9.12.2001

PISA-rannsókn – styrkir til vísindarannsókna – Samfylkingin dalar

PISA-rannsókn – styrkir til vísindarannsókna – Samfylkingin dalar

Þriðjudaginn 4. desember var sagt frá niðurstöðum í rannsókn á vegum OECD á árangri í skólastarfi í 32 löndum. Með rannsókninni, sem fór fram árið 2000, er metið hve vel nemendum, sem eru að ljúka skyldunámi, hefur tekist að tileinka sér þá þekkingu og ná þeirri hæfni sem þeir þurfa á að halda til þess að taka fullan þátt í nútímasamfélagi. Samskonar mat mun fara fram á þriggja ára fresti í framtíðinni, þess vegna er þessi rannsókn, sem þekkt er alþjóðlega undir heitinu PISA hin víðtækasta, sem gerð hefur verið á þekkingu og getu nemenda.

Allir íslenskir nemendur í 10. bekk árið 2000 tóku þátt í rannsókninni og sýnir niðurstaðan að árangur Íslendinga í lestri var marktækt ofan við meðaltal nemenda í OECD löndunum. Hið sama gildir um árangur í stærðfræði, en í náttúrufræði var ekki marktækur munur á árangri íslenskra nemenda og meðaltali nemenda allra þátttökulandanna. Finnar stóðu sig best í lestri og Japanir og Kóreumenn stóðu sig best í stærðfræði og náttúrufræði. Þjóðirnar þrjár eru jafnframt meðal þeirra landa þar sem bilið á milli bestu og slökustu nemendanna er minnst. Lítill sem enginn munur er á árangri íslenskra nemenda eftir skólum, en það endurspeglar einsleitni í íslenska skólakerfinu og rannsóknin bendir til þess, að hér á landi sé lökustu nemendunum vel sinnt í samanburði við það, sem gerist annars staðar.

Þessi stutta lýsing á stöðu Íslendinga samkvæmt þessari könnun fellur vel að þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í menntamálum þjóðarinnar síðustu áratugi. Markmiðið hefur verið að skólakerfið sinni öllum nemendum og hið sama gangi yfir alla. Við hefðum náð betri árangri samkvæmt könnuninni, ef fleiri íslenskir nemendur hefðu komist í efsta flokk, það er í hóp bestu nemendanna. Með nýrri skólastefnu, sem ég hef kynnt undanfarin ár, og með nýjum námskrám og skipulagi skólastarfs í samræmi við þær er lögð áhersla á sveigjanleika í þágu bestu nemendanna, til dæmis geta þeir gengist undir samræmd próf upp úr grunnskóla úr 9. bekk hans, ef svo ber undir.

Ég tel mikils virði, að við Íslendingar eigum aðild að samanburðarrannsóknum af þessu tagi. Með þeim fáum við nýjar forsendur til að meta styrk okkar og veikleika og umræður um úrbætur byggjast á traustari forsendum en ella væri. Ef lesendur hafa áhuga á að kynnast niðurstöðum könnunarinnar betur bendi ég á vefsíðu Námsmatsstofnunar, www.namsmat.is/pisa .

Styrkir til vísindarannsókna
Í Staksteinum Morgunblaðsins laugardaginn 8. desember er birtur kafli úr leiðara í Tæknipúlsinum, fréttablaði Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins (RB), en Hákon Ólafsson, forstjóri Rb, skrifar leiðarann og slær þar föstu, að ég hafi ákveðið að útiloka rannsóknastofnanir frá því að sækja um styrki í sameinaðan vísinda- og tæknisjóð í rannsóknasjóði, sem komi til sögunnar, verði frumvarp um nýskipan á opinberum stuðningi við vísindarannsóknir að lögum. Dregur Hákon síðan ályktanir af þessari fullyrðingu sinni og segir: „Eingöngu einstaklingar skuli eiga rétt á að sækja um og verða þeir þá væntanlega að taka ábyrgð á mótframlagi sem oftast er 50%. Þannig mega starfsmenn rannsóknastofnana sækja um en ekki í nafni viðkomandi stofnunar sem veitir alla rannsóknaaðstöðu, greiðir þeim laun og ábyrgist fjárhagslegan rekstur og mótframlag til viðkomandi verkefnis...Ekki verður annað séð en að menntamálaráðherra hafi hlotið afar einhliða rágjöf í þessu máli og hyggist láta lönd og leið aðra hagsmuni en þá sem heyra undir menntamálaráðuneytið.“

