25.3.2001

Bush og utanríkismálin – varnarsamningur í 50 ár.

Þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því að George W. Bush tók við embætti forseta Bandaríkjanna, er víða fjallað um það, hver verði stefna hans í utanríkis- og öryggismálum samhliða því, sem menn leggja dóm á hlut forvera hans á þessu sviði. Nýjasta hefti tímaritsins Survival frá Alþjóðahermálastofnuninni í London, International Institute for Strategic Studies, IISS, fjallar að verulegu leyti um umskiptin í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Einn greinarhöfunda Robert Kagan segir, að sagnfræðingar eigi ekki eftir að hrósa Bill Clinton fyrir framgöngu hans í utanríkismálum, því að hann skilji eftir sig verri óleyst viðfangsefni en þau, sem hann fékk í arf frá forvera sínum, George Bush eldri. Billi Clinton hafi aðeins gengið vel á einu sviði utanríkismála, það er í samskiptunum við Evrópu. Hann hafi látið verulega að sér kveða við að fá stækkun NATO samþykkta á Bandaríkjaþingi en jafnframt notið þar góðrar aðstoðar áhrifamikilla repúblikana. Aðild þriggja fyrrverandi leppríkja Sovétríkjanna að NATO verði vafalaust helst talið Clinton til tekna við mat á framgöngu hans á alþjóðavettvangi. Honum hafi hins vegar mistekist að halda aftur af Kínverjum, að koma Saddam Hussein frá völdum, að viðhalda nægilegum herstyrk Bandaríkjanna og að hefja framkvæmdir við eldflaugavarnir í þágu Bandaríkjanna og helstu bandamanna þeirra.

Kagan segir, að í kosningabaráttu sinni hafi Bush heitið því að beita sér fyrir eldflaugavörnum, hann hafi lýst áætlun Clintons ófullnægjandi í þessu efni. Það verði ekki auðvelt fyrir Bush að ná þessu markmiði hvorki heima fyrir né í samvinnu við erlenda bandamenn sína. Clinton-stjórnin hafi haldið klaufalega á málinu gagnvart bandamönnum sínum í Evrópu. Þar sem Clinton hafi sjálfur verið á báðum áttum, hafi embættismenn hans skort sannfæringarkraft í viðræðum við Evrópumenn. Tilkynnt hafi verið um gagneldflaugaáætlunina, án þess að kynna hana fyrst fyrir evrópsku bandamönnunum auk þess sem hún hafi verið svo illa úr garði gerð, að hún veitti Bandaríkjunum einum vörn, að minnsta kosti á fyrsta stigi hennar, en ekki bandamönnum þeirra.


Undir lok greinar sinnar segir Kagan, að aðstoðarmenn George W. Bush líki húsbónda sínum oft við Ronald Reagan. Stundum sé þetta tilraun til að svara þeirri gagnrýni á Bush, að hann viti lítið um utanríkismál. Reagan hafi náð góðum árangri, þrátt fyrir þekkingarleysi sitt. Þá sé þessi samlíking einnig notuð til að árétta, að Bush stjórni á svipaðan hátt og Reagan. Hann muni treysta mjög á öfluga ráðherra og embættismenn við úrlausn einstakra verkefna en einbeita sér að því að leggja stóru línurnar og kynna þær fyrir almenningi.

Kagan telur hins vegar, að slík vinnubrögð hafi ekki gert Reagan að miklum forseta. Miklu nær séu að kenna þau við Dwight Eisenhower og árangur hans í forsetaembættinu. Það sem hafi gert Reagan að mikilvægasta og áhrifamesta leiðtoga Bandaríkjanna á síðustu 50 árum, hafi verið tvennt annað, sem hann átti sameiginlegt með Harry Truman. Hið fyrra hafi verið baráttuviljinn. Margir líti til fyrra stjórnartímabils Reagans með því hugarfari, að hann hafi náð árangri sínum í efnahags- og varnarmálum, af því að hann lá í spilunum, og forsetinn hafi ekki þurft annað en að brosa til að fá menn á sitt band. Reagan hafi hins vegar ekki fengið stuðning við stóraukin útgjöld til hermála, geimvarnaáætlunina, hernaðaraðstoð við El Salvador og kontrana í Nicaragua eða meðaldrægu kjarnaflaugarnar í Evrópu með því einu að brosa. Hann hafi orðið að berjast af mikilli hörku fyrir þessu öllu.

