3.2.2001

Gróska í leiklist – spuni Sigurdórs

Gróskan í leiklistarlífinu er mikil og á einni viku hef ég átt þess kost að sjá tvö ný leikrit eftir íslenska höfunda; Já,hamingjan eftir Kristján Þórð Hrafnsson á Litla sviði Þjóðleikhússins og Sniglaveisluna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson hjá Leikfélagi Akureyrar í samvinnu við Leikfélag Íslands. Bæði verkin snúast um uppgjör milli tveggja persóna, en umgjörðin er ólík, að því leyti, að hjá Kristjáni Hrafni er áherslan öll á að halda athygli áhorfandans við textann og flutning hans, því að ekkert truflar augað í sviðsmyndinni, en Sniglaveislan fer fram í glæsilegri umgjörð og athygli áhorfandans er dregin að henni vegna áherslunnar á ríkidæmi Gils stórkaupmanns og hve mikla áherslu hann leggur á að njóta alls hins besta í mat og drykk, málverkum, húsbúnaði og fatnaði. Ég ætla ekki að setjast í stól gagnrýnandans en hvet til þess, að fólk sjái þessar sýningar, því að þær bregða ljósi á persónur, sem eiga fyrirmyndir í samtíð okkar, þótt sögurþráðurinn sé skáldskapur.

Nokkrar umræður hafa orðið um það, að opinberir aðilar eigi að leggja meira fé af mörkum til þeirra leikhópa, sem hafa verið að hasla sér völl á undanförnum árum. Styrkir úr ríkissjóði til sjálfstæðra leikhópa hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár, annars vegar á þeim lið fjárlaga, sem snýst um atvinnuleikhópa , og hins vegar með því að starfslaun listamanna í þágu leikara eru veitt á þann hátt, að unnt er nýta þau til að efla starf leikhópa. Nú vilja talsmenn þessara leikhópa og Bandalag íslenskra listamanna enn meira fé úr ríkissjóði og hafa kynnt stefnu sína í því efni.

Þegar um þessi mál er rætt, þarf að líta til margra þátta. Samningsbundinn stuðningur ríkisins við leikhópa á lögum samkvæmt að byggjast á þríhliða samvinnu ríkis, sveitarfélags og leikhóps. Þannig hefur verið um hnúta búið varðandi Akureyri og Hafnarfjörð. Á sínum tíma var ákveðin sú verkaskipting milli ríkis og Reykjavíkurborgar, að ríkið veitti Íslensku óperunni fé en borgin annaðist stuðning við Leikfélag Reykjavíkur. Nú banka leikhópar í Reykjavík á dyr borgaryfirvalda, einkum Leikfélag Íslands, Möguleikhúsið og Kaffileikhúsið. Af hálfu ríkisins hefur verið veitt fé til þessara leikhúsa en ekki á samningsbundnum forsendum og þær skapast ekki nema um þríhliða niðurstöðu verði að ræða og í því efni hafa það verið einstök sveitarélög, sem hafa komið fram gagnvart ríkinu með viðkomandi leikhópum.

Spuni Sigurdórs

Í Degi er haldið lífi í umræðum um, að lagt hafi verið á ráðin um brottför Jóns Baldvins Hannibalssonar sendiherra frá Washington og að ég muni taka við því starfi. Rétt er að taka fram, að þetta mál hefur aldrei verið rætt við mig af neinum, sem um það hafa skrifað, enda yrðu þessar vangaveltur ekki settar á blað eftir slíkt samtal, því að allt er þetta úr lausu lofti gripið.

Hinn góðkunni stjórnmálarýnandi Dags, Sigurdór Sigurdórsson, segir í grein í blaðinu 3. febrúar 2001: „Sjálfstæðismenn eru flestir þöglir sem gröfin þegar minnst er á hrókeringar. Þó eru þeir til sem segja að sögur gangi af því að Björn Bjarnason menntamálaráðherra vilji hætta í pólitík. Aðrir benda á að hann hafi lengi stefnt á formannssæti í flokknum þegar Davíð Oddsson hætti og það gæti orðið fyrr en ýmsan grunar."

Síðan segir Sigurdór, að ferðir mínar um landið, sem unnt er að fylgjast með í dagbók minni hér á heimasíðunni, séu að sögn „manna" til þess að kanna bakland mitt „til formennsku" og sé ég ekki fyllilega ánægður með niðurstöðuna af þessum rannsóknum. Þá hafi ég einnig stundað þær innan þingflokksins. Niðurstaðan hafi orðið sú, að ég sé tilbúinn að íhuga að hætta afskiptum af stjórnmálum og síðan segir „menn benda á að ekki sé búið að ráðstafa sendiherrasætinu í Washington, en Jón Baldvin er sagður á förum annað."

Við lestur frásagna af því, hvernig aðrir sjá hlutina, er oft auðvelt að komast að þeirri skoðun, að ekki sé til neinn veruleiki, heldur ólíkt mat á því, sem gerist. Ekki sé unnt að setja sig í spor annarra og líta á málin frá þeirra sjónarhóli. Hitt ætti þó að vera unnt fyrir hvern og einn að átta sig á eigin veruleika. Frá mínum sjónarhóli stend ég enn einu sinni frammi fyrir því, að Sigurdór Sigurdórsson segir eigin hugarburð en ekki það, sem sannara reynist. Það vekur mér ekki undrun, að sjálfstæðismenn séu þöglir um það, sem að ofan segir, því að ég hef hvorki á ferðum mínum um landið né innan þingflokks sjálfstæðismanna stundað þær rannsóknir, sem Sigurdór nefnir, þannig að blaðamaðurinn getur ekki fundið neinn til að staðfesta eigin hugarsmíð.

Vitneskja um, að Jón Baldvin sé að fara frá Washington, virðist kveikjan að þessum spuna, en ég skil ekki, hvers vegna ég er vafinn inn í hann, því að það er með öllu tilefnislaust af minni hálfu og hefði blaðamaðurinn getað fengið það staðfest með einu símtali eða spurningu í tölvupósti. Veit ég ekki til þess að Sigurdór hafi reynt að ná sambandi við mig vegna þessa máls frekar en endranær, þegar hann spinnur sögur sínar í óræðum tilgangi.

Fram að áramótum var látið að því liggja, að ég væri að hverfa til ritstjórastarfa á Morgunblaðinu. Eftir að í ljós kom, að allt það tal var úr lausu lofti gripið, er farið að bendla mig við sendiherrastarf í Washington. Spennandi verður að sjá, hvaða fregnir ég fæ af nýju starfi fyrir mig, þegar ákveðið hefur verið, hver tekur við af Jóni Baldvini. Ég ætti að spyrja þessa óumbeðnu erindreka, ef ég vissi, hvar þá er að finna: Hvers vegna vil ég ekki halda áfram, að takast á við spennandi verkefni í umboði kjósenda og Sjálfstæðisflokksins? Sigurdór eða „menn" hans vita það kannski?