28.10.2000

Verslunarskóli – hraðbraut – iðnnemar.

Síðastliðinn fimmtudag, 26. október, fór ég snemma morguns í Verslunarskóla Íslands og tók þátt í tíma með nemendum í stjórnmálafræði, sem ræddu við mig helstu áhugamál sín í tæpar 40 mínútur auk þess sem ég sagði þeim ýmislegt um sjálfan mig og viðhorf mitt til manna og málefna. Hvað sem líður heimsókn minni, held ég, að það hljóti að verða þessum nemendum eftirminnilegt og til nokkurs gagns að fá til sín stjórnmálamenn eða aðra, sem eru láta að sér kveða á ýmsum sviðum þjóðlífsins til að ræða við sig um landsins gagn og nauðsynjar. Eitt er víst, að ég hef alltaf gaman af því að fá tækifæri til að skiptast á skoðunum við nemendur á þessum forsendum. Með því að fara inn í skólastofuna er gengið inn á þeirra yfirráðasvæði og umræðurnar bera þess merki. Spurt er öðru vísi en á öðrum vettvangi og einnig gerð önnur krafa um svör.

Þegar ég lít til baka á námskeiðið, sem ég sótti í Harvard síðastliðið vor, er það ekki síst minningin um að hafa heyrt menn, sem sneru sér að kennslustörfum eftir langa og ólíka reynslu annars staðar, miðla af þekkingu sinni, sem gefur náminu þar gildi. Ég veit ekki, hvað mikið er gert af því í skólum hér á landi að kalla á menn utan þeirra inn í kennslustundir. Hitt er ekki síður mikils virði, að þeir, sem lokið hafa árangursríku starfi, séu fengnir til að miðla af þekkingu sinni og reynslu til hinna, sem yngri eru. Er ég viss um, að margir myndu fagna slíku tækifæri og telja það mikils virði fyrir sig í mörgu tilliti og ánægjan fælist ekki síst í því að kynnast sjónarmiðum unga fólksins.

Yfirvofandi verkfall framhaldsskólakennara var ofarlega í hugum nemenda eins og gefur að skilja, enda hafa margir þeirra sett sér skýr markmið og finnst erfitt að verða leiksoppar í átökum af þessu tagi. Vandinn við að finna lausn felst meðal annars í því, að árið 1997 ákváðu kennarar að halda sig við annað launakerfi en aðrir starfsmenn ríkisins samþykktu. Hafi verið bil á milli launakerfis kennara og annarra ríkisstarfsmanna áður breikkaði það í samningunum 1997. Þessi gjá milli ólíkra kerfa hefur meðal annars í för með sér, að samanburður milli þeirra er óraunhæfur. Krafa um 65% launahækkun er þess eðlis, að allir hljóta að sjá, að við henni er ekki unnt að verða. Vandinn er að finna meðalhófið, sem leiðir til sátta, en það er markmið þeirra viðræðna, sem nú fara fram eins og allra kjaraviðræðna.

Í Verslunarskólanum ræddum við um Evrópumálefni, varnir Íslands og útgjöld til menntamála. Einn nemenda, sem sagðist hafa verið á þingi ungra jafnaðarmanna helgina á undan vitnaði í tölur, sem hann hafði fundið á menntavef Evrópusambandsins, en hann taldi þær sýna, að í alþjóðlegum samanburði stæðum við okkur verr en allar aðrar þjóðir í Evrópu en Luxembourg og Liechtenstein, sem ekki hafa neina háskóla, þótt þær séu ríkastar allra Evrópuþjóða og í Luxembourg búi fleiri en hér á landi. Mér þótti fróðlegt að heyra samanburð við þessar tvær þjóðir, því að hann skýrir ýmislegt, sem er sérstakt fyrir okkur í menntamálum.

