2.11.2003

Morgunblaðið 90 ára - Samfylkingarfundur

Morgunblaðið á níræðisafmæli í dag og minnist þess meðal annars með því að gefa út sérstakt blað, þar sem eru birtir kaflar úr bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson ritstjóra, sem er væntanleg á markað innan skamms. Er fengur að því, að Jakob skuli hafa skráð sögu Valtýs og þar með varpað ljósi á þann blaðamann, sem mótaði Morgunblaðið og farsæld þess fram á þennan dag.

Faðir minn átti náið samstarf við Valtý og minnist ég vináttu þeirra úr æsku, þegar ég fór barnungur með foreldrum mínum í heimsókn til Valtýs og eiginkonu hans Kristínar Jónsdóttur listmálara á Laufásveginum.  Í bók Jakobs um Valtý segir meðal annars:

“Sú ákvörðun Valtýs að fá Bjarna Benediktsson, varaformann Sjálfstæðisflokksins, til að taka sæti sitt í stjórn Árvakurs [útgáfufélags Morgunblaðsins] haustið 1955 var byggð á því að þeir voru nánir vinir til margra ára, samherjar í stjórnmálum og hugsuðu á svipuðum nótum um blaðamennsku. Árvakur gekk þá í gegnum mikið breytingaskeið, gömlu mennirnir, sem höfðu verið kjölfestan í starfi félagsins með Valtý, voru nú skyndilega horfnir af sjónarsviðinu og ungir menn komnir í staðinn með sínar meininga – þegar allt var í óvissu í byggingarmálunum og þar með um framtíð blaðsins. Valtýr vildi fá mann í stjórnina sem gæti stýrt fleyinu heilu í höfn í þessum sjóum. Enginn maður var betur fallinn til þess en Bjarni Benediktsson.”

Gefur þessi lýsing vel kynna, hvernig samskiptum og vináttu Valtýs og föður míns var háttað. Minnist ég þess ekki, að faðir minn hafi talið sig settan til höfuðs einhverjum í stjórn Árvakurs eða sem ritstjóri blaðsins á vinstri stjórnar árunum 1956 til 1959, eða það hafi verið sérstakt átak fyrir hann til að laga sig að starfsháttum og stefnu Morgunblaðsins, eins og stundum er gefið til kynna. Þvert á móti tel ég, að hann hafi notið þess, að vera nokkur ár í starfi hjá einkafyrirtæki, en öll starfsár sín endranær starfaði hann á vegum ríkisins eða Reykjavíkurborgar.

Þeir faðir minn og Matthías Johannessen störfuðu skamman tíma saman sem ritstjórar Morgunblaðsins en eftir að faðir minn varð ráðherra að nýju haustið 1959 hélst náin og mikil vinátta með foreldrum mínum og þeim Hönnu og Matthíasi, eins og Matthías hefur oft lýst á fallegan og eftirminnilegan hátt. Þá voru einnig mikil og góð tengsl milli föður míns og Geirs Hallgrímssonar, sem sat í stjórn Árvakurs og var þar formaður um árabil. Var þeim öllum mikið í mun, að vegur og virðing Morgunblaðsins væri sem mest og blaðið nyti trausts sem öflugur fréttamiðill auk þess að standa vörð um verðugar hugsjónir og hag íslensku þjóðarinnar.

Þótt faðir minn hefði látið af störfum sem ritstjóri og sest í ráðherrastól, hélt hann áfram að skrifa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Gaf hann sér venjulega tíma til þess síðdegis á fimmtudögum, kom þá heim fyrr en venjulega, lokaði að sér á skrifstofu sinni og las bréfið inn á segulband, spólan var síðan afrituð á föstudagsmorgnum og fór hann þá yfir handritið og breytti oft töluvert miklu, en fékk síðan próförk til yfirlestrar senda heim með leigubíl frá BSR að morgni laugardags.

Kom oft í minn hlut að sjá um að koma próförkinni niður á blaðið, en allt frá því faðir minn varð ritstjóri var ég tíður gestur á ritstjórn blaðsins, fékk vinnu sem sendill, vann við að taka blaðið frá prentvélinni á laugardagskvöldum, var á afgreiðslu blaðsins hjá Aðalsteini Ottesen, á auglýsingadeildinni hjá Árna Garðari og jafnvel um tíma á bókhaldinu í sérstöku verkefni fyrir Sigfús Jónsson framkvæmdastjóra og var prófarkalesari í íhlaupum, áður en ég fór síðan að vinna sem blaðamaður með námi í háskólanum. Eftir að hafa starfað í fimm ár í forsætisráðuneytinu, lengst af sem skrifstofustjóri, varð ég að nýju blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1979 og síðan aðstoðarritstjóri, þar til ég var kjörinn á þing 1991.

Eins og áður sagði á ég ekki neinar slíkar minningar um tengsl föður míns við Morgunblaðið, að þau hafi einkennst af átökum við þá, sem sátu við stjórnvöl þess, hvort heldur um var að ræða ritstjórn eða fjármálastjórn og kemur mér alltaf á óvart, ef eitthvað slíkt er gefið til kynna, eða honum hafi verið það kappsmál, að blaðið væri litað af skoðunum Sjálfstæðisflokksins. Þvert á móti var hann þeirrar skoðunar, að blaðið sækti styrk sinn til traustsins, sem það aflaði sér með góðri og lifandi fréttamennsku. Minnist ég þess frá árinu 1967, þegar mér var falið það í fyrsta sinn að skrifa Staksteina, að honum þótti það ekki sérstaklega skynsamlegt, nóg væri, að hann væri kallaður til ábyrgðar fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins þá um vorið, þótt ekki væri einnig talið, að hann ætti sérstakan fulltrúa meðal Staksteinahöfunda blaðsins.

