16.4.2005

Hreintungustefna - sala Símans - Samfylkingarátök.

Að morgni fimmtudagsins 14. apríl var ég við upphaf ráðstefnu í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Þar flutti David Crystal, prófessor frá Bretlandi, aðalræðuna og vakti hún mig til umhugsunar um málstefnu og markmið hennar. Í Morgunblaðinu í dag, laugardaginn 16. apríl er málstað Crystals harðlega mótmælt og ég heyrði einnig á ýmsum þátttakendum í ráðstefnunni, að þeim þótti nóg um og Crystal sjálfur vék að því, að með skoðunum sínum um hreintungumönnum og tökuorðum væri hann líklega réttdræpur að margra mati, sem á hann hlýddu. Hvað sem skoðunum Crystals líður skýrði hann þær og flutti á frábæran og eftirminnilegan hátt.

Sjáum hvað Morgunblaðið segir um málið:

„David Crystal, enskur prófessor og sérfræðingur í tungumálum, flutti fyrirlestur á ráðstefnu sem haldin var í gær og fyrradag til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur á 75 ára afmæli hennar og sagði m.a.:

„Hreintungusinnar eru verstu óvinir lítilla tungumála. Það er leitt að þurfa að segja það vegna þess að þetta fólk trúir því að það sé að gera sitt bezta fyrir tungumálið. Þeir hafa bara rangt fyrir sér. Mín skoðun er sú, að lítil tungumál þurfi á að halda vinveittu viðhorfi frá öllum sem vettlingi geta valdið. Hreintungusinnar hjálpa ekki litlum tungumálum að lifa af, þvert á móti."

Er þetta rétt?

 

Nei.

 

Fyrir hundrað árum var íslenzkan orðin mjög dönskuskotin, sérstaklega í Reykjavík og í þéttbýli víðar um landið.

 

Meirihluta 20. aldarinnar var unnið skipulega að því að hreinsa tungumálið, fyrst af dönskuslettum og síðar af enskuslettum. Á síðustu áratugum hefur merkilegt starf verið unnið við nýyrðasmíð. Íslenzk orð hafa verið búin til og svo vel tekizt að þau hafa rutt til hliðar enskuslettum og öðrum slettum. Orð eins og þota, tölva og veira sýna hvað þetta hefur heppnazt vel. Enn er í minnum höfð stórkostleg grein eftir Vilmund Jónsson landlækni, Vörn fyrir veiru, sem birtist í Frjálsri þjóð upp úr miðri síðustu öld. Skipuleg barátta í skólum landsins hefur skilað miklum árangri.

 

Þeir sem starfa við dagblöð finna glöggt hvað lesendur gera miklar kröfur. Lesendur Morgunblaðsins gera mjög miklar kröfur til blaðsins í þessum efnum. Notendur mbl.is, netútgáfu blaðsins, gera sömuleiðis mjög miklar kröfur. Alvarlegar málvillur í texta eru alvarlegt áfall fyrir Morgunblaðið.

Íbúar annarra Norðurlanda hafa stundum orð á því að íslenzkt þjóðfélag hafi orðið fyrir miklum bandarískum áhrifum. Ekki þarf miklar rannsóknir til þess að sjá að sum norræn tungumál, ekki sízt danskan, taka upp svo mikið af enskum og amerískum tökuorðum að það verður að teljast Dönum til skammar.

 

David Crystal hefur rangt fyrir sér. Reynsla okkar Íslendinga af hreintungustefnunni er góð. Hún hefur hjálpað okkur að verja tungu okkar og menningu fyrir holskeflum erlendra menningaráhrifa. Til eru þeir sem vilja slaka á þessum kröfum. Vonandi hafa þeir ekki erindi sem erfiði þótt höfundar orðabókarinnar nýju hafi óneitanlega gengið í lið með þeim.

 

Lítil tungumál þurfa á hreintungustefnunni að halda eigi þau að lifa af.

 

Megi hreintungustefnan lifa góðu lífi.“

 

Ég er sammála þeirri skoðun Morgunblaðsins að reynsla okkar Íslendinga af hreintungustefnunni og baráttunni gegn tökuorðum er góð og ég hef hvatt til þess, að ekki verði horfið frá þeirri stefnu. Við eigum tungumál, sem hefur verið notað sem lifandi tæki í meira en 1100 ár, við getum flett upp í gömlum bókum og skilið það, sem þar stendur.  David Crystal er hins vegar að ræða málið út frá öðrum sjónarhóli en okkar. Honum er að sjálfsögðu ljóst, að staða íslenskunnar er allt önnur en enskunnar að þessu leyti - hann er ekki að tala um engilsaxnesku - Englendingar skilja ekki bækur frá þeim tíma, þegar hún var tunga þeirra, sem bjuggu í Englandi.

