27.4.2003

Kosningaþættir – jafnréttismál – skattamál

Kosningaþættir.

Í dag, sunnudaginn 27. apríl, hef ég verið í tveimur umræðuþáttum hjá ríkisútvarpinu. Hinn fyrri var klukkan 13.00 í 55 mínútu á rás 1 undir stjórn þeirra Jóns Ólafssonar heimspekings og Ævars Kjartanssonar útvarpsmanns og snerist hann um friðragæslu og hvort Íslendingar ættu að hugleiða að stofna eigin her. Auk mín var Össur Skarphéðinsson viðmælandi þeirra félaga. (Þátturinn verður endurfluttur á miðvikudagskvöld kl. 22.15.) Í síðari þættinum, sem var klukkan 14.50 og stóð í 55 mínútur, hittust málsvarar stjórnmálaflokkanna, sem bjóða fram í Reykjavík norður. Kastlýsendurnir Sigmar og Eva María stýrðu þættinum með okkur Halldóri Ásgrímssyni, Ingibjörgu Sólrúnu, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Sigurði Inga (frjálslyndur) og Guðmundi G. Þórarinssyni (nýtt afl). Þennan þátt skilst mér, að skoða megi á vefsíðu RÚV auk þess verður hann endursýndur í vikunni.

 

Fyrri þátturinn var meira krefjandi, vegna þess að þar var leitast við að brjóta eitt mál til mergjar. Að vísu dreifði það umræðum nokkuð, að Össur var upptekinn af því, að sérsveit lögreglunnar hefði komið fram á degi lögreglunnar laugardaginn 26. apríl og sýnt hefði verið í sjónvarpinu, að börn fylgdust með ferðum grímuklæddra sérsveitarmanna og vopnabúnaði þeirra, auk þess sem einn lögreglumannanna hefði lýst því, hve spennandi væri að sinna þessu verkefni.

 

Þótti mér þetta skondið tal hjá Össuri. Það getur ekki verið markmið að fela raunveruleikann fyrir þeim, sem njóta verndar lögreglunnar. Það er þessi sérkennilegi tvískinnungur, sem einkennir um of umræður um öryggismál okkar, að menn haldi, að þeir geti breytt heiminum með því að tala ekki um hans eins og hann er.

 

Ég taldi, að sýning á þessu atriði hefði ekki verið alvarlegra en það, þegar okkur var á mínum yngri árum sýndur vopnabúnaður varðskipanna og við fengum að skoða fallbyssur um borð í þeim. Á hinn bóginn sýndi viðbúnaður lögreglunnar undir hvað menn byggju sig nú á tímum til að gæta öryggis borgaranna, það væri fremur áhyggjuefni en hitt, að viðbúnaðurinn væri fyrir hendi.

 

Seinni þátturinn með sex frambjóðendum, sem öllum var skammtaður sami tími, var fljótur að líða og eftir slíka þætti held ég, að það sé almenn tilfinning allra þátttakenda, að fátt hafi komist að af því, sem þeir vildu sagt hafa. Ég spurði Guðmund G. Þórarinsson frá Nýju afli, hvort honum þætti þess virði að hafa barist fyrir því að bjóða fram alls staðar á landinu til þess eins að komast í svona sjónvarpsþátt, en eins og kunnugt er verða flokkar að bjóða lista í öllum kjördæmum til að fulltrúar þeirra séu gjaldgengir í þessa þætti.

 

Jafnréttismál.

Töluvert var rætt um jafnréttismál í þættinum, en nú er svo komið, að Samfylkingin með Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi gerir jafnréttismálin að höfuðmáli. Er engu líkara en Ingibjörg Sólrún sé að nýju komin í Kvennalistann, sem hún átti þó sjálf mestan þátt í að leggja niður og taldi hafa gengið sitt skeið. „Aftur til fortíðar“ mætti nefna þessa fortíðarþrá Ingibjargar Sólrúnar og er merkilegt, að áherslan skuli beinast í þessa átt, þegar aðeins tvær vikur eru til kosninga. Bendir þetta til þess, að Samfylkingin hafi í raun gefist upp við önnur málefni. Hún þorir ekki að ræða um Evrópumálin, hún getur ekki skýrt stefnu sína í skattamálum, hún er föst í eigin talnaflækjum í menntamálum og í fátæktarumræðunum er að skýrast, að Ingibjörg Sólrún setti sem borgarstjóri þak á stuðning frá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, sem leiddi til þess að ásókn í styrki frá Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstofnun kirkjunnar stórjókst. Þetta kemur fram í bók Hörpu Njáls, sem Ingibjörg Sólrún kallaði „nýju biblíuna“ sína í ræðunni í Borgarnesi, þar sem sá sig knúna til að taka upp hanskann fyrir forsetann og biskupinn ? eða fara í skjól þeirra?

 

Í þættinum sagði ég gamaldags, að Ingibjörg Sólrún tönnlaðist á því, að í stjórnunarstöðum innan stjórnarráðsins væru 18,7% konur. Hún nálgaðist viðfangsefnið á rangan hátt. Líta ætti til þeirra gjörbreytinga, sem orðið hefðu í jafnréttismálum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og þá ekki síst lögin um fæðingarorlof, sem vísuðu til framtíðar og gjörbreyttu stöðu kvenna meðal annars á vinnumarkaði.

