22.9.2002

Prófkjör í Reykjavík - Áslandsskóli - göngur og réttir

Nú hefur stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ákveðið að leggja til við félagsmenn sína, að efnt verði til prófkjörs undir lok nóvember til að ákveða framboðslistana í kjördæmunum tveimur í Reykjavík vegna alþingiskosninganna vorið 2003. Er þetta í fyrsta sinn, sem efnt er til prófkjörs undir þessum formerkjum, því að ný kjördæmaskipan kemur til framkvæmda næsta vor. Er ekki aðeins í Reykjavík, sem nýjar aðstæður eru við val á framboðslistana, því að áhrif breytinganna eru mun meiri annars staðar.

Í Reykjavík verður eitt prófkjör en síðan skiptast frambjóðendur á lista eftir fylgi sínu. Síðast var prófkjör vegna framboðslista til alþingis vegna kosninganna 1995 og þá bauð ég mig fram í þriðja sæti á listanum eins og ég hafði gert í fyrsta sinn, sem ég var í framboði haustið 1990 vegna þingkosninganna 1991, Náði ég þriðja sætinu í því prófkjöri og hélt því haustið 1994, þótt aðrir kepptu að sama marki.

Þegar blaðamenn hafa leitað til mín að þessu sinni og spurt, hvaða sæti ég hafi í huga við prófkjörið núna, hef ég svarað, að ég sækist eftir einu af efstu sætunum á hinum sameinaða lista, án þess að nefna neitt einstakt sæti. Jafnframt hef ég tekið hið sama fram og jafnan áður í prófkjöri, að ég líti ekki á mig í átökum við neinn af samherjum mínum.

Eftir að Friðrik Sophusson, sem hlaut annað sæti í prófkjörinu fyrir kosningarnar 1995, lét af stjórnmálastörfum og tók við forstjórastarfi í Landsvirkjun, færðist ég í annað sætið á listanum við uppstillingu fyrir kosningarnar 1999 og hef setið í því þetta kjörtímabil. Þeir, sem röðuðu á listann vegna kosninganna 1999, töldu það ekki hafa áhrif á ákvörðun sína um annað sætið, þótt Geir H. Haarde hefði tekið við varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum af Friðriki.

Það var eftir prófkjörið 1994 en fyrir alþingiskosningarnar 1995, sem ég hóf að skrifa þessa vefsíðu mína og hef haldið henni úti samfellt síðan. Fyrir þá, sem hafa áhuga á að kynnast stjórnmálastarfi mínu, stefnu og afstöðu, er auðvelt að gera það með því að lesa allt efnið á vefsíðunni. Legg ég þetta auðvitað með mér, þegar ég býð mig nú fram í prófkjörinu.

Áslandsskóli

Dapurlegt hefur verið að fylgjast með því, hvernig Samfylkingin í Hafnarfirði hefur gengið fram gagnvart Áslandsskóla. Ég orðaði það svo í útvarpsþætti í vikunni, að þetta væri eins og ráðist hefði verið með jarðýtu eða hnefnavaldi inn í skólann. Ekki er ég síður undrandi á því, hvernig Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), tekur á málinu og leitast jafnvel við að klína þessum vandræðum á mig í samtali við fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Lét hann orð falla á þá leið, að vegna pólitísks áhuga míns hefði verið farið út í rekstur skólans á þessum forsendum.

Ég veit ekki, hvað Eiríkur hefur fyrir sér í þessu. Eitt er víst, að allt frá fyrsta degi hefur afstaða hans til Áslandsskóla einkennst af mikilli þröngsýni og viðleitni til að leggja stein í götu skólastarfsins. Er auðvelt að færa rök fyrir því, að í því efni hafi Eiríkur farið út fyrir umboðið, sem hann hefur sem formaður KÍ. Við allar venjulegar aðstæður hefði mátt ætla, að forysta KÍ teldi hlutverk sitt vera að stuðla að friðsamlegu skólastarfi í Áslandsskóla frekar en ýta undir ófrið og ganga í lið með þeim, sem hika ekki við að beita valdi til að knýja fram vilja sinn eins og Samfylkingin í Hafnarfirði hefur gert.

Ég þekki ekki til innri stjórnunarstarfa í Áslandsskóla en að sjálfsögðu er ekki nýtt, að ágreiningur sé milli kennara og stjórnenda í skólum, þótt reknir séu af ríki eða sveitarfélögum. Við þær aðstæður er tekið á málum í því skyni að leysa þau en ekki með því hugarfari, sem einkennir offors Samfylkingarinnar og forystu KÍ vegna Áslandsskóla, þar sem valdsmenn sveitarfélags og stéttarfélags sameinast um að ýta undir sundrung og tortryggni og heimta síðan að ráða öllu, án minnsta tillits til réttar annarra.

Víða um heim rís þröngsýn forustusveit kennara til andstöðu við einkarekstur í skólastarfi eða aukin áhrif foreldra og vitneskju um skólastarf. Hún er andvíg því, að foreldrar hafi frelsi til að velja á milli skóla, hvort heldur þeir eru einkareknir eða í eigu ríkis og sveitarfélaga, og að birtar séu upplýsingar, sem gefa vísbendingar um gæði innra starfs í skólum, Með Áslandsskóla var að verða til nýtt viðmið í íslensku skólastarfi. Við höfum undanfarið fylgst með óttanum við áhrif þess hjá þeim, sem ráða í Hafnarfirði og innan KÍ.

Göngur og réttir

Það var ánægjuleg tilbreyting frá hinu daglega amstri að fá tækifæri til að fara með Fljótshlíðingum í göngur laugardaginn 21. september og taka síðan þátt í réttum með þeim daginn eftir. Minnti þetta mig á göngur í Skagafirði, þegar ég var í sveit á Reynisstað, en þeirra biðum við alltaf með mikilli eftirvæntingu og þótti mikið til þess koma, þegar okkur var treyst til að fara í þær. Þá var ég þó vanari að sitja hest en núna, en það á við um reiðmennsku eins og að kunna að hjóla, synda eða fara á skíðum, að hafi maður einu sinni náð tökum á henni, hverfur tilfinningin fyrir réttu viðbrögðunum ekki,

Ég fékk viljugan hest að láni og vorum við að í 10 klukkutíma, þar komið var til byggða. Eini vandinn var mikil þoka við Þríhyrning, svo að ókunnugur mátti gæta sín að missa aldrei sjónar á næsta manni og villast.

Við týndum vafalaust einhverju fé á leiðinni af fjalli en þegar við vorum að reka féð niður hjá Lambalæk og smala túnið hér við Kvoslæk svipti þokunni af Þríhyrningi. Á meðan var sæmilega bjart riðum við austan við Eystri-Rangá, þar sem höfðu verið þrír bæir, sem fóru í eyði eftir gosið í Heklu 1947. Landið er nú vel gróið, þar sem vikurinn var áður, og hraunið var fallega mosagrænt í rekjunni.