10.11.2001

Umræður utan dagskrár – mikilvæg málþing - Múrinn

Í vikunni tók ég þátt í tveimur umræðum utan dagskrár á alþingi, annars vegar átti Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna frumkvæði að umræðum um fjármál framhaldsskólanna og hins vegar Einar Már Sigurðarson í Samfylkingunni að umræðum um fjármál háskóla í ljósi samkeppni ríkisháskóla við einkaháskóla.

Kolbrún virtist vera andvíg því, að beitt sé samningsstjórnun og reiknilíkani í samskiptum ríkisins og framhaldsskólanna, án þess hún segði, hvað ætti að koma í staðinn sem mælikvarði á hæfilegar fjárveitingar til skólanna. Ég benti hins vegar á þá staðreynd, að enginn skólameistari óskaði eftir því, að horfið yrði til gamla lagsins á ný, þótt menn væru ekki endilega á eitt sáttir um reiknilíkanið. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þessi aðferð við að mæla framhaldsskólum og háskólum fé sé skynsamleg og skili bestum árangri við meðferð á opinberu fé, auk þess sem hún gerir mönnum kleift að mæla einstaka þærri í starfsemi skólanna og fjárþörf vegna þeirra. Reiknilíkanið er í sífelldri þróun, því hefur verið breytt í þágu fámennra skóla á landsbyggðinni, nú beinist athyglin að verkmenntaskólum og sérstökum aðstæðum þeirra til dæmis vegna endurnýjunar á tækjum, sem afskrifast hraðar en menn hafa ætlað. Hlýtur að vera mikilvægt fyrir þingmenn og aðra, sem vilja hafa auga með því til hvaða hluta skattfé almennings rennur, að geta fylgst sem best með því af þeirri nákvæmni, sem unnt er fyrir tilstilli reiknilíkansins.

Í umræðunum um háskóla var látið í veðri vaka, að ríkisháskólar stæðu verr að vígi en einkaháskólar, vegna þess að úr ríkissjóði væri greitt jafnmikið með hverjum nemenda í sambærilegu námi auk þess sem einkaháskólarnir geta innheimt skólagjöld. Þessi aðferð til að fjármagna háskólanám tryggir, að ríkissjóður gerir ekki upp á milli nemenda eftir því hvaða skóla þeir velja, og ríkið leggur ekki stein í götu þeirra, sem eru reiðubúnir til að leggja meira af mörkum til skóla sinna en ríkisframlaginu nemur, hafi skólarnir heimild til slíkrar gjaldtöku. Einkaskólar hafa þá sérstöðu, að þeir fá ekki bein framlög úr ríkissjóði til að reisa byggingar í sína þágu, en síðastliðinn mánudag opnaði ég 4000 fermetra álmu við Háskólann í Reykjavík, sem kostar 460 milljónir króna. Húsið var reist á undraskömmum tíma og verður ekki annað sagt en byggingarkostnaður sé til fyrirmyndar, en framkvæmdin laut ekki hinu opinbera eftirlitskerfi heldur var henni stjórnað af Þorvarði Elíassyni, skólastjóra Verslunarskóla Íslands.

Mikilvæg málþing

Mánudaginn 5. nóvember var efnt til málþings í Þjóðarbókhlöðunni um landsaðgang að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum og kom það í minn hlut að setja málþingið. Var tímabært að vekja athygli á þeirri nýjung, sem felst í þessum aðgangi allrar þjóðarinnar að þeim ómetanlegu upplýsingalindum, sem er að finna á vefsíðunni hvar.is. Vissulega hefur verið unnið nokkurt kynningarstarf vegna þessarar nýju þjónustu, en betur má ef duga skal, því að hér er um að ræða nýjan upplýsinga- og þekkingarheim, sem stendur okkur öllum opinn og við getum nálgast með því einu að setjast við nettengda tölvu hér á landi. Menntamálaráðuneytið ruddi brautina fyrir slíkum landsaðgangi með samningum við Encyclopaediu Britannicu, sem aldrei áður hafði gert samning um áskrift heillrar þjóðar.

Þess varð strax vart, að málþingið vekti áhuga, því að fram að því höfðu um 800 manns á dag farið inn á hvar.is en þriðjudaginn 6. nóvember voru heimsóknir á síðuna tæplega 12.000.

Föstudaginn 9. nóvember boðaði menntamálaráðuneytið til málþings um einelti, en af hálfu ráðuneytisins hefur markvisst verið unnið að leiðum til að útrýma þessum vágesti síðan umboðsmaður barna efndi til ráðstefnu um einelti árið 1998. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því, að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála (RUM) nú Námsmatsstofnun, rannsakaði bæði tíðni eineltis og einnig til hvaða úrræða hefur verið gripið gegn því. Hefur málið verið rætt í samstarfsnefnd um grunnskólastigið, sem starfar undir formennsku menntamálaráðuneytisins, en nefndin setti á laggirnar sérstakan starfshóp, sem meðal annars hvatti til þess að þetta máþingið yrði haldið. Menntamálaráðuneytið bauð Dan Olweus prófessor frá Noregi til að vera aðalfyrirlesari á þinginu. Hann hefur gert viðamiklar rannsóknir á einelti í Noregi og skrifað fjölda fræðibóka. Einnig hefur hann á grundvelli rannsókna sinna kynnt markvissa áætlun um fræðslu og aðgerðir. Prófessor Olweus er ekki einungis viðurkenndur fræðimaður á Norðulöndum heldur hafa kenningar hans hlotið verðskuldaða athygli víða um heim m.a. í Bandaríkjunum.

