30.7.2001

Frjálslegar fréttaskýringar – enn um raunir R-listans –yfirlýsing Össurar

Viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Davíð Oddsson, sem birtist sl. laugardag í DV, hefur vakið verðskuldaða athygli. Eins og fyrri daginn fór Davíð ekki í launkofa með skoðanir sínar og dró fram atriði í umræðunum um umdeild verk stjórnmálamanna, sem vert er að hafa til hliðsjónar, þegar lagt er mat á hin dæmalausu mistök Árna Johnsens og kostað hafa hann þingmannsstarfið. Hefur ekki verið borið til baka, að Árni sé eini þingmaðurinn, sem sagt hefur af sér þingmennsku í tilefni af ámælisverðri framgöngu frá því að alþingi var endurreist árið 1843. Ég get ekki lesið það í viðtalinu við Davíð, að hann segi þar, að Albert Guðmundsson og Jón Sólnes hafi sagt af sér þingmennsku, eins og mátti skilja á einskonar fréttaskýringu í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins mánudaginn 30. júlí, þar sem fréttamaður lagði lykkju á leið sína til að taka það fram, hvorki Albert né Jón hefðu sagt af sér þingmennsku og var ekki unnt að skilja málflutninginn á annan veg en þann, að forsætisráðherra hefði þar með farið með rangt mál í viðtalinu við DV. Þar segir Davíð orðrétt: „Albert Guðmundsson, Jón Sólnes, Árni Johnsen, allir sjálfstæðismenn, öxluðu á hinn bóginn ábyrgð." Hvernig í ósköpunum geta þessi orð gefið tilefni til þess, að áheyrendum útvarpsfrétta sé sagt frá því, að það sé rangt, að þeir hafi sagt af sér þingmennsku? Hver skyldi hafa komið þessu að hjá fréttamanninum – skrifaði hann skýringu sína, án þess að lesa viðtalið við Davíð?

Ég sagði í einhverju sjónvarpsviðtali vegna máls Árna Johnsens, að stjórnmálamenn væru næsta berskjaldaðir, þegar mál af þessu tagi væru til umræðu í fjölmiðlum, því að svo virtist, sem sumir blaðamenn teldu sig þá geta boðið mönnum byrginn með öðrum hætti en við rólegri aðstæður. Hádegisfréttin vegna viðtalsins við Davíð Oddsson er dæmi af því tagi, þegar menn missa fótanna í áfergju sinni við að upplýsa mál á kostnað stjórnmálamanna.

Annað dæmi um þetta þennan sama mánudag var að finna í Innlendu fréttaljósi eftir Hörð Kristjánsson í DV. Allt er þar sett gagnrýnislaust undir sama hatt. Þegar blaðamenn hafa verið lengi að sýsla með sama mál, er hættan sú, að þeir sjái ekki neitt nema í ljósi þess og telji aldrei nóg að gert.

Í fréttaljósi Harðar Kristjánssonar segir orðrétt: "Óskar Valdimarsson, forstjóri Framkvæmdasýslunnar, hefur ítrekað vísað ábyrgðinni til baka á ráðuneytin. Björn Bjarnason menntamálaráðherra vísar svokölluðu Árnamáli aftur til baka á embættismenn, sem ekki eru sagðir standa sig í stykkinu. Þeir starfi ekki í samræmi v ið starfslýsingar sínar. Þannig veltast málin á milli borða í ráðuneytum og stofnunum. Ekki hvarflar að nokkrum manni í kerfinu að háttsettir embættismenn hvað þá ráðherra, þurfi að segja af sér vegna þessa máls né annarra slíkra mála."