Í fyrsta lagi, að við leggjum áherslu á, að hér sé unnt að stunda háskólanám og rannsóknir og þróun. Í öðru lagi hefur okkur tekist að sinna þessum málum á þann veg, að árangur okkar mælist góður á alla almenna alþjóðlega mælikvarða, þegar litið er til margra fræðasviða. Í þriðja lagi erum við í svipuðum sporum og þjóðirnar í Luxembourg og Liechtenstein, að stór hluti námsmanna okkar stundar háskólanám í öðrum löndum, stærri hluti en almennt gerist hjá fjölmennari þjóðum, sem þýðir, að útgjöld til menntamála innan lands segja alls ekki alla söguna um það, sem er að gerast í menntamálum þjóðarinnar. Þótt ekkert sé greitt til háskóla í Luxembourg og Liechtenstein jafngildir það ekki því, að þjóðirnar í löndunum séu ómenntaðar.

Ég sagði við nemendur, að þessar talnarunur samfylkingarsinna eða jafnaðarmanna um útgjöld hér til menntamála í samanburði við það, sem gerist í öðrum löndum, minntu mig helst á rigningarsuð, en mér þætti meira virði að líta á gróskuna og björtu hliðar íslenskra menntamála og vísinda. Það væri alrangt, að menn hefðu setið með hendur í skauti. Á öllum skólastigum væri unnið að framkvæmdum og nýjungum. Að sjálfsögðu mætti gera betur í mörgu tilliti en ástæðulaust væri að láta eins og ekkert væri vel gert. Þyrftu menn ekki annað en líta út um glugga Verslunarskólans til Háskólans í Reykjavík til að fá staðfestingu á því, sem hefði komið til skólasögunnar á síðustu árum. Þar hefði á skömmum tíma risið háskólahús í einkaeign, sem hafist var handa við að byggja um leið og Háskóli Íslands réðst í að reisa Náttúrufræðihúsið sitt, en það stæði enn hálfsmíðað og menn sæju ekki fyrir endann á því og krefðust þess nú, að ríkissjóður legði verulega fjármuni af mörkum, það hefði ekki verið gert til að reisa hús Háskólans í Reykjavík en hins vegar væri tillit tekið til húsnæðiskostnaðar í samningi, sem ríkið hefði gert við skólann um rekstur hans eins og gert væri gagnvart Verslunarskóla Íslands. Þess vegna væri til dæmis fráleitt að bera saman tölur í samningi ríkisins við Verslunarskólann og Menntaskólann í Reykjavík (MR) auk þess sem tölurnar sýndu, að síður en svo væri illa gert við MR. Ríkið stæði undir öllum stofn- og viðhaldskostnaði við MR utan við þær tölur, sem kæmu til álita, þegar metinn væri kostnaður við hvern nemanda þar, en tekið væri tillit til slíks kostnaðar í samningum við Verslunarskólann.

Í vikunni fór Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, fram í útvarpsfréttum með þann boðskap, að það væri dæmigert fyrir óvild mína í garð framhaldsskólakennara, að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir því, að 35 milljónum króna yrði varið til að semja við einkaaðila um svonefnda hraðbraut, það er tveggja ára nám til stúdentsprófs. Hann lét þess ekki getið, að í frumvarpinu er gert ráð fyrir rúmlega 500 milljón króna hækkun til framhaldsskólanna, og þessar 35 milljónir króna eru ekki aðeins vegna hraðbrautarinnar heldur einnig til að koma til móts við þá, sem huga að einkaskóla í málmiðnaði. Að minnast á það hentar ekki í þessum áróðri. Þá er Össur fullur hneykslunar yfir því, að ráðgert er að greiða 650 þús. kr. á hvern nemanda á skólaári á hraðbraut eða um tvöfalt meira en á nemanda í MR. Hann tekur ekki með í reikning sinn, að um er að ræða 140 eininga nám í báðum tilvikum, og því er verið að kaupa sömu þjónustuna, í öðru tilvikinu er greitt fyrir hana á tveimur árum en í hinu á fjórum. Síðan er hitt, að með hraðbrautinni sé vegið að kennurum eða eitthvað tekið frá þeim. Hvernig má það vera? Hraðbrautin verður ekki starfrækt án kennara. Eða án nemenda, sem koma þá úr öðrum skólum, þannig að lokum er um það að ræða, að fé er flutt frá einum skóla til annars, því að fjármunirnir fylgja nemendunum.