Ég veit ekki á hvaða grunni Hákon Ólafsson byggir þessar fullyrðingar sínar. Ef hann telur mig hafa fengið afar einhliða ráðgjöf, hlýtur hann að hafa fengið afar óvandaða lýsingu á því, sem fyrir mér vakir í því frumvarpi, sem unnið hefur verið að undir minni forystu innan menntamálaráðuneytisins. Ég hef lagt til grundvallar, að umsóknir um styrki verði metnar á grundvelli ítarlegs faglegs mats á gæðum rannsóknaverkefna og færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknir. Þá verði samningur um styrkveitingu bundinn við rannsóknir ákveðinna einstaklinga hvort sem þeir, fyrirtæki þeirra eða stofnanir eru formlegir umsækjendur eða aðilar samnings. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin, að einstaklingar geti skuldbundið rannsóknastofnanir án samþykkis forstöðumanna þeirra, en á hinn bóginn er ekki unnt að veita styrki til vísindarannsókna, án þess að leggja mat á þá einstaklinga, sem ætla að vinna að rannsóknunum. Þá er ekki sanngjarnt að setja mál fram með þeim hætti, að af minni hálfu sé aðeins hugsað um þá, sem heyra með einum eða öðrum hætti undir menntamálaráðuneytið. Með þeim orðum er Hákon í raun að segja, að annars staðar sé ekki að finna einstaklinga, sem stunda styrkhæfar rannsóknir. Ég hef aldrei haldið slíku fram.

Samfylkingin dalar.

Í vikunni var birt niðurstaða í skoðanakönnun Gallups, sem var gerð um það leyti, sem Samfylkingin efndi til landsfundar síns eða 31.okt til 27. nóv. og sýnir hún minna fylgi við Samfylkinguna en áður hefur mælst, eða 16%. Sjálfstæðisflokkurinn fær 42%, vinstri/grænir 25% , Framsóknarflokkurinn 13%, frjálslyndir 3%.
Á sama tíma og þessi niðurstaða liggur fyrir er enn verið að ræða, að Samfylkingin fái 4 fulltrúa í 8 efstu sæti R-listans í Reykjavík, en vinstri/grænir 2 og framsókn 2. Dúsan fyrir vinstri/græna er, að þeir eigi að fá forseta borgarstjórnar, og framsókn á að eiga fyrsta val, þegar kemur að því að skipa menn í nefndir.

Við, sem sitjum á alþingi, verðum nær daglega vitni að því, hve stirt er á milli vinstri/grænna og samfylkingarmanna þar og stundum snúast umræður frekar um ávirðingar þingmanna úr þessum röðum í garð hvor annars en að þeir beini spjótum sínum gegn ríkisstjórninni. Keppni milli þingmanna úr flokkunum tveimur um að komast að með umræður utan dagskrár og draga þannig að sér athygli fjölmiðlanna er öllum augljós – þingflokkur Samfylkingarinnar er fjölmennari en vinstri/grænna en hins vegar er Steingrímur J. Sigfússon sá þingmanna, sem talar lengst í þinginu ár eftir ár. Hann tekur sjálfan sig hátíðlega, hefur gaman af því að hlusta á eigin ræður, jagast í forseta þingsins og þykist vita betur, einkum þegar Halldór Blöndal stýrir fundi, bregst illa við, ef að honum er vikið með gagnrýni, og er kvartsár, til dæmis ef honum finnst ekki nógu margir ráðherrar í salnum, þegar hann heiðrar ræðustólinn.

Getur það varla verið í anda Steingríms J. að vinstri/grænir með þetta mikla fylgi sitt samkvæmt könnunum fái aðeins 2 fulltrúa í 8 efstu sæti R-listans á móti 4 sætum Samfylkingarinnar. Fyrir skömmu var ég í þættinum Silfur Egils á Skjá 1 með Kolbrúnu Halldórsdóttur, þingmanni vinstri/grænna, og virtist hún alsæl yfir því, að vinstri/grænir fengju forseta borgarstjórnar og taldi flokk sinn að auki hafa undirtökin við gerð stefnuskrár R-listans. Var ekki unnt annað en samfagna með Kolbrúnu í þessum þætti, en síðan hef ég spurt mig, hvort hún hafi í raun áttað sig á því, hvernig samfylkingarfólkið er í raun að sparka vinstri/grænum upp á forsetastólinn til að halda öllum völdum í eigin höndum.







