19.10.2002

Öryggisráðið og Saddam – óvandaðir stjórnarhættir í OR.


Heimferðin frá New York gekk vel aðfaranótt 19. október. Þessar tvær vikur, sem þingmenn sitja hverju sinni allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ), gefa nasasjón af starfinu þar. Að þessu sinni beindist athygli okkar og heimsins alls að viðleitni SÞ til að knýja Saddam Hussein, einsræðisherra í Írak, til að hlíta samþykktum öryggisráðs SÞ um eftirlit með vopnaframleiðslu hans. Saddam hefur í fjögur ár bannað eftirlitsmönnum SÞ að koma inn í land sitt til að kanna, hvort þar sé unnið að því með leynd og í trássi við alþjóðasamninga og samþykktir að framleiða gjöreyðingarvopn.

Undir forystu George W. Bush Bandaríkjaforseta er nú unnið að því að skapa forsendur fyrir eftirlitsmenn SÞ til að láta að nýju að sér kveða innan Íraks. Vilja þeir Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Breta, að kné verði látið fylgja kviði, ef Saddam neitar samvinnu við SÞ. Spurningin er ekki sú, hvort þrengja eigi að Saddam heldur hvernig það er best gert til að ná fram vilja alþjóðasamfélagsins eins og hann kemur fram í ályktunum öryggisráðs SÞ.

Miðvikudag og fimmtudag voru umræður í öryggisráðinu, þar sem ríki utan ráðsins og innan lýstu skoðunum sínum. Enginn málsvari SÞ getur rætt þetta á trúverðugan hátt, án þess að gagnrýna Saddam harðlega. Gangi menn að því vísu, að Saddam fari að óskum SÞ, ræða þeir ekki refsiaðgerðir gegn honum. Þeir, sem efast um virðingu hans gagnvart ályktunum öryggisráðsins og eftirlitsmönnum SÞ, leggja áherslu á, að hann komist ekki refsilaust upp með það. Spurningin er, hvernig staðið skuli að refsingunni og hvort ræða eigi hana sérstaklega í öryggisráðinu, þegar þvermóðska Saddams í garð SÞ hefur enn einu sinni verið staðfest, eftir að eftirlitsmennirnir hafa fengið nýtt umboð ráðsins.

Bandaríkjaforseti hefur fengið heimild til að beita Bandaríkjaher gegn Saddam til að berja hann til hlýðni. Þetta eykur þungann í öllum ákvörðunum á vettvangi öryggisráðs SÞ. Heiður SÞ er í húfi, það skein í gegnum ræðurnar, sem ég heyrði í öryggisráðinu. Ýmsir ræðumenn lögðu áherslu á, að ekki væri aðeins verið að ræða um leiðir til að uppræta gjöreyðingarvopn í Írak heldur til að létta einræðisoki Saddams af Írökum. Heimili Saddam eftirlitsmönnum SÞ skilyrðislaust að starfa í landi sínu, linar það strax alþjóðlegu efnahagsþvingarnirnar. Falli einræðisherrann og valdaklíka hans úr sessi, geta Írakar um frjálst höfuð strokið.

Fimmtudaginn 17. október, áður en ég fór til að hlusta á umræður í öryggisráðinu, heyrði ég í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins, að fyrsta fréttin var, að Alkirkjuráðið hefði lýst andstöðu við refsiaðgerðir gegn Saddam og sent öryggisráðinu bréf um það. Hvorki heyrði ég þessa bréfs getið annars staðar né sá á það minnst í blöðum. Við að hlusta á hádegisfréttina og án þess að hafa tækifæri til að kynna mér málið af eigin raun, hefði ég hæglega getað dregið þá ályktun, að nú nötraði allt í öryggisráðinu vegna bréfs Alkirkjuráðsins. Umræðurnar um aðgerðir gegn Saddam hefðu tekið nýja stefnu. Þess var þó ekki vart.

Eftir að hafa hlustað á ræður fulltrúa fjölmargra þjóða í öryggisráðinu, var eins og að koma í annan heim að lesa Morgunblaðsgrein eftir Þórdísi B. Sigurþórsdóttur viðskiptafræðing 17. október, þar sem hún gerir lítið úr kúgun Saddams á Írökum (hann hefur þó til dæmis notað eiturefnavopn til að brjóta andstæðinga sína heima fyrir á bak aftur) og segir Íraksmálið snúast um olíugróða en lítur með öllu fram hjá leynilegri framleiðslu Saddams á gjöreyðingarvopnum.