Hugmyndin um hraðbraut til stúdentsprófs er ekki ný því að Ólafur H. Johnson framhaldsskólakennari vakti máls á henni opinberlega í Morgunblaðsgrein fyrir fjórum árum, það er 9. nóvember 1996 og boðaði þar, að hann hefði stofnað nýjan framhaldsskóla. Síðan hafa farið fram viðræður milli hans og menntamálaráðuneytisins um málið en talið var skynsamlegt að sjá, hvernig skólinn gæti starfað á grundvelli námskránna, sem komu til sögunnar á síðasta ári. Eftir að lokið var mati á þessum þáttum skólastarfsins kom að því að leysa úr hinni fjárhagslegu og verður það ekki gert nema alþingi samþykki og fé fáist á fjárlögum, eftir því er sótt með þeirri tillögu, sem er kynnt í fjárlagafrumvarpinu.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart, að talsmenn ríkisrekstrar séu óánægðir með einkaframtak í skólamálum. Þeir verða hins vegar að hafa önnur rök fyrir andstöðu sinni en þau, að gengið sé á hlut nemenda og kennara með slíkum skólum, því að þeir fjölga aðeins tækifærum. Þeir Illugi Jökulsson á Skjáeinum og Guðmundur Andri Thorsson í DV hafa tekið undir með Össuri í gagnrýni á hraðbrautina, þannig að allir helstu málsvarar þeirra, sem skipa sér ætíð í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn hafa lýst skoðunum sínum. Það hefði vakið meiri undrun, ef einhver þeirra hefði séð kostinn við einkaframtakið í skólamálum. Í þessari andrá má minnast þess, að prófessor Giddens, hugmyndafræðingur þriðju leiðarinnar, miðjumoðsins milli kapitalisma og sósialisma, er þeirrar skoðunar, að einkaskólar og skólagjöld, hvort heldur í þeim eða ríkisskólum, stangist ekki á við þriðju leiðina auk þess sem rannsóknir sýni, að fullyrðingar um að einkaskólar ýti undir stéttastkiptingu eigi ekki við rök að styðjast.

Síðdegis laugardaginn 28. október fór ég á þing Iðnnemasambands Íslands og tók þar þátt í umræðum. Gafst mér meðal annars tækifæri til að kynna nýjar reglur um úthlutun svonefndra dreifbýlisstyrkja og hlutu þær góðar undirtektir meðal þeirra, sem ræddu þær. Spurningar nemenda voru málefnalegar og snerust um fjölmörg atriði, sem snerta starfsnámið. Fróðlegt var til dæmis að ræða, hvort skynsamlegt væri fyrir þá, sem stunda tölvufræðinám við Iðnskólann í Reykjavík (IR) að sækjast eftir viðurkenningu með löggiltum starfsréttindum. Þetta sjónarmið kom frá hjá fulltrúum nemenda en aðrir voru annarrar skoðunar þar á meðal Baldur Gíslason, skólameistari IR, og Rúnar Sigurður Sigurjónsson, formaður Iðnnemasambands Íslands, sem hefur sjálfur lokið námi í þessari grein IR.

Þarna var að sjálfsögðu rætt um yfirvofandi verkfall og lýstu nemendur ótta við, að nám þeirra á önninni væri einskis virði. Allir áttuðu sig á hinn bóginn á því, að verkfall gengur á þann rétt nemenda, sem felst í innritun þeirra í skóla og getur hæglega gert hann að engu. Nemendur lýstu eðlilegum áhyggjum sínum án þess að vega að einum eða neinum.

Ég verð alltaf jafnundrandi, þegar ég les greinar í blöðum eða heyri yfirlýsingar endranær, sem byggjast á þeirri skoðun, að það sé líklega helst vegna heimsku ef ekki illsku stjórnmálamanna, að laun kennara séu ekki hærri, þó ekki allra stjórnmálamanna, heldur þeirra í ríkisstjórn, þegar kjarasamningur kennara er á enda runninn. Þessi söngur á eftir að magnast næstu daga, án þess að þeir, sem hann kyrja, leggi á sig að kynna sér málavexti og hvaða ástæður eru fyrir launastefnu kennara og gagnrökum viðmælenda þeirra.