28.4.2001

Forsætisráðherra í 10 ár – farsæl þróun stjórnmála - þekkingarþjóðfélag

Um þessa helgi er þess minnst, að mánudaginn 30. apríl eru tíu ár liðin, frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt og að hann hefur setið við stjórnvölinn í ríkisstjórnum síðan, fyrst í samstarfi við Alþýðuflokkinn sáluga til 23. apríl 1995 og síðan með Framsóknarflokknum, en samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er nú orðið lengsta samfellda stjórnarsamstarf íslenskrar stjórnmálasögu síðan viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat frá 1959 til 1971. Þeir, sem fylgdust með stjórnmálabaráttunni á þeim tíma, hefðu líklega fáir treyst sér til að spá því, að næsta langvinna samstarf á milli stjórnmálaflokka yrði milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Löngum var litið á þessa tvo flokka sem andstæða póla, sem kepptust um að vera stjórnarforystu og forystuafl í þjóðmálum. Valdaskipti í viðskiptalífinu voru til dæmis mjög skýr á milli flokkanna, á meðan Samband íslenskra samvinnufélaga naut sín best. Er það til marks um breytingar á þjóðfélagsmyndinni síðasta áratug 20. aldarinnar, hve samstarfið milli flokkanna hefur verið heilsteypt undir forystu Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar. Þau þáttaskil hafa einnig orðið á stjórnmálavettvangi, að aðrir andstöðuflokkar sjálfstæðismanna hafa skipt um herklæði eða horfið á vit sögunnar, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti, sem voru keppinautar Sjálfstæðisflokksins í kosningunum vorið 1991, eru ekki lengur við lýði, en í stað þeirra eru komin Samfylking og vinstri/grænir – en fylgismenn Kvennalistans hafa skipst á ýmsa flokka og er það sérkennilegast við örlög hans, að sú kona, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem Kvennalistinn lyfti til æðstu metorða, barðist einarðast fyrir því að Kvennalistinn hyrfi. Raunar sjást þess merki í Reykjavík með R-listanum, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins sjá sér það helst til bjargar gagnvart honum að leggja niður merki sín og hugsjónir en sækja fram með valdaþrána og sterkan leiðtoga ein að leiðarljósi.

Þessi þáttaskil í stjórnmálasögunni á þeim tíma, sem Davíð Oddsson hefur verið leiðtogi sjálfstæðismanna og forsætisráðherra, segir ef til vill mest um pólitískan styrkleika Sjálfstæðisflokksins á þessu tímabili. Hitt er einnig athyglisvert, að þeir forystumenn í andstöðuflokkum sjálfstæðismanna, sem helst bar á við lok níunda áratugarins og upphaf þess tíunda, eru allir á bak og burt, annað hvort fyrir aldurs sakir eða vegna þess að þeir hafa horfið frá stjórnmálavafstri til opinberra starfa án pólitískra áhrifa.

Á þessum árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið í gegnum þrennar þingkosningar og náð góðum árangri í þeim öllum. Flokkurinn hefur einnig traust ítök í sveitarstjórnum um land allt, eini skugginn í því efni er yfir Reykjavík, enda gætir þar stöðnunar samhliða því sem álögur á borgarana hafa hækkað.

Stjórnmálastefna Sjálfstæðisflokksins hefur sett sterkan svip á tíunda áratuginn. Á fyrstu misserum sínum í forsætisráðuneytinu gekk Davíð á hólm við sjóðasukkið og þann fylgifisk þess að halda illa stöddum eða reknum fyrirtækjum á floti með opinberum fjárstuðningi í einni eða annarri mynd. Einkavæðing og áhersla á sem mest svigrúm einstaklinga og fyrirtækja þeirra hefur sett svip sinn á viðhorfin til ríkisrekstrar. Samþykkt hafa verið ný lög sem treysta stöðu einstaklinga gagnvart hinu opinbera valdi. Staða Íslands í alþjóðlegu samstarfi eftir lyktir kalda stríðsins hefur verið treyst með áherslu á varnarsamstarfið við Bandaríkin, aðildina að NATO og aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Davíð hefur óhikað lagt sitt lóð á vogarskálina til að taka af allan vafa um utanríkismál og stefnuna í þeim. Fjármálum ríkissjóðs hefur verið snúið til betri vegar, án þess að þrengja um of að þeim þáttum ríkisrekstrar, sem er fjárfrekastur heilsugæslu og menntamálum. Á dögunum var Davíð í New York og tók á móti verðlaunum til ríkisstjórnarinnar fyrir góða framgöngu Íslands í umhverfismálum.

