28.11.2000

Mikil viðbrögð - vefsíðan styrkist í sessi

Það hafa orðið mikil viðbrögð við því, sem ég ritaði hér á síðuna um framhaldsskólaverkfallið og setti inn á netið síðatliðinn laugardag. Sannar þetta mér enn gildi þess að halda úti síðunni og hafa tækifæri til að láta skoðun mína milliliðalaust í ljós við þá, sem heimsækja hana. Töluverður fjöldi fólks er einnig á póstlista mínum og er auðvelt að skrá sig á hann eða skrá sig af honum hér á síðunni. Vil ég þakka öllum, sem nýta sér síðuna til að kynnast viðhorfum mínum og hvet eindregið til þess, að menn geri það en láti ekki aðra túlka það fyrir sig, sem hér er sagt. Til dæmis þótti mér þess gæta í útvarpsfréttum síðastliðinn sunnudag, að ummæli mín væru slitin í sundur. Raunar voru fréttamenn á eftir mér allan sunnudaginn, til að ég segði meira við þá en birtist hér á síðunni, en ég ákvað að verða ekki við neinum slíkum óskum.

Kjarninn í mínu máli var sá, að menntamálaráðherra gæti að sjálfsögðu ekki snúist gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnar, þar sem hann sæti. Hann gæti því ekki gerst málsvari sjónarmiða, sem brytu gegn þessari stefnu en krafa um rúmlega 70% kauphækkun, hvort heldur hjá kennurum eða öðrum, er langt út fyrir ramma efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar. Ég sagði einnig, að enginn stjórnmálaflokkur stæði á bakvið þá, sem héldu fram slíkum kröfum. Í umræðum um pistil minn staðfestu bæði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, réttmæti þessara orða, því að hvorugur hefur treyst sér til að taka undir þessar kröfur.

Í texta mínum er ekki vikið vanvirðandi orði að nokkrum manni. Þeir, sem fyllast hneykslan vegna framgöngu minnar, eru hins vegar ekki að skafa utan af því í lýsingum sínum. Steingrímur J. Sigfússon líkir mér í þingræðu við brennuvarg í gervi slökkviliðsmanns og Össur Skarphéðinsson segir, að ég sé eins og fíll í postulínsbúð, Elna Katrín Jónsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir mig vera að vinna skemmdarverk, en slíkir eru skemmdarverkamenn. Mér er sem sagt líkt við upphlaupsmann af verstu gerð. Ef ég hefði notað líkingar af svipuðum toga um eitthvern af þessum forystumönnum, væri kannski skiljanlegt, að þeir hefðu stokkið upp á nef sér. Mér datt það að sjálfsögðu ekki í hug, þegar ég var að fjalla um þetta alvarlega úrlausnarefni, sem snertir tugi þúsunda manna og framtíð skólastarfs í landinu.

Í dag voru síðan umræður um málið utan dagskrár á alþingi, þar sem ég svaraði spurningum Steingríms J. Sigfússonar um stöðu skólahalds í ljósi þess, að verkfallið hefur staðið í 3 vikur. Lýsti ég viðhorfum mínum en ákvað að taka ekki þátt í skítkastinu, sem Steingrímur hóf í ræðu sinni og Össur stundaði með honum. Aðrir þingmenn voru málefnalegri, þótt ekkert nýtt kæmi fram, meðal annars endurtók Svanfríður Jónasdóttir enn einu sinni sömu gömlu rulluna sína um að allt íslenska skólakerfið væri í molum.

Þessi viðbrögð, sem hér er lýst, eru þó aðeins þau, sem ljósvakamiðlarnir hafa hent á loft, því að þeir hafa ekki haft aðgang að þeim viðbrögðum, sem ég hef fengið frá þeim, sem nota tölvupóst til samskipta við mig. Mörgum bréfriturum þykir greinilega nóg um stóryrðin, sem falla vegna þess sem ég sagði á síðunni minni. Botna raunar ekki í því, hvað andmælendurnir eru að fara.

Ég ætla að leyfa mér að birta eitt bréfanna, sem mér barst að kvöldi þriðjudagsins 28. nóvember eftir að útvarpið og sjónvörpin höfðu sagt frá umræðunum utan dagskrár á alþingi:

Komdu sæll Björn.
Þú færð sennilega ansi mörg bréf þessa dagana, vegna verkfalls kennara.Ég er nemi í ........... og mig langar að forvitnast um það hvernig önninni verður lokið og þá hvaða leiðir eru færar til þess, miðað við ef verkfallið leysist, er einhver hætta á því að þessi önn verði dæmd ónýt svo að ég verði að vera lengur í skólanum en til áramóta til að útskrifast með þau réttindi sem ég átti að klára á önninni. En að öðru, þá get ég ekki annað en hælt ykkur í ríkisstjórninni fyrir þá hörku sem þið hafið sýnt af ykkur í þessari kjarabaráttu kennara, vegna þess að mér finnast kröfur kennara algjörlega út úr kortinu miðað þá samninga sem hafa verið gerðir við aðra launþega, og það miðað við það sem kemur á eftir ef kennarar ná fram þessum kröfum sínum.
baráttu kveðjur.

Ég sendi þessum bréfritara ræðuna mína á þingi í tölvupósti, því að meira get ég ekki sagt um stöðu skólahaldsins á þessu stigi.

Viðbrögðin við orðum mínum sýna, hve skammt er öfgana á milli í opinberum málflutningi þeirra, sem ekki hafa neitt til mála að leggja. Stjórnarandstaðan hampar þessu máli í von um að geta komið höggi á mig í dag og einhvern annan á morgun. Hún er jafnráðþrota og aðrir gagnvart óaðgengilegum kröfum. Fyrir helgi var ég atyrtur fyrir að láta ekkert í mér heyra um þessa alvarlegu deilu og þá var látið í veðri vaka, að ekki væri unnt að leysa hana vegna þess að menntamálaráðherra tæki ekki málstað kennara og gerði hann að sínum. Þegar ég skýri, hvers vegna það er óhugsandi, á meðan málstaðurinn brýtur í bága við stefnu ríkisstjórnarinnar, er sagt, að ég megi ekki hafa þá skoðun að fylgja stefnu eigin stjórnar, það sé skemmdarverk og síst til þess fallið að greiða fyrir lausn mála.

Ég vona, að það verði ekki lagt út á hinn versta veg, að ég taki saman þessa stuttu lýsingu á viðbrögðum annarra við eigin skrifum. Varla verður það ekki túlkað sem áreiti í garð neinna og spilli fyrir samningum?

Miðað við fyrri gauragang vegna þess, sem ég hef skrifað hér á síðuna, hefur orðið sú breyting til batnaðar, að enginn býsnast lengur yfir því, að ráðherra noti þennan miðil til að lýsa sjónarmiðum sínum. Ekki er langur tími liðinn frá því að andstæðingarnir töldu það nánast hámark ósvífninnar að leyfa sér að halda sjálfur úti slíkum miðli sitjandi á ráðherrastóli og snerust þingræður þá gjarnan um það frekar en efni málsins, nú eru persónulegu svívirðingarnar af öðrum toga, ef skoðun, sem ekki fellur í kramið, er látin í ljós á síðunni.