7.10.2000

Háskólastigið eflist



Föstudaginn 6. október fór ég norður á Akureyri til að taka þátt í hátíðlegri athöfn í tilefni af því, að Háskólinn á Akureyri fluttist í nýtt sérhannað húsnæði í Sólborg. Var ánægjulegt að hitta rektor, kennara og nemendur við skólann af þessu tilefni, en undanfarin fimm ár hefur markvisst verið unnið að því að búa HA nýja umgjörð á þessum fagra stað. Þegar menn líta til þess, sem er að gerast á háskólastiginu, verður tal samfylkingarfólks og annarra um, að ekki sé fylgt metnaðarfullri stefnu í menntamálum, næsta marklítið. Af mörgu er að taka, þegar litið er til framfara á þessu sviði, en ég nefni nú, að HA er að flytja í nýtt húsnæði, Háskólinn í Reykjavík er að hefja framkvæmdir við nýtt hús, í fjárlagafrumvarpi ársins 2001 er gert ráð fyrir fé, sem nægir til þess að hefja framkvæmdir við nýbyggingu Kennaraháskóla Íslands.

Háskóli Íslands er að reisa Náttúrufræðahús í Vatnsmýrinni, en það er flókin og dýr bygging, sem HÍ stendur straum af með tekjum af Happdrætti Háskóla Íslands. Ríkissjóður hefur ekki komið að húsbyggingum á vegum HÍ, en þó var ákveðið að taka þátt í kostnaði vegna Náttúrufræðahússins vegna þess að gert er ráð fyrir, að Norræna eldfjallastöðin fái þar inni. Hefur ríkissjóður staðið við sinn hluta þess samkomulags, hins vegar hafa forráðamenn HÍ komið til fundar við mig og aðra ráðherra og rætt nauðsyn þess, að ríkissjóður leggði HÍ meira lið vegna þessa dýra húss. Vék ég að þessu máli í ræðu minni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 3. október. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 30 m. kr. til Náttúrfræðahússins, er það fram yfir umsaminn stuðning úr ríkissjóði. Vita forráðamenn HÍ, að umræðum um þetta mál er ekki lokið milli ríkisstjórnar og þeirra. Forystumönnum stúdenta við HÍ bregst hins vegar ekki bogalistin, því að formaður Stúdentaráðs HÍ er tekinn til að kvarta undan þessari fjárveitingu á opinberum vettvangi. Ef til vill er það gert í þeim gamalkunna tilgangi Röskvumanna að hafa hátt um málefni, sem þeir vita, að eru í vinnslu á öðrum vettvangi, og láta síðan eins og niðurstaða náist fyrir þeirra tilverknað. Þetta háttalag minnir á þær tiltektir í stjórnmálum, að fagna mest sigrum annarra til að hefja sjálfan sig til skýja.

Stjórnmálamenn kippa sér almennt ekki upp við, að pólitískir andstæðingar þeirra sjái þá aldrei gera neitt gott eða gagnlegt. Hitt er sérkennilegra að sjá stofnanir, sem vilja njóta almenns trausts, notaðar í því skyni að halda að fólki röngum eða hæpnum fullyrðingum. Í fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið 5. október á alþingi skýrði Geir H. Haarde fjármálaráðherra frá því, að bankastjóri Landsbankans hefði haft samband við sig til að biðjast afsökunar vegna gálausra ummæla starfsmanns Landsbréfa um áhrif fjárlagafrumvarpsins á gengi krónunnar. Að kvöldi sama dags var það haft eftir starfsmönnum Deloitte og Touche, endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækisins, að sveitarfélög hefðu á þremur árum þurft að greiða þrjá og hálfan milljarð króna umfram þær tekjur, sem þeim voru ætlaðar til að standa straum af rekstri grunnskólans. Kom þetta fram í sjónvarpsfréttum RÚV klukkan 19.00 en klukkan 22.00 var rætt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem sagði þessar tölur Deloitte og Touche „fjarri öllum sanni", enda hefði að öllu leyti verið staðið við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslegar skuldbindingar vegna flutnings grunnskólans. Ég hef að vísu ekki orðið var við neina afsökun frá talsmönnum Deloitte og Touche, sem kynntu málið með hinum gagnrýnisverða hætti í upphafi. Einna sérkennilegast við þessa uppákomu var, að fyrirtækið gerði þetta að eigin frumkvæði og til að kynna eigið ágæti!