10.7.2004

Að lokinni Kínaferð - litið á Baugstíðindin.

 

 

 

Ég minnist þess frá tíð minni sem fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu í júní 1989, þegar mótmælin voru á torgi hins himneska friðar, hve spennandi var að fylgjast með því, sem var að gerast. Mér þótti minnisvert, þegar þar var reist risastór eftirlíking af frelsisstyttunni í mynni New York-hafnar, - styttu, sem er til marks um frelsisást Bandaríkjamanna.

 

Ég var hins vegar aldrei sannfærður um, að þróunin yrði hin sama í Kína og í Sovétríkjunum sálugu, að kommúnistaflokkurinn mundi einfaldlega leggja upp laupana ? loka búð kommúnista og ekki opna neina nýja í staðinn.

 

Undir stjórn Deng Xiaoping, sem þá var orðinn farlama, ákváðu kínversk stjórnvöld að beita valdi á torgi hins himneska friðar fyrir rétt rúmum 15 árum. Sagt er, að dóttir gamla mannsins hafi flutt boðin um að hreinsa torgið frá honum, því að hún var hin eina, sem skildi muldrið í Deng, eftir að hann var farinn að heilsu. Kínverskir kommúnistar beittu valdi í júní 1989 en hinir sovésku, undir Gorbatsjov,  sögðu við leppa sína í Austur-Þýskalandi, að þeir gætu ekki vænst þess þá eins og 1953, að sovéski herinn mundi aðstoða þá gegn fólkinu  - Berlínarmúrinn hrundi 9. nóvember, 1989.

 

Ég var í Kína frá 29. júní til 9. júlí. Erindið var tvíþætt.

 

Í fyrsta lagi að sækja fund menningarminjanefndar Sameinuðu þjóðanna í Suzhou, skammt frá Shanghai, vegna þess að hún fjallaði um og samþykkti Þingvelli á heimsminjaskrána. Ég hef lýst þeim þætti ferðarinnar í öðrum  pistli.

 

Í öðru lagi að þiggja boð dómsmálaráðherra Kína til viðræðna við hann og aðra í Beijing auk þess að heimsækja Kyrrhafsborgina Qingdao, um 800 km austur af Beijing. Bendi ég þeim, sem vilja kynna sér einstaka þætti heimsóknarinnar á dagbókina hér á síðunni.

Hér ætla ég að fara fáeinum orðum um það, sem mér er efst í huga, eftir að hafa verið í tíu daga í Kína.

 

Um aldarfjórðungur er liðinn frá því, að Kína var opnað í annað sinn gagnvart umheiminum, eins og þeir orðuðu það gjarnan Kínverjar,. sem kynntu okkur þróunina í landi í sínu. Það var hinn sami Deng Xiaoping, sem stóð fyrir því að opna landið, og setti lokið á innanlands-þróunina í átt til frjálsræðis með því að beita valdi á torgi hins himneska friðar 1989. Hann hafði á orði, að kötturinn veiddi, hvort sem hann væri svartur eða hvítur, og var þetta túlkað á þann veg, að efnahagskerfið væri ekki bundið í fjötra sósíalismans.

 

Að óreyndu hefði ég ekki trúað því, að eitt land gæti verið í jafnmikilli umsköpun og við sáum, og það land með 1.3 milljarð íbúa. Ég hef það á tilfinningunni, að verið sé á örskots stund að hrifsa Kína aftur úr grárri fornöld inn í framtíðina. Hvergi nokkurs staðar hef ég séð jafnmikið af nýjum, auðum íbúðum af öllum gerðum og stærðum, sem bíða eftir nýjum íbúum. Heilu hverfin virðast byggð og síðan fyllt af fólki. Í Qingdao var okkur sagt, að þar byggju 7,8 milljónir manna á um 10 þúsund ferkílómetra svæði, 780 manns á ferkílómetra í samanburði við þrjá á hvern ferkílómetra hér. Hvergi nokkurs staðar hef ég séð jafnstórbrotna vegagerð eða smíði atvinnuhúsnæðis af öllum toga.

 

Kínverjar hafa ekki síður en Evrópubúar lifað stormasama tíma undanfarin árhundruð og þúsund. Tuttugasta öldin var þeim erfið og talið er, að meira en 50 milljónir manna hafi týnt lífi vegna ógnarstjórnar Maó formanns. Andlitsmynd hans blasir þó enn við á hliði hins himneska friðar inn í forboðnu borgina, við norðurenda torgsins, þar sem grafhýsi hans er.  Allir peningaseðlar í Kína eru skrýddir með mynd af Maó.