Í öðru lagi hafi Reagan eins og Truman gert sér glögga grein fyrir hagsmunum Bandaríkjanna og tilgangi á alþjóðavettvangi. Ef Bush ætli að feta í þessi fótspor Reagans verði hann að snúast gegn þeirri sjálfsánægju eða andvaraleysi, sem einkenni bæði demókrata og repúblikana í öryggismálum. Tal Bush fyrir kosningarnar um endurskoðun á skuldbindingum Bandaríkjamanna erlendis, og að þeir myndu líklega kalla herafla sinn heim frá Balkanskaga, væri til marks um þessi viðhorf, en eftir að Bush varð forseti, hafi hann slegið á þetta tal um endurskoðun.


Þeir, sem lesa grein Roberts Kagans, átta sig á því, að hann vill, að Bandaríkjamenn láti að sér kveða á alþjóðavettvangi með markvissari hætti en gert var undir stjórn Bills Clintons. Hér skal engu spáð um, hver framvindan verður, en álitamálin, sem Kagan nefnir eru öllum kunn. Frá því að Bush kom til valda, hefur ekki reynt sérstaklega á hann í þessum efnum fyrir utan viðbrögðin við uppljóstrunum um stórfelldar njósnir í rússneska sendiráðinu í Washington, sem leiddi til þess að tugir rússneskra sendiráðsmanna voru reknir úr landi. Verður ekki annað sagt en að þar hafi verið staðið rösklega að verki. Forseti Bandaríkjanna, hver sem hann er, sýnir það með fyrstu embættisverkum sínum á þessu sviði, hvaða tónn skuli einkenna stjórnartíð sína.

Varnarsamningur í 50 ár

Þess verður minnst í byrjun maí, að 50 ár eru liðin frá því, að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður. í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 16. mars sagði Michael T. Corgan, Fulbright-prófessor í alþjóðamálum, að þessi samningur hefði mikla sérstöðu fyrir Bandaríkin, því að hinir áhrifamiklu frumkvöðlar þeirra, George Washington og Thomas Jefferson, hefðu mælt gegn því, að Bandaríkjamenn blönduðu sér í málefni annarra þjóða með varnarsamningi. Corgan segir: „Evrópustórveldin voru alltaf að berjast og hvað áttu Bandaríkjamenn að vera að skipta sér af því? Samið var við Frakka 1778 til að fá hernaðartaðstoð þeirra í stríðinu við Breta en síðan ekki söguna meir fyrr en 1951 þegar samningurinn var gerður við Íslendinga. Hann var því tímamótaákvörðun ekki síður fyrir okkur en Íslendinga. Ekki einu sinni í heimsstyrjöldunum voru gerðir formlegir og skriflegir samningar við aðra bandamenn um varnir heldur stuðst við munnlegt samkomulag."

Varnarsamningurinn frá 1951 gildir, þar til annar hvor aðili hans riftir honum. Á síðasta áratug var hins vegar tekið til við að skiptast á orðsendingum um framkvæmd samningsins og rennur gildistími síðustu slíkrar orðsendingar út á þessu ári og er nú unnið að endurnýjun hennar.

Gildi aðstöðunnar hér fyrir Bandaríkjamenn felst í því, að hún skapar dýpt í varnir þeirra á Norður-Atlantshafi og tengingu við bandamennina í Evrópu. Fyrir okkur er augljóslega ómetanlegt að njóta varna öflugasta ríkis veraldar og verður ekki sagt, að þessi skipan hafi þrengt að okkur í utanríkismálum síðustu 50 ár, þvert á móti er auðvelt að rökstyðja, að svigrúm íslenskra stjórnvalda til hvers kyns ákvarðana um utanríkismál hafi verið meira en ella í skjóli varnarsamningsins.