Þáttaskil hafa orðið í efnahagsmálum. Þegar Davíð varð forsætisráðherra hafði ríkt stöðnun og afturför um árabil en smátt og smátt tókst að snúa af þeirri braut, sem markaðist af því, að forveri Davíð sem forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, hreykti sér af því að taka ekki mið af vestrænum hagstjórnartækjum.

Síðan 1994 hefur að meðaltali verið 4,5% hagvöxtur á ári hér á landi, en það er meiri vöxtur en almennt í aðildarríkjum OECD á þessu tímabili. Á árunum frá 1991 hefur landsframleiðsa aukist samtals um 28% sem er með því mesta í OECD-ríkjunum, en meðaltalið innan þeirra var 24%, 20,7% á Norðurlöndunum og 18,3% í Evrópuríkjum OECD. Á árinu 1999 var landsframleiðsla á hvern Íslending 26.600 USD eða eins og í Sviss en hún var að meðatali 23.200 USD á Norðurlöndunum, 21.300 USD almennt í OECD-ríkjunum og 17.900 USD í Evrópuríkjum OECD.

Í norska ritinu Forskningspolitikk 1/2001 er grein um stöðu rannsókna í Noregi og þar segir meðal annars:

„Nýjustu athuganir á framlagi til rannsókna og þróunarstarfsemi á Norðurlöndum á tíunda áratug síðustu aldar sýna að á sama tíma og raunaukning útgjalda var tíu af hundraði á Íslandi, níu af hundraði í Finnlandi og sex af hundraði í bæði Danmörku og Svíþjóð var raunaukningin minni en þrír af hundraði í Noregi. Sambærilegar árlegar vaxtartölur á tímabilinu 1997-1999 voru tólf af hundraði í Finnlandi, tíu ag hundraði á Íslandi og sex af hundraði í bæði Danmörku og Svíþjóð en undir einu af hundraði í Noregi."

Þá segir einnig: „Hluti kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarfsemi miðað við verga þjóðarframleiðslu er meiri en þrír af hundraði í Svíþjóð og Finnlandi og meira en tveir af hundraði í Danmörku og á Íslandi en sambærileg tala í Noregi er ennþá einungis 1,7 af hundraði."

Þessar tölur segja mikla sögu um breytingar á íslensku þjóðfélagi undanfarin ár, það hefur með miklum hraða þróast í þekkingarsamfélag og þar hefur líftækni, hátækni og upplýsingatækni ráðið miklu. Talið er að Íslendingar verji nú 2,2% af vergri þjóðarframleiðslu til rannsókna og þróunar og séu í sjötta sæti meðal OECD-ríkjanna, en það er risastökk á þeim tíma, sem Davíð Oddsson hefur gegnt embætti forsætisráðherra. Í nýlegri alþjóðlegri könnun meðal forráðamanna fyrirtækja, sem byggjast á rannsóknum og þróun, skipa þeir Íslandi í sjötta sæti, þegar þeir eru beðnir að velja fyrirtæki sínu samastað.

Ég efast um, að við íslendingar höfum sjálfir gert okkur nægilega glögga grein fyrir þeirri breytingu, sem þessar tölur um fjárfestingu í rannsóknum og þróun segja um þróun efnahags- og atvinnulífsins og þær kröfur sem hún gerir til margra innviða þjóðfélagsins.

Sama er hvar borið er niður á öllum sviðum hafa orðið stórstígar framfarir á Íslandi síðustu 10 ár. Davíð og samstarfsmenn hans við landstjórnina á þessum árum geta litið stoltir yfir þann árangur, sem hefur náðst. Tekist hefur að styrkja stöðu íslensku þjóðarinnar inn á við og út á við. Miklu skiptir að ekki sé slakað á neinum kröfum, því að þessu verki lýkur aldrei. Enn hefur sannast að miklu ræður, hver heldur um stjórnvölinn á stjórnar- og þjóðarskútunni.