Ég bind vonir við, að málþingið um einelti beri ekki síður árangur en kynningin á rafrænu gagnagrunnunum og tímaritunum, þótt ekki sé unnt að mæla þann árangur með sama hætti og heimsóknir á vefsíðu.


Múrinn

Meðal íslenskra vefsíðna, sem snúast um stjórnmál er Múrinn en nafnið skírskotar væntanlega til Berlínarmúrsins, sem í hugum flestra var tákn um uppgjöf kommúnismans gagnvart hinum frjálsu og opnu þjóðfélögum. – Hann var reistur sumarið 1961 til að hindra íbúa Austur-Þýskalands við að mótmæla ofríki og fátækt kommúnismans með flótta. Með honum lokuðu einræðisherrarnir í Austur-Berlín borgarhluta sínum gagnvart Vestur-Berlín, lögðu jarðsprengjur sín megin við hann og létu herlögreglumenn með blóðhunda standa þar vakt dag og nótt til að halda aftur af löngun fólks til að sækja í frelsið. Það var ekki fyrr en Mikhaíl Gorbatsjov Sovétleiðtogi sagði, að sovéska hernum yrði ekki beitt til að verja einræðisherrana í Austur-Berlín gegn íbúum Austur-Þýskalands, að fall ofríkisstjórnarinnar hófst og íbúarnir streymdu fyrst til Ungverjalands og þaðan vestur á bóginn og síðan hrundi múrinn 9. nóvember 1989.

Múrinn lifir hins vegar sem íslensk vefsíða og á hana skrifa þeir, sem styðja málstað vinstri/grænna og eru meðal annars í fyrirsvari fyrir þá í samningum um R-listann í Reykjavík og skiptingu valda þar. Ef óskaslóðir vefsíðunnar eru skoðaðar kemur í ljós, að þar er vísað á kommúnistaflokka nær og fjær eða arftaka þeirra, hafi flokkarnir kosið að taka um nýjan lit en hinn rauða, til dæmis grænan.

Athyglisvert er hve Múrinn leggur mikla áherslu á alþjóðamál en skrifin um þau minna mjög á málflutning kommúnista á tímum kalda stríðsins, andstaðan við NATO er hinn rauði þráðu og einnig við varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Er ljóst af lestri Múrsins, að þar hafa menn ekki síst áhuga á að komast til stjórnmálaáhrifa í því skyni að breyta utanríkisstefnu Íslendinga.

Hinn 20. október tók Múrinn sér fyrir hendur að svara þeirri fullyrðingu minni, að vinstri/grænir væru einstæðir meðal stjórnmálaflokka á Vesturlöndum í ótvíræðri andstöðu sinni við stækkun NATO. Er sagt, að fullyrðingin fái ekki staðist vegna þess, að talsmaður græningja í Austurríki vilji, að land sitt sé utan NATO, hið sama eigi við um Lýðræðislega sósíalistaflokkinn (PDS) í Þýskalandi, Sósíalíski vinstriflokkurinn í Noregi vilji leggja NATO niður og einnig sænski Vinstriflokkurinn – og boðar Múrinn, að hann muni síðar upplýsa um fleiri flokka sama sinnis. Síðan leggur Múrinn þannig út af þessu, að hann hafi með því að tíunda afstöðu þessara flokka, sýnt enn og aftur fram á ósannindi málsvara vestræns varnarsamstarfs.

Langsótt er að túlka orðið “einstæðir” á þann veg, að ekki sé unnt að finna önnur slík fágæti annars staðar, og saka andstæðinga sína síðan um ósannsögli og fleipur á svo haldlitlum forsendum. Hvað sem því líður er hitt ljóst, að Múrinn telur sig eiga samleið með gömlu kommúnistunum innan PDS í Þýskalandi og vill árétta, að stefna sín og þeirra í varnar- og öryggismálum sé hin sama.

Þótt ekki sé samið um öryggi þjóðarinnar í viðræðunum um valdahlutföllin innan R-listans, er ljóst, að vinstri/grænir semja þar í því skyni að ná pólitískum undirtökum og til að styrkja stöðu sína til frekari pólitískra áhrifa – vinstri/grænir eru ekki aðeins andvígir NATO heldur vilja þeir draga úr allri alþjóðaþátttöku Íslendinga, sem byggist á nánu samstarfi við ríki Evrópusambandsins, Bandaríkin og Kanada. Þeir vilja reisa múr um Ísland í því skyni að draga úr öllum samskiptum við nágrannaríkin, þeir vilja leggja niður Atlantshafsbandalagið og gera Ísland varnarlaust. Þessa menn ætla Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn að leiða til valda í Reykjavík og freista þeirra með því að bjóða þeim embætti forseta borgarstjórnar.