 

Ég sagði frá því, að menntamálaráðuneytið færi með álíka mikið fé, um 30 milljarða króna, og Reykjavíkurborg. Sem menntamálaráðherra hefði ég starfað í ráðuneyti, þar sem konur hefðu verið fleiri í stjórnunarstöðum en karlar. Í skólakerfinu væru konur ráðandi bæði sem kennarar og nemendur. Við hefðum efnt til sérstakrar ráðstefnu til styrkja stráka í skólum. Í menningarlífinu væru konur einnig í forystu á mörgum sviðum. Allir væru sammála um, að á þessum tveimur sviðum væru vaxtarbroddar í samfélaginu. Fráleitt væri að ræða málin á þeim forsendum, að miða aðeins við hlutfall starfsmanna í stjórnunarstöðum innan stjórnarráðsins.

 

Þegar ég hlusta á Ingibjörgu Sólrúnu ræða þessi mál, er eins og ég fari inn í annan heim á tilbúnum forsendum. Gerviheim, sem er skapaður til að veita Samfylkingunni fótfestu í áróðursstríði.

 

Fyrir utan að tala um 18,7%-in hefur Ingibjörg Sólrún látið mikið með, að launakönnun innan ríkisins sé ekki lokið. Gefur hún til kynna, að þar standi ríkið sig ekki í samræmi við kjarasamninga frá 1997, þegar svigrúm var skapað fyrir stjórnendur ríkisstofnana til að gera samninga við starfsmenn sína. Þetta var gert í þeim tilgangi að hægt yrði að umbuna starfsmönnum í launum samkvæmt óskilgreindum ákvörðunum forstöðumanna stofnana. Með nokkrum samningum fylgdi yfirlýsing þess efnis að áhrif nýja launakerfisins yrðu könnuð með tilliti til launamunar kynjanna. Á vegum ríkisins hefur verið unnið að málinu, en forsenda þess, að Félagsvísindastofnun háskólans geri launakönnunina er að flokka þarf störf hjá ríkinu með skipulegri hætti. Innan Hagstofu Íslands er unnið að því að endurskoða starfaflokkunarkerf ríkisins í samræmi við þá endurskoðun sem farið hefur fram í þeim efnum í Evrópu.

 

Ingibjörg Sólrún sagði í sjónvarpsþættinum, að ríkið hefði ekkert aðhafst í málinu og taldi sig með því svara þeirri staðhæfingu minni, að hún gæti ekki hreykt sér mikið af framkvæmd kjarasamninga og fyrirheita í sambandi við þá, þegar til þess væri litið, að ekki hefði verið staðið við það fyrirheit Reykjavíkurborgar í kjarasamningi við tæplega 70% starfsmanna sinna í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og Eflingu að taka upp nýtt launakerfi, sem meðal annars byggðist á samræmdu starfsmati. Átti að innleiða nýja launakerfið 1. desember 2002 en því hefur verið slegið á frest fram á árið 2003, án þess að ný dagsetning hafi verið nefnd.

 

Hinn 19. maí 2002 eða viku fyrir borgarstjórnarkosningar ritaði Ingibjörg Sólrún grein í Morgunblaðið og sagði frá niðurstöðu í launakönnun Félagsvísindastofnunar háskólans, sem sýndi, að kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg mæltist nú 7%.  Þegar hún ræðir þetta mál núna, verður hún að líta til þeirrar staðreyndar, að á vegum ríkisstjórnarinnar er verið að vinna að málinu til að unnt sé að vinna samanburðinn á haldgóðum forsendum. Það segir auðvitað ekkert um, að launamunurinn sé meiri hjá ríkinu en Reykjavíkurborg. Það segir hins vegar, að það er rangt, sem segir í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar, að ríkisstjórnin hafi „vikið sér undan“ því að standa fyrir launakönnun hjá ríkinu.

 

Skattamálin.

Hér ætla ég ekki að fara yfir umræður í sjónvarpsþættinum um skattamálin. Ég áréttaði, að stefna okkar sjálfstæðismanna væri skýr og enginn drægi í efa, að þær skildu mesta fjármuni eftir í höndum borgaranna. Við mundum standa við þessi fyrirheit eins og við hefðum staðið við annað á liðnum 12 árum.

 

Karpið um það, hvað skattatillögur annarra flokka þýða, mun halda áfram fram að kosningum. Furðulegast er að hlusta á frjálslynda tala um þessi mál, því að greinilegt er, að þeir vissu ekki sjálfir hvað þeir voru að bjóða, þegar þeir kynntu kosningastefnu sína.

 

Ég heyrði í fréttum sjónvarpsins í kvöld, að þar hentu menn hluta af orðaskiptum þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Halldórs Ásgrímssonar á loft og töldu Halldór hafa sagt, að skattar hefðu verið hækkaðir síðustu tvö kjörtímabil, þegar allir skildu það eftir skýringu hans, nema líklega Ingibjörg Sólrún, að hann átti við skatttekjur ríkisins, sem hafa hækkað vegna hagvaxtar og stækkunar þjóðarkökunnar. Var fréttastofan vísvitandi að draga taum Samfylkingarinnar með þessari frétt? Þar vita menn eins og allir aðrir, að tekjuskattur ríkisins hefur verið lækkaður og einnig eignarskattur. Tekjuskattur einstaklinga hefur lækkað úr 33,15% árið 1994 í 25,75% árið 2003, eða um 7,40%. Að þessum lækkunum hefur Halldór Ásgrímsson staðið og þess vegna fráleitt að túlka orð hans á þann veg, að skattar hafi verið að hækka.

 

Er raunar með ólíkindum, að eftir þrjá kjördæmaþætti í dag skuli þetta talinn eini fréttapunkturinn úr umræðum dagsins í sjónvarpssal: að Ingibjörg Sólrún færir sér í nyt missögn eða snýr vísvitandi út úr orðum Halldórs Ásgrímssonar! Það segir meira um hugarfar Ingibjargar Sólrúnar en skoðun Halldórs.