 

Þrátt fyrir byltingu kommúnista, menningarbyltingu og tvær heimsstyrjaldir á 20. öldinni og allt annað, sem gengið hefur þjóðina í aldanna rás, var okkur fagnað í taó-hofi, sem hefur staðið í meira en 2000 ár á sama stað og geymir bænahús því til staðfestingar ásamt tré, sem er meira  en 2100 ára gamalt. Þótt fátt hafi verið heilagt í menningarbyltingunni og greiðasemi vina hafi til dæmis ráðið því, að Deng var ekki drepinn í útskúfun sinni þá., eru margir staðir í Kína, sem hafa staðið verndaðir fyrir pólitískum vandalisma og skemmdarverkum um árþúsunda skeið. Forfeðradýrkunin er rík og hefur vafalaust stuðlað að verndun menningarverðmæta í öllu umrótinu.

 

Þegar ég heimsótti Tævan fyrir tæpum 10 árum, voru efnahagsumskiptin í Kína að komast á verulegt skrið. Ég minnist þess, að þá var rætt um, að líkja mætti efnahagskerfi Kína við mann á reiðhjóli, ef hann hægði á sér, myndi hann detta á hliðina. Síðan þetta gerðist hefur verið efnahagskreppa í mörgum Asíulöndum en kínverska reiðhjólið hefur ekki farið á hliðina. Raunar er talið, að ferðin á því eigi nú ríkan þátt í að draga önnur Asíuríki að nýju til hagvaxtar og aukinna umsvifa.

 

Frá Kyrrhafsborginni Qingdao er aðeins 40 mínútna flug til Seoul, höfuðborgar S-Kóreu, styttra en til Beijing. Um 50.000 S-Kóreumenn  vinna við eigin fyrirtæki í Qingdao en Kínverjar vilja gjarnan fá aðra til samstarfs, vegna þess að þeir treysta ekki S-Kóreumönnum eftir efnahagskreppuna.

 

Þessum stórstígu breytingum í efnahags- og félagsmálum fylgja að sjálfsögðu miklir vaxtarverkir. Kínverjar eru líklega að leita að besta þjóðfélagsmódelinu, þegar þeir ræða við erlenda gesti sína, sem starfa á sviði stjórnmála og stjórnsýslu. Þeir hafa lagt sig fram um að endurgera allt á markaðssviðinu  eftir fyrirmyndum frá Bandaríkjunum og Evrópu auk þess að tileinka sér vestrænar aðferðir við framleiðslu á söluhæfum vörum. Í Kína aka menn í kínverskum Buick eða Audi og öðrum vestrænum bílategundum, sem þar eru framleiddir. Samtöl við stjórnmálamenn og embættismenn bera þess merki, að þeir séu að leita að besta þjóðfélagsmódelinu, um leið og þeir tala enn um sjálfa sig sem sósíaliskt lýðræðisríki byggt á lögum og rétti.

 

Þeir hafa sérstaklega augastað á Norðurlöndunum í þessu sambandi og vilja efna til fræðslufunda og námskeiða til að auðvelda sér leiðina að markinu. Viðræður mínar við dómsmálaráðherrann og starfsmenn dómsmálaráðuneytisins snerust að verulegu leyti um tæknileg úrlausnarefni. Á sviði dómsmála hafa þeir stofnað til náins samstarfs við Finna og eru til dæmis að undirbúa námskeið þar um gjaldþrotaskipti. Þeir hafa miklar áhyggjur af framkvæmd dóma í einkamálum og þar er greinilega um undirrót spennu að ræða.

 

*

 

Sem formaður í Aflinum, félagi qi gong iðkenda á Íslandi, fór ég fram á að hitta fulltrúa qi gong iðkenda í Beijing. Við fengum tækifæri til viðræðna við forystumenn kínverska félagsins, sem var stofnað 13.  maí 2004 eftir nokkurra ára undirbúningsstarf.

 

Kínverska félagið hefur eins og hið íslenska unnið að útgáfu myndbands til að auðvelda kynningu á æfingunum. Félagið hefur valið fjórar æfingar eða samsafn æfinga og hvetur til þess, að ein þessara æfínga sé valin hverju sinni. Sögðu forsvarsmennirnir þetta val byggjast á vísindalegum rannsóknum. Auk myndbandsins hefur félagið gefið út bækur til að skýra æfingarnar og er nú að hefja mikla sókn um all Kína með aðstoð stjórnvalda.

