24.6.2001

Skólameistari og lögverndun – tímabært viðtal um efnahagsmál.


Föstudaginn 22. júní skipaði ég tvo skólameistara, annars vegar Hörð Ó. Helgason til að taka við af Þóri Ólafssyni í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og hins vegar Ólínu Þorvarðardóttur til að taka við af Birni Teitssyni í Menntaskólanum á Ísafirði. Þótt ég sé ekki vanur að tíunda embættaveitingar hér á þessum síðum, geri ég undantekningu vegna þess að fjölmiðlar sýndu sérstakan áhuga á því, hvort Ólína yrði skipuð í starfi, en eftir að keppinautur hennar dró sig í hlé, var Ólína ein um hituna og hlaut einróma stuðning skólanefndar. Fjölmiðlaáhuginn byggðist líklega einkum á því, að var haldið fram, að Ólína hefði ekki starfsréttindi sem framhaldsskólakennari og þess vegna væri óheimilt að veita henni starfið.

Þegar Ólína sótti um skólameistarastarfið, hafði hún ekki leitað til matsnefndar framhaldskóla, sem metur umsóknir um útgáfu leyfisbréfa fyrir framhaldsskólakennara, en þeim er vísað til nefndarinnar samkvæmt 14. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Var því ekki við því að búast, að það lægi fyrir, hvort Ólína hefði réttindi framhaldsskólakennara eða ekki, þar sem hún þurfti af augljósum ástæðum að leita til nefndarinnar, þar sem hún hafði ekki lokið nauðsynlegu námi í uppeldis- og kennslufræði til að öðlast sjálfkrafa réttindin lögum samkvæmt.

Eftir að Ólína hafði sent nefndinni umsókn um útgáfu leyfisbréfs, mat nefndin menntun hennar og fyrri störf þar á meðal kennslureynslu í grunnskóla og háskóla, sem spannar sex ár, og komst að þeirri niðurstöðu, að Ólína uppfyllti skilyrði fyrir veitingu starfsréttinda sem framhaldsskólakennari með vísan til 11. gr. sbr. 5. tl., 1. mgr. 12. gr. laganna nr. 86/1998, en samkvæmt þessum tölulið má veita þeim leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari, sem lokið hefur námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi.

Fyrir skömmu komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að dr. Áskell Harðarson, sem hefur kennt stærðfræði með frábærum árangri meðal annars í Flensborgarskóla og nú Menntaksólanum í Reykjavík, skyldi fá starfsréttindi framhaldsskólakennara á grundvelli þessa lagaákvæðis. Í nefndinni sitja fulltrúar menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands og Kennarasambands Íslands og hefur hún verið einróma í þeirri afstöðu sinni, að veita doktorum með að minnsta kosti fimm ára kennslureynslu starfsréttindi framhaldsskólakennara.

Fimmtudaginn 21. júni flutti Vigfús Geirdal, sem er afleysingafréttaritari RÚV á Vestfjörðum, pistil í Sumarspegilinn, sem byggðist á þeirri skoðun hans, að Ólína Þorvarðardóttir hefði ekki starfsréttindi sem framhaldsskólakennari. Hafði ég rætt stuttlega við Vigfús í síma daginn áður og sagt, að ég mundi ekki tjá mig efnislega um starfsréttindi Ólínu Þorvarðardóttur, fyrr en ég hefði kynnt mér mál hennar og réttarstöðu til hlítar, en ég teldi, að það væri ekki unnt að álykta sem svo, að hún væri strafsréttindalaus í framhaldsskóla. Vigfús virtist sannfærður um að svo væri á grundvelli lögverndunarlaganna, sem hann sagðist hafa lesið orð fyrir orð, og þá spurði ég hann, hvort hann væri að ræða við mig sem lögfræðingur eða fréttamaður.

