9.11.2002

Prófkjörsbarátta hafin - ofríkisstjórn í OR - leiðtogarfræði Giulianis







Ég opnaði prófkjörsskrifstofu mína í dag að Sætúni 8. Var ánægjulegt, hve margir lögðu leið sína til mín, en þarna verður opið frá klukkan 14.00 til 18.00 hvern dag fram yfir prófkjör okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík 22. og 23. nóvember. Hafsteinn Þór Hauksson laganemi er kosningastjóri minn. Sé ég ekki á skrifstofunni er auðvelt að kalla mig til fundar þar með aðstoð Hafsteins Þórs.



Hvet ég alla, sem vilja leggja baráttu minni fyrir 3ja sætinu á framboðslistanum lið, til að líta inn á skrifstofuna eða hafa samband við mig á netinu. Ég hef það fyrir reglu að reyna að svara öllum bréfum samdægurs.



Ófríkisstjórn í OR.



Í vikunni var stjórnarfundur í Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar sem Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður beitti ofríki til að knýja fram tillögu um túlkun á lögum og stofnsamningi OR í því skyni að auka svigrúm sitt til að taka ákvarðanir um skuldbindingar í nafni OR og sveitarfélaganna, sem að henni standa, án þess að bera þær undir eigendur fyrir fram eins og lög segja. Af þessu tilefni lýstum við Guðlaugur Þór Þórðarson stjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins vantrausti á Alfreð með bókun.



Eitt er að Alfreð leitist við að túlka lög OR á þann veg, að hann geti ráðskast sem mest með fjármuni veitunnar og borgarbúa, annað að fulltrúar Samfylkingar, vinstri/grænna og Akraness kyngi öllu, sem hann leggur til, án þess að gefa stjórnarmönnum tóm til að skoða mál milli funda, sé þess óskað. Hvarvetna er orðið við óskum um slíka málsmeðferð, þar sem eðlilegir og sanngjarnir stjórnarhættir tíðkast.



Fimmtudaginn 7. nóvember gafst einstakt tækifæri til að ræða réttarstöðu OR í tilefni af því, að skýrsla umboðsmanns alþingis var til umræðu á þingi. Umboðsmaður fjallar um stöðu fyrirtækja, sem eru alfarið í eign ríkis eða sveitarfélaga, en hefur verið breytt í hlutafélag eða sameignarfélag eins og OR. Telur hann, að innan slíkra fyrirtækja eigi að gæta sömu leikreglna og um opinber fyrirtæki.



Óvissan um réttarstöðu fyrirtækjanna minnkar ekki við þessa skýrslu, því að iðnaðarráðuneytið og borgarlögmaður hafa lýst annarri skoðun en umboðsmaður, hans orð vega þungt, þegar leitað er réttar síns vegna starfa slíkra fyrirtækja, og umboðsmaður hefur meðal annars lýst því áliti, að Landsvirkjun sé opinber stofnun og lúti því stjórnsýslureglum. Var það samdóma álit okkar þingmannanna, sem ræddum þessar hugleiðingar umboðsmanns, að nauðsyn bæri til þess að setja lög um starfshætti þessara fyrirtækja, eins og umboðsmaður vill, að gert verði. Hét Halldór Blöndal, forseti alþingis, að beita sér fyrir athugun á því, hvernig staðið skyldi að slíkri lagasetningu, hvort iðnaðarráðherra ætlaði að taka á málinu eða þingnefnd tæki að sér verkefnið.



Síðar þennan sama fimmtudag var borgarstjórnarfundur og þar flutti ég ræðu um réttarstöðu OR, sem má sjá á vefsíðunni minni. Því betur sem ég kynnist fyrirtækinu og viðhorfi stjórnarformanns og samstarfsmanna hans, er ég sannfærðari um nauðsyn þess að skerpa lagaákvæði um það til að tryggja hag eigenda þess, þótt mér sé ljóst, að ekki er unnt að leysa allan vafa með skýrum lagaákvæðum, ef menn hneigjast til að hafa þau að engu.



Að hlusta á Ögmund Jónasson. þingmann vinstri/grænna, ræða réttarstöðu fyrirtækja í opinberri eigu á alþingi og verða vitni að því, hvernig fulltrúi vinstri/grænna tekur á málum í stjórn OR, er til marks um sérkennilegan tvískinnung í flokki, sem segist vilja hafa allt sitt á hreinu með skýrri stefnu og stefnufestu. Í nafni vinstri/grænna er þess krafist á þingi, að upplýst sé um stórt og smátt í opinberum fyrirtækjum án tillits til rekstrarforms, en í stjórn eins slíks fyrirtækis, Orkuveitu Reykjavíkur, tekur fulltrúi vinstri/grænna þátt í að valta yfir þá, sem óska eftir frekari upplýsingum eða fresti til að kynna sér betur efni framlagðra tillagna.



