2.4.2005

Wolfowitz ráðinn - fréttastjóramálið - aðhald.

Paul Wolfowitz hefur verið ráðinn bankastjóri Alþjóðabankans að tillögu George W. Bush Bandaríkjaforseta. Þegar tillagan um hann var kynnt, varð nokkur hvellur og látið var í veðri vaka, að hún mundi ekki ná fram að ganga. Ef Evrópusambandsríkin hefðu ákveðið að beita neitunarvaldi innan ráðs bankans, hefðu þau getað komið í veg fyrir ráðningu Wolfowitz. Hann fór til fundar í Brussel nú í vikunni og ræddi við ráðherra og embættismenn (ESB-ríkja) og eftir þær viðræður var ráðningin staðfest í ráði bankans.

Að forseti Bandaríkjanna skuli gera tillögu um jafnáhrifamikinn og öflugan mann og Wolfowitz í þetta embætti sýnir, að Bandaríkjastjórn er mikið í mun, að Alþjóðabankinn sé sterk stofnun. Undanfarin ár hefur Wolfowitz verið aðstoðar-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og hann er meðal hugmyndafræðinganna á bakvið þá stefnu, sem fylgt hefur verið eftir árásina 11. september 2001, að ekki beri aðeins að ráðast gegn hryðjuverkamönnum heldur einnig þeim ríkjum, sem veita þeim skjól. Í krafti þeirrar stefnu var ráðist bæði á Afganistan og Írak, en í báðum ríkjum hefur nú verið efnt til lýðræðislegra kosninga, eftir að einræðisstjórnum hefur verið velt úr sessi.

Ég kynntist Wolfowitz fyrir um það bil 30 árum, þegar hann var virkur þátttakandi í umræðum um öryggismál í Evrópu og á Norður-Atlantshafi. Það var Johan Jörgen Holst, sem nú er látinn, en hann varð síðar varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Noregs, sem bauð mér þátttöku í ráðstefnum um þessi mál og að skrifa greinar um öryggismál Íslands í ritgerðabækur undir sinni ritstjórn.

Á þessum árum var Henry (Scoop) Jackson, öldungadeildarþingmaður demókrata frá Washington-ríki, áhrifamikill á Bandaríkjaþingi en hann skapaði sér sérstöðu með gagnrýnni stefnu á friðkaup við Sovétstjórnina og að tillögu hans voru sett lög í Bandaríkjunum, sem settu bestu-kjara-viðskiptasamningum við ríki, þar með Sovétríkin, þau skilyrði, að þau virtu rétt borgaranna sinna til að flytja úr landi. Sovétstjórnin hafði bannað brottför milljóna manna, sem vildu yfirgefa Sovétríkin, en Jackson-lögin opnuðu þeim leið. Henry Kissinger og mörgum Evrópumönnum þóttu þetta óheyrilegar kröfur, sem mundu spilla áformum um að skapa góðan anda í samskiptum risaveldanna. Sagan hefur hins vegar sýnt, að þær skiluðu árangri, skiptu andófsmenn miklu og veiktu innviði Sovétríkjanna.

Paul Wolfowitz var í hópi menntamanna meðal demókrata, sem studdu málstað Jacksons, en þessi hópur snerist síðan til stuðnings við repúblíkana og er gjarnan þekktur undir enska heitinu neo-conservatives.

Andstæðingar þessa áhrifamikla hóps hafa reynt að gera nafngiftina að skammaryrði, en það hefur síður en svo dregið kjark úr þeim félögum eða áhrifum þeirra.

 

Skipun Wolfowitz verður Alþjóðabankanum til framdráttar og aðdragandi málsins hefur minnkað þá gjá, sem myndaðist milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Evrópu vegna innrásarinnar í Írak.

 

Fréttastjóramálið.

 

Mér var hugsað til þess, þegar ég sat í þingsalnum fyrir og eftir hádegi föstudaginn 1. apríl og hlustaði á umræður um störf þingsins og fundarstjórn forseta, sem snerust um ráðningu nýs fréttastjóra hjá hljóðvarpi ríkisins, að ekki þyrfti miklar rannsóknir til að átta sig á því, hvers vegna virðing alþingis væri ekki meiri meðal þjóðarinnar.

