24.10.2001

UNESCO-fundur – siðfræði og líftækni – Raphael-sýning.


Hinn 16. október hélt ég ásamt Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur aðstoðarmanni mínum til Parísar til að taka þátt í 31. aðalráðstefnu UNESCO, mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna en þessar ráðstefnur eru annað hvort ár og sótti ég hana nú í þriðja sinn. Í fyrsta skiptið, sem ég ætlaði að sækja slíka ráðstefnu sneri ég heim eftir stutta viðdvöl á bókasýningu í Gautaborg vegna snjóflóðanna á Vestfjörðum haustið 1995. Að þessu sinni var ekki aðeins um þátttöku í aðalráðstefnunni að ræða heldur tók ég einnig þátt í hringborðsumræðum vísindamálaráðherra um siðfræðileg álitamál vegna líftækni og alþjóðleg áhrif þeirra. Var dvölin í París því átta dagar, sem er óvenjulegt fyrir mig vegna þátttöku í alþjóðaráðstefnum.

Tíminn nýttist einnig til að vinna að framboði fulltrúa Íslands, Sveins Einarssonar leikhússtjóra og rithöfundar, í stjórnarnefnd UNESCO. Á sínum tíma sat Andri Ísaksson í nefndinni fyrir Íslands hönd. 1993 var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir í framboði en náði ekki kjöri. Hefur mikil vinna verið lögð í að undirbúa þetta framboð síðastliðið ár og þar er í mörg horn að líta til að tryggja sem besta kynningu á frambjóðandanum. Auðveldar það Sveini baráttuna, að hann hefur um árabil verið formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar og því haft mikið með málefni stofnunarinnar að gera og sinnt verkefnum á vettvangi hennar ekki síst að því er varðar menningarmál. Samhliða því sem Sveinn hefur lagt sig fram um allt kynningar- og kosningastarf hefur sendiráð Íslands í París undir forystu Sigríðar Snævar sendiherra lagt mikið af mörkum í baráttunni. Hefur verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að kynnast því, hvernig best er staðið að því að halda málstað smáþjóðar fram í slíkri baráttu, en Norðurlöndin eru okkur þar ómetanlegur bakhjarl og raunar er það sæti þeirra í stjórnarnefndinni, sem Ísland er að verja með framboði sínu núna og var ánægjulegt að heyra, hve mikinn stuðning danski menntamálaráðherrann, Margrethe Vestager, veitti framboði Íslands í ræðu sinni á aðalráðstefnunni. Hið sama gerði norski fulltrúinn, en að þessu sinni var hann embættismaður, þar sem ný ríkisstjórn var að fæðast þessa sömu daga.

Ræða mín á aðalráðstefnunni er hér á síðunni, einnig er þar að finna ræðu mína í hringborðsumræðunum um siðfræði í líftækni, en aldrei fyrr hafa vísindaráðherrar frá öllum þjóðum heims komið saman til að ræða þetta málefni sérstaklega, en það var Koichiro Matsuura, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, sem hvatti mest til þess að til umræðnanna var stofnað. Var mjög fróðlegt að hlýða á erindi fræðimanna á sviði líftækni, siðfræði og lögfræði flytja erindi sín og kynnast síðan hinum ólíku viðhorfum, sem eru uppi meðal fulltrúa þjóðanna eftir því úr hvaða heimshlutum þeir koma. Virðist mér, að við Íslendingar séum komnir í fremstu röð við setningu laga og í almennum umræðum á víðtækum forsendum um þessi mál. Þar skipta umræður og deilur um gagnagrunn á heilbrigðissviði að sjálfsögðu mestu, en ég fæ ekki á neinn hátt séð eftir þátttöku í þessum umræðum að lögin um hann brjóti í bága við þau sjónarmið, sem eru uppi á alþjóðavettvangi.

Í umræðunum kom meðal annars fram, að í þessu máli mættu menn ekki detta í sömu gryfjuna og kjarneðlisfræðingar gerðu á sínum tíma, að forðast að ræða um rannsóknir sínar, markmið þeirra og niðurstöður fyrir opnum tjöldum og lokast síðan inni vegna ranghugmynda og skorts á almennri vitneskju um gildi friðsamlegrar nýtingar kjarnorkunnar af ótta við nýtingu hennar til hernaðar. Hið sama á við um líftækni og kjarnorkuna, að hana er bæði unnt að nota til að bæta líf okkar og eyða, en nokkrir ræðumannanna fjölluðu um bioterror eða hryðjuverk á grundvelli líftækni, sem meðal annars birtist núna með mistilbrandinum.