Þetta segir blaðamaðurinn, þótt opinberlega hafi verið upplýst um alla þætti ábyrgðar í málinu og gögn liggi fyrir á prenti. Erindisbréf mín til bygginganefndarinnar hafa verið birt. Óskar Valdimarsson í Framkvæmdasýslu ríkisins ritaði bréf til fjármálaráðherra, þar sem hann lýsti þeirri aðferð, sem hann beitti í samstarfi sínu við Árna. Það bréf hefur verið birt í Morgunblaðinu. Ég hef staðfest opinberlega, að Óskar hafi leitað álits í menntamálaráðuneytinu á einstökum reikningum, ef hann var í vafa, og starfsmenn ráðuneytisins hafi gefið álit sitt, en ákvörðun um greiðslu hafi verið hjá Óskari. Ég hef ekki með nokkrum hætti kastað ábyrgð á því, sem gerst hefur á vettvangi ráðuneytisins á aðra, heldur lýst því eftir bestu vitund, hvernig mál hafa gengið fyrir sig, lofað samstarfi við rannsóknaaðila og sagt, að ég ætli hvorki að varpa sök á aðra eða dæma þá. Það sé annarra hlutverk.

Þegar menn verða fyrir barðinu á vinnubrögðum af því tagi, sem ég hef lýst hér með tveimur dæmum frá mánudeginum 30. júlí úr tveimur jafnólíkum miðlum og hádegisfréttum RÚV og DV, er eðlilegt, að ýmsar spurningar vakni um tilganginn.

Enn um R-lista raunir.

Það hefur orðið nokkurt hlé á því, að ég fjallaði um málefni R-listans og stjórn Reykjavíkurborgar en er þó af nógu að taka, því að æ betur kemur í ljós, hve illa er haldið að stjórn höfuðborgarinnar á öllum sviðum.

Eftirminnilegt var að hlusta á Bubba Morthens lýsa ástandinu í miðborg Reykjavíkur undir stjórn R-listans í Kastljósi föstudaginn 20. júlí. Mælti hann þar fyrir munn margra, sem eiga erfitt með að sætta sig við þá ömurlegu þróun, sem orðið hefur í hjarta Reykjavíkur undanfarin misseri. Einar Bragi rithöfundur skrifar grein í Morgunblaðið sunnudaginn 29. júli þar sem hann segir allar horfur á því, að stjórnendum Reykjavíkur ætli að takast að hrekja hina fáu íbúa miðborgarinnar frá heimilum sínum og breyta henni í alþjóðlegan hórukassa, sérkennilega súlubyggð með hreiður á hverjum stalli, svo kannski sé að verða tímabært að breyta virðulegu embættisheiti framkvæmdastjóra miðborgar til samræmis við það; súlumamma hljómi hlýlega. Tilefni greinar Einars Braga var að hvetja Reykvíkinga til að mótmæla áformum R-listans um að umturna nyrsta hluta Suðurgötunnar fyrir bílastæðahús.

Við eigum eftir að heyra meira um bílastæðahúsið eins og um ástandið í miðborginni, en borgarstjóri reyndi að sjálfsögðu að varpa ábyrgð vegna ástandsins á herðar ríkisins eins og jafnan, þegar hún glímir við einhvern vanda. Síðast átti ég orðastað við borgarstjóra opinberlega vegna uppbyggingar á reit Menntaskólans í Reykjavík (MR). Þar firrir borgarstjóri sig allri ábyrgð, síðast með skætingi um að ég viti ekki, hvað sé að gerast innan dyra í menntamálaráðuneytinu, og barnalegum röksemdum á borð við þær, að henni komi framtíð MR ekkert við, af því að fyrir dyrum standi einhvern tíma, að ríkið taki alfarið að sér að sjá um framhaldsskólana og hætt verði að skipta stofnkostnaði vegna þeirra á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta síðasta útspil er til marks um dæmalaust rökþrot og sýnir mér aðeins, að borgarstjóri vill ekkert með MR hafa, hvað sem í lögum stendur.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur beint athyglinni að þeirri staðreynd, að fjármagnskostnaður Reykjavíkurborgar vegna vaxta, verðbóta og gengismunar hafi numið 2,8 milljörðum árið 2000, hann hafi verið 850 milljónir króna, þegar R-listinn komst til valda, skuldirnar hafi hækkað um átta milljónir króna hvern valdadag R-listans og stefni í fjóra milljarði króna á þessu ári.

