12.3.2005

Þrír fundir - formannskjör - hræða sporin?

Í vikunni hef ég átt þess kost að taka þátt í tveimur málþingum og einnig kennslustund og flutt þar ræður um efni, sem er mér hugleikið.

Í fyrsta lagi efndi dóms- og kirkjumálaráðuneytið til málþings um framtíð almannavarna þriðjudaginn 8. mars. Til þess var stofnað í því skyni að fá fram sjónarmið til undirbúnings endurskoðun á lögunum um almannavarnir. Að mínum dómi tókst málþingið mjög vel og er unnt að kynnast því, sem þar var sagt af framsögumönnum á vefsíðu ráðuneytisins. Ræða mín er einnig hér á vefsíðunni.

Athyglisvert er, hve tilvist björgunar- eða samhæfingarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð (með varastöð á Akureyri) hefur haft mótandi áhrif á viðhorf manna til framtíðarskipulags leitar- og bjrögunarmála. Stöðin hefur greinilega mikið aðdráttarafl vegna þess að starfið þar þykir skila árangri auk þess sem einstætt er, að tekist hafi á jafnfarsælan hátt að sameina krafta allra, sem þarf að virkja til að ná sem bestum árangri á hættustundu. Ný löggjöf um almannavarnir, leit og björgun mun taka ríkt tillit til hlutverks stöðvarinnar og tengingar hennar við aðgerðir á vettvangi. Á hinn bóginn var einnig minnt á það á málþinginu, hve miklu skiptir að virkja heimamenn í æfingum og viðbrögðum við hættu, bæði til þess að þeir geti brugðist rétt við á hættutímum en einnig til að skapa nauðsynlega öryggiskennd utan þeirra.

Í öðru lagi efndu Biskupsstofa, Blaðamannafélag Íslands, Dómstólaráð og Lögmannafélag Íslands til málþings fimmtudaginn 10. mars um mannlegan harmleik í sviðsljósinu – sakamál og fjölmiðla. Ég flutti þar ræðu og lýsti skoðun minni á umræðuefni málþingsins en nýtti einnig tækifærið til að ræða áfram um mál, sem mér er ofarlega í huga, það er spurninguna um rétt eða skyldu yfirvalda til að segja söguna alla, þegar einstaklingar ákveða sjálfir að fara með sakamál eða annars konar mál, sem eru til meðferðar hjá opinberum aðilum, í fjölmiðla. Stundum er það áreiðanlega gert í trausti þess, að yfirvöld geti ekki eða vilji ekki segja söguna alla og þau hljóti því, hvað sem öðru líður, að sitja uppi með einhverja skömm.

Í ávarpinu nefndi ég tvö útlendingamál, þar af annað, sem var töluvert rætt í fjölmiðlum á sínum tíma, þegar fjölskyldu frá Austur-Evrópulandi far vísað héðan í stað þess að verða við ósk hennar um hæli. Myndin af þessari fjölskyldu í fjölmiðlum var allt annars konar en veruleikinn, sem sneri að yfirvöldunum.

Í þriðja lagi flutti ég fyrirlestur í stjórnunarnámi lögregluskólans og er efni, sem ég studdist við í honum birt hér á síðunni. Ég ræddi um stækkun lögregluumdæma og velti fyrir mér, hvað væri helst í vegi þess, að hún gengi greiðlega. Mér finnst gott að fá tækifæri eins og þetta til að ræða stór og flókin mál, sem eru til úrvinnslu – til að átta sig á því, hvernig unnt er að kynna þau á rökréttan og málefnalegan hátt og heyra viðbrögð og sjónarmið.

Formannskjör

Framboðsfrestur í formannskosningum innan Samfylkingarinnar rann út í vikunni. Mikið var gert úr því í fjölmiðlum, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði opnað kosningaskrifstofu miðvikudaginn 9. mars og ráðið til sín sama kosningastjóra og unnið hefði fyrir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Var greinilega engu til sparað við að opna skrifstofuna, stilla upp myndum af frambjóðandanum á áberandi hátt og sjá til þess, að við athöfnina væri allt í sama stíl, frambjóðandinn og myndirnar. Það skortir ekki „look“ og peninga í baráttuna.

 

Í tilefni af því að skrifstofan var opnuð var Ingibjörg Sólrún í drottningarviðtali í Kastljósi sjónvarps ríkisins, þar sem spyrjandinn gat að sjálfsögðu ekki komist hjá því að spyrja hana spurninga, sem spyrjandi vissi svörin við, um ráðningu fréttastjóra hljóðvarps ríkisins fyrr þennan sama dag, seinni hluti þáttarins snerist þó sérstaklega um þessa ráðningu.

 

Ingibjörg Sólrún vildi ekki kannast við það í drottningarviðtalinu, að hún væri í „slag“ við Össur Skarphéðinsson eða að bjóða sig fram gegn honum. Var helst að skilja á henni, að hún væri aðeins að sinna lýðræðislegri skyldu, þar sem gert væri ráð fyrir því í flokksreglum Samfylkingarinnar, að kosinn væri formaður flokksins og þess vegna yrðu fleiri en einn að vera í framboði! Henni væri mjög í mun að vinna að framgangi lýðræðis og vinna gegn lýðræðishalla, það væri mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna um þessar mundir (hún lét þó undir höfuð leggjast að nefna George W. Bush Bandaríkjaforseta til sögunnar en enginn hefur kveðið fastar að orði en hann um gildi þess að berjast fyrir framgangi lýðræðis til að tryggja frið) og hún væri að leggja lóð sitt á þá vogarskál.