Allir lýstu andstöðu sinni við klónun manna, en þegar kom að því að ræða um bann við tilraunum á fóstrum, voru skoðanir skiptari um hvar og hvernig ætti að draga mörkin til að hindra ekki eðlilegan framgang vísindanna, en löggjöf okkar Íslendinga er til dæmis íhaldssöm í þessu efni. Trúarbrögð og þróunarstig þjóða móta mjög afstöðu þeirra í þessu efni og er greinilegt, að í þróunarríkjunum óttast menn að fátækt fólk taki að selja líf sitt og limi í þágu vísindanna til að létta örbirgð sína, ef ekki eru settar skorður fyrir ásókn í slíkt með alþjóðlegum reglum. Hins vegar eru síðan upp ólík sjónarmið um það, hvort þær eigi að verða til viðmiðunar fyrir ríki eða hafa lagagildi gagnvart þeim með eftirlitskerfi og refsiákvæðum.

Nokkuð var rætt um upplýst samþykki. Indverski ráðherrann vakti máls á því, að kröfunni um það gæti verið erfitt að fullnægja meðal þjóða, þar sem ólæsi er mikið og indverskur læknir sagði þá sögu á lokuðum fundi, að ekki þýddi lengur að ræða við ólæsa Indverja, skýra út fyrir þeim, hvað þeir væru að samþykkja og biðja þá síðan að staðfesta samþykki sitt með því að þrýsta þumalfingri í blek og síðan til staðfestingar á samþykki sínu undir texta á blaði. Hinir ólæsu létu ekki bjóða sér slíkt lengur, því að þeir hefðu brennt sig á því að vera sagt eitt og síðan þrýsta fingri sínum á blað um eitthvað annað og kannski tapa landi sínu eða bústofni fyrir vikið til útsmoginna svindlara. Nú þyrfti að eiga öll samtöl með á myndbandi til að unnt væri að sýna og sanna, hvað fram hefði farið, áður en menn staðfestu samþykki sitt með því að þrýsta þumalfingri á blað.

Það kom í minn hlut að stjórna lokafundi hringborðsumræðnanna, þegar gengið var frá ályktun fundarins. Varð nokkur rimma milli fulltrúa þróaðra ríkja og þróunarríkja vegna tillagna um að stofnaður yrði sjóður til að auðvelda þjóðum fræðslu og rannsóknir á sviði líftækni. Töldu fulltráu Bretlands og Hollands tillöguna of afdráttarlausa en fulltrúar þróunarríkjanna voru því ósammála. Fyrir tilstuðlan Matsuura aðalframkvæmdastjóra tókst að komast að málamiðlun um þetta og önnur atriði í ályktuninni og var hún samþykkt samhljóða og með lófataki að lokum.

Tel ég mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með þessu starfi á vettvangi UNESCO, því að næsta skref er að vinna að því að semja texta á alþjóðasamþykkt um þessi mál, sem ef til vill kann að verða bindandi, og er því brýnt að sjá til þess, að ekki sé þar verið að setja inn ákvæði, sem leggja stein í götu þeirra, sem eru komnir lengst og hafa náð þeim áfanga í sátt heima fyrir eða á grudvelli almennra umræðna og á lýðræðislegum forsendum.

Auk þess að taka þátt í störfum UNESCO flutti ég meðal annars ræðu á fundi Fransk-íslenska verslunarráðsins, þar sem um 50 manns komu saman á mánudagskvöldi til málsverðar á hóteli skammt frá Sigurboganum í hjarta Parísar. Ræddi ég einkum um íslenska menningu og stöðu okkar í því tilliti með vísan til alþjóðavæðingarinnar. Gat ég meðal annars um nýja stefnumörkun á vegum Ferðamálaráðs undir formennsku Tómasar Inga Olrichs alþingismanns sem miðar að því að kynna Ísland út á við gagnvart ferðamönnum með vísan til menningar þjóðarinnar og arfleifðar okkar á því sviði.

