18.5.2003

Ofstopi í borgarstjórn og forystuleysi R-listans.

 

 

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins hinn 16. maí 2003 birtist þessi frétt um þann einstæða atburð, þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, vraforseti borgarstjórnar, vék Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur úr ræðustól á fundi brogarstjórnar:

 

“Borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var vikið úr ræðustól á óvenjulöngum borgarstjórnarfundi í gær, í umræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar þegar fulltrúinn vildi ræða fjármál Félagsþjónustunnar.

 

Björn Bjarnason, oddviti minnihlutans telur að meirihlutinn hafi óttast umræðuna og hann kveðst sjá teikn á lofti um að R-listasamstarfið sé hvikult.

 

Bókanir    meirihlutans   og   minnihlutans   vegna   umræðna   um   fjámál Reykjavíkurborgar   ganga   á   víxl   eins   og   oft   áður. Minnihluti sjálfstæðismanna  telur fjármál borgarinnar í ólestri en meirihlutinn telur þau  í ágætu lagi.

 

Í umræðunum í gær var Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokks  vikið úr ræðustól vegna fundarskapa þegar hún vildi ræða fjármál  Félagsþjónustunnar undir dagskrárliðnum Ársreikningur borgarinnar. Fulltrúinn  varð  ekki  við  tilmælum  um að halda sig við dagskrárefnið og hlaut    víkja  úr  ræðustóli  segir í bókun meirihlutans og að úrskurður varaforsetans  þar  um  hafi  verið  réttmætur.  Björn  Bjarnason,  oddviti minnihlutans telur andrúmsloftið í borgarstjórn Reykjavíkur hvikult.

 

 

Björn  Bjarnason,  oddviti minnihlutans í borgarstjórn: “Og Guðrúnu Ebbu var meinað    taka  þar upp málefni sem er mjög alvarlegt að okkar mati þegar litið er til þjónustu við eldri borgara í Reykjavík og satt að segja hef ég aldrei  orðið vitni af því áður við svona aðstæður að ræðumanni sé vikið úr ræðustól  og taldi þetta aðför að málfrelsinu. Nú síðan knúðum við það fram að það yrðu umræður um málið utandagskrár í lok fundarins. En fundurinn var óvenju  langur  og  það  má segja að þarna hafi verið hart tekist á um þrjú meginmál, fjármálin, skipulagsmálin og skólamálin.”

 

 

Á  vefsíðunni heimur.is er vísað til orðróms um að borgarstjórnarsamstarfið sé  í  hættu  í  tengslum  við ríkisstjórnarmyndun og að krafa sé uppi frá sjálfstæðismönnum   um    framsóknarmenn  slíti  meirihlutasamstarfinu  í borginni,   fái   Halldór   Ásgrímsson   forsetisráðherraembættið   og   að framsóknarmenn fari í þá í borgarstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Björn  Bjarnason  kannast  ekki við tengsl þarna á milli en hann teljur sig sjá  rispur  í  R-listasamstarfinu  að undanförnu og að framsóknarmenn eigi stundum meiri málefnasamleið með Sjálfstæðisflokknum í sumum málum.

 

 

Björn  Bjarnason:  “Ja við teljum að ástandið sé hvikult þegar við lítum til R-listans  og  við  sjáum það svona birtast í ýmsum myndum. Ég tel að þessi framganga  Steinunnar  Valdísar í gær hafi meðal annars verið vegna þess að hún  vildi  ekki  umræður  um þetta viðkvæma mál. Nú við heyrðum það líka í borgarstjórninni    í    gær       Anna   Kristinsdóttir,   borgarfulltúi Framsóknarflokksins  virðist  vera að taka aðra afstöðu varðandi svokallaða Landsímalóð í Grafarvogi heldur en R-listinn hefur mótað til þessa og fetar þar í fótspor Björns Inga Hrafnssonar sem bókaði í skipulagsnefndinni fyrir

kosningarnar.  Og  það  virðist  vera  svo að þau séu að fikra sig inn á þá stefnu  sem  við höfum mótað að leita í samninga og sátt við íbúana. Það er eitt  dæmið. Og við höfum orðið vör við þetta í öðrum nefndum þannig að það er hvikult ástandið þarna. Nú síðan velti ég því fyrir mér í ríkari mæli en áður hvaða umboð borgarstjórinn hefur.”

 

 

Hann  eigi  að vera samnefnari þriggja ólíkra flokka en hafi ekki pólitískt umboð og ýmislegt bendi til þess að óljós pólitískur vilji sé stundum á bak við  orð hans. Langt er síðan Björn Bjarnason lýsti endalokum R-listans því hann  telur hann hafa horfið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. En stefnir þá í að Björn verði borgarstjóri.

 

 

Björn Bjarnason: “Ég held að þessi spurning sé nú ekki það sem mér er efst í huga núna.””

 

Ég kýs að birta þessa frétt í heild, því að hún bregður ljósi á andrúmsloftið innan borgarstjórnar Reykjavíkur um þessar mundir. Þar ríkir greinilega mikil spenna á bakvið tjöldin innan R-listans. Skýrasta dæmið um vandaræðaganginn er, að ekki er staðið við tímasetningar heldur eru málin látin dankast án ákvarðana. Samkvæmt tillögu, sem var samþykkt í borgarráði fyrir áramót, átti til dæmis sparnaðarnefnd að skila áliti sínu og tillögum fyrir miðjan apríl en þær hafa ekki enn séð dagsisns ljós í borgarráði.

