14.9.2002

Yfirflokkslegt vald - samsæriskenningar



Atburðarásin, eftir að umræður um framboð Ingibjargar Sólrúnar til þings komust í hámæli, staðfestir þá skoðun mína, að R-listinn byggist ekki á sameiginlegri stefnu. R-listinn sækir ekki styrk til sameiginlegra hugsjóna þeirra, sem að honum standa, heldur þess, sem helst er til þess fallið að koma í veg fyrir ágreining innan hans. Hann sameinast um lægsta samnefnara. Þess vegna gerist svo lítið undir forystu hans í Reykjavík, þess vegna er leitast við að láta eins og allt sé í himnalagi við stjórn Reykjavíkurborgar, þess vegna er viðkvæðið jafnan, að það, sem miður fer, sé einhverjum öðrum en R-listanum að kenna. – Í stuttu máli er R-listinn ábyrgðarfælinn, þegar tekið er á málum, sem krefjast pólitískrar forystu. Hann vill sigla lygnan sjó, af því að hann þolir ekki ágjöf.

R-listinn er hræðslubandalag gegn Sjálfstæðisflokknum um eina persónu. Veikleiki þessa hræðslubandalags fyrir Samfylkinguna kom í ljós, þegar formenn Framsóknarflokks og vinstri/grænna tóku höndum saman og útilokuðu öflugasta Samfylkingar-stjórnmálamanninn frá því að bjóða sig fram til alþingis – sérkennilegast í málinu er, að látið er í veðri vaka af ýmsum Samfylkingarmönnum, að þrátt fyrir nei-ið sé Ingibjörg Sólrún á gráu svæði milli borgarstjórnar og þings – jafnvel sé líklegt, að hún verði ráðherra í vinstri stjórn að loknum þingkosningum! Hallór Ásgrímsson og Steingrímur J. Sigfússon, sameiginlega eða annar hvor, verða að koma að myndun þeirrar stjórnar. Verði Ingibjörg Sólrún þar innanborðs, er hún ekki aðeins að ganga á bak orða sinna heldur einnig Halldór og Steingrímur J. eftir framgöngu þeirra til að hindra þingframboð Ingibjargar Sólrúnar.

Óvenjulegt er, að stjórnmálaflokkur semji af sér og veiti annarra flokka mönnum íhlutunarvald í innri málefni sín. Samfylkingin hefur hins vegar gengið undir slíkt ok með því að binda hendur Ingibjargar Sólrúnar. Að baki kosninga- og hræðslubandalags R-listans býr pólitískt samkomulag, sem veitir framsóknarmönnum og vinstri/grænum yfirflokkslegt vald gagnvart Samfylkingunni, þegar pólitísk störf Ingibjargar Sólrúnar utan R-listans eru til umræðu.

Að sjálfsögðu viðurkennir hvorki Ingibjörg Sólrún né annar forystumaður Samfylkingarinnar, að flokkurinn sé í þessum fjötrum. Einfaldast er fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að vísa til loforðanna um fjögurra ára setu í borgarstjórn fyrir kosningarnar 25. maí. Hún þurfti þó ekki að fara undir feld til að minnast þeirra, hún fór undir feldinn til að kanna hug samstarfsflokks Samfylkingarinnar innan R-listans og fékk þau svör, að hún ætti að sitja sem fastast sem borgarstjóri. Ingibjörg Sólrún notaði sjálf það orðalag, að „hanna atburðarás” þegar fréttir bárust af skoðanakönnun vefsíðunnar Kreml.is, sem sýndi fylgisaukningu Samfylkinngarinnar leiddi Ingibjörg Sólrún hana. Atburðarásin stöðvaðist vegna flokksfjötra Ingibjargar Sólrúna, sem þó hefur á stundum gefið til kynna, að hún sé utan og ofan við flokkapólitík.

Samsæriskenningar

Föstudaginn 13. september birtist grein eftir Hallgrím Helgason rithöfund í Morgunblaðinu, þar sem hann gefur til kynna, að Davíð Oddsson forsætisráðherra standi að baki rannsókn lögreglunnar á Baugi.

Sama dag birtir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sem er gefið út af huldumönnum, ritstjórnargrein í blaði sínu á svipuðum nótum og Hallgrímur slær.

Sagt er, að eigendur Baugs eigi stóran hlut í Fréttablaðinu eða myndi að minnsta kosti nauðsynlegan fjárhagslegan bakhjarl fyrir blaðið.

Hefði ég trú á samsærum, ályktaði ég, að ekki væri tilviljun, að þeir Hallgrímur og Gunnar Smári kveddu sér hljóðs með þessum hætti sama dag. Ákveðið hefði verið, bakvið tjöldin, að þeir færu fram á völlinn, þegar þrengt væri að Baugi vegna lögreglurannsókna, til að breyta yfirbragði málsins með því að færa það inn á grátt svæði stjórnmálanna í þeirri von að bæta hlut Baugs.

Samsæri í þágu Baugs með notkun fjölmiðla er mun auðveldari aðgerð en samsæri gegn Baugi með notkun lögreglunnar.

Forsætisráðherra hefur ekki skipunarvald gagnvart lögreglunni, sem gerir honum kleift að siga henni á Baug. Ráðherrann tæki meiri áhættu með því að misbeita valdi með þeim hætti en þeir, sem dylgja í fjölmiðlum, að hann hafi gert það. Allt sem lögregluaðgerðir varðar er unnt að sannreyna fyrir dómstólum en hæstiréttur hefur dæmt, að ekki þurfi að sanna áburð á stjórnmálamenn eða þá, sem tengjast stjórnmálaflokkum, sbr. dóminn vegna áburðar Sigurðar G. Guðjónssonar á Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.