Frakkar sýna íslenskri menningu mikinn áhuga og þeir eru duglegir að þýða nýjar íslenskar bækur á frönsku. Þá er fyrsta íslenska kvikmyndin, 101 Reykjavík, að fara til almennra sýninga í frönskum kvikmyndahúsum hinn 31, október og var ánægjulegt af því tilefni að sjá forsíðumynd af Hilmi Snæ utan á kvikmyndatímaritinu repérages og ítarlega frásög af myndinni ásamt viðtali við Baltasar Kormák leikstjóra inni í blaðinu. Í undirbúningi er að efna til íslenskrar menningarkynningar í París árið 2004 og er undirbúningur undir hana hafinn og á fundi verslunarráðsins var sérlegur fulltrúi frönsku ríkisstjórnarinnar auk alþjóðafulltrúa menningarmálaráðuneytisins en ég hef rætt þetta verkefni við tvo menningarmálaráðherra auk þess sem það bar á góma á fundi Davíðs Oddssonar með Jacques Chirac Frakklandsforseta.

Ég fór einnig í litla bókabúð Le Livre Ouvert 48 Rue des Francs Bourgeois rétt við ríkisskjalasafnið franska sem sérhæfir sig í sölu íslenskra og norrænna bóka. Tók gamli bóksalinn hr. Gauthier vel á móti okkur og var greinlegt að sinnir starfi sínu af mikilli alúð og ást á þeim bókum, sem hann hefur til sölu. Tók ég eftir því að í bakherbergi við verslunina hékk lítil mynd af andspyrnuhetjunni Jean Moulin, en árið 1964 voru líkamsleifar hans fluttar undir Panthéon, þar sem hann hvílir nú í þjóðhetjugrafhýsi með þeim André Malraux, René Cassin og Jean Monnet. Yfir Moulin hvílir mikil dulúð og á síðasta ári kom út bók um hann eftir Patrick Marnham, sem heitir á ensku: The Death of Jean Moulin – Biography of a Ghost.

Frakkar eru frægir fyrir verkföll sín og þessa daga voru starfsmenn safna í verkfalli og komst ég því ekki í ríkisskjalasafnið eins og ég ætlaði. Á hinn bóginn var Luxembourg-safnið, sem er starfrækt undir handarjaðri öldungadeildar franska þingsins, opið. Það var stofnað árið 1750 með konunglegum verkum í eigu Marie de Médicis og er elsta listasafn í Evrópu. Safnið var lokað almenningi 1938 en opnað aftur á síðasta ári og nú eru þar sýnd verk eftir meistarann Raphael, sem andaðist 1520 aðeins 37 ára að aldri. Í miðpunkti sýningarinnar er málverk af ungri hálfnakinni konu, La Fornarina, sem var á trönum meistarans, þegar hann lést, og er talið vera af vinkonu hans eða ástkonu af lágum stéttum.

Sýningarsalur safnsins er ekki stór og verkin ekki mörg, en á gangstéttinni fyrir utan stóðu um miðjan, virkan dag mörg hundruð manns í biðröð og er talið að svo verði allan tímann meðan La Fornarina er þarna til sýnis, því að það er einstakt að fá tækifæri til þess að líta þetta verk Raphaels augum, var það fengið að láni frá Ítalíu vegna sýningarinnar og telja stjórnendur Luxembourg-safnsins, að það verði sífellt sjaldgæfara að slíkir dýrgripir verði fluttir á milli landa bæði vegna umhyggju fyrir verkunum og ótta við skemmdarverk.

Ég átti þess einnig kost að ræða við Jacques Mer, sem var sendiherra Frakka hér landi, fyrir rúmum áratug og hefur síðan ritað mikið um íslensk málefni og meðal annars gefið út bók um íslensk stjórnmál og efnahagsmál auk þess sem hann fjallar um stefnu okkar ogt stöðu í utanríkis- og öryggismálum. Þá stendur hann ásamt fleirum að útgáfu fréttablaði um íslensk málefni, Courrier d’Islande en ritstjóri þess blaðs er Jean Le Tellier. Ber blaðið vott um gróskumikinn áhuga á íslenskum málefnum.