15.2.2003

FS-net - traust að leiðarljósi - skoðanakannanir

 

FS-net.

 

Föstudaginn 14. febrúar kom nýtt háhraðanet, sem tengir saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um land allt, til sögunnar. Með háhraðanetinu, sem nefnt hefur verið FS-net, er lögð upplýsingahraðbraut fyrir menntastofnanir og nýjar forsendur skapaðar fyrir nám og kennslu.

 

FS-netið tengir saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar í landinu, samtals yfir 60 staði.  Framhaldsskólar og höfuðstöðvar símenntunarmiðstöðva tengjast með 100 mbs flutningshraða en útibú símenntunarmiðstöðva  með 2 mbs. Tilkoma netsins gjörbreytir öllum fjarskiptum menntastofnana og tryggir íbúum fámennra staða á landsbyggðinni góða aðstöðu til fjarnáms. FS-netið skapar grundvöll fyrir þróun náms og kennslu sem byggir á upplýsinga- og fjarskiptatækni.

 

FS-netið mun tengjast neti rannsóknastofnana og háskóla og styður þannig við áform menntamálaráðuneytisins um eflingu háskólanáms á landsbyggðinni en þar gegna símenntunarmiðstöðvar mikilvægu hlutverki. Með netinu verður stuðlað að auknu námsframboði um land allt og opnaðir möguleikar á að sérsníða nám  til að auka fjölbreytni og aðlögun að þörfum ólíkra landsvæða.

 

Menntamálaráðuneytið stóð fyrir útboði á háhraðanetinu vorið 2002 í samvinnu við framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar og sveitarfélög. Ríkiskaup sá um framkvæmd útboðsins. Samið var við Skýrr hf. um uppbyggingu og rekstur netsins til fjögurra ára og er Landssími Íslands hf. samstarfsaðili  Skýrr við verkið.  Heildarkostnaður er um hálfur milljarður króna á fjórum árum.

 

Ég vek athygli á þessu hér, því að með FS-netinu er komið til móts við óskir þeirra, sem nota það, um mun betri þjónustu en áður hefur verið unnt að veita. Þegar kvartað var undan því við menntamálaráðuneytið á sínum tíma, að aðgangur að netinu væri svo þröngur, að hann nýttist ekki sem skyldi fyrir skóla og símenntunarmiðstöðvar, ákvað ég, að ráðuneytið skyldi hafa forgöngu um að skilgreina þarfir þessara skóla og miðstöðva og síðan skyldi leitað til einkaaðila um lausnirnar. Gekk það eftir með þeim ágætum, sem lýst er hér að ofan.

 

Þegar opinberir aðilar standa fyrir úrlausn verkefna af þessu tagi, eru almennt tveir kostir fyrir hendi, að hinn opinberi aðili sökkvi sér sjálfur ofan í að leysa viðfangsefnið með því að þróa opinbert þjónustukerfi af einhverjum toga eða hann meti, hvaða þörf er á þjónustu og fái aðra til að sinna henni fyrir markaðsverð. Í skólastarfi ríkisins hefur verið farið inn á þessa braut á sífellt fleiri sviðum, ekki síst varðandi upplýsingatæknina. Einnig hefur verið þróað samstarf á öðrum sviðum milli opinberra aðila og einkaaðila eins og við gerð landskerfis bókasafna.

 

Í nýlegum samtölum við frumkvöðla í upplýsingatækni hafa  þeir lýst áhyggjum yfir því, að ríkið sé að hneigjast um of til þess að búa til sín eigin kerfi en treysta á þjónustu einkaaðila. Þetta er öfugþróun og stuðlar hvorki að skynsamlegri nýtingu opinbers fjár né þróun hugbúnaðar eða að því að hér styrkist öflug upplýsingatæknifyrirtæki. Þau eru þó ein forsenda þess, að Íslendingar haldi áfram að styrkja stöðu sína í keppni þjóða um bestu lífskjörin.

 

Traust að leiðarljósi.

 

Nokkrar umræður hafa orðið um traust í stjórnmálum á fyrstu vikum ársins. Fyrstu daga þess eftir að Davíð Oddsson gerði traustið að umtalsefni í áramótaávarpi sínu og síðan núna að nýju, eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti fyrstu ræðu sína sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í Borgarnesi sunnudaginn 9. febrúar. Ræðan þótti að vísu einkennast af því, að Ingibjörg Sólrún vildi grafa undan trausti á Davíð Oddssyni með því að saka hann um óeðlileg afskipti af fyrirtækjum í landinu.

