22.6.2002

Upplýsingatækniþjónusta – greiðar götur – sérkennileg málsvörn.

Frá því að upplýsingatæknin kom til sögunnar hef ég nýtt mér hana á fjórum mismunandi starfsstöðvum. Í fyrsta lagi á Morgunblaðinu, þar sem ég kynntist þessari tækin og tileinkaði mér ýmsa grunnþætti hennar, sem hafa dugað mér fram á þennan dag. Þar komst ég einnig fyrst í kynni við Netið. Í öðru lagi sem alþingismaður en þegar ég kom í það starfsumhverfi 1991, þótt mér það nokkuð frumstætt miðað við tæknina, sem ég kynntist á Morgunblaðinu. Í þriðja lagi sem menntamálaráðherra 1995 en innan menntamálaráðuneytisins var að mörgu leyti unnið frumkvöðlastarf við nýtingu á upplýsingatækni í stjórnsýslu og vefsíða ráðuneytisins hefur að geyma langmesta magn upplýsinga allra ráðuneyta. Tölvusamskipti reyndust mér mjög mikilvæg við ráðherrastörfin og gáfu mér færi á beinum samskiptum við hundruð ef ekki þúsundir manna um land allt, ekki síst ungt fólk. Í fjórða lagi er ég nú að kynnast því umhverfi, sem upplýsingatæknin skapar á starfsvettvangi borgarstjórnar.

Morgunblaðið hefur verið í fararbroddi með upplýsingatækniþjónustu sína, enda er vefsíða þess mest sótta síðan á landinu ásamt leit.is, sem er annars eðlis. Gagnasafn Morgunblaðsins er ómetanlegur fróðleiksbrunnur og auðvelt að finna það, sem að er leitað. Alþingi er einnig í fremstu röð í vef- og upplýsingatækniþjónustu sinni og vefsíða þess er til fyrirmyndar á alþjóðlegan mælikvarða. Sparar hún áreiðanlega mörgum sporin, sem kunna að nýta sér hana. Rafrænt starfsumhverfi þingsins hefur tekið miklum framförum. Sömu sögu er að segja um þróun vefsíðu Stjórnarráðsins, hún hefur þróast ört, þótt misjafnt sé eftir ráðuneytum, hvernig þessari þjónustu er háttað. Í menntamálaráðuneytinu hefur jafnan verið lögð mikil áhersla á góða þjónustu á þessu sviði og er ekki nokkur vafi á því, að miðlun upplýsinga með rafrænum hætti hefur skipt miklu um framkvæmd margra og mikilla breytinga á sviði mennta og menningar.

Með þessa reynslu að baki varð ég fyrir vonbrigðum, þegar ég tók að kynna mér, hvernig upplýsingatæknin er nýtt af borgaryfirvöldum til að miðla upplýsingum til borgarbúa og annarra, sem vilja fylgjast með því, sem gerist á vettvangi borgarstjórnar og nefnda hennar eða innan stjórnsýslu borgarinnar. Sýnist mér þjónusta á þessu sviði vera á nokkru frumstigi og miðlun upplýsinga takmörkuð. Til dæmis er ekki unnt að nálgast umræður í borgarstjórn, sem fara fram fyrir opnum tjöldum, á vefsíðu Reykjavíkur. Þar er ekki unnt að leita að ummælum borgarfulltrúa með sama hætti og má gera í ræðum alþingismanna á vefsíðu alþingis. Þá eru litlar upplýsingar um stjórnsýslulegar ákvarðanir borgaryfirvalda á Netinu. Er greinilegt, að tæknin hefur ekki verið nýtt nema að litlu leyti til að skapa aukin tengsl við borgarbúa.

Greiðar götur.

Ástæðan fyrir því, að ég fór að velta þessu sérstaklega fyrir mér voru umræður á borgarstjórnarfundi hinn 20. júní síðastliðinn um tillögu, sem Dagur B. Eggertsson flutti í nafni R-listans og hefst hún á þessum orðum: „Borgarstjórn samþykkir að hleypa af stokkunum fjölþættu lýðræðisverkefni undir nafninu „Greiðar götur“. Því er ætla að greiða leið almennra borgara að ákvörðunum og stefnumótun í stjórn borgarinnar sem og þjónustu hennar. Lögð verður sérstök áhersla á hverfalýðræði, rétt til upplýsinga, þátttöku og sanngjarnrar málsmeðferðar.“ Á að setja á laggirnar stjórnkerfisnefnd til að vinna að þessu verkefni.