Ef ræða Alfreðs Þorsteinssonar í borgarstjórn á fimmtudag hefði verið flutt á alþingi, hefði hún þótt fréttnæm vegna orðbragðsins og hrakyrðanna, sem hann taldi sér sæma að ausa yfir okkur Guðlaug Þór. Þá er einnig líklegt, að forseti alþingis hefði séð ástæðu til að áminna ræðumann vegna framgöngu hans, en forseti borgarstjórnar hreyfði hvorki legg né lið og borgarstjóri lét sig hafa það að halda fram málstað Alfreðs, þótt ekki svaraði hún spurningu minni um það, hvort réttmætt hefði verið hjá meiri hluta OR-stjórnarinnar að vera með eigin skýringu á lögum OR – sérstaklega í ljósi þess, að í sömu andrá var ákveðið að óska eftir eigendafundi fyrirtækisins til að ræða meðal annars túlkun á lögum þess og sameignarsamningi.



Eins og þeir geta séð, sem vilja skoða skrif mín um R-listann hér á síðunni undanfarin ár, hef ég haldið því fram, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætti ekki síðasta orðið í viðskiptum sínum við Alfreð Þorsteinsson. Ítreka ég þessa skoðun af enn meiri vissu, eftir að hafa kynnst samstarfi þeirra í návígi. Er niðurlægjandi fyrir borgarstjóra og R-listann, að bera ábyrgð á framgöngu Alfreðs. Er rétt að minna á, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir samfylkingarkona er varaformaður stjórnar OR og gengur ekki hnífurinn á milli hennar og Alfreðs.



Leiðtogabók Giulianis



Fyrir skömmu gaf Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, út bókina Leadership, þar sem hann lýsir aðferðum sínum við að stjórna New York og ná ótrúlega miklum árangri við það starf.



Giuliani er repúblíkani og þeir eiga almennt ekki upp á pallborðið í New York, hvorki í borginni né ríkinu. Hann ók með flokksbróður sínum, George W. Bush Bandaríkjaforseta, um Manhattan, þegar forsetinn kom til New York í september 2001 og fór um rústir tvíburaturnanna. Fólk staðið við vegarbrúnina með spjöld og borða til að hylla forsetann og hvetja hann til dáða. Þá lét Giuliani þau orð falla við forsetann, að hann skyldi taka vel eftir þessum góðu kveðju, því að ekki einn einasti íbúi í þessum hverfum borgarinnar, hefði greitt Bush atkvæði í forsetakosningunum árið 2000.



Í borgarstjórn New York eiga demókratar meirihluta og áttu 45 og stundum 46 af 51 borgarfulltrúa, þegar Giuliani var borgarstjóri, en hann er kjörinn beint. Borgarstjórnin fer með löggjafarvaldið í borginni en borgarstjórinn framkvæmdavaldið. Var borgarstjórnin öll á þeim buxunum að gera Giuliani og embættismönnum hans lífið leitt. Segir hann, að öskrað hafi verið á embættismenn sína og þeir uppnefndir. Hann hafi ekki þolað slíka framgöngu sjálfur og þess vegna gefið embættismönnum sínum þessi fyrirmæli:



„Ef einhver sýnir þér dónaskap, hefur þú heimild mína – og stuðning – til að svara fyrst: „Borgarfulltrúi, ef þú heldur áfram að öskra og sýna mér dónaskap, fer ég héðan. Ég kem ekki fram við þig á þennan hátt, og þú hefur ekki leyfi til að koma þannig fram við mig.” Ef hann lætur sér ekki segjast, skaltu yfirgefa fundinn með fullum stuðningi mínum.”



Mér kom þetta í hug, þegar ég sá Alfreð Þorsteinsson hrópa og pata út í loftið við ræðupúltið í borgarstjórnarsalnum. Ekki að ég ætlaði að yfirgefa salinn, enda kjörinn til að veita honum aðhald með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi, heldur að samherjar Alfreðs á R-listanum létu þetta yfir sig ganga í sínu nafni, þótt flestir þeirra kysu að fara úr salnum, á meðan Alfreð talaði.



Ég mæli með bókinni eftir Giuliani. Þar geta menn séð, að það eru ekki náttúrulögmál, sem ráða þróun borga, heldur getur einbeittur vilji öflugs stjórnanda gjörbreytt hag íbúanna til hins betra á ótrúlega skömmum tíma.