21.10.2000

Stöðnun Reykjavíkur í góðæri.



Umræður um vegaframkvæmdir í Reykjavík hafa tekið á sig hefðbundna mynd að því leyti, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri vill skella allri skuldinni af vandræðaganginum á ríkisvaldið og einhvers staðar las ég einnig þá málsvörn fyrir R-listann, að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra væri að ná sér niðri á Reykvíkingum í vegamálum vegna þess að R-listinn væri að agnúast út í Landssímann, en því hefur verið haldið á loft undanfarna mánuði af R-listafólki, að Landssíminn sé einskonar útibú úr Sjálfstæðisflokknum (!), var þetta ekki síst gert til að slá ryki í augu fólks, þegar forráðamenn R-listans, þau Ingibjörg Sólrún og Alfreð Þorsteinsson, oddviti framsóknarmanna innan borgarstjórnar, stóðu að því að Línu.Net gekk á svig við lög eins og áður hefur verið lýst hér á þessum síðum.

Það dugar ekki fyrir borgarstjóra að láta eins og allt sé blúndulagt innan borgarmarka Reykjavíkur fyrir stóframkvæmdir í vegamálum og aðeins sé illum hug ríkisstjórnar og þingmanna um að kenna, að ekki sé ráðist í þessar framkvæmdir. Staðreynd er, að í mörgu tilliti er heimavinnu borgarstjórans og hennar manna ábótavant og ekki liggja fyrir allar ákvarðanir, sem þarf að taka til að unnt sé að hefjast handa. Í ræðu Sturlu Böðvarssonar á alþingi sl. fimmtudag kom fram, að í febrúar verður boðin út framkvæmd við Breiðholtsbrautina, gatnamótin Reykjanesbraut/Breiðholtsbraut, og það er ein allra stærsta framkvæmdin innan Reykjavíkur. Hins vegar er ekki unnt að ráðast í færslu Hringbrautar, gerð nýrra gatnamóta Víkurvegar og Vesturlandsvegar og framkvæmdir við Hallsveg vegna þess að ekki liggur fyrir skipulag eða umhverfismat. Frestast þessar framkvæmdir þar sem skipulags- og umhverfismatsvinnunni er ekki lokið. Þá hefur borgarstjórn ekki gert upp hug sinn varðandi Sundabraut.

Ég hef sem menntamálaráðherra gert ítrekaðar tilraunir til að fá afstöðu borgaryfirvalda til þess, hvernig þau vilja standa að lögbundnu samstarfi um framkvæmdir í þágu framhaldsskólanna í Reykjavík. Hef ég rætt málið við borgarstjóra og málinu hefur verið vísað til nefnda en allt án árangurs, því að R-listinn hefur ekki viljað viðurkenna lögbundna skyldu borgarstjórnar til að leggja af mörkum 40% stofnkostnaðar við framkvæmdir í þágu framhaldsskólanna. Dreg ég þá ályktun af því máli, að innan meirihluta borgarstjórnar skorti menn pólitískan styrk til að taka af skarið um málið en kjósi að fela sig á bakvið hæpnar lögskýringar. Af þessum ástæðum hefur til dæmis ekki tekist að nýta fjárveitingu til að reisa íþróttahús við Menntaskólann við Hamrahlíð. Þegar því var hreyft að taka frá lóð fyrir Menntaskólann við Sund í Laugardalnum, voru slíkar óskir að engu hafðar, án þess að ljóst sé, hvaða úrræði borgaryfirvöld sjá til þess að tryggja skólanum framtíðaraðstöðu, því að ekki er það ríkisins heldur viðkomandi sveitarstjórnar að ákvarða lóðir fyrir framhaldsskóla. Meira að segja hefur Reykjavíkurborg neitað allri aðild að því að skapa Menntaskólanum í Reykjavík betri starfsaðstöðu í hjarta borgarinnar. Er einsdæmi fyrir menntamálaráðherra að mæta slíku áhugaleysi hjá sveitarstjórn, þegar framhaldsskólar eiga í hlut. Hvarvetna annars staðar eru það heimamenn, sem knýja á um sem bestan húsakost skóla.

Strax á fyrstu árum sínum í meirihluta tók R-listinn að agnúast út í Listaháskóla Íslands og vildi ekki standa að því að stofna hann. Var því borið við, að ekki væri til þess nein lagaskylda. Um það hefur ekki verið deilt, en hitt er undarlegra, að borgarstjórn skuli ekki taka því fagnandi þegar nýr skóli kemur til sögunnar í Reykjavík og lýsa yfir vilja til að leggja honum lið.

Þess sjást æ fleiri merki, að stuðningsmönnum R-listans sé nóg boðið vegna aðgerðaleysis á öllum sviðum. Síðast lét Hallgrímur Helgason rithöfundur í ljós skoðun sína í DV laugardaginn 21. október, þegar hann sagði meðal annars: „Við sem kusum R-listann á sínum tíma gerðum það með nokkrum efa: Við skulum gefa stelpunum séns en ætli þær séu nógu framkvæmdaglaðar, nógu framsýnar? Sá efi nagar okkur sífellt meir þar sem við bíðum í 30 bíla röð á öllum ljósunum í bænum. Eftir sex ára valdasetu R-listans koma þessi afrek helst upp í hugann: Menningarnótt og Menningarborg. Engin stórverk, engar hugmyndir, engin framtíðarsýn." Hallgrímur segir einnig: „Nýlega kom fram að í Reykjavík hafi ekki verið byggt jafn lítið á þessu ári síðan 1956. Við hverja lóð sem auglýst er standa 100 manns í biðröð. Í miðju góðærinu ríkir stöðnun í Reykjavík."

Undir lok greinar sinnar vekur Hallgrímur máls á því, að í hverju borgarmálinu á fætur öðru fylgist menn með stríði R-anna tveggja, R-listans og Ríkisstjórnar. Vísar hann þar til þess, sem ég nefndi í upphafi, að borgarstjórinn gerir borgarmál að ágreiningsmáli við okkur, sem í ríkisstjórn sitjum, og skellir skuld á okkur í stað þess að leita lausnar í eigin ranni.

Rétt er að geta þess, að annað af tveimur afrekum R-listans að mati Hallgríms, menningarborgina, fékk hann í arf frá Sjálfstæðisflokknum og því verkefni hefði ekki verið unnt að hrinda í framkvæmd nema með þátttöku ríkisins, sem hefur lagt verulega fjármuni af mörkum og komið að framkvæmdinni á margan hátt. Sýnir það, að með öllu er rangt að draga þá mynd af afstöðu ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra, að þeim sé í mun að bregða fæti fyrir það, sem fyrir borgaryfirvöldum vakir og krefst sameiginlegra ákvarðana. Hitt er fráleitt, að ráðherrar eigi að verða blórabögglar fyrir R-listann og skort hans á stórverkum, hugmyndum og framtíðarsýn. Stöðnun í Reykjavík á góðæristímum er ekki sök ríkisvaldisins heldur þeirra, sem stjórna Reykjavík.