30.9.2001

Helstu þingmál mín – menningarleg fjölbreytni – málverkasafn Tryggva

Stjórnmálastarfið tekur á sig nýjan svip nú þegar alþingi kemur saman að nýju eftir sumarleyfi. Ekki verður annað sagt en þetta hafi verið viðburðaríkt sumar fyrir stjórnmálamenn, bæði þegar litið er til þess, sem hefur gerst innan lands og á erlendum vettvangi. Raunar fellur allt í skuggann fyrir því, sem menn standa frammi fyrir vegna árásanna á New York og Washington 11. september, en það kemur sífellt betur í ljós, hve áhrifin eru víðtæk og snerta marga. Þar á ég ekki aðeins við endurmat á öryggismálum heldur einnig efnahagslega þáttinn, meðal annars voru gefin út bráðabirgðalög hér um síðustu helgi um ábyrgð ríkissjóðs á tryggingum flugfélaga.

Á innlendum vettvangi verður haldið áfram að ræða um gamalkunn mál eins og Kárahnjúkavirkjun og stjórn fiskveiða auk þess sem Samfylkingin hefur boðað, að hún ætli að beina athyglinni að ábyrgð stjórnmálamanna í fjármálum og þeim þáttum, sem lúta að siðareglum ýmissa starfsstétta.

Ef ég lít málaflokka undir minni forsjá í menntamálaráðuneytinu, vil ég vinna að því á þessu þingi, að frumvörp til laga nái fram að ganga, sem ég hef lagt fram áður, en voru þá ekki útrædd, og vísa ég þá til frumvarps til kvikmyndalaga og frumvarps um skylduskil til safna. Þá hefur verið unnið að því í sumar á vegum ráðuneytisins að kynna frumvarp um afnám opinbers eftirlits með kvikmyndum. Var frumvarp um þetta efni fyrst samið fyrir nokkrum misserum á þeim forsendum, að núgildandi lög um kvikmyndaskoðun brytu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um bann við ritskoðun. Síðan tókum við málið upp að nýju, þegar nefnd á vegum forsætisráðuneytið um takmörkun á eftirlitsstarfsemi ríkisins vakti máls á því, að íhlutun kvikmyndaskoðunar einkenndist af of mikilli forsjárhyggju.

Síðasta vetur skýrði ég frá því, að fram myndi fara endurskoðun á lögunum um Rannsóknarráð Íslands í því skyni að skilja á milli stenfumótunar á sviði vísinda og tækni og úthlutuna á styrkjum. Hefur verið unnið að þessu verki síðan og lagður grunnur að tveimur frumvörpum, annars vegar um vísinda- og tækniráð, sem lyti formennsku forsætisráðherra, og hins vegar um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Þá verður vafalaust gengið á eftir því við mig, að hresst verði upp á löggjöfina um Ríkisútvarpið, en ekki hefur náðst nein samstaða um breytingar á henni og er það áfram afstaða mín, að fyrst verði stjórnarflokkarnir að koma sér saman um málið, áður en ég flyt frumvarp um breytingar. Liggur það raunar í augum uppi, að enginn menntamálaráðherra fer fram með mál, sem snertir jafnviðamikla stofnun og Ríkisútvarpið, nema öryggi sé fyrir því, að það nái fram að ganga. Mér sýnist, að þingmenn hafi nú sérstakan áhuga á þeim ákvörðunum, sem stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa tekið um samdrátt í þjónustu svæðisútvarpsstöðvanna og vilji fá skýringar á þeim í sérstökum umræðum utan dagskrár á alþingi.

Loks er á döfinni innan menntamálaráðuneytisins að endurskoða lögin um lögverndun kennarastarfsins en ég vék meðal annars að því máli í ræðu, sem ég flutti á skólamálaþingi á Akureyri laugardaginn 29. september.

Skömmu eftir að ég hafði flutt þá ræðu ókum við sem leið lá frá Akureyri til Norðfjarðar og þar tók ég þátt í að opna Málverkasafn Tryggva Ólafssonar við eftirminnilega athöfn, en á yfirlitssýningu á verkum Tryggva í tilefni af því að safnið er komið til sögunnar að frumkvæði Magna Kristjánssoar, má sjá verk hans allt frá því hann var 14 ára fram á þennan dag.

Var ferðin á Norðfjörð og þátttakan í hátíðinni þar góður endir á viku, sem hófst á fundi menningarmálaráðherra frá 23 ríkjum, sem haldinn var í Luzern í Sviss um menningarlega fjölbreytni og nauðsyn þess að hlú að henni. Sótti ég fyrst fund undir þessum formerkjum í Ottawa sumarið 1998, en átti ekki heimangengt, þegar hann var haldinn í Mexíkó 1999 eða Grikklandi 2000. Það var Sheila Copps, menningarmálaráðherra Kanada, sem boðaði til fyrsta fundarins og er hún enn helsti drifkrafturinn á bak við þetta einstæða samstarf, sem veitir menningarmálaráðherrum óvenjulegt tækifæri til að skiptast á skoðunum og ræða málefni á verksviði sínu í alþjóðlegu samhengi. Meðal þátttakenda í fundinum að þessu sinni var menningarmálaráðherra Kólombíu. Seinni fundardaginn tilkynnti hún, að vegna alvarlegra atburða heima fyrir yrði hún að snúa þangað tafarlaust. Hafði forvera hennar verið rænt og nú um helgina bárust þær fréttir, að hin rænda kona hefði verið tekin af lífi. Daginn eftir að við fórum frá Sviss bárust þær sorglegu fréttir, að í bænum Zug í næsta nágrenni við Luzern hefði byssumaður gengið berserksgang í þinghúsi og drepið 15 manns, þar á meðal ráðherra og þingmenn. Grimmdin er í raun alls staðar á næsta leiti.

Í tengslum við þessa menningarmálaráðherrafundi hefur þróast samstarf forystumanna listamanna og sat Tinna Gunnlaugsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna, fund listamannanna í Luzern en fulltrúar þeirra komu síðan til ráðherrafundarins og greindu frá niðurstöðum sínum og svöruðu spurningum.

Hefur verið fróðlegt að fylgjast með því, hvernig nýr alþjóðlegur samstarfsvettvangur kemur til sögunnar. Er það mín skoðun, að hann eigi að halda áfram að þróast á þessum óformlegu forsendum en ekki eigi að stefna að því að til verði ný alþjóðasamtök, þvert á móti eigi að nota ávinning af þessu samstarfi til að styrkja UNESCO. Athygli ráðherranna og listamannanna beinist ekki síst að því, hvernig verður tekið á menningarþættinum í samskiptum þjóða á vettvangi WTO eða Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en eins og menn vita er vaxandi gagnrýni á hana úr ýmsum áttum, af því að á WTO er litið sem helsta tákn alþjóðavæðingarinnar, sem stefni að því að útrýma öllum sérkennum og steypa allt í sama mót, en ekkert er í meiri andstöðu við menningarlega fjölbreytni.

Málverkasafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað eykur hins vegar enn á hina menningarlegu fjölbreytni, sem er að vaxa á Austurlandi og á eftir að dafna enn frekar á grundvelli samningsins um menningarsamstarf, sem var gerður í sumar á milli menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna þar.