 

Engir tala eins niðrandi um þingið eða störf  þess og þingmenn sjálfir, auk þess sem málstaðurinn vekur oft annað en virðingu hjá hlustandanum.  Ástæðan fyrir því, að ég sat undir þessum upphrópunum um aðför að lýðræði og frelsi og yfirlýsingum um, að við værum ekki með betra stjórnarfar hér en hjá Mugabe í Zimbabwe, vegna ráðningar á millistjórnanda hjá RÚV (!), var sú, að á dagskrá var, að ég mælti fyrir þremur meinlitlum lagafrumvörpum og átti umræða um hið fyrsta þeirra að hefjast klukkan 10.30.

 

Ég hélt, að umræður um fréttastjórann væru að lognast út af eftir um hálftíma, en þá hljóp nýr kraftur í þær, þegar fjöldi starfsmanna RÚV kom í þinghúsið, fór upp á þingpalla og afhenti forseta þingsins „ákall“ - gerðu nokkrir þingmenn síðar tilraunir til að lesa þetta ákall úr ræðustól þingsins, en forsetar þau Guðmundur Árni Stefánsson og Jóhanna Sigurðardóttir bönnuðu þann lestur með vísan til þingskapa.

 

Um hádegisbil barst sá orðrómur til þingmanna, að Auðun Georg Ólafsson, hinn nýi fréttastjóri, myndi í samtali við fréttamann í hádegisfréttum hljóðvarpsins sanna, að hann væri ekki starfi sínu vaxinn. Síðar þennan sama dag var ég í þættinum Allt og sumt á Talstöðinni , sem þau Hallgrímur Thorsteinsson og Helga Vala Helgadóttir annast. Þar bar fréttastjóramálið á góma og sagði Hallgrímur þá, að hann vissi um, að kafli hefði verið klipptur úr viðtalinu við Auðun.

 

Ég man ekki eftir því áður, að hafa heyrt í þinginu sagt frá því, sem í vændum væri í samtali við einhvern í fréttatíma hljóðvarpsins, og það yrði viðkomandi ekki til framdráttar. Hinu man ég ekki heldur eftir, að hafa heyrt sagt frá því í þætti annarrar útvarpsstöðvar, að fréttamenn annarrar stöðvar hefðu ákveðið að klippa eitthvað úr viðtali og jafnframt lægi í orðunum, að hið brottklippta efni kæmi viðkomandi illa, ef birtist.

 

Mér þótti Auðun einkar klaufalegur í þessu fréttaviðtali. Ingimar Karl Helgason fréttamaður var aðgangsharðari en venjulegt er og dró ekki af sér við að sýna vandræði Auðuns. Í yfirlýsingu frá því rétt fyrir kvöldfréttir 1. apríl um, að hann taki ekki að sér fréttastjórastarfið, segir Auðun, að „með lævíslegum hætti“ hafi Ingimar Karl reynt að koma sér í vandræði, fréttamaðurinn hafi ekki verið hlutlaus heldur málsaðili.

 

Þegar ég heyrði þessa yfirlýsingu Auðuns og leiddi hugann að því, hvernig ég frétti af því fyrr um daginn, að hann yrði í viðtali í hádegisfréttatíma hljóðvarpsins og hluti þess væri óbirtur, var mér hugsað til orða Þórhalls Jósepssonar, fréttamanns hljóðvarpsins, í Kastljósi fimmtudagskvöldið 31. mars, þar sem hann boðaði, að fréttamenn mundu ekki una ráðningu Auðuns og grípa til ráðstafana í samræmi við það, hann líkti fyrirhuguðum aðgerðum við baráttu Gandhis, hvorki meira né minna, sem hefði brotið breska heimsveldið á bak aftur á friðsamlegan hátt.