 

Dæmið, sem David Crystal nefndi um welskuna, endurreisn hennar og síðan baráttuna fyrir því, að hún sé lifandi tungumál lýtur að allt öðru en stöðu íslenskunnar. Crystal sagði, að ekki væri nóg að taka ákvörðun um gildi tungumáls gagnvart öðrum tungumálum og tryggja ytri varnir þess með lögum eða samþykktum, heldur yrði að gæta þess að það þróaðist sem lifandi tæki - ef menn væru með of miklar kröfur um hreinleika og settu of strangt bann við tökuorðum, kynnu þeir að kæfa tungumálið í fæðingu, þótt ytri umgjörð þess væri tryggð. Þetta þótti mér kjarni málsins hjá Crystal -  þessi kenning hans er ekki algild fyrir öll tungumál. Hann sagði, að enska væri 80% byggð á tökuorðum - hún væri með mismunandi svip í einstökum löndum  og menn yrðu að laga sig að því. Hreintungumenn ættu ekki að reyna að breyta því né heldur að berjast gegn tökuorðum. Ég ætla ekki að dæma um enskuna - en öll tungumál eiga sinn rétt - og íslenskunni hefur verið vel borgið með kröfu um hreinleika.

 

Sala Símans.

 

Það hefur hlaupið mikið kapp í umræður um sölu Símans, eftir að Agnes Bragadóttir birti Viðhorfsgrein um málið í Morgunblaðinu mánudaginn 11. apríl. Þar gagnrýndi Agnes alþingi og stjórnmálamenn, eins og svo oft er gert, þegar mönnum þykir nóg komið. Hún komst meðal svo að orði:

 

„Hið litlausa leikhús við Austurvöll, öðru nafni, Alþingi Íslendinga, hefur verið fjarri því að hrífa mig eða heilla, með skorti sínum á hugsjónum, sannfæringarkrafti, andagift, réttlætiskennd, taumlausum undirlægjuhætti og þjónkunarvilja, í þágu fárra útvaldra, á kostnað okkar hinna.“

 

Þetta eru stór orð og endurspegla líklega sjónarmið þeirra, sem telja, að framfarir í þjóðlífinu eigi sér uppruna annars staðar en í þeim ákvörðunum, sem teknar eru með lagasetningu á alþingi. Hitt er hins vegar staðreynd og auðvelt er að rökstyðja, að ákvarðanir okkar stjórnmálamanna frá því snemma á síðasta áratug, hafa leyst meira framtak úr læðingi í íslensku fjármála- og viðskiptalífi en nokkurn gat grunað.

 

Ef litið er á efnahagslegar framfarir hér á landi undanfarin ár í samanburði við það, sem hefur til dæmis verið að gerast í aðildarríkjum Evrópusambandsins, er munurinn mikill og hann heldur áfram að vaxa okkur í vil. Á alla alþjóðlega efnahagslega kvarða er íslenska þjóðin að sækja fram. Í stað þess að ríkisvaldið sé að hlutast til um stjórn á verðlagi og bönkum eða reikna út, hvernig unnt sé að halda útgerð og fiskvinnslu réttu megin við núllið er nú treyst meira en áður á rétt einstaklinga og fyrirtækja þeirra til að ráða málum sínum sjálfir innan lögbundinna marka.

 

Allt frá því ríkið hóf að einkvæða eignir sínar hafa ákvarðanir um það efni sætt mikilli gagnrýni og þau sjónarmið hafa alltaf komið fram, að gera hefði hlutina einhvern veginn öðru vísi. Þetta er mjög eðlilegt, þegar um mikla hagsmuni er að ræða. Ríkisendurskoðun, sem er hinn óhlutdrægi aðili, sem sérhæfir sig í eftirliti með því, að vel sé farið með opinbera fjármuni og eignir, hefur gefið út skýrslur um einkavæðingu fyrri tíma og athuganir á því öllu eru aðgengilegar.