Í pistli sínum sagði Vigfús, að ég hefði spurt hann að þessu, af því að hann hefði sent ráðuneytinu spurningar en ekki fengið svör við þeim. Þau fékk Vigfús að vísu sama daginn og hann flutti pistil sinn, en hefur líklega verið búinn að lesa hann inn á band, þegar það gerðist, því að ekki gat hann svaranna í í orðum sínum. Þar ræddi Vigfús hins vegar um svonefnt ráherrabréf og gat sér þess til, að það yrði til að tryggja stöðu Ólínu. Í raun veit ég ekki, hvað Vigfús á við með slíku ráðherrabréfi, en líklega vísar hann þar til úrræða, sem ráðherrar höfðu samkvæmt eldri lögum. Vigfús segir í pistli sínum, að ég hafi ekki talið hann hæfan til dæma hæfisskilyrði Ólínu og er það rétt ályktun af orðum mínum, því að aðeins matsnefnd framhaldsskóla er lögum samkvæmt hæf til slíkra dóma. Hef ég virt niðurstöður þeirrar nefndar í störfum mínum og ekki gripið fram fyrir hendur hennar. Ef það er ráðherrabréf að fara að tillögum nefndarinnar, er að minnsta kosti ljóst, að ekki er um geðþóttaákvörðun ráðherra að ræða við útgáfu bréfsins.

Vigfús Geirdal ræddi í pistlinum almennt um gildi lögverndunarlaganna og sagði það mikla raun fyrir marga að þurfa að afla sér kennsluréttinda eftir að hafa lokið háskólanámi í einhverri fræðigrein. Lög og lærdómsgráður væru formsatriði og ekki væri öruggt, að doktorinn væri endilega menntaðri en sá, sem enga gráðuna hefði, og það væri ekki heldur tryggt, að sá sem fullnægði lagalegum skilyrðum væri hæfari en sá, sem gerði það ekki. Engu að síður væru þetta talin nauðsynleg formsatriði í lýðræðislegu nútímaþjóðfélagi. Hundruð manna hefðu þurft að leggja á sig kennsluréttindanám nauðugir viljugir. Fjölda manns með mikla menntun hefði verið neitað um starf vegna þess, að þeir uppfylltu ekki þessi skilyrði. Meðan lögin væru í gildi ættu hvorki ætt, pólitísk sambönd né tengsl inn í fjölmiðlaheiminn að geta réttlætt það, að einn aðili væri jafnari gagnvart lögum en aðrir, sama hversu vel hann eða hún væri gerð frá náttúrunnar hendi. Það væri svo önnur spurning hvort menn vildu breyta lögunum.

Ég hef í raun litlu við þessa skoðun Vigfúsar að bæta en þó er rétt að minnast þess, að í framhaldsskólum starfar nokkur hópur kennara, sem hefur ekki full réttindi, en þeir, sem hann skipa, fá ekki fastráðningu í skólunum. Varnaðarorðin um að hætta væri á því að farið yrði í kringum lögin vegna Ólínu Þorvarðardóttur voru óþörf. Hvað sem því líður tel ég nauðsynlegt að hefja endurskoðun á lögverndunarlögunum.

Tímabært viðtal.

Í Morgunblaðinu í dag birtist fróðlegt og tímabært viðtal tveggja aðstoðarritstjóra blaðsins við Davíð Oddsson forsætisráðherra, þar sem staðan í efnahagsmálum er brotin til mergjar. Margar mikilvægar upplýsingar koma fram um þróunina síðustu vikur, þegar gengi krónunnar hefur lækkað og ýtt undir verðbólgu. Hið sérkennilega við þessa stöðu alla er, að efnhagslegar forsendur þjóðarbúsins eru góðar og engin teikn á lofti um að á því verði breyting til hins verra. Af viðtalinu við Davíð má ráða, að spennan eigi rætur í ákvörðunum þeirra, sem sýsla með peningamál þjóðarinnar innan bankakerfisins. Þar séu menn að læra að beita nýjum stjórntækjum og hafi ekki enn að fullu vald á þeim. Notar Davíð líkingamál um ókyrrð í flugvél til að lýsa því, sem nú er að gerast í efnahagslífinu og telur hættuna síður en svo mikla, þótt flughræðsla sumra valdi ofsafengnum viðbrögðum. Varar hann við því, að menn grípi til pataðgerða.

Davíð áréttar þá breytingu, sem er orðin á stöðu Seðlabanka Íslands með sjálfstæði hans gagnvart ríkisstjórn við ákvarðanir í efnahagsmálum. Nú blasir einnig við, að áherslur eru ólíkar hjá bankanum og ríkisstjórninni, til dæmis varðandi vaxtastig og gildi skattalækkana. Þessi breyting á stjórn efnahagsmála kallar á annars konar umræður um þau á opinberum vettvangi.