Óvandaðir stjórnarhættir í OR.

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur ákveðið að fela Ásdísi Höllu Bragadóttur bæjarstjóra að óska eftir upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um fjárhagslegar skuldbindingar fyrirtækisins. Gerir bæjarstjórnin þetta á grundvelli sameignarsamnings um OR og 1. gr. laga um OR, þar sem segir: „Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju þarf Orkuveita Reykjavíkur að fá fyrir fram samþykki allra eignaraðila. Með höfuðstól er átt við bókfært eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í lok næstliðins árs.” Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, að þetta ákvæði er með svipuðum hætti og heimild stjórnar Landsvirkjunar skv. 14. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun.

Í greinargerð með ályktun bæjarstjórnar Garðabæjar segir, að í lagaákvæðinu sé vísað til uppsafnaðra skuldbindinga OR á árinu 2002, fari þær fram úr 5% beri að leita fyrir fram samþykkis allra eignaraðila að OR, þar með Garðabæ. Vill Garðabær fá upplýsingar um heildarskuldbindingar OR á þessu ári til að átta sig á því, hvort þær hafa farið fram yfir 5% af eigin fé OR.

Í viðtali fréttastofu hljóðvarps ríkisins við Ásdísi Höllu að morgni föstudagsins 18. október kom fram, að eigið fé OR hefði verið tæpir 35 milljarðar króna um síðustu áramót, fjárfesting OR í Línu.neti (LN) væri 1.760 millj. króna, hún ein færi því fram úr 5% af eigin fé OR. Fréttamaður spurði, hvort fjárfesting í tengslum við OR og LN færi yfir þessi 5% á þessu ári. Ásdís Halla sagðist ekki vita það, því að hún vissi ekki hvort skuldbindingin skiptist á fleiri ár en þetta. Þess vegna væri nauðsynlegt að fá að vita nákvæmlega, hverjar skuldbindingarnar hafa verið á árinu, áður en unnt væri að ræða þetta frekar.

Í hádeginu þennan sama dag var sjónarmið Ásdísar Höllu borið undir Guðmund Þóroddsson, forstjóra OR. Ámælisvert er, hvernig hann lýsir eigin fé OR og skuldbindingum vegna LN. Guðmundur segir: „Nú er það þannig að samkvæmt stofnsamningi orkuveitunnar sem að gerir ráð fyrir að eigið fé fyrirtækisins 1. janúar síðast liðinn sé 38 milljarðar króna. 5% af því er 1,9 milljarður en raunverulega eru nýjar skuldbindingar vegna kaupa ljósleiðarakerfisins [sem OR keypti af LN] ekki nema 1.350 milljónir þar sem að 400 milljónir eru greiddar með hlutabréfum í Línu.net.” Lokasetning Guðmundar í útvarpsviðtalinu er þessi: „Við gerum yfirleitt eigendum ekki sérstaklega grein fyrir ákvörðunum stjórnar nema þá að það sé eitthvað miklu stærra en þetta sko.”

Guðmundur Þóroddsson forstjóri fer fram hjá þeirri staðreynd, að lögum samkvæmt ber honum að miða við eigið fé í árslok 2001. Samkvæmt ársskýrslu OR var það 31. desember 2001 34.934.94 milljónir kr.eða tæpir 35 milljarðar eins og Ásdís Halla sagði en ekki 38 milljarðar kr. eins og Guðmundur er að gefa til kynna. Þá vill forstjórinn greinilega komast hjá því að ræða þetta mál frekar við eigendur OR.

Er þetta furðulegur málatilbúnaður hjá forstjóra fyrirtækis vegna tilmæla eiganda, sem byggjast á sameignarsamningi og lögum um fyrirtækið, sem hann stjórnar. Hefði frekar mátt ætla, að forstjórinn beindi því til stjórnar OR að taka af skarið um þennan mikilvæga þátt. Hér er um það að ræða, að túlka lög og samning um OR, sem gengu í gildi 1. janúar 2002. Eru mikilvægir hagsmunir í húfi fyrir OR, að um þennan grundvallarþátt, réttarstöðu eigenda gagnvart fyrirtækinu, ríki sameiginlegur skilningur og sátt á málefnalegum forsendum. Ekki sé gripið til útúrsnúninga eða beinlínis neitað að veita upplýsingar.