Þegar málið var rætt í borgarstjórn vakti ég máls á því, að upplýsingalög, stjórnsýslulög og lög um umboðsmann alþingis giltu að sjálfsögðu fyrir Reykvíkinga gagnvart borgaryfirvöldum og þeim lögum yrði ekki breytt af borgarstjórn. Mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar yrði ekki heldur breytt af borgarstjórn. Þá hefðu í febrúar 2002 verið samþykktar starfsreglur fyrir hverfisráð á grundvelli tillagna R-listans frá því í nóvember 2001 og á fundinum 20. júní væri borgarstjórn í fyrsta sinn að kjósa í þessi hverfisráð og væri sjálfsagt að gefa þeim tíma til að sanna sig, áður en tekið yrði til við að stokka upp hið nýja kerfi. Gallinn á þessum hverfisráðum er sá, að enginn veit í raun, hvað þau eiga að gera eða hvert valdsvið þeirra er, þess vegna höfum við sjálfstæðismenn lagt til, að hverfasamstarfið þróist með skólana, leikskóla og grunnskóla, í fyrirrúmi og með því að skipta borginni í skólahverfi með skólaráðum, sem hafa skýrt vald lögum samkvæmt.

Auðvitað þarf ekki að skipa neina nefnd til að greiða leið almennra borgara að ákvörðunum og stefnumótun í stjórn borgarinnar sem og þjónustu hennar. Það þarf einfaldlega að leggja meiri rækt við þennan þátt í starfi borgarfulltrúa og embættismanna til dæmis með því að borgarstjóri skipuleggi viðtalstíma sína með þeim hætti að hitta sem flesta og borgaryfirvöld nýti upplýsingatæknina betur. Fyrsta verkefnið ætti að vera að bæta vefsíðu Reykjavíkurborgar, svo að hún standist samanburð við það sem best gerist hér á landi. Til að hinir almennu borgarar geti skipt sér af því, sem gerist á vettvangi borgarstjórnar, þurfa að þeir að fá meiri upplýsingar og Netið er öflugasta leiðin til að miðla þeim.

Sérkennileg málsvörn.

Það er ekki aðeins vanþróuð upplýsingamiðlun til almennings með tölvutækninni af hálfu Reykjavíkurborgar, sem hefur vakið undrun mína á nýjum starfsvettvangi, heldur einnig hvernig staðið er að umræðum á vettvangi borgarstjórnar og vísa ég þá til þess, hve fljótt R-listamenn grípa til einfeldnislegra raka í von um að geta slegið viðmælanda sinn út af laginu eins og í ræðukeppni í stað þess að fjalla um efni málsins.

Alfreð Þorsteinsson svaraði ræðu minni um orkumál með þeim orðum, að kjósendur hefðu hafnað sjónarmiðum mínum í kosningunum og þess vegna þyrfti hann ekki að ræða þau. Jafnvel þótt kjósendur hafi mikið vald geta þeir ekki hafnað staðreyndum, hvorki varðandi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) né annað. Alfreð var einnig hinn versti yfir því, að ég skyldi telja Hitaveitu Suðurnesja (HS) standa betur að vígi gagnvart komandi samkeppni, af því að hún er hlutafélag en OR ekki vegna deilna innan R-listans. Þá er einnig staðreynd, að OR tapaði rúmum 500 milljónum kr. á síðasta ári en HS hagnaðist um 600 milljónir kr. Barnalegast er þó að halda því fram að lýsing á skuldastöðu OR eða gagnrýni á of mikla fjárfestingu í skrifstofuhúsnæði OR sé árás á starfsmenn fyrirtækisins, af því að þeir eigi að vinna í húsinu! Var Alfreð að ráðast á starfsmenn Ráðhússins, þegar hann snerist gegn því húsi?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir taldi mig gera lítið úr sjálfstæði sveitarfélaga með því að minna á úrslitahlutverk löggjafans varðandi réttarstöðu almennings gagnvart sveitarstjórnum. Hún lét einnig eins og það væri aðför að sóma Reykjavíkur, að ég skyldi leyfa mér að nefna styrk Hitaveitu Suðurnesja andspænis Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var henni misboðið vegna þess að ég taldi æskilegt, að borgarstjórn fengi að sjá tillögu að erindisbréfi nefndar um stefnumörkun í orkumálum Reykjavíkurborgar. Lét hún eins og ég vildi, að menn færu að deila um orðalag í slíku bréfi í borgarstjórn, sem auðvitað var ekki ætlan mín heldur hitt, að með því að hafa tillögu að slíku bréfi í greinargerð með tillögunni fengju borgarfulltrúar og almenningur meiri upplýsingar um samstöðu og stefnumörkun meirihlutans í þessu mikilvæga máli.

Til að hafa greiðar götur til borgarbúa er nauðsynlegt að miðla upplýsingum og stunda málefnalegar rökræður í því skyni að skýra mál og upplýsa almenning um þau.