Sjálfstæðisflokkurinn gekk til þingkosninga á síðasta áratug með það loforð í fyrirrúmi að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Ef stjórnmálamenn færa valdið til ákvarðana í þessum mikilvæga málaflokki til annarra, eins og hér hefur verið gert í vaxandi mæli, er besta leið þeirra til að tryggja stöðugleika að fara ekki sjálfir á taugum, þótt gefi á bátinn. Stjórn á hættutímum fer í handaskolum, ef stjórnendurnir þola ekki álagið sjálfir. Þetta viðhorf kemur hvað eftir annað fram í Morgunblaðsviðtalinu við Davíð Oddsson.

Hugleiðingar Davíðs um stöðu íslensku krónunnar og afstöðuna til evrunnar og Evrópusambandsins sýna, hve mikilvægt er að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðum, þegar tekist er á við skammtímavanda. Vafalaust er ekki unnt fyrir okkur Íslendinga að bera stöðu okkar í öllu tilliti saman við stöðu smáríkja í Evrópu eins og Luxemborg, Liechtenstein, Monakó og San Marínó, ríkin, sem keppt er við á smáþjóðaleikunum í íþróttum. Hin síðari ár hafa þessi ríki öll styrkt efnahag sinn með því að bjóða banka- og fjármálaþjónustu, sem dregur að sér fjársterk fyrirtæki og einstaklinga. Gera þau þetta með skattalögjöf sinni, ákvæðum um bankaleynd eða önnur starfsskilyrði, sem höfða til fjármálamanna. Búnaðarbankinn var á dögunum að stofna til rekstrar í Lúxemborg til að komast inn á þennan markað og fleiri íslensk fjármálafyrirtæki starfa á honum. Oftar en einu sinni hefur verið vakið máls á því, að Ísland ætti að láta að sér kveða á þessum markaði. Jón heitinn Sólnes, bankastjóri og alþingismaður, ræddi þetta oft á sínum tíma. Hér virðist það viðhorf eiga hljómgrunn, að í starfsemi af þessu tagi felist, að menn eða þjóðir séu með einum eða öðrum hætti að fara á svig við það, sem standist mestu gæðakröfur við meðferð fjármuna. Alþjóðastofnanir eins og OECD leggja höfuðkapp á einsleitni fjármálamarkaðarins um heim allan.

Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra vildi hann beina íslenskri fjármálastarfsemi inn á þessa braut. Það hefur þó ekki gerst, ef til vill vegna þess að okkur hefur skort þekkingu á þörfum og kröfum þessa markarðar. Þessi þekking ætti nú að hafa aukist og hlýtur hún fyrr en síðar að leiða til umræðna um þessa atvinnustarfsemi á nýjum forsendum. Ekkert af evrópsku smáríkjunum, sem ég nefndi, hefur eigin mynt eða tekur ákvarðanir um gengi hennar, efnahagsvandi er ekki til þar í sömu merkingu og við þekkjum, þegar krónan okkar fer að sveiflast. Stjórnendur þessara landa hafa hins vegar lært að nýta sér fjármálamarkaðinn löndunum í hag.

Í Morgunblaðsviðtalinu leggur Davíð mat á ákvarðanaferli og árafjölda, ef stefnan yrði tekin á aðild að Evrópusambandinu, sem sé forsenda þess, að taka hér upp evruna. Hann segir, að fyrst þurfi að breyta stjórnarskránni, sem gerðist varla fyrr en 2007, síðan samþykkja lög um aðildina, sem yrði ef til vill 2008 eða 2009, þá hæfust viðræður við ESB, sem tækju tvö ár, síðan yrði gengið til samninga og frá aðild yrði gengið 2011, en samkvæmt reglum ESB má ekki taka upp evruna fyrr en tveimur og hálfu ári síðar, þá væri komið árið 2013. Þessi ártöl sýna, að í þessu efni er ekki ástæða til neins óðagots, en á hinn bóginn er stöðugt þörf á umræðum um úrræði og leiðir að markmiðum, sem sett hafa verið.