12.2.2002

Steinunn Valdís í prófkjörslag



Hörð kosningabarátta er nú háð í Samfylkingunni í Reykjavík, þar sem þau berjast í fremstu röð Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Helgi Hjörvar, Hrannar Björn Arnarson og Stefán Jón Hafstein. Þessi barátta var til umræðu í Íslandi í dag hinn 11. febrúar, þegar Snorri Már Skúlason ræddi við Hrafn Jökulsson. Þar lýsti Hrafn áhrifum framboðs Stefáns Jóns meðal annars með þessum orðum:

„Þannig að þessu [framboðinu] hlýtur eiginlega að vera skellt svona gegn Steinunni V. Óskarsdóttur og það líka vekur til umhugsunar um þátt Ingibjargar Sólrúnar sem er nú gömul flokkssystir Steinunnar úr Kvennalistanum að hún skuli þá e.t.v. hvetja sinn nánasta samstarfsmann [Stefán Jón] til framboðs sem að gæti hæglega kostað Steinunni V. sæti í borgarstjórn Reykjavíkur.“

Hrafn telur með öðrum orðum, að Steinunn V. sé í mikilli hættu að falla eftir 8 ára setu í borgarstjórn vegna framboðs Stefáns Jóns Hafsteins.

Vegna prófkjörsins hefur Steinunn V. Óskarsdóttir opnað vefsíðu til að gera hlut sinn sem bestan í stríðinu við Stefán Jón og hinn 12. febrúar birtist þar grein, sem síðan kom á Mbl.is undir fyrirsögninni: Segir menntamálaráðherra mismuna sveitarfélögum á kostnað Reykjavíkur.

Kveikjan að grein Steinunnar er, að síðastliðinn laugardag var ný skíðalyfta formlega opnuð í Hlíðarfjalli við Akureyri en hún er hluti af átaki, sem gert hefur verið til að skapa þar sem besta aðstöðu til vetraríþrótta undir merkjum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, sem er samstarfsvettvangur ríkis og Akureyrarbæjar samkvæmt reglum sem komu til sögunnar vorið 1995 og starfað hefur verið eftir síðan, meðal annars á grundvelli sérstaks samnings um fjárveitingar úr ríkissjóði. Vegna þessa samstarfs tók ég þátt í því að opna skíðalyftuna og telur Steinunn það til marks um að ég mismuni í hag Akureyrar, þar sem ég hafi ekki ljáð máls á sambærilegu samstarfi við Reykjavík.

Þau tæpu sjö ár, sem ég hef verið menntamálaráðherra, hef ég aldrei orðið var við, að Steinunn V. Óskarsdóttir eða aðrir talsmenn meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík hafi óskað eftir því að ganga til samstarfs við menntamálaráðuneytið á sömu forsendum og gert er með Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Er það nýmæli, sem kemur fram, þegar Steinunn Valdís stendur í hörðum prófkjörsslag, að hún vilji svipað samstarf í íþróttamálum við ríkið og býr að baki Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Steinunn nefnir tvö dæmi og telur þau til marks um áhugaleysi mitt á íþróttamannvirkjum í Reykjavík. Fyrra dæmið snýr að Laugardalsvellinum og gerð stúku þar samkvæmt kröfum FIFA. Gefur hún til kynna, að þessum framkvæmdum sé lokið undir forystu R-listans. Sú fullyrðing hennar stenst ekki. Laugardalsvöllurinn er ekki fullbyggður, eins og síðast kom fram í ræðu Eggerts Magnússonar, formanns Knattspyrnusambands Íslands á 56. ársþingi þess og sagt er frá í Morgunblaðinu í dag 12. febrúar. Telur Eggert réttilega ekki fullreynt, hvort samkomulag takist milli KSÍ, borgaryfirvalda og ríkisins um að finna lausn til að fullbyggja Laugardalsvöllinn þannig að þar verði rými fyrir tólf til fimmtán þúsund áhorfendur í sæti.

Í öðru lagi nefnir Steinunn hugsanlegan hlut ríkisins í byggingu 50 metra yfirbyggðar keppnislaugar í Laugardal. Vissulega hefur komið til álita, hvort ríkið eigi að koma að því máli, en á hinn bóginn hefur engum verið meira í mun en einmitt Steinunni V. Óskardsóttur að slá um sig vegna þessa mannvirkis og ekki voru neinar hugmyndir um það eða kostnaðaráætlanir kynntar mér sem menntamálaráðherra, áður en sagt var byggingu innisundlaugar og heilsuræktarstöðvar í Morgunblaðinu hinn 6. maí 2000 undir fyrirsögninni: Rúmir 1,3 milljarðar fara í framkvæmdirnar. Þar kom fram, að bygging laugarinnar mundi kosta 500 milljónir króna en heilsuræktarstöðin 800 milljónir króna og mundi Björn Leifsson í World Class reka hana. Hinn 21. júlí 2001 birtir Morgunblaðið enn frásögn af þessu mannvirki og byggist hún að þessu sinni á viðtali við Steinunni V. og segir hún, að unnið sé að samstarfssamningi milli Íþrótta- og tómstundaráðs og World Class. Allt sé þetta gert til að styrkja stöðu Reykjavíkur sem heilsuborgar og síðan segir Steinunn orðrétt: „Það er gert ráð fyrir að þarna verði ekki eingöngu um að ræða líkamsræktarstöð í venjulegum skilningi þess orðs, heldur geti fólk hugsanlega leitað þar óhefðbundinna lækninga með bökstrum, leirböðum og slíku.... Það má segja, að við séum að búa til heilsu- og vatnaparadís.“ Samkvæmt fréttinni er gert ráð fyrir því að ljúka hönnun, jarðvinnu og uppsteypun fyrir lok 2001.

Hvergi er í þessum frásögnum af innisundlauginni minnst á það, að aðild ríkisins sé forsenda framkvæmda við hana. Steinunn V. Óskarsdóttir þarf hins vegar að finna blóraböggul, þegar að henni er sótt í prófkjöri Samfylkingarinnar og spurt, hvað líði fyrirheitum um fullbúin Laugardalsvöll og vatnaparadís í Laugardal, og hún leitar skjóls í þeim rangfærslum, að ég geri betur við Akureyringa en Reykvíkinga, þegar litið er til framkvæmda í þágu íþrótta. Þetta minnir á þá vörn Alfreðs Þorsteinssonar að segjast ætla selja Perluna, þegar fjárausturinn í Línu.net var gagnrýndur.

Steinunn V. Óskarsdóttir hefur látið skipuleggja heilsu- og vatnaparadís í Laugardalnum á grundvelli samstarfssamnings við World Class. Laugardalsvöllurinn er ekki fullbyggður enn, þótt Steinunn V. Óskarsdóttir telji Reykjavíkurborg hafa fært mikla fórn með því að setja þar stúku til að fullnægja lágmarkskröfum FIFA.

Kjarni þessa máls er sá, að á milli Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins er samningur um Vetraríþróttamiðstöð Íslands og byggist hann ekki á hugtakinu þjóðarleikvangur, sem Steinun Valdís notar í grein sinni. Vilji Reykjavíkurborg semja við menntamálaráðuneytið er eðlilegt að það sé gert, áður en kynntar eru milljarða framkvæmdir á þeirri forsendu, að borgin ætli að standa að þeim í samvinnu við einkaaðila.