Deilur um varnarsamninginn settu mikinn svip á íslensk stjórnmálalíf og tvisvar voru ríkisstjórnir myndaðar í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn ekki síst í þeim tilgangi að koma varnarliðinu úr landi, það er vinstri stjórninar 1956 og 1971. Í hvorugt skiptið náðu áformin fram að ganga. Árið 1978 var vinstri stjórnin mynduð, án þess að hún hefði brottför varnarliðsins á stefnuskrá sinni. Vinstri stjórnir Steingríms Hermannssonar 1988 til 1991 höfðu brortför varnarliðsins ekki heldur á á stefnu sinni.

Frá því um 1970 og þar til að Sovétríkin og öryggiskerfi þeirra hvarf úr sögunni fyrir 10 árum, tók ég virkan þátt í umræðum um varnar- og öryggismálin bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Á ég auðvelt með að staðfesta það, sem Kagan segir og ég vitnaði til hér að ofan, að það eitt dugði ekki fyrir Reagan að brosa til að ná hinum mikla árangri sínum á sviði öryggismála. Hart var tekist á um stefnu hans í Bandaríkjunum og Evrópu, þar sem svonefnd friðarhreyfing varð til á níunda áratugnum í andstöðu við meðaldrægu kjarnaflaugarnar og stefnu NATO. Er ég ekki í nokkrum vafa um að staðfesta Reagans og NATO á þessum áróðurs- og átakatímum, varð til þess að Sovétríkin og valdakerfi þeirra yfir ríkjunum í Austur-Evrópu hrundi til grunna.

Friðarhreyfingin varð aldrei jafnöflug hér á landi og víða annars staðar í Evrópu. Samtök herstöðvaandstæðinga hafa gert tilkall til viðurkenningar sem höfuðandstæðingur varnarliðsins, en þau hafa aldrei höfðað til stórs hóps manna og mótmælagöngurnar frá Keflavík urðu aldrei að neinni fjöldahreyfingu, helst var það í síðasta þorskastríðinu við Breta um miðjan áttunda áratuginn, sem herstöðvaandstæðingar náðu sér sæmilega á strik en þá þótti ýmsum utan raða þeirra vænlegt til árangurs að beina spjótum sínum gegn varnarliðinu.

Eftir að þáttaskilin miklu urðu í alþjóðamálum við hrun Sovétríkjanna, eru umræður um utanríkis- og varnarmál með allt öðrum blæ hér en áður. Hér hefur ekki heldur verið fjallað á jafngagnrýnan hátt um hlut þeirra, sem voru málsvarar sovéskra hagsmuna eins og víða annars staðar. Hef ég oft bent á það, að hér hafi ekki farið fram hið sama uppgjör við þessa pólitísku fortíð og kynnast má í öðrum löndum, þótt fræðimenn og fjölmiðlamenn hafi hin síðari ár birt okkur ýmsar nýjar upplýsingar, einkum um tengsl kommúnista hér við Sovétríkin. Til marks um það í hve furðulegan farveg umræður af þessum toga geta þróast, má benda á langar greinar eftir Halldór Jakobsson, málsvara góðra tengsla við Sovétríkin, í Morgunblaðinu, þar sem hann leitast við að gera alla tortryggilega, sem draga staðreyndir um íslensku sovéttengslin fram í dagsljósið.

Umræðum um utanríkis- og varnarmál lauk síður en svo með hruni Sovétríkjanna. Greinarnar í tilefni af stjórnarskiptunum í Bandaríkjunum minna okkur á það. Við Íslendingar þurfum ekki síður en aðrir að ræða þessi mál í stóru samhengi. Hér hefur athyglin einkum beinst að Evrópuþróuninni hin síðari ár og vissulega skiptir hún okkur miklu með vaxandi samstarfi á öllum sviðum eins og aðildin að virku Shengen-samstarfi frá og með deginum í dag sannar.

Afmæli varnarsamningsins við Bandaríkin og sérstaða hans bæði fyrir okkur og Bandaríkjamenn ætti að verða hvati til að ræða um utanríkis- og öryggismál okkar í víðara samhengi en aðeins með hliðsjón af Evrópuþróuninni. Við höfum frá því að Ísland varð lýðveldi ekki átt nánara samstarf við nokkra aðra þjóð en Bandaríkjamenn og reynsla okkur af því hefur eflt með þjóðinni sjálfstraust og sjálfsöryggi í samskiptum við allar þjóðir.