 

Ég lýk við  að rita þessa stuttu frásögn mína, þegar klukkan er 18.45 á kínverskan tíma föstudaginn 9.júlí en frá Beijing lögðum við af stað með SAS klukkan 14.45 og erum nú tæplega hálfnuð til Kaupmannahafnar en kortið sýnir okkur skammt frá Novosibrisk

 

Litið á Baugstíðindi.

 

Við lentum í Keflavík rúmlega 20.30 föstudaginn 9. júlí eftir að hafa verið tæpan sólarhring á ferðalagi, frá því að við lögðum upp frá Qingdao að morgni þessa sama föstudags.

 

Ég fletti Baugstíðindum við heimkomuna og þótti sérkennilegast að sjá, hve mikla athygli DV beinir að því, þegar ég gerði að leik mínum tilraun með því að breyta orði á vefsíðu minni og sá þá, að blaðamaður Fréttablaðsins var með síðuna undir smásjá vegna orðsins „brella“ í pistli mínum 3. júní.

 

Af lestri DV mætti helst ráða, að þarna hafi verið um eitthvert opinbert embættisverk af minni hálfu að ræða eða breytingu á opinberu skjali. Þegar upp er staðið er atvikið einungis enn ein staðfesting á því, að ég breyti því ekki, sem stendur á vefsíðunni nema til að leiðrétta staðreyndir. Síðan er að verða 10 ára gömul og hef ég ekki áður lent í samskiptum við blaðamenn vegna síðunnar af því tagi, sem ég lýsti í síðasta pistli.  

 

Gerir DV  því meðal annars skóna, að ég hafi fengið upphringingar héðan frá Íslandi eða fyrirmæli um að gera breytingu á þessum pistli. Allt er þetta heilaspuni og enn eitt dæmið um, að á blaðinu starfa menn, sem hafa ekki í heiðri að leita sér heimilda fyrir því, sem þeir birta, heldur setja það saman, sem þeim finnst hæfa hverju sinni í viðleitni til að sverta andstæðinga sína. Lygafréttir DV  tengdar nafni mínu eru orðnar fleiri en ég hef talið.

 

Ég sá einnig, að í Fréttablaðinu sunnudaginn 4. júlí taldi Guðmundur Magnússon ekki við hæfi, að ég nefndi forseta Íslands „einstakling utan þings“, þegar ég fjallaði í Morgunblaðsgrein laugardaginn 3. júlí um skilyrði, þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnarskrá. Að sjálfsögðu er mér ljóst, að forseti Íslands er þjóðkjörinn og hefur umdeilda synjunarheimild í 26. gr. stjórnarskrárinnar, en í þessari grein vakti ég máls á því, að hvergi annars staðar er að finna sambærilegt ákvæði um heimild „einstaklings utan þings“ til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt ríki eigi forseta eða konunga, alls staðar þarf ákveðinn fjöldi kjósenda eða fjöldi þingmanna að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Að leggja orð mín út á þann veg, sem Guðmundur gerði í þessari grein, að ég væri sem dómsmálaráðherra ekki að sýna lögum og stjórnskipan landsins virðingu er óréttmætt, þótt hann sé ósammála mér. Ég sýndi Ólafi Ragnari enga óvirðingu í þessari grein. Hitt er síðan ekki rétt hjá Guðmundi, að túlka beri stjórnarskrána þannig, að allt sé bannað, sem hún ekki heimilar, við framkvæmd á óljósum ákvæðum hennar og með þeim rökum megi alþingi ekki setja skilyrði um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Í Fréttablaðinu föstudaginn 9. júlí ræðir Birgir Guðmundsson, fastur dálkahöfundur blaðsins og starfsmaður Háskólans á Akureyri, samskipti mín við blaðið vegna pistils míns frá 3. júní og telur, að ég hafi með tímabundnum breytingum á síðu minni verið að gera lesendakönnun! Hann hefur greinilega ekki kynnt sér málið, þótt hann leggi út af því.

 

Ég var ekki að gera neina lesendakönnun heldur að athuga, hvernig setið væri yfir hverri hugsanlegri breytingu, sem ég gerði á síðunni.  Ég var ekki að velta fyrir mér hinum almenna lesanda í því sambandi heldur þeim, sem leggja sig fram um að gera okkur suma stjórnmálamenn tortryggilega út af öllu, stóru sem smáu. Tilraunin heppnaðist, því að það sannaðist, að einn blaðamanna Fréttablaðsins var á vakt yfir síðunni og síðan hefur DV nýtt sér afraksturinn. Í mínum huga á þetta ekkert skylt við blaðamennsku, einhverjir kynnu að flokka það undir einelti. Textinn á síðunni er auðvitað óbreyttur.