19.6.2004

Gildi umræðna.

 

Páll Skúlason háskólarektor lagði áherslu á nauðsyn þess að vanda umræður og huga að rökum viðmælenda sinna í ávarpi til kandidata á háskólahátíð, laugardaginn 19.júní Hann hvatti áheyrendur sína ætla viðmælendum alltaf betri málstað, en við kynni að blasa hverju sinni. Á hátíðinni brautskráðust fleiri úr Háskóla Íslands en nokkru sinni fyrr eða 830 og var Bjarni Benedikt, sonur minn í þeim hópi, lauk tveimur prófum, kennslufræði til kennsluréttinda og meistaraprófi eða M.Paed.-prófi í íslensku, en þar hlaut hann ágætiseinkunn.

Brautskráningin gekk vel og skipulega fyrir sig og stóð athöfnin rétt rúmar tvær klukkstundir í þéttskipaðri Laugardalshöll. Rektor mæltist vel að vanda og brýndi fyrir kandidötum að gæta hófs og skynsemi í allri framgöngu sinni og umræðum.

Leiddi ræða hans huga minn að því, hve allar umræður vegna væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu eru enn sem komið er fjarri efni málsins sjálfs, það er spurningunni um eignarhald á fjölmiðlum og hvort menn vilja að því sé dreift eða á einni hendi. Ein ástæða fyrir því, að efni málsins er ekki meira rætt er örugglega sú, að þeir, sem skipa sér á móti nýju fjölmiðlalögunum, viðurkenna í raun, að málstaður og rök okkar, sem viljum að lögin nái fram að ganga, eru miklu sterkari, en hinna, sem vilja óbreytt ástand, þar sem ekkert stendur í vegi þess, að auðhringur sé allsráðandi í öllum daglegum viðskiptum fólks og fjölmiðlun að auki.

Við, sem tökum þátt í stjórnmálaumræðum og höfum gert bæði á tímum flokksblaða og þess ástands, sem ríkir núna, vitum, að undirtök auðhrings á fjölmiðlamarkaði eru allt annars konar en þar hafi þeir öflug ítök, sem boða ákveðna stjórnmálastefnu. Hefð er fyrir því að takast á um stjórnmál og skiptast á skoðunum með hugmyndafræði þeirra að bakhjarli. Í því ástandi, sem nú ríkir, ráða fjárhagsleg og rekstrarleg viðhorf ferðinni og viðleitni til að stækka enn meira og ná ótvíræðum fjárhagslegum undirtökum á markaðnum, eins og nýlegar fréttir af ósk um að kaupa ráðandi hlut í Morgunblaðinu sýna.

Þegar tekist er á um stjórnmálaskoðanir eru rök og gagnrök þau vopn, sem eru notuð. Morgunblaðið er besti og vinsælasti vettvangur til slíkra átaka hér á landi og hef ég mikla og góða reynslu af því að eiga orðaskipti við andstæðinga þar eða miðla fróðleik til lesenda. Þegar rekstur fjölmiðils byggist á því að gæta fjárhagslegra hagsmuna, ræðst ritstjórn af þeim hagsmunum. Ef blaði berst til dæmis auglýsing um að keppinautur eiganda, sem stundar verslun á einhverju sviði, sé að lækka verð með sérstöku tilboði, er unnt að ímynda sér, að sett sé auglýsing í sama tölublað til að bæta samkeppnishlut eigandans með hagkvæmara tilboði en keppinautar hans.  Skyldi þetta gerast hér? Ég hef ekki dæmi um það, en svona leikur er alls ekki óhugsandi í fjölmiðlaumhverfi okkar.

Hér hefur áður verið vakið máls á úttekt sagnfræðinema við Háskóla Íslands, sem leiddi í ljós, hvernig Fréttablaðið í eigu Baugs hefur haldið á umræðum um fjölmiðlalögin á forsíðu sinni. Þar hefur hefðbundið fréttamat ekki alltaf ráðið ferðinni. Hitt Baugsblaðið DV  hefur einnig einblínt á fjölmiðlafrumvarpið og leitast við að persónubinda óvild sína á frumvarpinu með því að beina spjótum sínum að Davíð Oddssyni auk þess sem ég hef ekki farið varhluta af sérkennilegum vinnubrögðum blaðsins. Minnir DV stundum á furðufréttablöð, sem fræða lesendur sína um ferðir marsbúa á jörðinni og annað í sama dúr. Uppspunafréttir er ein leið til að selja blöð og oft einkennast þær af  skemmtilegheitum, en það á ekki við um slíkar „fréttir“ í DV, því að þar er jafnan einhver broddur byggður á illkvitni í garð einstaklinga, sem ritstjórn blaðsins flokkar sem andstæðinga sína, öðrum er hins vegar hampað umfram eðlilegt fréttamat.

Ég geri dálítið að því að fylgjast með umræðum á blog-síðum til að kynnast þeim viðhorfum, sem þar birtast. Finnst mér margar síður vandaðar og greinilegt, að eigendur þeirra njóta þess að hafa þennan vettvang til að segja frá eigin reynslu og lífi auk þess að ræða um landsins gagn og nauðsynjar.

Víða er fjallað af áhuga og þekkingu um alþjóðamál ekki síður en innlend stjórnmál. Menn leggja út af því, sem er að gerast hverju sinni og lýsa skoðun sinni.  Þessar síður eru nýr vettvangur rökræðna, auk þess sem þær mynda greinilega tengslanet skólafélaga eða samstarfsfólks. Nýja umræðuflóran er ótrúlega fjölbreytt og hún þrífst ekki nema vegna þess, að eigendur síðnanna finna, að þær gefa bæði þeim og öðrum nokkuð. Það er mun skemmtilegra að kynna sér það, sem er að gerast og gerjast á blog-síðunum en að fylgjast með nauðhyggjumönnunum neikvæðu og nafnlausu, sem setja mestan svip á málverja og aðra spjallþræði um stjórnmál.