 

Ég vona, að Agnes og félagar hennar hafi erindi sem erfiði í baráttu sinni fyrir því, að almenningur eignist sem stærstan hlut í Símanum og fagna áræði hennar og dugnaði. Mér finnst hins vegar ástæðulaust að gera alþingi að þeim blóraböggli, sem hún gerir í grein sinni. Alþingi hefur ekki lagt neinn stein í götu hennar og félaga hennar til að vinna að markmiðum sínum, þvert á móti geta þau unnið að þessu hugðarefni sínu innan ramma laga og þeirra reglna, sem gilda um sölu Símans.

 

David Crystal sagði frá því í fyrrnefndu erindi sínu, að það, sem erlendir menn teldu welskri tungu til framdráttar og hlyti að styrkja, vekti miklar deilur heima fyrir, því að hreintungumenn hefðu sagt, að ákveðinn texti sýndi, að höfundar hans hefðu engin tök á tungumálinu. Hið sama má segja um þróun íslensks efnahags- og viðskiptalífs - hún vekur aðdáun þeirra, sem horfa á hana úr fjarlægð og leggja hlutlægt mat á árangur ríkisstjórna og þjóða - en af lestri þess, sem sagt er heima fyrir, mætti halda, að allt sé í kalda koli og ekkert markvert að gerast.

 

Samfylkingarstríð.

 

Hinn ágæti rithöfundur Guðmundur Andri Thorsson birtir grein í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni: Björn Bjarnason styður Össur. Guðmundur Andri er meðal fastra dálkahöfunda Fréttablaðsins en um þá sagði annar ágætur rithöfundur Jakob F. Ásgeirsson í Viðskiptablaðinu 1. apríl:

 

„Sjáðu til dæmis Fréttablaðið, sem borið er ókeypis heim til allra. Þar er ekki einn einasti dálkahöfundur sem skrifar í samræmi við skoðanir þessara 50% landsmanna [sé tekið mið af fylgi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk]. Ekki einn einasti. Þó hafa þeir í það minnsta fjórtan fasta dálkahöfunda, tvo á dag. Þetta endurspeglar náttúrlega ekki hvað fólk er almennt að hugsa. Það endurspeglar sjálfsagt vel hvað einhverjar kjaftastéttir eru að hugsa en ekki almenningur; venjulegt fólk sem sinnir sinni vinnu, fjölskyldu sinni og dundar í garðinum sínum. Ég tel að það fólk margt myndi líta á sjónarmiðin sem fram koma í þessari bók með velþóknun.“

 

Í þessari grein í Morgunblaðinu í dag lýsir Guðmundur Andri stuðningi við Ingibjörgu Sólrúnu í baráttunni innan Samfylkingarinnar og telur mig vera að styðja Össur vegna þess, að við séum saman í Þingvallanefnd! Ég hef hvergi lýst yfir stuðningi við Össur og ætla ekki að blanda mér á neinn hátt í Samfylkingarátökin. Mér finnst hins vegar athyglisvert, að nú séu menn þar á bæ farnir að velta því fyrir sér, hvort svo kunni komið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, að enginn meðal annarra flokka manna vilji vinna með henni. Ég veit ekki um það, en eitt er víst, að hún talar þannig um okkur sjálfstæðismenn, að við séum óalandi og óferjandi, hún hefur sagt, að Framsóknarflokkurinn sé „ömurlegur flokkur“ og vill helst binda enda á sögu hans, hún gekk að Kvennalistanum dauðum - vinstri/grænir treystu henni ekki til að leiða samstarf R-listans og töldu hana svíkja málstað listans.

 

Vefsíða mín snýst um strauma í stjórnmálum og það er dálítið skrýtið að láta Samfylkingarátökin fram hjá sér fara. Átökin eru auðvitað mál Samfylkingarinnar – en á hinn bóginn er mjög eðlilegt í ljósi þess, sem ég hef skrifað um R-listann og Ingibjörgu Sólrúnu, að ég vitni t.d. í mann eins og Pál Baldvin Baldvinsson, þegar hann skrifar á þann veg um borgarstjóratíð hennar, sem sjá má í síðasta pistli mínum – það er í raun upp yfir átök innan Samfylkingarinnar hafið. Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki varhluta af skoðunum annarra flokka manna, þegar tekist er á um menn og málefni innan hans. Ég hef aldrei fundið að slíkum umræðum og mér er sama um þær – á hinn bóginn er ljóst, að ég er ekki að taka afstöðu með eða á móti neinum í þessum átökum innan Samfylkingarinnar, þótt viðhorf mitt til Ingibjargar Sólrúnar og starfa hennar í borgarstjórn eða stjórnmálum hafi ekki breyst og ég árétti það.