7.1.2001

Tómasar minnst – Karluk-leiðangurinn – samningar á lokastigi.

Hinn 6. janúar var þess minnst að verðleikum, að Tómas Guðmundsson skáld hefði orðið 100 ár, væri hann enn á lífi. Um skáld eins og Tómas má raunar segja, að þau deyja aldrei, því að skáldskapur þeirra lifir með þeim, sem á eftir koma. Ég kynntist Tómasi fyrir um það bil þrjátíu árum og lágu leiðir okkar oft saman, á meðan hann lifði. Er ógleymanlegt að hafa setið með honum í skrifstofu Almenna bókafélagsins og rætt handrit og hlustað athugasemdir hans um menn og málefni, málfar og meðferð tungunnar. Hann nálgaðist hvert viðfangsefni af mikilli nærfærni og umhyggju en lauk aldrei máli sínu á þann veg, að maður vissi ekki. hver skoðun hans væri. Mér er sérstaklega minnisstætt, hve ég varð undrandi, þegar hann sagði einu sinni, að honum væri ekkert sérstakt kappsmál, að ljóð sín hlytu meiri útbreiðslu og vinsældir en ella vegna þess að við þau væru samin lög, sem allir lærðu. Var honum greinilega í huga, að textinn kynni að verða útjaskaður af of mikilli notkun og kjarni ljóðsins gæti glatast. Stangast þetta á við þær hugmyndir, að æðsta takmark allra hljóti að vera að sköpunarverk þeirra sé sem oftast í fjölmiðlunum.

Karluk leiðangurinn

Gísli Pálsson, prófessor við Háskóla Íslands í mannfræði, segir frá nýrri bók um Karluk-leiðangur Vilhjálms Stefánssonar í Morgunblaðinu sunnudaginn 7. janúar. Bókin heitir The Ice Master: the Doomed 1913 Voyage of the Karluk and the Miraculous Rescue of her Survivors og er Jennifer Niven höfundur hennar. Unnt er að fræðast um bókina með því að heimsækja Amazon.com. Í grein sinni kemst Gísli þannig að orði:

„Ekki er að efa að áhöfn Karluk hafi haft veigamiklar ástæður til að gagnrýna forystu Vilhjálms. Hann var ákveðinn í að ná markmiðum sínum með öllum tiltækum ráðum, og efalaust var hann að einhverju leyti hrokafullur og eigingjarn. Þeir eiginleikar voru samt sem áður aðalsmerki alvöru-heimskautafara – og ef til vill skilyrði þess að komast lífs af. Og metingur milli áhafnar og einstakra keppinauta var oft mjög vægðarlaus. Vitaskuld ber Vilhjálmur Stefánsson mikla ábyrgð á Karluk-slysinu; þetta var leiðangur hans og hann var við stjórnvölinn. Það merkir þó ekki að sú atburðarás sem leiddi til harmleiksins hafi verið handverk hans. Eitt er að endursegja á heiðarlegan hátt ásakanir fórnarlambanna um vanrækslu en allt annað mál að gera þær að sögulegum staðreeyndum."

Ég hef ekki lesið þessa bók, en eftir að ég sá grein Gísla skoðaði ég umsagnir um hana á Amazon.com og í sumum þeirra eru Vilhjálmi Stefánssyni ekki vandaðar kveðjurnar. Í hinum tilvitnuðu orðum leitast Gísli við að rétta hlut Vilhjálms og undir lok greinar sinnar gefur Gísli til kynna, að kannski eigi að skoða það, sem Niven segir í bók sinni á þeirri forsendu, að Vilhjálmur var sakaður um að vera hallur undir kommúnista í kalda stríðinu.

Grein Gísla rifjaði upp fyrir mér, að á síðasta ári rakst ég fyrir tilviljun á bók, sem heitir Leading at the Edge: Leadership Lessons from the Limits of Human Endurance, the Extraordinary Saga of Shackleton’s Antarctic Expedition eftir Dennis N. T. Perkins og fleiri. Er einnig unnt að lesa um þessa bók á Amazon.com, en eins og hinn langi titill hennar ber með sér er hin sögulega tilraun heimskautafarans Shackletons til að komast á Suðurpólinn notuð til leiðsagnar um það, hvernig veita skuli forystu, bókin er með öðrum orðum kennslubók fyrir þá, sem vilja ná góðum árangri sem leiðtogar. Þegar ég fletti bókinni staldraði ég strax við það, að í formála og eftirmála nefna höfundur hennar Karluk-leiðangurinn og Vilhjálm Stefánsson sem algjöra andstæðu við það, sem gerðist hjá Shackleton. Vilji menn kynnast því, hvernig ekki eigi að leiða aðra, skuli þeir skoða Karluk-leiðangurinn og örlög hans.

Það dugar Vilhjálmi Stefánssyni ekki til málsbóta, að allir alvöru-heimskautafarar hafi verið hrokafullir og eigingjarnir. Þeir, sem lesa um leiðtogahæfileika Shackletons, fallast ekki á þá skýringu. Hitt sýnist einnig næsta langsótt, að lýsingar manna á Karluk-leiðangrinum mótist af því, sem gerðist í kalda stríðinu, einkum þegar þessar lýsingar byggjast á dagbókum þeirra, sem voru með Vilhjálmi á Karluk löngu fyrir daga kalda stríðsins.

Þetta er ekki nefnt hér til að gera lítið úr minningu Vilhjálms Stefánssonar heldur til að vekja athygli á umræðum, sem fara fram um ágæti hans sem leiðtoga við erfiðar aðstæður. Þessar umræður eiga erindi við okkur Íslendinga, því að nafn Vilhjálms Stefánssonar og rannsóknir hans á norðurslóðum tengist sjálfsmynd okkar, þegar við skilgreinum hana í alþjóðlegu samhengi.

Samningar á lokastigi.

Þegar þetta er skrifað berast þær fréttir frá ríkissáttasemjara, að hann muni halda áfram fundi með samningamönnum í kjaradeilu ríkisins og framhaldsskólakennara, þar til niðurstaða fæst. Gefur hann jafnframt til kynna, að skólar kunni að hefja starf að nýju í fyrramálið, mánudaginn 8. janúar, miðað við þann gang, sem verið hefur í viðræðunum.

Verkfallið hófst 7. nóvember og líklega bjóst enginn við því þá, að ekki yrði unnt að ná sáttum fyrr en 7. janúar. Eftir hina mörgu fundi, sem efnt hefur verið til undir handleiðslu ríkissáttasemjara, geta varla verið margir steinar í starfi skólanna, sem ekki hefur verið velt.

Fyrr en samkomulag hefur verið gert og það kynnt er ekki unnt að fjalla efnislega um það.