 

Sérstök ástæða er til að nefna störf sparnaðarnefndarinnar vegna þess að fjármálastjórn borgarinnar er laus í reipunum eins og sést vel á ársreikningnum fyrir árið 2002, þar sem áætlanir standast illa og skuldir halda áfram að vaxa, aðeins vegna gengismunar er unnt að sýna jákvæða rekstrarniðurstöðu. Borgarstjóri og R-listinn leggja allt kapp á að fegra fjármálastöðuna í stað þess að líta til hennar af raunsæi. Davíð Oddsson nefndi í lokaumræðum stjórnmálaforingja fyrir kjördag, að í árslok 1990, síðasta heila árið, sem hann var borgarstjóri, hafi hreinar skuldir borgarinnar verið 2 milljarðir króna en í árslok 2002 var sambærileg tala 44,5 milljarðir króna. Þessar tölur segja allt sem segja þarf um þróunina undir stjórn R-listans og að láta sem þetta sé allt í himnalagi er einfaldlega blekking. Til að réttlæta skuldirnar nefna R-listinn og borgarstjóri gjarnan Orkuveitu Reykjavíkur. Í því sambandi er rétt að hafa í huga, að varið hefur milli 3 og 4 milljörðum króna í nýjar höfuðstöðvar fyrir orkuveituna og auk þess um 3 milljörðum af fé fyrirtækisins í Línu. net, sem sagt milli 6 og 7 milljörðum króna í óarðbæra fjárfestingu.

 

Þegar vakið var máls á þessu í umræðum í borgarstjórn snerist Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar orkuveitunnar og oddviti framsóknarmanna, hart til varnar. Hans vörn byggist á því, að með því að kjósa R-listann til meirihlutastjórnar hafi Reykvíkingar samþykkt þessa fjármála- og skuldastefnu. Þá sé orkuveituhúsið ódýrara á fermetra en skálinn við alþingishúsið eða einhverjar aðrar opinberar byggingar. Um fyrri röksemdina er það að segja, að hið einkennilegasta í afstöðu Reykvíkinga til fjármálastjórnar R-listans er hve margir láta sér lausatökin og skuldasöfnunina í léttu rúmi liggja og virðist sama þótt böggum R-listans sé þannig velt yfir á komandi kynslóðir. Í Reykjavík eins og annars staðar kemur að skuldadögunum og sífellt hærri fjárhæðir renna í afborganir lána. Að jafna orkuveituhúsinu við aðrar opinberar byggingar er á þeim misskilningi reist, að orkuveituhúsið hafi verið jafnnauðsynleg fjárfesting og að endurgera þjóðminjasafnshúsið, færa starfsaðstöðu í þinghúsinu í nútímalegt horf eða reisa náttúrufræðahúsið við háskólann. Grundvallarvillan felst í því að bera saman almenna skrifstofuaðstöðu og hús, sem eru reist til að sinna sérgreindum og skýrt skilgreindum verkefnum.

 

Þegar fréttir berast af því, að Síminn sé að flytjast úr miðborginni, að Eimskip sé að huga að flutningi með skrifstofustarfsemi sína í Sundahöfn og Búnaðarbankinn sé að velta fyrir sér, hvort hann eigi að hafa höfuðstöðvar í miðborginni, er spurning, hvort ekki hefði verið skynsamleg byggðaákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar að ætla starfsemi skrifstofu orkuveitunnar stað í miðborginni. Af hálfu borgaryfirvalda virðist nauðsynlegt að líta á þróun miðborgarinnar á sama hátt og krafist er af ríkisvaldinu varðandi opinberar stofnanir, að hugað sé að því að velja þeim stað á landsbyggðinni til að stemma stigu við fólksflóttanum.

 

Athygli vakti, hve hart Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi vinnubrögð Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni í síðasta umræðuþættinum fyrir kjördag og veittist hart að Ingibjörgu Sólrúnu. Þegar kannað var, hvað bjó að baki þessari gagnrýni, fréttist, að kosningasmalar Samfylkingarinnar hefðu notað kosningabaráttuskjöl, sem vinstri/grænir töldu úr fórum sínum, og var hringt eftir þessum listum í fólk fyrir kjördag, sem va misboðið vegna stuðnings síns við vinstri/græna. Þurftu vinstri/grænir að grípa til sérstakra aðgerða til að bregðast við þessu Samfylkingarbragði. Töldu forystumenn þeirra, að þeim hefði tekist að draga úr mesta tjóninu, þótt þeir fögnuðu ekki niðurstöðu kosninganna sérstaklega. Til marks um, að vinstri/grænir hefðu náð vopnum sínum, var nefnt, að Svavar Gestsson, fyrrverandi forystumaður Alþýðubandalagsins og núverandi sendiherra í Svíþjóð, hefði verið á kosningaskrifstofu vinstri/grænna á kjördag ásamt Guðrúnu Ágústsdóttur, eiginkonu sinni, sem á sínum tíma var meðal forystumanna R-listans. Á sínum tíma vakti undrun, að Svavar tók ekki afstöðu með Steingrími J. og félögum hans innan Alþýðubandalagsins, þegar þeir ákváðu að ganga ekki til liðs við Samfylkinguna.

 

Þegar Ingibjörg Sólrún gekk á bak orða sinna og fór í þingframboð, sagði ég meðal annars hér á síðunni, að R-listinn væri úr sögunni. Hvað sem því líður hafa flokkarnir, sem stóðu að honum, ákveðið að halda áfram samstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur með ópólitískan borgarstjóra. Það skýrist með hverri vikunni sem líður, hve veikbyggt þetta samstarf er og hve forystuleysið í málefnum Reykjavíkurborgar eykst. Það dugar ekki til að breiða yfir vandræðaganginn með því að reka okkur sjálfstæðismenn úr ræðustól á fundi borgarstjórnar. Málfrelsi okkar verður ekki heft.