Afstaða Guðmundar forstjóra, sem á sæti í stjórn LN, kemur ekki á óvart, þegar litið er til framgöngu hans og Alfreðs Þorsteinssonar, stjórnarformanns OR og LN, við afgreiðslu á uppgjörinu milli OR og LN á vettvangi stjórnar OR. Málið var lagt fyrir og afgreitt án þess að lögð væru fram þau gögn, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórn OR töldu nauðsynleg, til að stjórnin gæti áttað sig á umfangi málsins.

Í stjórn OR gagnrýndu sjálfstæðismenn, að sömu menn hefðu setið beggja vegna borðs við samninga OR og LN. Þessari gagnrýni var svarað með því í bókun Alfreðs Þorsteinssonar, hins tvöfalda stjórnarformanns, að vísa í vanhæfisreglur um sveitarstjórnamenn. Taldi Alfreð, að ákvæði um hæfi við málsmeðferð í sveitarstjórn ætti við um það, þegar hann sat og samdi við sjálfan sig sem stjórnarformaður OR og LN. Þá sagði Alfreð, að forstjóri OR hefði ekki atkvæðisrétt í stjórn OR og þyrfti þess vegna ekki að víkja sem stjórnarmaður í LN, þegar málefni LN var þar til umræðu.

Þetta er allt fyrirsláttur hjá stjórnarformanninum. Þótt hann sé sveitarstjórnarmaður, er hann ekki að fjalla um mál í sveitarstjórn, þegar hann situr stjórnarfundi OR eða LN eða efnir til formannafunda stjórnanna í eigin persónu. Forstjóri OR vék af stjórnarfundi OR, þegar fjallað var um málefni Jarðborana, af því að hann er stjórnarmaður þar. Hefur forstjórinn þó ekki frekar atkvæðisrétt um málefni Jarðborana en LN, þegar málefni þeirra koma fyrir stjórn OR.

Bæjarstjórn Garðabæjar efast um, að ráðstöfun stjórnar OR á LN standist sameiginarsamning og lög OR. Þegar stjórnarformaður OR hafnar vanhæfi sínu og forstjóra OR við afgreiðslu málefna LN í stjórn OR, beitir hann marklausum rökum. Sjálfstæðismenn í stjórn OR fá ekki upplýsingar, sem þeir telja forsendur fyrir því, að unnt sé að taka afstöðu til ráðstöfunar á LN í stjórn OR.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir því hinn 15. október, að hlutlaus aðili yrði fenginn til að fara yfir hinn óvandaða málatilbúnað stjórnarformanns og forstjóra OR. Vildu þeir, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri beitti sér fyrir því, æðsti gæslumaður hagsmuna Reykjavíkurborgar, 92,22% eiganda í OR, að hlutlaus aðili tæki út kaup OR á ljósleiðaraneti LN fyrir 1,7 milljarð króna. Ingibjörg Sólrún sá ekki neina ástæðu til þess og sagði í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins miðvikudaginn 16. október: „Ja það er bara þeirra í stjórn orkuveitunnar að vega það og meta, það er vettvangurinn þar sem menn eiga að fjalla um þetta en ekki ef það hallar eitthvað í héraði að hlaupa með það hingað inn í borgarstjórn.”

Ingibjörg Sólrún staðfesti síðan á borgarstjórnarfundi fimmtudaginn 17. október, að hún þorir ekki nú frekar en fyrri daginn að taka slaginn við Alfreð Þorsteinsson. Það verður því að fá botn í þessa endemis stjórnsýslu og ráðstöfun á 3200 milljónum króna úr sjóðum OR til LN án atbeina borgarstjórans í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún kýs enn á ný að skjóta sér undan ábyrgð, þegar Alfreð Þorsteinsson á í hlut, til að hann geti farið sínu fram, þótt efast sé um lögmæti þess á tvennum rökstuddum forsendum og neitað sé að leggja fram umbeðin gögn til að unnt sá að sjá rök fyrir þessari óráðsíu með fé viðskiptavina Orkuveitu Reykjavíkur.