 

Spyrjandi vék ekki málinu sérstaklega að lýðræðishallanum og þeirri staðreynd, að Ingibjörg Sólrún hefur mælt með aðild Íslands að evrunni og þar með Evrópusambandinu, þar sem lýðræðishallinn er yfirþyrmandi. Þá hefði mátt minna Ingibjörgu Sólrúnu á kosningarnar um framtíð Reykjavíkurflugvallar, þar sem forsendum var breytt að kosningum loknum. Þegar ég leiði hugann að þeim lýðræðislega skrípaleik, er ég undrandi á því, að í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins  skuli enn þann dag í dag rætt um flugvallarkosningarnar sem marktækan lýðræðislegan stórviðburð og að niðurstöður þeirra séu bindandi fyrir einhverja. R-listinn, sem stóð fyrir kosningunum, telur sig að minnsta kosti ekki bundinn af niðurstöðu þessara misheppnuðu kosninga, ef marka má það, sem nú er að gerast hjá honum varðandi flugvöllinn og Vatnsmýrina.

 

Sama dag og Ingibjörg Sólrún kynnti formannsframboð sitt var efnt til aðalfundar Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík (UJR), ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar í Reykjavík, og ályktað, að Samfylkingin í Reykjavík skyldi bjóða fram í eigin nafni í borgarstjórnarkosningunum vorið 2006.  Ungliðarnir telja, að R-listinn hafi runnið sitt skeið og það standi Samfylkingunni fyrir þrifum að vera í þessu samstarfi.  Með öðrum orðum, lagt er til að helsta pólitíska ,,afrek" Ingibjargar Sólrúnar verði að engu gert hið bráðasta! Þetta þarf ekki að vekja furðu, þegar hugsað er til þess, að R-listinn lifir á skuldasöfnun, lóðaskorti, óvild í garð sjálfstæðra skóla og vandræðagangi í skipulagsmálum. Þegar svo er komið segist höfundur meistaraverksins fús til að taka að sér forystu í flokki sínum og landinu öllu – hún hafi jú verið forsætisráðherraefni í síðustu kosningum.

 

Hræða sporin?

 

Við formannskjör í Samfylkingunni hljóta að vakna spurningar um, hvort þar sé aðeins tekist á um menn en ekki málefni. Þetta liggur ekki ljóst fyrir en hlýtur að skýrast í kosningabaráttunni, sem nú er formlega hafin.

 

Árni Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, skrifar stuðningsgrein við Ingibjörgu Sólrúnu í Morgunblaðið í dag, 12. mars. Hann segir Samfylkinguna ekki stofnaða í um einn málaflokk, heldur sé hún í eðli sínu regnhlífarsamtök (þannig var einnig rætt um R-listann) og innan hennar rúmist fjölbreytt flóra skoðana (einnig aðalsmerki R-listans) auk þess sé flokkurinn lýðræðislegri en áður hafi þekkst (einnig sagt um R-listann). Meðal annars af þessum ástæðum telur Árni, að Samfylkingin „þoli“

að efna til kosninga um formann í hópi allra flokksmanna.

 

Af þessum orðum Árna dreg ég þá ályktun, að formannskosningarnar í Samfylkingunni snúist um frambjóðendurna en ekki málefni – að lokum var R-listanum einnig stillt þannig upp, að hann snerist um Ingibjörgu Sólrúnu. Í ljósi örlaga R-listans og stefnu kann grein Árna Gunnarssonar að jafngilda orðum, sem rituð eru á vegginn.

 

Vegna sundurlyndis innan R-listans frá upphafi valdatíma hans hefur skuldasöfnun komið í stað skynsamlegrar og ábyrgrar fjármálastjórnar.  Skortur á samheldni undir regnhlíf R-listans við lausn mikilvægra mála eða töku ákvarðana hefur leitt til þess, að stjórnartíð R-listans síðastliðin 11 ár einkennist af miklum doða og deyfð.

 

Ef farið er yfir söguna, sést, að enn eru umræður í sama fari og þær voru fyrir 11 árum, ef skref hafa ekki frekar verið stigin aftur á bak en fram á veg.

 

Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar og einn af frumkvöðlum R-listans, ritaði grein í Morgunblaðið hinn 1. mars síðastliðinn, þar sem hún gagnrýndi skipulagstillögur vegna Laugavegarins og taldi þær skref aftur á bak.

 

Þá er augljóst, að talsmenn þess, að Reykjavíkurflugvöllur hverfi, eru vondaufari um framgang stefnu sinnar eftir síðustu vendingar R-listans í málefnum Vatnsmýrarinnar. Niðurstaða hinna furðurlegu kosninga um framtíð flugvallarins hefur verið að engu höfð.


Lóðaskortsstefna R-listans hefur leitt til ofurverðs á lóðum og fækkunar íbúa miðað við þróunina á höfuðborgarsvæðinu.

 

Með andstöðu R-listans við sjálfstæða skóla er verið að murka lífið úr þeim grunnskólum, sem stuðlað hafa að metnaðarfullri fjölbreytni í skólastarfi Reykjavíkur. Með brotthvarfi þessara sjálfstæðu skóla yrði stigið stórt skref í öfuga átt í menntamálum.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur verið ötull málsvari þessarar stefnu í nafni lýðræðis og umbóta í stjórnmálum. Hún veitti svo forystusveit R-listans náðarhöggið með því að bjóða sig fram til þings í nafni Samfylkingarinnar við kosningarnar vorið 2003. R-listinn hafði að lokum ekki „þol“ til að umbera Ingibjörgu Sólrúnu.

 

Stjórnmálamenn er ekki unnt að dæma af framtíðinni, af því að engin veit, hvað hún ber í skauti sér. Þá er hins vegar unnt að dæma af fortíðinni. Stundum að minnsta kosti hræða sporin.