13.2.2002

Steinunn Valdís oftúlkar kosningabréf



Kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur fóru fram undir lok maí 1998. Hinn 31. mars sama ár ritaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri undir bréf til mín ásamt forvígismönnum íþróttamála, þar sem því er lýst, að Reykjavíkurborg hafi í undirbúningi byggingu 50 metra yfirbyggðar sundlaugar í Laugardal, sem uppfylli alþjóðlegar kröfur til mótahalds og æfinga. Er sagt í bréfinu, að hér verði því um að ræða þjóðarleikvang Íslendinga í þessari íþrótt. Bréfið er ritað til að kanna, hvort menntamálaráðuneytið sé tilbúið til viðræðna við borgaryfirvöld og íþróttahreyfinguna með það í huga að ríkisvaldið styðji bygginguna. Er það talið í anda tillagna nefndar, sem starfaði á mínum vegum, um að ríkisvaldið taki þátt í því að byggja þjóðarleikvanga. Vísað er til þess, að stjórn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands hafi ákveðið að verja 50 milljónum króna til að byggja skautahús á Akureyri. Bréfinu, sem er stimplað móttekið í menntamálaráðuneytinu 8. apríl 1998, lýkur með þessum orðum: „Vegna máls þessa óska undirrituð eftir viðræðum við yður, herra menntamálaráðherra, og þá gæfist einnig betra tækifæri til að kynna þau áform sem nú eru uppi um hönnun, útboð og byggingu sundlaugarinnar.“

Ráðherrar fá mörg bréf, sem hafa að geyma slíka almenna kynningu á einhverju máli, síðan gerist það venjulega, að bréfritarar fylgja erindi sínu eftir með því að árétta óskina um fund við ritara ráðherrans eða umsjónarmenn málaflokks í viðkomandi ráðuneyti. Í þessu tilviki leit ég þannig á, að bréfið væri til staðfestingar á ásetningi borgarstjóra í tilefni af komandi kosningum, eðlilegt væri að bíða úrslita þeirra og síðan mundu bréfritarar hafa sig í frammi að nýju.

Síðan bréfið var ritað, hef ég ekki orðið var við, að óskað hafi verið eftir fundi með mér til að ræða þetta mál. Hef ég því hvorki hafnað þessu erindi né lýst yfir áhuga á þátttöku í því. Á hinn bóginn hef ég falið Íþróttanefnd ríkisins að ræða um framkvæmd hugmyndarinnar um þjóðarleikvanga og veit ég, að þar hefur oftar en einu sinni verið minnst á innisundlaugina í Laugardal, án þess að afstaða hafi verið tekin til hennar eða annarra verkefna undir þessum formerkjum. Snerta ákvarðanir um laugina almenn samskipti ríkis og sveitarfélaga, því að bygging íþróttamannvirkja er á verksviði sveitarfélaga en ekki ríkisins nema sérstaklega sé um annað samið eins og með Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Í fyrrgreindu bréfi kemur hvergi fram ósk um að ganga til samstarfs við ríkið um innisundlaugina með þeim hætti að stofna Sundmiðstöð Íslands í Reykjavík, þvert á móti er þar vísað til hugmyndarinnar um þjóðarleikvanga.

Ég rifja þetta upp hér til að menn glöggvi sig enn betur á haldleysi þeirra fullyrðinga Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar, sem hefur kosið að gera þetta að helsta kosningamáli sínu í baráttunni við þá Stefán Jón Hafstein, Helga Hjörvar og Hrannar B. Arnarson.
Í gær lýsti ég því réttilega hér á síðunni, að Reykjavíkurborg hefði aldrei óskað eftir því að ganga til samstarfs við menntamálaráðuneytið á sömu forsendum og gert er með Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Bréflega var óskað eftir að kynna mér hugmyndir um innisaundlaugina á fundi, en af þeim fundi hefur ekki orðið enn, vegna þess að ekki hefur verið eftir honum gengið af bréfriturum. Miðað við gang málsins hef ég fulla ástæðu til að ætla, að það hafi ekki verið fyrr en í maí árið 2000, sem hugmyndir um hönnun og útboð lágu fyrir, en þá var sagt frá þeim opinberlega, þannig að það á sér vafalaust eðlilega skýringu, að ekki var gengið á eftir fundi með mér um þessar hugmyndir kosningavorið 1998.
Í kappi sínu við að gera mig að blóraböggli í þessu máli oftúlkar Steinunn Valdís einfaldlega bréfið frá 31. mars 1998 og dregur þar með rangar ályktanir um afstöðu mína, ég hef hvorki játað né neitað nokkru í þessu máli. Er sérkennilegt, að gera þetta gamla bréf frá því í kosningabaráttunni 1998 að kosningabréfi núna og líta á það sem kosningabombu, einkum vegna þess að hún springur í andlitið á Steinunni Valdísi sjálfri.
Ef samkomulag tekst um þjóðarleikvanga, er eðlilegt að líta til þessarar 50 metra innisundlaugar í því ljósi. Það var skoðun mín 1998 og er enn. Á þetta hefur hins vegar aldrei reynt í neinum viðræðum við mig né heldur hitt, hvernig ætti að skipta kostnaði við slík mannvirki. Lágmarksforsendur eru að sjálfsögðu, að báðir aðilar komi að því að ákveða umfang og fyrirkomulag. Reykjavíkurborg undir forystu Steinunnar Valdís hefur kynnt hugmyndir og framkvæmdaáætlun. Hinn 21. júlí 2001 birti Morgunblaðið viðtal við Steinunni Valdísi og segir hún, að unnið sé að samstarfssamningi milli Íþrótta- og tómstundaráðs og World Class vegna innisundlaugarinnar og mikillar heilsulindar. Allt sé þetta gert til að styrkja stöðu Reykjavíkur sem heilsuborgar og síðan segir Steinunn orðrétt: „Það er gert ráð fyrir að þarna verði ekki eingöngu um að ræða líkamsræktarstöð í venjulegum skilningi þess orðs, heldur geti fólk hugsanlega leitað þar óhefðbundinna lækninga með bökstrum, leirböðum og slíku.... Það má segja, að við séum að búa til heilsu- og vatnaparadís.“ Samkvæmt fréttinni er gert ráð fyrir því að ljúka hönnun, jarðvinnu og uppsteypun fyrir lok 2001.
Hvernig hafa þessi áform Steinunnar Valdísar gengið eftir? Engin jarðvinna er hafin nú 13. febrúar árið 2002, hvað þá heldur uppsteypa. Er enn verið að huga að hönnun mannvirkisins. Einhverjar vonir eru bundnar við að framkvæmdir hefjist í mars.

Ég skil vel í ljósi framgöngu Steinunnar Valdísar, að hún vilji skella skuldinni af þessum vandræðagangi öllum á aðra. Það er svo sem í samræmi við annað hjá R-listanum að vísa á ráðherra og ríkisstjórn. Þar er þó enn einu sinni verið að hengja bakara fyrir smið. Ég hef ekki með neinum hætti lagt stein í götu þessa máls og ávallt verið reiðubúinn að ræða það við alla, sem eftir því hafa óskað.