margir fjárafla- og athafnamenn séu þegar komi að því að verjast áróðri sem stefnt sé gegn markaðsbúskap og frjálslyndum öflum. Þó eigi þeir allt undir því að frelsi sé sem mest og að þeir starfi í velviljuðu umhverfi.

 

Jakobi finnst nauðsynlegt að gefa út vandað ársfjórðungsrit um þjóðmál og menningu vegna þeirrar einsleitni, sem einkennir umræður um þessi mál, alltaf sé eins og sama fólkið sé að tala saman. Ég tek undir með Jakobi, að hópurinn virðist þröngur. Mátti heyra nokkra úr honum ræða saman í vikulokaþætti Þorfinns Ómarssonar á rás 1 í gær (11. júní) og var það niðurstaða eins, sem þar var, að hópurinn hefði áreiðanlega áhuga á að setjast að í fámennri, vistvænni byggð í Viðey!

 

Grein sinni um tímaritið lýkur Jakob á þessum orðum:

 

„Vandað, snöfurmannlega ritað og skemmtilegt ársfjórðungsrit um þjóðmál og menningu, með væna hægri slagsíðu, væri þarft mótvægi við ofríki póstmódernistanna í íslenskri menningarumræðu nú um stundir og viðnám gegn hinni hvimleiðu vinstri slagsíðu sem löngum hefur einkennt íslenska fjölmiðlaumræðu.“

 

Víst er, að það yrði til að auka fjölbreytni, ef slíkt tímarit sæi dagsins ljós og vissulega verðugt fyrir frjáslynda menn að setja sér útgáfu þess sem markmið.

 

Ólafur Teitur Guðnason ræðir um slagsíðuna á íslenskum fjölmiðlum í bók sinni. Ég veit ekki, hvort réttmætt er að kenna hana við vinstrimennsku eða einfaldlega almenna viðleitni til að draga taum eins hóps, fyrirtækis eða flokks á kostnað annars. Ólafur Teitur rökstyður skoðun sínan jafnan með skýrum dæmum og hann leitar fanga víðar en í íslenskum fjölmiðlum og ræðir jafnt um innlend málefni sem erlend.

 

Margt af því, sem hann tíundar um efnistök fjölmiðlanna, er þess eðlis, að með ólíkindum er, að ekki skuli gripið til skipulegra og opinberra aðgerða af hálfu viðkomandi miðla til að rétta hlut sinn til að efla traust lesenda sinna, áheyrenda eða áhorfenda.

 

Gunnar Smári Egilsson er sá úr hópi fjölmiðlamanna, sem Ólafur Teitur nefnir oftast til sögunnar, ef marka má mannanafnaskrá. Gunnar Smári stjórnar nú 365-miðlum (þ. e. Baugsmiðlunum) en hann fór til þeirra starfa úr ritstjórastóli á Fréttablaðinu.

 

Fyrir forsetakosningarnar síðasta sumar stillti ritstjórinn Gunnar Smári upp nákvæmum mælistikum um það, hvaða úrslit gætu talist viðunandi fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Úrslit kosninganna voru á þann veg, að Ólafur Ragnar náði hvergi máli  Gunnars Smára og var langt frá því.  Eftir kosningarnar fullyrti Gunnar Smári hins vegar þvert ofan í eigin orð fyrir kosningar, að úrslitin væru sigur fyrir Ólaf Ragnar. Hann hafði þó fellt hverja einustu mælistiku ritstjórans – og reyndar kolfellt þær flestar. Finnst Ólafi Teiti einkennilegt, að engum fréttamanni hafi þótt fréttnæmt að kosningum loknum, að benda á þetta gönuhlaup ritstjórans.

 

Þá segir Ólafur Teitur á eftirminnilegan hátt frá samskiptum sínum við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, stjörnublaðamann Fréttablaðsins. Ályktun hans af þeim samskiptum er : „að á Fréttablaðið vanti röggsaman húsvörð til þess að kenna þeim sem þar starfa, að vaða ekki um allt á skítugum skónum.“ Þetta var áður en Kári Jónasson tók við ritstjórn af Gunnari Smára.

 

Í bók Ólafs Teits er viðauki um Michael Moore, vinstrisinnaðan áróðursmann og kvikmyndagerðarmann í Bandaríkjunum. Síðasta úttektin á íslenskum fjölmiðlum er dagsett 7. janúar 2005 og snýst um innlendan fréttaannál sjónvarps ríkisins fyrir árið 2004. Með dæmum um efnistök í annálnum dregur Ólafur Teitur þessa ályktun: „Fréttaannáll Sjónvarpsins var til háborinnar skammar, en því miður gaf hann ágæta mynd af algengum vinnubrögðum fréttamanna á nýliðnu ári.“ Þetta er harður dómur, sm ekki hefur verið hnekkt. Hefur hann bætt fjölmiðlana? Það sjáum við væntanlega í Fjölmiðlum  2005.

