17.2.2002

Íþróttahús við MH - u-beygjur - Staðbundin stjórnmál


Kosningabarátta vegna sveitarstjórnakosninganna hefst varla fyrir alvöru fyrr en eftir páska, en þá verða tæpir tveir mánuðir til stefnu til að kynna kjósendum frambjóðendur og stefnumál þeirra. Hvað sem því líður er ég farinn að sækja sífellt fleiri fundi til að ræða borgarmálefni. Stefnt er að því að listi okkar sjálfstæðismanna verði kynntur í lokaviku mánaðarins og þá mun ég jafnframt skýra frá brottför minni úr menntamálaráðuneytinu.

Fimmtudaginn 14. febrúar vorum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á fundi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en nemendafélagið boðaði til hans í því skyni að ræða um íþróttahús skólans, sem ekki hefur verið reist enn, þótt skólinn hafi tekið til starfa árið 1966. Á 30 ára afmæli skólans hét ég, að unnt yrði að ráðast í smíði hússins. Samþykkti alþingi síðan tillögu mína um 60 milljón króna fjárveitingu til byggingarinnar. Jafnframt hafa farið fram viðræður milli ráðuneytisins og skólans um gerð hússins.

Þegar ráðast átti í framkvæmdir setti samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir fram þá ófrávíkjanlegu kröfu fyrir heimild sinni, að Reykjavíkurborg kæmi að byggingunni með fjárveitingu, enda væri það skylt lögum samkvæmt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur hins vegar staðfastlega neitað því að leggja smíði íþróttahússins lið og sett það í sömu skúffu og Menntaskólann í Reykjavík.

Á þessum fundi í Menntaskólanum við Hamrahlíð gerðist það hins vegar, að Ingibjörg Sólrún sagðist mundi beita sér fyrir tillögu í borgarráði um að Reykjavíkurborg setti bæði fé til íþróttahússins og Menntaskólans í Reykjavík. Hún sagði þetta ekki í framsöguræðu sinni heldur eftir að við höfðum átt nokkur orðaskipti um málið. Líklega hefur runnið upp fyrir henni, að málstaður hennar stóðst ekki gagnrýni. Að vísu hét hún stuðningnum með skilyrtu orðalagi, sem greinlega á að vera niðurlægandi fyrir ríkið og væntanlega mig líka. Er alltaf skrýtið, þegar stjórnmálamenn taka og rökstyðja ákvarðanir sínar á neikvæðum forsendum eða í kvörtunartón.

Ég fagnaði þessari u-beygju borgarstjórans, því að nú er unnt að halda áfram vinnu vegna íþróttahússins, en síðan fundur okkar var haldinn og frá honum skýrt opinberlega hafa umbjóðendur tennisíþróttarinnar haft tölvusamband við mig og lýst áhuga á að koma að því að reisa húsið. Tel ég æskilegt að til slíks samstarfs komi á forsendum, sem henta skólanum og þeim, sem vilja skapa góða aðstöðu fyrir tennis.

Mér þótti það langsótt túlkun á þessum fundi hjá Herði Kristjánssyni, blaðamanni DV, í Sandkorni blaðsins 16. febrúar, að Ingibjörg Sólrún hefði skorað mark í viðureign sinni við mig með því að breyta um stefnu í þessu máli og koma til móts við sjónarmið mín. Er ljóst, að Hörður hefur einfaldlega fengið rangar upplýsingar um málið og dregur þess vegna vitlausa ályktun af því, sem gerðist á fundinum.

Fleiri u-beygjur.

Þess verður vart i sífellt fleiri málum, að Ingibjörg Sólrún tekur u-beygju til að komast hjá því að lenda í deilum við okkur sjálfstæðismenn. Eftir að Bolli Kristinsson í Sautján lýsti óánægju sinni með miðborgarstjórnina og Laugaveginn var fenginn nýr arkitekt til að fara yfir málið og tók hann undir sjónarmið Bolla og virðist Ingibjörg Sólrún einnig nú vera þeirrar skoðunar, að fyrri tillögur hafi gengið alltof langt í friðunarátt.

Í Morgunblaðsviðtali um síðustu helgi sagði Ingibjörg Sólrún, að mistök hefðu verið gerð varðandi Línu.net. Með því skapaði hún sér aðra vígstöðu en með þeim Helga Hjörvar og Alfreð Þorsteinssyni, sem hafa varið allar fjármálagerðir vegna Línu.nets og ákvarðanir um skipulag fyrirtækisins með hnúum og hnefum.

Þá eru ummæli hennar í þessu viðtali um lóð undir tónlistarhúsið einkennileg í ljósi þess, að á grundvelli forvinnu að frumkvæði menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis var komist að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegt væri að sameina byggingu tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels. Var kannað til hlítar, hvort unnt væri að gera þetta í tengslum við Hótel Sögu en síðan beindist athyglin að hafnarsvæðinu – af hálfu Ingibjargar Sólrúnar var þeirri hugmynd hreyft, hvort gera mætti tónlistarsalinn neðanjarðar í Öskjuhlíð til að nýta betur Perluna, enda yrði farið úr henni með lyftum niður í salinn.

Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, gerði réttilega athugasemd við þá fullyrðingu Ingibjargar Sólrúnar í fyrrnefndu Morgunblaðsviðtali, að skortur á námsframboði fyrir leikskólakennara stæði fjölgun þeirra fyrir þrifum og ylli vandræðum í leikskólum. Staðreynd er, að færri hafa sótt um leikskólakennaranám en Kennaraháskólinn býður. Þótt þessi staðreynd sé komin fram, reynir Ingibjörg Sólrún að réttlæta ranga fullyrðingu sína með því að fara nokkur ár aftur í tímann, þegar leikskólakennaranámið var enn á framhaldsskólastigi.

Á afrekaskrá R-listans ber hæst í frásögn borgarstjóra, að ráðist hafi verið í að einsetja grunnskólann auk þess sem kennslustundum hafi fjölgað. Kemur á óvart, að Ingibjörg Sólrún hamri á þessu sem sérstöku afreksverki, þegar til þess er litið, að Reykjavíkurborg hefur ekki gert annað í þessu efni en henni er skylt lögum samkvæmt, auk þess sem ákveðið var við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna, að ríkið veitti sveitarfélögunum tímabundið sérstakan fjárstuðning til að ljúka einsetningunni. Þá er það einnig í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, að kennslustundum fjölgar.

Eins og lesendur síðunnar vita átti ég í ritdeilum við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, borgarfulltrúa R-listans, í vikunni, þegar hún hélt því fram, að ég hefði lagst gegn þátttöku ríkisins í smíði innisundlaugar í Laugardalnum, af því að ég hefði ekki svarað bréfi, sem mér var sent í kosningabaráttu Ingibjargar Sólrúnar vorið 1998. Þar var óskað eftir viðræðum við mig til að kynna mér hugmyndir um hönnun á innisundlauginni, en óskinni var aldrei fylgt eftir, og raunar var það ekki fyrr en í maí 2000, sem þessar hugmyndir um hönnun voru kynntar opinberlega. Síðan endurtók Steinunn Valdís þessa kynningu í júlí árið 2001 og lét þá í veðri vaka, að jarðvinnu og uppsteypun við mannvirkið mundi ljúka fyrir áramótin 2001/2002. Þessar framkvæmdir eru ekki enn hafnar – ef til vill er hönnun ekki lokið!?

Þegar ég velti þessum bréfaskiptum við Steinunni Valdísi fyrir mér, undrast ég mest, hvers vegna í ósköpunum henni datt í hug að hreyfa þessu máli með þeim hætti, sem hún gerði. Er ég viss um, að fleiri eru hissa á framgöngu hennar miðað við þá miklu ábyrgð, sem hún ber sem formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur á þessari mannvirkjagerð og undirbúningi vegna hennar. Hélt hún ef til vill, að hún gæti skellt skuldinni af eigin sleifarlagi á mínar herðar?


Staðbundin stjórnmál

Nokkur umræða hefur orðið um nýja bók eftir Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, en hún heitir Staðbundin stjórnmál og er talin fyrsta almenna fræðiritið á íslensku um sveitarstjórnamál.
Í bókinni er að finna fróðlega, fræðilega úttekt og greiningu á sveitarstjórnamálum og hlutverki sveitarstjórnamanna. Viss tilhneiging er til að draga úr gildi hefðbundinnar stjórnmálabaráttu við val á fulltrúum í sveitarstjórnir, á hinn bóginn er unnt að draga nokkuð skýr skil á milli stjórnarhátta hægri manna í sveitarstjórn annars vegar og vinstrisinna hins vegar.

Gunnar Helgi segir, að fjarlægð frá Reykjavík hafi áhrif á líkurnar á því að meirihlutar í sveitarfélögum séu til hægri eða vinstri. Því nær sem dregur Reykjavík, því meiri líkur á því að meirihlutar séu til hægri. Eftir því sem meirihlutarnir eru lengra til hægri aukist líkurnar á að um sterka meirihluta sé að ræða og ánægja íbúanna eykst með sterkum meirihlutum. Sterkir hægri meirihlutar skila sér í lægra útsvari og betri rekstrarstöðu. Þeir leggja áherslu á fræðslumál.

Í bókinni kemur fram, að lítil ánægja hjá íbúunum sé með þjónustu Reykjavíkurborgar og sker hún sig úr sveitarfélögunum að þessu leyti. Vill Gunnar Helgi ekki skýra þessa óánægju á þeirri forsendu, að í Reykjavík séu óhæfari stjórnendur en í öðrum sveitarfélögum auk þess sem þjónusta borgarinnar sé að mörgu leyti faglegri og meiri en í öðrum sveitarfélögum. Borgarstjórn hafi á hinn bóginn fjarlægst íbúana og líklegt sé, að ánægja þeirra aukist með meiri nálægð.