29.1.2001

Takmarkað málfrelsi?

Enn sannast, að menn bregðast misjafnlega við því, sem á vefsíðu minni
birtist. Til dæmis vakti afmælispistill hennar, sem birtist hinn 13. janúar
síðastliðinn, reiði hjá Sigurði G. Guðjónssyni, lögfræðingi Íslenska
útvarpsfélagsins, sem ritaði heilsíðu-andmælagrein í tilefni af honum í Dag
og endurtók síðan gagnrýni sína í þættinum Silfur Egils sunnudaginn 28.
janúar. Telur Sigurður mig óhæfan til að gegna embætti menntamálaráðherra
gagnvart Stöð 2, af því að hann er ósammála því, sem ég sagði um Jón
Ólafsson, helsta eiganda Íslenska útvarpsfélagsins. Er þetta sérkennileg
afstaða hjá lögmanninum og ekki á neinum rökum reist

Fyrsta lagafrumvarpið, sem ég vann að og flutti, eftir að ég varð
menntamálaráðherra 23. apríl 1995, var um mikilvæga hagsmuni Stöðvar 2, því
að það snerist um varnir stöðvarinnar gegn myndlyklaþjófnaði, það er bann
við gerð og notkun myndlykla til þess að fá aðgang að læstum
útvarpssendingum án greiðslu áskriftargjalda. Minnist ég þess vel, hve
mikið Jafet S. Ólafsson, þáverandi forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins,
taldi í húfi fyrir félagið og hve mikils virði væri fyrir það, að öryggi
myndlykla þess yrði tryggt gagnvart þjófnaði. Sendi hann mér bréf um þetta
efni dagsett 27. apríl 1995. Boðað var til vorþings og við upphaf þess
lagði ég fram frumvarp um þetta efni, sem var samþykkt 14. júní 1995. Síðan
hafa ekki borist fréttir af vandræðum stöðvarinnar af þessum sökum. Ég
minnist einnig heimsóknar til Íslenska útvarpsfélagsins. Þá var mér kynnt
starfsemi félagsins og framtíðaráform. Þar hitti ég meðal annars Jón
Ólafsson, sem er í forystu eigenda þess. Þegar frumvarp til útvarpslaga var í undirbúningi í menntamálaráðuneytinu, komu fulltrúar
Stöðvar 2 til fundar við mig og lýstu viðhorfum sínum. Er mér ekki kunnugt
um, að þeir hafi talið frumvarpið öndvert hagsmunum sínum, helstu áhyggjur
þeirra lutu að ákvæðum, sem fela menntamálaráðherra að hafa frumkvæði
varðandi stafrænar útvarpssendingar, en þar er um kostnaðarsama framkvæmd
að ræða. Lýsti ég yfir því við afgreiðslu frumvarpsins á alþingi, að við
ákvarðanir í þessu efni yrði að sjálfsögðu haft samráð við þá, sem stunda
útvarpsstarfsemi í landinu. Þá er í nýsamþykktum útvarpslögum kveðið á um
það, að allar útvarpsstöðvar, þar á meðal RÚV, lúti samskonar eftirliti
stjórnvalda varðandi tilhögun auglýsinga. Er með því farið að niðurstöðu
samkeppnisráðs í máli, sem Sigurður G. Guðjónsson lagði fyrir ráðið fyrir
hönd Stöðvar 2.

Í vefsíðupistli mínum vakti ég máls á því, að Jón Ólafsson væri sá í hópi
fjölmiðlaeigenda um þessar mundir, sem helst léti að sér kveða á gráu svæði
milli fjölmiðla og stjórnmála. Taldi ég, að Skjáreinn gæti reynst Stöð 2
hættulegur en benti jafnframt á, að Stöð 2 kynni að hefja píslargöngu
vinstrisinnaðra dagblaða yrði andrúmsloftið í kringum hana hið sama og
þeirra vegna framgöngu eigenda hennar og málsvara andstæðinga
Sjálfstæðisflokksins.

Sérhver lesandi síðu minnar sér, að þar er að finna varnaðarorð um það, sem
kynni að gerast, ef andrúmsloftið í kringum Stöð 2 þróaðist á þann veg, sem
ég lýsi. Af þessum almennu hugleiðingum kýs Sigurður hins vegar að draga þá
dramatísku ályktun, að ég sé að stofna atvinnu mörg hundruð starfsmanna
Stöðvar 2 í hættu.

Ég vék ekki orði að starfsmönnum Stöðvar 2, fréttastefnu hennar eða dagskrá
heldur að framgöngu eins helsta eigandans og hefði þess vegna einnig mátt
geta lögfræðings Íslenska útvarpsfélagsins.

Sigurður G. Guðjónsson telur, að ég verði að hætta að sinna embættisverkum
sem menntamálaráðherra, af því að hann er ósammála mér. Þetta segir
hæstaréttarlögmaður, sem að vísu fékk nýlega dóm hæstaréttar, tveggja
dómara af þremur, um, að hann gæti vegið að áberandi mönnum á pólitískum
vettvangi, án þess að færa sönnur á fullyrðingar sínar. Málsvörn Sigurðar
byggðist hins vegar á því, að málfrelsi bæri að virða. Nú krefst Sigurður
þess, að stjórnmálamenn víki sæti fyrir að segja skoðun sína, felli hann
sig ekki við hana.

Í vefsíðupistlinum, sem Sigurður fordæmir, minnti ég á það, að á síðustu
sex árum hefðu ýmsir stjórnmálaandstæðingar mínir lýst þeirri skoðun, að
það væri ekki við hæfi, að ráðherra léti skoðanir sínar í ljós með þessum
hætti. Taldi ég, að menn væru hættir að agnúast út í síðuna á þessum
forsendum. Hvað sem því líður er lögmaður Íslenska útvarpsfélagsins hinn
fyrsti, sem krefst þess, að ég víki sæti vegna þess að skjólstæðingi hans
er lýst annan veg en honum þykir við hæfi á vefsíðunni. Ef mér hefði dottið
í hug, að slík krafa kæmi fram, hefði mig aldrei grunað, að hún yrði flutt
af lögmanni fjölmiðils, lögmanni, sem hefur þar að auki barist hart fyrir
málfrelsi fyrir dómstólum landsins.