Þriðjudaginn 4. desember var sagt frá niðurstöðum í rannsókn á vegum OECD á árangri í skólastarfi í 32 löndum. Með rannsókninni, sem fór fram árið 2000, er metið hve vel nemendum, sem eru að ljúka skyldunámi, hefur tekist að tileinka sér þá þekkingu og ná þeirri hæfni sem þeir þurfa á að halda til þess að taka fullan þátt í nútímasamfélagi. Samskonar mat mun fara fram á þriggja ára fresti í framtíðinni, þess vegna er þessi rannsókn, sem þekkt er alþjóðlega undir heitinu PISA hin víðtækasta, sem gerð hefur verið á þekkingu og getu nemenda.

Allir íslenskir nemendur í 10. bekk árið 2000 tóku þátt í rannsókninni og sýnir niðurstaðan að árangur Íslendinga í lestri var marktækt ofan við meðaltal nemenda í OECD löndunum. Hið sama gildir um árangur í stærðfræði, en í náttúrufræði var ekki marktækur munur á árangri íslenskra nemenda og meðaltali nemenda allra þátttökulandanna. Finnar stóðu sig best í lestri og Japanir og Kóreumenn stóðu sig best í stærðfræði og náttúrufræði. Þjóðirnar þrjár eru jafnframt meðal þeirra landa þar sem bilið á milli bestu og slökustu nemendanna er minnst. Lítill sem enginn munur er á árangri íslenskra nemenda eftir skólum, en það endurspeglar einsleitni í íslenska skólakerfinu og rannsóknin bendir til þess, að hér á landi sé lökustu nemendunum vel sinnt í samanburði við það, sem gerist annars staðar.

Þessi stutta lýsing á stöðu Íslendinga samkvæmt þessari könnun fellur vel að þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í menntamálum þjóðarinnar síðustu áratugi. Markmiðið hefur verið að skólakerfið sinni öllum nemendum og hið sama gangi yfir alla. Við hefðum náð betri árangri samkvæmt könnuninni, ef fleiri íslenskir nemendur hefðu komist í efsta flokk, það er í hóp bestu nemendanna. Með nýrri skólastefnu, sem ég hef kynnt undanfarin ár, og með nýjum námskrám og skipulagi skólastarfs í samræmi við þær er lögð áhersla á sveigjanleika í þágu bestu nemendanna, til dæmis geta þeir gengist undir samræmd próf upp úr grunnskóla úr 9. bekk hans, ef svo ber undir.

Ég tel mikils virði, að við Íslendingar eigum aðild að samanburðarrannsóknum af þessu tagi. Með þeim fáum við nýjar forsendur til að meta styrk okkar og veikleika og umræður um úrbætur byggjast á traustari forsendum en ella væri. Ef lesendur hafa áhuga á að kynnast niðurstöðum könnunarinnar betur bendi ég á vefsíðu Námsmatsstofnunar, www.namsmat.is/pisa .

Styrkir til vísindarannsókna
Í Staksteinum Morgunblaðsins laugardaginn 8. desember er birtur kafli úr leiðara í Tæknipúlsinum, fréttablaði Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins (RB), en Hákon Ólafsson, forstjóri Rb, skrifar leiðarann og slær þar föstu, að ég hafi ákveðið að útiloka rannsóknastofnanir frá því að sækja um styrki í sameinaðan vísinda- og tæknisjóð í rannsóknasjóði, sem komi til sögunnar, verði frumvarp um nýskipan á opinberum stuðningi við vísindarannsóknir að lögum. Dregur Hákon síðan ályktanir af þessari fullyrðingu sinni og segir: „Eingöngu einstaklingar skuli eiga rétt á að sækja um og verða þeir þá væntanlega að taka ábyrgð á mótframlagi sem oftast er 50%. Þannig mega starfsmenn rannsóknastofnana sækja um en ekki í nafni viðkomandi stofnunar sem veitir alla rannsóknaaðstöðu, greiðir þeim laun og ábyrgist fjárhagslegan rekstur og mótframlag til viðkomandi verkefnis...Ekki verður annað séð en að menntamálaráðherra hafi hlotið afar einhliða rágjöf í þessu máli og hyggist láta lönd og leið aðra hagsmuni en þá sem heyra undir menntamálaráðuneytið.“