Stundum, þegar honum mislíkaði eitthvað, sem sagt var í Reykjavíkurbréfi, þegar hann hafði ekki tök á að skrifa það, lét hann það í ljós með setningum á borð við þessa: “Þegar að nýju er sest við að skrifa Reykjavíkurbréf....” Gátu þá  lesendur áttað sig á því, að einhver annar en fastahöfundur bréfsins hefði látið ljós sitt skína í fjarveru hans.

Auðvitað var hann ekki frekar en aðrir lesendur Morgunblaðsins ánægður með allt, sem birtist í blaðinu. Gagnrýni hans var þó jafnan byggð á umhyggju fyrir blaðinu og í anda þess trúnaðar, sem Valtýr Stefánsson sýndi honum.

Á þessum árum var allt með öðrum hætti á íslenskum blaðamarkaði en núna og oft var tekist á milli dagblaðanna af meiri hörku en milli stjórnmálamanna og blöðin fóru ekkert í felur með stuðning sinn við einstaka flokka, enda sum þeirra gefin út í þeim tilgangi einum að halda fram flokksmálstað. Þetta hefur aldrei átt við um Morgunblaðið, þótt það hafi átt samleið með Sjálfstæðisflokknum og tengslin milli þess og forystumanna flokksins jafnan verið góð og oft mjög náin.

Þegar Morgunblaðið minnist 90 ára afmælis síns, eru ekki síður mikil umbrot á blaðamarkaði en fyrir fjórum til fimm áratugum. Flokksblöðin eru öll úr sögunni og DV berst nú fyrir lífi sínu. Fréttablaðinu er dreift til almennings án endurgjalds og sækir fjárhagslegan styrk sinn til auglýsinga, ekki síst frá stærsta eiganda sínum.

Kaupmönnunum, sem hafa átt Morgunblaðið með Valtý og afkomendum hans, hefur líklega aldrei dottið í hug að láta auglýsingar frá fyrirtækjum sínum og annarra standa straum af kostnaði við blaðið en gefa afurðina og dreifa henni til allra Íslendinga. Morgunblaðið keppir nú á markaði, sem hefur breyst ótrúlega hratt. Hefur ekki verið slakað á kröfum við fréttamiðlun blaðsins. Án þess metnaðar, sem jafnan einkennir efnistök Morgunblaðsins, væri Ísland fátækara land í mörgu tilliti.

Samfylkingarfundur

Samfylkingin efnir til landsfundar um þessa helgi. Skýrt var frá nýrri Gallup-könnun í útvarpsfréttum laugardaginn 1. nóvember, sem sýndi, að fylgi Sjálfstæðisflokksins er nú 39% en Samfylkingarinnar 29%. Hefur Sjálfstæðisflokkurinn meira en tvöfaldað forskot sitt frá því að kosið var til þings síðastliðið vor.

Þessi þróun gengur auðvitað þvert á væntingar Samfylkingarinnar og verður fróðlegt að sjá, hvort tekst í krafti landsfundarins að snúa henni til annarrar áttar. Greinilegt er, að þau Össur Skarphéðinsson formaður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nýorðinn varaformaður, eru ekki samstiga í því, hvernig tekið skuli á málum gagnvart ríkisstjórninni. Össur leggur áherslu á hófsama, málefnalega baráttu, en Ingibjörg Sólrún sparar sjaldan stóru orðin og vænir andstæðinga sína meira að segja um að brjóta stjórnarskrána vísvitandi og af einbeittum vilja.

Ef marka má setningarræðu Össurar er komið bakslag í þá stefnu Samfylkingarinnar, að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið (ESB). Með því að kasta því stefnumiði til hliðar og hefja umræður um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins er Össur greinilega að stíga skref í átt til Sjálfstæðisflokksins. Hann skilur sig þar með enn frá þeim áherslum, sem hafa einkennt málflutning Ingibjargar Sólrúnar,

Hið sérkennilegasta á fundinum var uppákoman vegna umræðnanna um hugsanlegt framboð Margrétar Frímannsdóttur gegn Stefáni Jóni Hafstein til formennsku í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar. Af því að í fjölmiðlum var látið að því liggja, að framboð Margrétar og kosningar vegna þess mundu leiða í ljós styrkleika fylkinga á bakvið Össur annars vegar og Ingibjörgu Sólrúnu hins vegar, ákvað Margrét að gefa ekki kost á sér. Endurspeglar þetta betur en annað, hve ástandið innan Samfylkingarinnar er í raun brothætt.

Þegar Samfylkingin kom til sögunnar og Steingrímur J. Sigfússon og félagar ákváðu að skipa sér til vinstri við flokkinn, hefði mátt ætla, að deilur vinstrisinna um hve langt til vinstri þeir ættu að skipa sér hefðu bundist í flokka. Ágreiningurinn innan Samfylkingarinnar er að öðrum þræði um það, hve langt til vinstri skuli stefnt og vill Ingibjörg Sólrún greinilega halda lengra í þá átt en Össur. Hún hefur til dæmis beitt sér gegn því innan borgarstjórnar Reykjavíkur að einkaframtak og markaðssjónarmið fái notið sín í leikskóla- og grunnskólarekstri í borginni.