 

Enginn dregur í efa, að ráðning Auðuns Georgs í þetta starf var lögmæt og rétt að henni staðið. Fréttamönnunum þótti hins vegar fram hjá sér, þekkingu sinni og reynslu gengið og beittu einfaldlega aðstöðu sinni sem starfsmenn RÚV til að brjóta ákvörðunina á bak aftur. Af þessu tilefni segir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, í samtali við Morgunblaðið hinn 2. apríl, þegar hann er spurður um það, hvort honum finnist orðstír RÚV hafa beðið hnekki:

 

„Já, ég get ekki neitað því að mér finnst það. Sérstaklega fréttastofa Útvarpsins. Ég væri ekki heiðarlegur ef ég segði annað. Mér finnst allt þetta mál fyrir neðan virðingu manna sem ætlast er til þess að þeir séu teknir alvarlega. Þetta er eins og grófasta gerð af einelti sem maður hefur orðið vitni að síðustu dagana.“

 

Í sama tölublaði Morgunblaðsins er þetta haft eftir Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra, þegar hann er spurður um það, hvort traust fréttastofunnar og RÚV hafi beðið hnekki í þessari atburðarás:

 

„Ég fullyrði ekkert um það. Ég hef tekið eftir því, eins og aðrir sem hafa hlustað á útvarpið undanfarnar vikurnar og komið að máli við mig, að mönnum finnst afskaplega langt gengið í umfjöllun um þessi hagsmunamál fréttastofunnar út frá hennar sjónarhorni í fréttum sem hún ber ábyrgð á og í fréttaskýringaþáttum og ýmsum öðrum dagskrárþáttum sem eru að fjalla um málefni líðandi stundar. Það má segja að hver einasti mögulegi þáttur og hvert horn í dagskránni hafi með einum eða öðrum hætti tengst á einhverjum tíma umfjöllun um þessi mál. Ég get ekki metið hér og nú hvað þetta sem slíkt hefur að gera með mat almennings á trúverðugleika fréttastofunnar.“

 

Fyrir okkur almenna hlustendur RÚV skiptir þetta, sem formaður útvarpsráðs og útvarpsstjóri nefna, höfuðmáli, það er getum við treyst því, að ekki sé verið að misnota þennan miðil í þágu einhvers málstaðar, jafnvel þótt hann snerti hagsmuni starfsmanna. Mér er minnisstætt eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum, þegar skotið var inn aukasetningu í einhverja ályktun hans um að selja ætti rás 2, mátti ætla af frásögnum RÚV, að fundurinn hefði snúist um þetta eina mál, svo mikið var lagt á sig til að snúast gegn ályktuninni.  Er eðlilegt, að öllum kröfum um óhlutdrægni sé hafnað, ef starfsmönnum er eitthvað mál sérstaklega kært?

 

Hafi þingmönnum tekist að tala virðingu alþingis niður meðal þjóðarinnar er ekki nokkur vafi á því, að starfsmenn RÚV hafa lagt sig alla fram um að gera slíkt hið sama um eigin stofnun undanfarna daga og vikur.  Hvers eiga hlustendur að gjalda að vera dregnir inn í átök af þessum toga? Hvaða tilgangi þjónar að bera innri starfsmannamál á torg á þennan hátt? Vantraust á útvarpsstjóra og ákall til alþingis - er þetta ekki einum of mikið af hinu góða?  Áætlanir starfsmanna um að hefna sín á rétt-ráðnum fréttastjóra - eru þær til að hreykja sér af? Allt er þetta gert í skjóli þess, að beitt hafi verið pólitísku valdi. Hvernig er unnt að beita annars konar valdi, þegar allt um þrýtur innan ríkisstofnunar?

 

Aðhald.

 

Á tímum flokksblaðanna veittu þau hvert öðru mikið aðhald og störf blaðamanna voru undir smásjá, þegar tekist var á þeirra á milli um það, sem var sagt og skrifað. Nú veita fjölmiðlar ekki lengur hver öðrum neitt aðhald, það er miklu frekar, að meðal þeirra ríki sterkara samtryggingakerfi en nokkru sinni getur myndast meðal stjórnmálmanna., Deilt er um áhorf og lesendatölur en efnislegt aðhald er úr sögunni. Morgunblaðið fjallar í forystugrein 2. apríl um fréttastjóramálið  og trúverðugleika fréttastofu hljóðvarpsins, án þess að minnast einu orði á aðferðir fréttamanna og starfsmanna RÚV.  Fréttablaðið segir í leiðara 1. apríl, að ábyrgðin á framgöngu starfsmanna RÚV hvíli á Sjálfstæðisflokknum!

