16.11.2002

Lokavika prófkjörs - eigendafundur OR - kattarþvottur Línu.nets

Lokavika prófkjörsbaráttunnar hér í Reykjavík er nú að hefjast. Vissulega setur það svip sinn á umræður um hana, hve illa tókst til við framkvæmd prófskjörs okkar sjálfstæðismanna í Norðvestur-kjördæminu. Er sorglegt að fylgjast með deilunum, sem hafa orðið vegna prófkjörsins. Hitt er einnig með ólíkindum, að nokkrum skuli detta í hug að fara með kjörkassa út um borg og bí til að ná í kjósendur. Virðing fyrir framkvæmd kosninga og reglum um þær er grunnþáttur í leikreglum lýðræðisins, sem verður að virða, til að eðlilegt traust ríki milli manna. Við sjáum líka, hvernig traustið rýkur út í veður og vind, þegar þessar reglur eru hafðar að engu.

Ástæðulaust er að draga nokkrar ályktanir um prófkjörið í Reykjavík af því, sem þarna gerðist. Reglur um þátttöku í prófkjörinu hér eru strangari en þar, því að í Reykjavík mega þeir einir kjósa, sem eru félagsbundnir sjálfstæðismenn, það er ganga formlega í flokkinn, áður en þeir greiða atkvæði. Málum var ekki þannig háttað í Norðvestur-kjördæminu.

Úrslitin hafa einnig vakið umræður um, hvernig atkvæðum er beint á einstaka frambjóðendur. Þeir fari niður eftir listanum, nái þeir ekki því sæti, sem áköfustu stuðningsmenn veita þeim. Þetta á við um þá, sem stefna í fyrsta sæti en fá ekki nógu mörg atkvæði til að hljóta sætið. Hinir, sem stefna að sætum fyrir neðan, njóta ekki aðeins þeirra atkvæða, sem þeir fá í óskasætið heldur einnig allra þeirra, sem þeir fá þar fyrir ofan.

Auglýsingaæði Jakobs Frímanns í prófkjöri Samfylkingarinnar og lélegur árangur hans hafa dregið úr auglýsingafíkn í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna.

Eigendafundur OR.

Ég ætla að halda áfram að segja sögur af stjórnarháttunum í Orkuveitu Reykjavíkur (OR).

Miðvikudaginn 13. nóvember klukkan 12.00 á hádegi var haldinn eigendafundur OR í svonefndu Stöðvarstjórahúsi OR við gömlu rafstöðina í Elliðarárdal, en þessu húsi hefur verið breytt í einskonar móttökuhús OR.

Fundurinn var boðaður vegna þess, að Garðabær vill losna úr OR og selja sinn hlut. Hefur stjórn OR samþykkt fyrir sína hönd, að gengið skuli til samninga um að kaupa hlutinn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem fer í raun með einræðisvald á eigendafundum OR, þar sem borgin á þar 92,22%, vildi ekki samþykkja kaupin á þessum fundi heldur fela forstjóra OR að ræða við Garðabæ um kaup á hlutnum.

Hitt meginatriði fundarins var að túlka lög OR og breyta sameignarsamningi fyrirtækisins í því skyni að veita stjórn sem víðtækast umboð til að skuldbinda eigendurna, sveitarfélögin fimm eftir brottför Garðabæjar, án þess að skuldbindingarnar séu bornar undir sveitarstjórnirnar.

Er með ólíkindum, að eigendur komi saman, eftir allt, sem á undan er gengið í fjárfestingum OR, til að samþykkja breytingar á samningi sín á milli, svo að heimildir stjórnar til að skuldbinda sveitarsjóðina verði eins rúmar og frekast er kostur. Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar, taldi, að þessi breyting á sameignarsamningnum væri lögbrot og er ég sammála þeim skilningi. Sé samningurinn á skjön við lögin, ráða lögin að sjálfsögðu.

Á fundinum staðfesti borgarlögmaður þá túlkun á lögum og sameignarsamningi, að fari uppsafnaðar skuldbindingar fram yfir 5% af höfuðstól OR á ári, skuli bera allar skuldbindingar umfram það undir eigendur. Önnur túlkun á lögunum, sem Ingibjörg Sólrún og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, hafa meðal annars flaggað er út í hött. Er það til marks um, hve langt forráðamenn OR vilja seilast til að hafa sitt fram, að hafa hafnað hinni réttu túlkun á þessari 5% reglu.