Til að átta sig betur á því, hvernig á fjármálum Reykvíkinga hefur verið haldið undir stjórn R-listans, þarf að upplýsa borgarbúa um hve skattaálögur á þá í borgarsjóð hafa þyngst mikið á sama tíma og skuldir borgarinnar hafa hækkað um átta milljónir á dag. Skatttekjur hafa hækkað um tugi prósenta í tíð R-listans. Loks er nauðsynlegt að spyrja: Hvað hefur verið gert við alla þessa fjármuni? Til hvaða hluta hafa þeir runnið? Eina jákvæða sem mér heyrist menn staldra við er heita baðið og búningshúsið í Nauthólsvík – Víkverji Morgunblaðsins birti að minnsta kosti á dögunum lof til R-listans vegna þeirrar framkvæmdar og sagðist meira að segja hafa orðið vitni að því, þegar Ingibjörg Sólrún kom á vettvang til að dást að sköpunarverkinu og virtist þykja það harla gott.

Yfirlýsing Össurar

Hinn 9. júlí birtist viðtal við Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, í DV. Þar er hann spurður um það, hvort Ingibjörg Sólrún verði í framboði fyrir Samfylkinguna í alþingiskosningum árið 2003, ári eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002. Össur svarar:

„Ég þarf allar hendur á dekk. Fái ég einhverju um það ráðið þá verður borgarstjóri í framboði fyrir Samfylkinguna í öðru kjördæminu í Reykjavík. Ingibjörg Sólrún er ákaflega öflugur stjórnmálamaður. Ég væri því ekki skynsamur formaður stjórnmálaflokks ef ég leitaði ekki eftir því við hana og aðra þá sem ég tel mjög öfluga að þau tækju upp sverð fyrir Samfylkinguna og berðust. En við höfum aldrei talað saman um þetta og það verður að ráðast af pólitískum aðstæðum."

Kolbrún spurði Davíð álits á því, hvort Ingibjörg Sólrún mundi leiða R-listann og fara svo til Samfylkingarinnar. Davíð svaraði:

„Ég tel það augljóst. Össur Skarphéðinsson hefur sagt að hún muni koma inn í Samfylkingarhópinn um næstu þingkosningar. Össur er svili Ingibjargar og í stjórn aðdáendaklúbbs hennar og ekki færi hann að skaða hana að gamni sínu. Þetta er fólk sem talar saman. Ef þessi orð eru ekki algjör heimska hjá Össuri, sem ég vil ekki ætla honum, þá er þetta meðvituð og úthugsuð tilkynning. Það merkilega er hins vegar að ef Ingibjörg hyrfi úr stóli borgarstjóra og spurt væri hverju hún hefði fengið áorkað í átta ár þá þyrftu menn að rannsaka það mjög nákvæmlega. Ekki man ég eftir neinu. Jú, það er að vísu rétt og sanngjarnt að gleyma ekki holræsakattinum og hrikalegri skuldasöfnun borgarinnar. Annað sé ég ekki, að hún muni skilja eftir sig."

Ég ætla ekki heldur að leggja aðra merkingu í orð Össurar Skarphéðinssonar frá 9. júlí en að honum sé fyllsta alvara og hann sé í einlægni að benda kjósendum á, að þeir geti bæði átt þess kost að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarfulltrúa og þingmann á næstu tveimur árum.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hvaða áhrif þessi sögulega yfirlýsing formanns Samfylkingarinnar hefur á samstarfsflokka hennar í Reykjavík, Vinstri/græna og Framsóknarflokkinn, sem ætla vafalaust að bjóða fram eigin lista í Reykjavík við þingkosningarnar 2003. Er það vísasti vegurinn til að styrkja ímynd þessara flokka í huga kjósenda í Reykjavík að fylkja sér að baki Ingibjörgu Sólrúnu sem borgarstjóra og berjast síðan gegn henni ári síðar í þingkosningum? Er það svo, að forystumenn Vinstri/grænna og Framsóknarflokksins í Reykjavík lúti í raun stjórn Samfylkingarinnar, þegar málefni höfuðborgarinnar eru annars vegar? Gefur Össur Skarphéðinsson yfirlýsingu um þingframboð Ingibjargar Sólrúnar árið 2003 í krafti þess?