 

Hér skortir margt til að opinberar umræður um fjölmiðla séu í senn upplýsandi og sanngjarnar, til dæmis öfluga fræðimenn til að veita fjölmiðlum trúverðugt aðhald á opinberum vettvangi. Rökstudd gagnrýni Ólafs Teits Guðnasonar í Viðskiptablaðinu á efnistök fjölmiðla er um þessar mundir besta framlagið til gagnrýnnar umræðu um íslenska fjölmiðla. Hér skortir fræðilega kvarða til að mæla hlutdrægni eða skoðanahalla í fréttum og frásögnum fjölmiðla. Örlög fjölmiðlafrumvarpsins síðastlið sumar eru hróplegt dæmi um vanþroska til að takast á við brýn úrlausnarefni vegna starfsumhverfis fjölmiðla. 

 

Í Viðskiptablaðinu föstudaginn 1. apríl birtist viðtal við Jakob F. Ásgeirsson í tilefnu af útkomu greinasafns hans, Frá mínum bæjardyrum séð. Jakob segir, að í bók sinni sé að finna sjónarmið, sem ætla megi að fast að helmingur þjóðarinnar geti tekið undir, sé tekið mið af fylgi stjórnmálaflokka, en í hinu vinstrisinnaða fjölmiðlaumhverfi okkar séu þau oft útmáluð sem einhvers konar öfga-hægrisjónarmið. Jakob bætir við:

 

„Sjáðu til dæmis Fréttablaðið, sem borið er ókeypis heim til allra. Þar er ekki einn einasti dálkahöfundur sem skrifar í samræmi við skoðanir þessara 50% landsmanna. Ekki einn einasti. Þó hafa þeir í það minnsta fjórtan fasta dálkahöfunda, tvo á dag. Þetta endurspeglar náttúrlega ekki hvað fólk er almennt að hugsa. Það endurspeglar sjálfsagt vel hvað einhverjar kjaftastéttir eru að hugsa en ekki almenningur; venjulegt fólk sem sinnir sinni vinnu, fjölskyldu sinni og dundar í garðinum sínum. Ég tel að það fólk margt myndi líta á sjónarmiðin sem fram koma í þessari bók með velþóknun.“

 

Í upphafi sagði ég frá því að Paul Wolfowitz hefði verið ráðinn til Alþjóðabankans og ég teldi víst, að hann mundi stjórna honum vel, þótt hann hefði verið útmálaður sem einhvers konar öfga-hægrimaður. Innan Alþjóðabankans og milli þjóða tókst mönnum að ná samkomulagi og í breytingunum felst nýtt tækifæri með nýjum öflugum stjórnanda, þótt umdeildur sé en kannski einmitt vegna þess. Ef við setjum seglin aðeins upp í logni, hreyfist skútan lítið.

 

 ps. Eftir að ég hafði sett þetta á vefsíðu mína og sent á póstlista minn eða í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 2. apríl var af hálfu fréttastofunnar rætt við Þórólf Þórlindsson, prófessor í félagsfræði við HÍ, og var viðtalið kynnt á þann veg, að prófessorinn teldi fréttastofuna hafa staðið „faglega“ að málum. Þar sem mér finnst þetta staðfesta þá skoðun mína, að allt fræðilegt aðhald skorti hér að fjölmiðlum birti ég fréttina hér í heild:

 

„Efnistök fréttastofu Útvarpsins í fréttastjóramálinu voru fagleg, segir Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Fréttastofan hafi verið í erfiðri og óvenjulegri aðstöðu og ásakanir um að fréttamenn hafi misnotað aðstöðu sína séu ekki réttar.

