28.3.2002

Stefnan kynnt – ómálefnaleg viðbrögð – ólík viðhorf til miðborgarinnar

Samkvæmt skoðanakönnunum höfum við sjálfstæðismenn ekki enn fengið þann byr í seglin vegna borgarstjórnarkosninganna í vor, að dugi til þess, að við náum meirihluta. Enn eru átta vikur til stefnu og það er könnunin á hug kjósenda á kjördag 25. maí, sem ræður úrslitum. Þessar vikur eru fljótar að líða og þær verður að nota vel.

Þegar kjósendur eru spurðir, hvort þeir ætli að láta menn eða málefni ráða atkvæði sínu á kjördag er svarið jafnan yfirgnæfandi á þann veg, að þeir ætli að láta málefni ráða.

Við erum mörg ný á framboðslista Sjálfstæðisflokksins og komum úr ólíkum áttum. Við gerðum okkur grein fyrir því, að við yrðum að sameinast um skýr málefni, áður en við hæfum að kynna okkur og markmið okkar með markvissum hætti fyrir kjósendum. Listinn var ákveðinn og kynntur hinn 28. febrúar sl. og strax hófumst við handa við að móta stefnu okkar.

Höfum við haldið fjölmarga fundi og rætt málin í okkar hóp. Hefur samhugur og samstaða aukist eftir því sem við höfum kynnst betur og reifað sjónarmið okkar. Þessi samhenti hópur endurspeglar reynslu þeirra, sem hafa starfað lengi í borgarstjórn, og áhuga hinna, sem koma nýir að verkefninu og vilja láta að sér kveða á nýjum forsendum.

Nú réttum fjórum vikum eftir að listinn var kynntur, höfum við sent frá okkur stefnuskrá, þar sem tekið er á fjölmörgum málum og afstaða okkar sett fram með skýrum og einföldum hætti. Keppinautar okkar hafa ekki gert grein fyrir stefnu sinni með jafnafdráttarlausum hætti.

Til þessa hafa þeir, sem svara spurningum um afstöðu til fylkinganna í Reykjavík í skoðanakönnunum, verið í óvissu um stefnuáherslur okkar sjálfstæðismanna. Þær hafa ekki verið kynntar í heild fyrr en núna og afstaða manna hefur því byggst á öðru en málefnunum, sem flestir kjósenda segja þó ráða afstöðu sinni í kjörklefanum.

Þetta segi ég ekki til að gera lítið úr þeim vísbendingum, sem felast í tölunum frá Gallup eða öðrum. Auðvitað hljótum við að líta til þeirra, þegar hugað er að því, hvernig á að koma boðskap okkar á framfæri við kjósendur. Einmitt þess vegna leggjum við mikla áherslu á skýra stefnu og við ætlum að ganga lengra, því að á næstunni munum við kynna samning við Reykvíkinga, sem byggist á kosningastefnuskránni og nær til þeirra atriða, sem við heitum að setja í forgang á næsta kjörtímabili. Veiti kjósendur okkur stuðning með atkvæði sínu, eru þeir jafnframt að skuldbinda okkur til að standa við samninginn.

Ómálefnaleg viðbrögð

Í tæp ellefu ár hef ég setið á alþingi og tekið þátt í umræðum um stjórnmál á þeim vettvangi. Fyrstu fjögur árin voru mjög lærdómsrík vegna þess að þá fór stjórnarandstaðan hamförum. Reyndi hún að gera öll mál tortryggileg og undraðist ég oft, hve langt var seilst til að gera málstað andstæðingsins sem verstan án málefnalegra sjónarmiða. Margir minnast þess vafalaust frá þessum árum, þegar Davíð Oddsson sagði í ræðustól á alþingi, að framganga stjórnarandstöðunnar gerði alþingi að Gaggó Vest.

Viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í fréttum á skírdag við stefnuskrá okkar voru léttvæg og ómálefnaleg. Hún lét sér nægja að fara með haldlaus slagorð. Einkennilegt var að heyra hana hallmæla stefnu okkar en láta þess jafnframt getið, að í henni væri að finna margt úr stefnu R-listans!

Þá er merkilegt, að Ingibjörg Sólrún tekur alltaf til við að ræða um þröngan fjárhag Reykjavíkur, þegar við sjálfstæðismenn nefnum stefnumál og forgangsröðun – en hún segir jafnan í annan tíma, að borgarsjóður standi ákaflega vel. Svo segir hún, að verði Lína.net seld renni andvirðið til Orkuveitunnar og gefur þar með til kynna, að salan skipti borgarsjóð engu, þótt fyrir liggi, að með auknum arðgreiðslum og sérstakri 4 milljarða greiðslu hafi undir stjórn hennar og Alfreðs Þorsteinssonar verið teknir 10,8 milljarðir króna úr sjóðum Orkuveitunnar til að bæta og fegra stöðu borgarsjóðs.

Allir, sem kynna sér stefnuskrá okkar, sjá, að með yfirborðskenndum viðbrögðum sínum gerir Ingibjörg Sólrún lítið úr forgangsröðun hagsmuna þeirra þúsunda Reykvíkinga, sem yrði betur borgið, þegar stefna okkar hefur verið framkvæmd, en þeir geta nokkru sinni vænst undir stjórn R-listans. Auk þess reynir hún með óvenjulegum hætti að eigna sér og R-listanum málefni, sem við sjálfstæðismenn höfum sett skýrt og afdráttarlaust fram. R-listinn hefur enn ekki birt neina stefnu vegna kosninganna í vor.

Ólík viðhorf til miðborgarinnar

Þegar tekin er afstaða til framboðslistanna, hljóta kjósendur að leita að málefnum, sem skilja á milli þeirra. Eitt þessara mála er afstaðan til miðborgarinnar. Um hana segir meðal annars í stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna: „Við ætlum að leggja áherslu á að fjölga íbúum í miðborginni og treysta forsendur verslunar og annarrar atvinnustarfsemi.“

Í síðasta pistli sagði ég frá fundi með kaupmönnum við Laugaveginn og öðrum, sem bera hagsmuni miðborgarinnar fyrir brjósti. Lauk ég þeirri frásögn á þessum orðum:

„ Til þess að endurreisa miðborgina þarf að gera um það heildstæða áætlun til nokkurra ára og gefa fjárfestum tækifæri til þess að koma að því verki með öryggi um að ekki verði þrengt að þeim með ósanngjarnri friðurnarstefnu eða duttlungafullum stjórnarháttum, sem byggjast á óraunhæfum pólitískum stefnumiðum og óskhyggju um að úr Ráðhúsinu sé unnt að gefa fyrirmæli, sem breyta samgönguvenjum borgarbúa og gesta þeirra.“

Þessi stefnumörkun er í andstöðu við viðhorfið, sem kom fram í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27. mars, þegar sagt var frá ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á aðalfundi Þróunarfélags miðborgarinnar, þar sem hún lýsti því sjónarmiði, að miðborgin ætti að verða upplifunar- og mannlífsmiðstöð án verslana.

Talsmenn þeirra, sem stunda atvinnurekstur í miðborginni, lýstu mikilli undrun yfir ræðunni í Morgunblaðinu á skírdag. Haft er eftir Jóni Sigurjónssyni eiganda verslunarinnar Jóns og Óskars: „Það eru allir gáttaðir á ummælunum og hvert hún [Ingibjörg Sólrún] er að fara með þeim. Þetta er kannski stefna R-listans, að gera miðborgina okkar að því sem borgarstjóri kallaði mannlífsmiðstöð. Við teljum nú að það hljóti að vera gott að hafa verslanir þar sem mannlíf er, en hún er í raun að hrekja alla verslun í burtu með þessari hugmynd sinni.“