 

Ef ræða Ingibjargar Sólrúnar hefði hlotið hljómgrunn meðal athafnamanna, hefðu þeir getað látið það í ljós með einum eða öðrum hætti, þegar efnt var til viðskiptaþings miðvikudaginn 12. febrúar, þar sem Davíð var helsti ræðumaður. Viðtökur við henni voru með þeim hætti, að í lófatakinu fólst greinilega sérstakt traust til forsætisráðherra. Ræða hans snerist  um hinn mikla árangur, sem náðst hefur við stjórn efnahagsmála undir forystu hans á síðustu árum, auk þess sem hann leit fram á veg og boðaði skattalækkanir á einstaklinga á næstu árum.

 

Ræða Ingibjargar Sólrúnar var almennt skilin á þann veg, að hún drægi þar taum nokkurra fyrirtækja til að skapa skil á milli sín Davíðs Oddssonar, þar á meðal Norðurljósa, fyrirtækis Jóns Ólafssonar. Ingibjörg Sólrún varð síðan ein stjórnmálmanna til að segja skoðun sína á skattamálum Jóns Ólafssonar, eftir að Morgunblaðið birti föstudaginn 14. febrúar á 10 síðum niðurstöður skattrannsóknarstjóra á rannsókn hans á Jóni auk andmæla lögmanns Jóns. Vildi hún greinilega draga skörp skil milli sín og Jóns eins og þessi orð á baksíðu Morgunblaðsins 15. febrúar sýna:

 

„Þetta eru auðvitað miklar ávirðingar og gífurlegar fjárhæðir sem eru nefndar til sögunnar og ég held að flestir geti verið sammála um að breyta þurfi leikreglunum ef unnt er að haga fjárreiðum með þessum hætti án þess að brjóta um leið lögin í landinu. Það á að vera markmið laganna að þegnar samfélagsins sitji við sama borð og andi þeirra hlýtur ávallt að vera sá að eðlilegir skattar séu greiddir af miklum umsvifum og hagnaði á Íslandi. Það er augljóst að full ástæða var til að gera þessa rannsókn en nú kemur auðvitað til kasta dómstólanna að kveða upp úr um hvort farið hefur verið að lögum og það er áhugavert að sjá hver niðurstaða þeirra verður.“

 

Skoðanakannanir.

 

Samkvæmt skoðanakönnun Talnakönnunar fyrir vefsvæðið heimur.is  dagana 10. til 13. febrúar mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 38,4%, var 36,4% í síðustu könnun Talnakönnunar í janúar, Samfylkingin naut 37,7% stuðnings, var 39,7% síðast, 11,6% ætluðu að kjósa Framsóknarflokkinn miðað við 13,3% síðast, 9,8% Vinstri græna, sem er 1 prósentustigi meira en í janúar, og fylgi Frjálslynda flokksins mældist 2,1%, var 2,5%. Þjóðernissinnar fengu 0,4% en ekkert í síðustu könnun. Í könnuninni svaraði 791 kjósandi, þar af sögðust 28% vera óákveðin og 13% vildu ekki svara spurningunni, ætluðu að skila auðu eða ætluðu ekki að kjósa.

 

Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, sem birtist á vefsíðu blaðsins 15. febrúar, nýtur Samfylkingin nú stuðnings 40,1% kjósenda og Sjálfstæðisflokkurinn er með 35,8% fylgi. Könnunin var gerð dagana 6.-10. febrúar og studdist stofnunin við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá sem náði til allra landsmanna á aldrinum 18-80 ára. Fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er það mikið í Reykjavík að flokkarnir gætu fengið flesta eða jafnvel alla þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum. Mælist Samfylkingin þar með 48,4% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 39%. Óvissa er um hvort Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð ná inn manni í Reykjavík og könnunin bendir til þess að Frjálslyndi flokkurinn nái engum manni kjörnum til Alþingis, er með tvo núna.

 

Þegar litið er á niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar varðandi fylgið í Reykjavík, er augljóst, að miðað við borgarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor nær Samfylkingin að höfða til kjósenda Framsóknarflokksins og vinstri/grænna með sama hætti og um R-listann væri að ræða. Stóra spurningin í Reykjavík er sú, hvað framsóknarmenn og vinstri/grænir ætla að gera til að fá flokksmenn sína til að hætta að styðja Samfylkinguna, þar sem vinstri menn gera greinilega ekki mun á henni og R-listanum.