Haft var eftir Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, formanni útvarpsráðs í fréttum útvarps í gær, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með að Auðun Georg Ólafsson skyldi ákveða að hætta sem fréttastjóri útvarpsins eftir einn dag í starfi. Hann hefði lent í aðstæðum sem minntu á einelti. Þórólfur Þórlindsson segir að umfjöllun fréttastofunnar hafi verið fagleg.

Þórólfur Þórlindsson, prófessor: Þarna var fréttastofa útvarps í miklum og óvenjulegum vanda. Í fyrsta lagi þá bar fréttamönnum sem fagmönnum að verja fagleg sjónarmið eins og þeim ber yfirleitt alltaf. Hins vegar voru þeir að fjalla um eigin málefni og ég held að þetta hafi að sumu leyti sett fréttastofuna í óvenjulega erfiða aðstöðu. Mér fannst fréttamenn leysa þetta mjög vel. Í fyrsta lagi að þá get ég ekki fundið eitt einasta dæmi í fréttatíma þar sem hægt er að segja að fréttamenn hafi misnotað þetta. Það var ekki fjallað mikið um þetta mál, satt best að segja í fréttatímum, eins og við hefði mátt búast. Í öðru lagi er allt sem fréttamenn skrifa um málið sem einstaklingar skrifað undir nafni. Þegar maður les það í gegn að þá er rauði þráðurinn í því öllu, er það að það eigi að virða fagleg sjónarmið, það eigi að ráða hæfasta einstaklinginn. Það þýðir að það á að taka tillit til menntunar og reynslu. Það þýðir það líka að það þarf að skýra betur út af hverju fréttamenn þurfa að hafa frelsi til þess að fjalla um fréttirnar án þess að vera undir pólitískri pressu eða nokkurri annarri pressu.

Kristján Sigurjónsson: En nú eru ekki allir sammála þér í þessu. Það hafa komið fram ásakanir um að fréttastofan hafi lagt mann í einelti og farið offari í sínum, sinni umfjöllun.

Þórólfur Þórlindsson: Það fæ ég nú ekki séð. Það er fyrst og fremst vísað í eitt viðtal þessu til stuðnings, viðtalið sem tekið er við Auðun Georg þegar hann kemur til starfa á fréttastofu. Þetta viðtal eins og það birtist í hádegisfréttum var þannig að fréttamaður spurði fullkomlega réttmætra spurninga, eðlilegra spurninga sem Auðun Georg hafði reyndar verið spurður að áður. Hann fylgdi spurningunni eftir eins og eðlilegt getur talist. Ég fæ ekki séð að þetta viðtal við Auðun Georg hafi verið neitt öðruvísi heldur en önnur viðtöl sem fréttamenn taka, nákvæmlega eins.“

Eins og ég sagði í pistli mínum er ég þeirrar skoðunar, að Ólafur Teitur Guðnason fjalli af mestri skynsemi um íslenska fjölmiðla á opinberum vettvangi. Ég get ekki látið hjá líða fyrst ég er að bæta við þennan pistil minn að vitna í Guðmund Magnússon, sem skrifar dálkinn Frá degi til dags í Fréttablaðið 3. apríl og segir:

„Skrif Ólafs eru ekki í hávegum höfð meðal fjölmiðlamanna (sem út af fyrir sig er þó enginn hæstiréttur um gildi þeirra), þykja einkennast af þröngu sjónarhorni og þráhyggju um „Baugsmiðlana“, en njóta þess meira álits meðal ráðherra og stjórnarþingmanna. Er sennilegt að bókin sé ekki síst ætluð á náttborð þeirra - við hliðina á silkihúfunum! Sé það rétt er umhugsunarefni fyrir útgefandann hvort ekki væri frekar við hæfi að hafa pistlana í viðhafnarbandi með gyllingu.“

Í sjálfu sér kemur mér ekki á óvart, að fjölmiðlamenn taki þessum skrifum Ólafs Teits ekki vel, þeir eru almennt hörundsárir.  Að reynt sé að afgreiða þau á svo billegan hátt, sýnir hins vegar, að mönnum stendur ekki á sama um þau eða að þau komi út á bók.