Ég las síðan í Morgunblaðinu eftir þennan fund, að Ingibjörg Sólrún var áfram við það heygarðshorn, að lög OR skylduðu stjórn hennar ekki til þess að leggja skuldbindingar vegna kaupanna á ljósleiðarakerfi Línu.nets undir eigendur, þar sem 5% reglan hefði ekki verið brotin. Hvaða hagsmuna er borgarstjóri að gæta með þessum ummælum? Hvaða lagarök hefur hún fyrir þessari skoðun sinni?

Hræðslan við að leggja spilin á borðið vegna Línu.nets felst ekki aðeins í því að neita að svara spurningum um málið í stjórn OR. Hún birtist nú hvað eftir annað í þeirri afstöðu Ingibjargar Sólrúnar, að standa í vegi fyrir því, að málið komist til lögskipaðrar meðferðar hjá eigendum OR.

Vekur furðu, að fjölmiðlar sýna þessu máli ekki áhuga. Ef um væri að ræða fyrirtæki í eigu ríkisins, er ekki nokkur vafi á því, að viðkomandi ráðherra væri þráspurður um það, hvernig stæði á því, að hann neitaði að hlíta lögum um meðferð fjárskuldbindinga. Hitt er líka spurning, hvernig vinstri/grænir og samfylkingarfólk getur látið þetta yfir sig ganga á vettvangi borgarstjórnar, þegar það stendur hrópandi á upplýsingar og gegnsæi vegna ríkisfyrirtækja á alþingi.

Kattarþvottur Línu.nets

Síðan kemur forstjóri Línu.nets og skrifar enn eina hvítvoðungsgreinina um Línu.net í Morgunblaðið (16. nóvember). Hann endurtekur þar sjálfshól Línu.nets um, að Síminn hafi lækkað gagnaflutninga um 40% vegna Línu.nets en sleppir því auðvitað, að lögmaður Línu.nets hefur kvartað yfir þessari lækkun Símans til Samkeppnisstofnunar á þeirri forsendu, að um undirverðlagningu á gagnaflutningsþjónustu sé að ræða. Tvískinnungur og feluleikur er ekki aðeins aðalsmerki Línu.nets, þegar rætt er um fjármál fyrirtækisins í stjórn eiganda þess, Orkuveitu Reykjavíkur, heldur alls staðar, þar sem málstaður þess er kynntur.

Hausinn af skömminni bítur forstjórinn í lokaorðum greinar sinnar, þegar hann segir hægri menn í borgarstjórn Stokkhólms hafa viljað hraða uppbyggingu á gagnaflutningskerfi þar og deilt um það við vinstrisinna og klykkir út með þessum orðum: ?Þessu er sem kunnugt er öfugt farið í Reykjavík.?

Hvernig getur forstjórinn staðið við þessi orð? Hvar hefur það komið fram, að við sjálfstæðismenn viljum ekki öflugt gagnaflutningskerfi í Reykjavík?

Ef hægri menn í borgarstjórn Stokkhólms stæðu frammi fyrir þeim subbuskap, fjáraustri og undanbrögðum gagnvart lagaákvæðum, sem við blasa vegna Línu.nets, er ég viss um, að þeir væru sama sinnis og við, sem gagnrýnum vinnubrögð R-listans, eins og þau birtast í Línu.neti. Ég fullyrði, að hvergi, þar sem kjörnir fulltrúar umgangast af ábyrgð opinber fyrirtæki og fjárfestingar á þeirra vegum, væri sátt um Línu.net.

Það myndast ekki heldur nein sátt um þá stjórnarhætti, sem hér er lýst í OR og Línu.neti, og undir þeirri forystu, sem hagar sér á þann veg, að hafa eðlilega stjórnarhætti að engu og halda, að unnt sé að komast hjá því að ræða efni máls, lög og leikreglur með pólitískum orðahnippingum, útúrsnúningum og undanbrögðum frá lögum.