Ég veit ekki á hvaða grunni Hákon Ólafsson byggir þessar fullyrðingar sínar. Ef hann telur mig hafa fengið afar einhliða ráðgjöf, hlýtur hann að hafa fengið afar óvandaða lýsingu á því, sem fyrir mér vakir í því frumvarpi, sem unnið hefur verið að undir minni forystu innan menntamálaráðuneytisins. Ég hef lagt til grundvallar, að umsóknir um styrki verði metnar á grundvelli ítarlegs faglegs mats á gæðum rannsóknaverkefna og færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknir. Þá verði samningur um styrkveitingu bundinn við rannsóknir ákveðinna einstaklinga hvort sem þeir, fyrirtæki þeirra eða stofnanir eru formlegir umsækjendur eða aðilar samnings. Að sjálfsögðu er ekki ætlunin, að einstaklingar geti skuldbundið rannsóknastofnanir án samþykkis forstöðumanna þeirra, en á hinn bóginn er ekki unnt að veita styrki til vísindarannsókna, án þess að leggja mat á þá einstaklinga, sem ætla að vinna að rannsóknunum. Þá er ekki sanngjarnt að setja mál fram með þeim hætti, að af minni hálfu sé aðeins hugsað um þá, sem heyra með einum eða öðrum hætti undir menntamálaráðuneytið. Með þeim orðum er Hákon í raun að segja, að annars staðar sé ekki að finna einstaklinga, sem stunda styrkhæfar rannsóknir. Ég hef aldrei haldið slíku fram.

Samfylkingin dalar.

Í vikunni var birt niðurstaða í skoðanakönnun Gallups, sem var gerð um það leyti, sem Samfylkingin efndi til landsfundar síns eða 31.okt til 27. nóv. og sýnir hún minna fylgi við Samfylkinguna en áður hefur mælst, eða 16%. Sjálfstæðisflokkurinn fær 42%, vinstri/grænir 25% , Framsóknarflokkurinn 13%, frjálslyndir 3%.
Á sama tíma og þessi niðurstaða liggur fyrir er enn verið að ræða, að Samfylkingin fái 4 fulltrúa í 8 efstu sæti R-listans í Reykjavík, en vinstri/grænir 2 og framsókn 2. Dúsan fyrir vinstri/græna er, að þeir eigi að fá forseta borgarstjórnar, og framsókn á að eiga fyrsta val, þegar kemur að því að skipa menn í nefndir.

Við, sem sitjum á alþingi, verðum nær daglega vitni að því, hve stirt er á milli vinstri/grænna og samfylkingarmanna þar og stundum snúast umræður frekar um ávirðingar þingmanna úr þessum röðum í garð hvor annars en að þeir beini spjótum sínum gegn ríkisstjórninni. Keppni milli þingmanna úr flokkunum tveimur um að komast að með umræður utan dagskrár og draga þannig að sér athygli fjölmiðlanna er öllum augljós – þingflokkur Samfylkingarinnar er fjölmennari en vinstri/grænna en hins vegar er Steingrímur J. Sigfússon sá þingmanna, sem talar lengst í þinginu ár eftir ár. Hann tekur sjálfan sig hátíðlega, hefur gaman af því að hlusta á eigin ræður, jagast í forseta þingsins og þykist vita betur, einkum þegar Halldór Blöndal stýrir fundi, bregst illa við, ef að honum er vikið með gagnrýni, og er kvartsár, til dæmis ef honum finnst ekki nógu margir ráðherrar í salnum, þegar hann heiðrar ræðustólinn.

Getur það varla verið í anda Steingríms J. að vinstri/grænir með þetta mikla fylgi sitt samkvæmt könnunum fái aðeins 2 fulltrúa í 8 efstu sæti R-listans á móti 4 sætum Samfylkingarinnar. Fyrir skömmu var ég í þættinum Silfur Egils á Skjá 1 með Kolbrúnu Halldórsdóttur, þingmanni vinstri/grænna, og virtist hún alsæl yfir því, að vinstri/grænir fengju forseta borgarstjórnar og taldi flokk sinn að auki hafa undirtökin við gerð stefnuskrár R-listans. Var ekki unnt annað en samfagna með Kolbrúnu í þessum þætti, en síðan hef ég spurt mig, hvort hún hafi í raun áttað sig á því, hvernig samfylkingarfólkið er í raun að sparka vinstri/grænum upp á forsetastólinn til að halda öllum völdum í eigin höndum.