26.7.2001

Fullyrðingamenn – sóðaleg tölvubréf – friðhelgi í netheimum.

Sunnudaginn 22. júlí var þáttur á Skjá 1, þar sem fjallað var um áttunda boðorðið: Þú skalt ekki stela, undir stjórn Egils Helgasonar. Fleiri en ég hafa orðið undrandi á því, sem þar var sagt, því að í Vef-Þjóðviljanum er sagt frá ýmsum ummælum í þættinum, til dæmis þeim orðum Sigríðar Þorgeirsdóttur, sem kennir heimspeki við Háskóla Íslands, að lögmál kapítalismans sé stuldur. Vekur ekki undrun, að því sé velt fyrir sér við hvaða rannsóknir þessi niðurstaða fræðimannsins styðst. Í mínum huga hefur hún álíka mikið fræðilegt gildi og sú niðurstaða Svans Kristjánssonar prófessors, að það sé sérkennilegt, að það séu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem sæta ámæli vegna meðferðar á opinberu fé.

Á meðan Sigurður A. Magnússon rithöfundur sat í sjónvarpssal hjá Agli ríkti einkennilegt andrúmsloft í umræðunum, því að hann var svo æstur og tafsaði svo mikið, þegar hann fékk orðið, að það var í raun erfitt að skilja, hvað hann var að segja. Heyrðist mér hann halda því fram, að það væri stuldur, þegar menn færu til útlanda í opinberum erindagjörðum og nytu umsaminna kjara vegna þess. Þessi málflutningur ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart, sem fylgist með því, sem Sigurður A. hefur almennt fram að færa um menn og málefni í ævisögu sinni eða blaðagreinum. Hann hélt því meðal annars fram í DV-grein á dögunum, að það væri til marks um spillingu mína, að ég hefði ekki skipað þriðja mann í byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Gaf hann til kynna, að með því væri verið að brjóta stjórnsýslulög. Fullyrðingamenn af þessu tagi eru vanir því að þurfa aldrei að standa við stóru orðin. Að hafa tvo menn í byggingarnefnd er að sjálfsögðu ekkert lögbrot. Hitt er jafnrangt hjá Sigurði A., að ég hafi leyft Árna Johnsen að fara sínu fram og nota almannafé purkunarlaust í eigin þágu, eins og hann orðar það í DV-grein mánudaginn 23. júlí.

Ég tek þetta dæmi af Sigurði A. Magnússyni til að benda á haldleysið í málflutningi þeirra, sem vilja draga þá ályktun af gjörðum Árna Johnsens, að allir stjórnmálamenn séu meira og minna spilltir og fleirum beri að víkja en Árna. Er forvitnilegt að kynnast þeim vinnubrögðum, sem er beitt til að komast að niðurstöðum í því skyni að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína. Fyrir utan þá Sigurð A. Magnússon og Jónas Kristjánsson, ritstjóra DV, hafa þeir Þórarinn Þórarinsson á Strik.is og Birgir Guðmundsson á DV lagt lykkju á leið sína til að gera hlut minn sem verstan í þessu máli. Læt ég þeirra þá ekki getið í þessu sambandi, sem kjósa að kannast ekki við skoðanir sínar heldur birta þær undir dulnefni í bréfadálki einhverra vefsíðna.

Netið gefur ný tækifæri til skoðanaskipta en gildi þeirra ræðst af því hugrekki, sem menn sýna, til að láta í ljós álit sitt á mönnum og málefnum, án þess að skýla sér á bakvið dulnefni. Ég hef það til dæmis fyrir reglu að svara ekki tölvubréfum, ef bréfritari segir ekki til nafns. Greinilegt er, að stundum stofna menn netfang á síðum, sem veita ókeypis tækifæri til þess, í þeim tilgangi einum að senda skammarbréf og vilja ekki, að unnt sé að rekja frá hverjum það kemur.

Sóðalegustu tölvubréfin, sem ég hef fengið síðustu daga, snerta ekki mál Árna Johnsens, heldur upphaf skólaársins í grunnskólanum, sem færist fram til 24. ágúst vegna nýs kjarasamnings grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaganna, sem leiddi til þeirrar breytingar á grunnskólalögunum, að níu mánaða skólaár er nú lágmark. Er greinilegt, að þetta fer fyrir brjóstið á sumum nemendum og fáeinir þeirra spöruðu ekki stóru orðin af því tilefni í stöðluðum tölvubréfum til mín á dögunum. Er ég undrandi á hinum svakalega orðaforða og þeirri trú, að hann sé best til þess fallinn að afla málstaðnum fylgis.

Friðhelgi í netheimum er sífellt meira til umræðu. Er stöðunni varðandi hana líkt við það núna og var á sjöunda áratugnum, þegar Rachel Carson vakti fólk til umhugsunar um náttúru- og umhverfisvernd með bók sinni, Raddir vorsins þagna, sem kom út árið 1962. Nokkrum árum síðar kom bókin út hjá Almenna bókafélaginu og man ég vel eftir því, hvað Tómas Guðmundsson skáld taldi hana merkilega og mikils virði að eiga hana á íslensku, en fáa menn hef ég hitt, sem voru jafnnæmir á samtíð sína og umhverfi og hann.

Á það er bent, að erfiðara sé að benda á hættuna af netinu fyrir friðhelgi einkalífisins en nauðsyn þess að vernda umverfið og enn hafi enginn fetað í fótspor Carsons og skrifað um friðhelgi mannsins með sama hætti og hún tók upp hanskann fyrir náttúruna.

Í The New York Times var vakið máls á því fyrir skömmu, að varðmenn friðhelgi einkalífsins séu í svipuðum sporum og umhverfissinnar fyrir nokkrum áratugum, þegar þeir kröfust þess, að lög yrðu sett um vernd náttúrunnar og umhverfismat.

Með tölvutækninni er auðvelt að safna upplýsingum, greina þær og dreifa þeim. Í Bandaríkjunum hefur rannsókn leitt í ljós, að unnt er að fylgjast nákvæmlega með netnotkun og tölvupósti 14 milljóna starfsmanna hjá fyrirtækjum, sem hafa búnað til slíks eftirlits. Stjórnendur þeirra segjast stunda eftirlitið til að fylgjast með framleiðni, hafa auga með því að ekki sé sendur tölvupóstur, sem hefur að geyma áreitni byggða á kynþætti eða kynferði, og koma í veg fyrir dreifingu á viðskiptaleyndarmálum. Talsmenn friðhelgi segja, að þessi rök mætti nota til að hefja hlerun símtala, en hún sé hins vegar bæði dýr og erfið. Unnt sé að kaupa hugbúnað til að fylgjast með tölvunotkun, sem kosti aðeins 5 til 10 dollara á ári á starfsmann.

Greininni í The New York Times um þetta lýkur á þeim orðum, að það geti verið upplýsandi að bera vernd umhverfisins og friðhelgi einkalífsins saman en ekki sé líklegt, að sama leið verði farin til að vernda einkalífið í netheimum og umhverfið. Líklegt sé að leitað verði leiða til að takmarka dreifingu á drasl-tölvupósti og til að semja reglur um það, hvernig netupplýsingum sé safnað og dreift, en á hinn bóginn sé hæpið að gengið verði fram með jafnalmennum hætti í lagasetningu og gert hefur verið í umhverfismálum. Viðfangsefnin séu ólík og við lifum á öðrum tímum núna en þegar sjónarmiðin á bakvið umhverfislöggjöfina voru að mótast.