 

Af skipulagsumræðum.

 

Þriðjudaginn  7. júní voru umræður í borgarstjórn Reykjavíkur um skipulagshugmyndir okkar sjálfstæðismanna, sem hafa vakið mikla athygli. Af fundinum mátti ráða, að við höfum náð frumkvæði í skipulagsumræðum innan borgarstjórnar.

 

Við blasir, að R-listinn er að búa sig undir að 25 til 30 þúsund manna byggð verði í suðurhlíðum Úlfarsfells – en talið er, að Reykvíkingum muni fjölga um þetta á næstu 30 árum eða svo. Við viljum hins vegar halda okkur við Sundin og eyjarnar og stíga fyrsta skrefið fljótt og skipulega með byggð í Geldingarnesi og halda síðan vestur á bóginn með jarðfyllingum.

 

Ætla hefði mátt, að R-listafólkið í borgarstjórn mundi standa sameinað að því að verja stefnu sína um byggðina við Úlfarsfell og tíunda kosti hennar. Það gerðist hins vegar ekki, þvert á móti fór Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs, undan í flæmingi, þegar leitað var skýringa hjá honum á því, hvernig ætti að leysa umferðarmál vegna Úlfarsfellsbyggðarinnar – það er ekki einu sinni komið á hreint.

 

Stefán Jón Hafstein, forseti borgarstjórnar, flutti langa ræðu um skipulagsmálin og var kjarni hennar sá, að beina ætti athygli að tengingu við Álftanes og leggja hraðbraut til Keflavíkur til að vandræðalaust yrði að leggja niður Reykjavíkurflugvöll. Sló Morgunblaðið þessu upp eins og um meiriháttar nýmæli væri að ræða og hefði mátt ætla, að R-listinn allur stæði að þessari Álftanestillögu. Stefán Jón varð hins vegar að gefa yfirlýsingu um, að þetta væri einkahugmynd sín en ekki R-listans. Það gefur því alranga mynd að leggja einkahugmynd Stefáns Jóns að jöfnu við hugmynd okkar borgarfulltrúa sjálfstæðismanna. Svo virðist sem Stefán Jón vilji bæði skáka Degi B. Eggertssyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra með tillögu sinni og þeirri athygli sem hún fær, um leið og hann lýsir yfir því, að hann sækist eftir að verða næsta borgarstjóraefni R-listans.

 

Það er í góðu samræmi við lýsingar í bók Ólafs Teits á vettlingatökum fjölmiðla á R-listanum, að þeir trúi því sem nýju neti en taki ekki sem leikfléttu í valdabaráttu, að Stefán Jón flutti ræðu um skipulagsmálin. Sú spurning gerist áleitin, hvort tilboð R-listans til Háskólans í Reykjavík er ekki einmitt ein af þessum leikfléttum í valdabaráttu innan hans, en þennan leik eigi Dagur B. Eggertsson, án þess að hafa rætt um umhverfismálin við þá, sem þeim ráða. Það vakti sérstaka athygli, að Morgunblaðið rauk upp til handa og fóta við umhverfisrgagnrýni í Garðabæ vegna nýbygginga í Urriðaholti á sama tíma og blaðið hefur lagt blessun sína yfir aðför að umhverfinu milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar.

 

Gísli Marteinn Baldursson vakti athygli á því í borgarstjórn, að með grein Stefáns Jóns um skipulagsmál í Fréttablaðinu var kort, sem sýndi Sundabraut án hábrúar yfir Elliðavoginn, en Stefán Jón hefur til þessa rætt háfleygum orðum um gildi hábrúarinnar. Ég hef ekki orðið var við, að neinn fjölmiðill spyrði Stefán Jón, hvers vegna hann væri hættur stuðningi við hábrúna.

 

Ástæða er einnig til að undrast, að enginn fjölmiðill skuli hafa vakið máls á því, hvernig Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, gengur fram í skipulags- og umhverfismálum um þessar mundir. Hann flytur hverja tillöguna eftir aðra um friðun húsa við Laugaveg. Hann hefur skipt götunni í parta og undirbýr tillögur um einn og einn part á milli funda í borgarstjórn. Með þessu veldur hann miklum pirringi meðal R-listans.

 

Ólafur F. telur hins vegar ástæðulaust að taka mið af umhverfinu og vernd þess, þegar rætt er um svæðið milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur. Hann vill ekki einu sinni umhverfismat, af því að það gæti tekið svo langan tíma!

 

Ólafur F. svarar hugmyndum okkar sjálfstæðismanna um Eyjabyggð með því að leggja til að höfuðborgarsvæðið verði eitt sveitarfélag – hann vill með öðrum orðum leggja Reykjavík niður sem sjálfstætt sveitarfélag til að forðast umræður um nýjar hugmyndir í skipulagsmálum!