20.8.2000

Árósar - afstaða Alfreðs - Baldur

Fyrstu daga vikunnar sat ég ráðstefnu um háskólamálefni og rannsóknir í Árósum á Jótlandi. Hafði ég aldrei komið til þess bæjar fyrr en íbúar þar og í nágrenninu eru álíka margir og á Íslandi, kom mér á óvart, hve umferð og umsvif í bænum virtust miklu minni en hér á höfuðborgarsvæðinu hjá okkur. Skýringin er líklega meðal annars sú, að háskólinn var ekki tekinn til starfa að loknu sumarleyfi, en nemendur þar eru um 20.000 og hljóta því að setja mikinn svip á bæjarlífið.

Stjórnendur háskóla, það er þeir, sem fara með stjórnsýslu og fjármál innan skólanna hafa hist á norrænum fundum um nokkurt árabil, skemmra er síðan háskólarektorar á Norðurlöndunum tóku að funda reglulega. Í Árósum komu fulltrúar beggja þessara hópa saman og buðu auk þess menntamálaráðherrum Norðurlandanna að taka þátt í fundinum.

Ræddum við meðal annars um Bologna-yfirlýsinguna svonefndu, en í henni felst, að stefnt skuli að samræmingu á prófgráðum og einingum í háskólanámi í Evrópu auk þess sem námið verði skipulagt með þeim hætti, að almennt sé unnt að ljúka bachelor-prófi á þremur árum, síðan taki við tveggja ára mastersnám og loks doktorsnám.. Ég var ekki á þessum fundi í Bologna, þegar yfirlýsingin var undirrituð en Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri var þar og skrifaði undir hana fyrir hönd menntamálaráðuneytisins. Yfirlýsingin lýsir vilja til þess að samhæfa ytri ramma háskólastarfs en á fundinum í Árósum var um það rætt, hvort í henni fælist einnig að inntak menntunar yrði samhæft og samræmt í Evrópu. Ég lýsti þeirri skoðun minni, að við því væri að búast, að kröfur um afskipti af inntaki náms mundu aukast. Það var margítrekað, að það væri alls ekki markmið yfirlýsingarinnar heldur hitt að auðvelda námsmönnum að afla sér ólíkrar menntunar í sama fagi í ólíkum löndum. Þegar litið er á íslenska háskólastigið stöndum við vel að vígi gagnvart ákvæðum Bologna-yfirlýsingarinnar um skipulag háskólanáms en ýmsar aðrar þjóðir þurfa að gera róttækar breytingar á námskipulagi hjá sér til að ná markmiðum yfirlýsingarinnar.

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um rannsóknir og háskólanám og má lesa ræðu mína um það efni á ræðusíðu minni hér á vefsíðunni. Þar ítreka ég þá stefnu, að ríkisvaldið leggi höfuðáherslu á grunnrannsóknir og menntun ungra vísindamanna með fjárveitingum sínum.

Í DV birtist föstudaginn 18. ágúst, afmælisdegi Reykjavíkurborgar, viðtal við Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúa R-listans úr Framsóknarflokki, þar sem hann segir afar ólíklegt, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi næstu ríkisstjórn og lýsir óskastjórn sinni á þann veg, að þar yrðu framsóknarmenn, samfylkingarfólk og vinstri/grænir. Slær DV því upp á forsíðu, að Alfreð vilji vinstristjórn.

Oftar en einu sinni hefur þeirri skoðun verið lýst hér á þessum síðum, að Alfreð Þorsteinsson sé valdamesti maðurinn innan R-listans, því að hann geti í raun sett Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur stólinn fyrir dyrnar, hvenær sem honum sýnist. Þetta eigi ekki aðeins rætur í því, að hann sé einn af átta borgarfulltrúum, sem mynda meirihluta R-listans og geti í krafti þess ögrað samstarfsfólki sínu heldur ekki síður vegna hins að hann hefur skapað sér mikla valdaaðstöðu í Orkuveitu Reykjavíkur, Línu.Neti og Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Sérstaklega er það Orkuveita Reykjavíkur, sem þarna skiptir miklu, því að við veika fjármálastjórn R-listans á borginni hefur borgarstjóri orðið að reiða sig æ meira á tekjur og ríkidæmi hinna gífurlega öflugu orkufyrirtækja, rafmagnsveitunnar og hitaveitunnar.

Ósk Alfreðs Þorsteinssonar um vinstristjórn annars staðar en í Reykjavík verður að skoða í öðru samhengi en því, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé feig, enda ræður Alfreð líklega litlu um það. Um er að ræða átök innan Framsóknarflokksins, sem eru ekki ný á nálinni en taka sífellt á sig skýrari mynd.

Í Morgunblaðinu 23. júní birtist lítil frétt þess efnis, að Ingibjörg Sólrún Gíslasdóttir ætlaði að öllum líkindum að verða í framboði til borgarstjóra í borgarstjórnarkosningunum 2002, var þetta haft eftir Veturbæjarblaðinu. Í vitðali við blaðið taldi borgarstjóri, að stofnun Samfylkingarinnar breytti engu um framtíð R-listans. Laugardaginn 24. júní birtist viðtal við Alfreð Þorsteinsson af þessu tilefni í Morgunblaðinu, þar sem hann segist sammála Ingibjörgu Sólrúnu. Þá sagði Alfreð einnig, að það væri á valdi fulltrúaráðs Framsóknarflokksins í Reykjavík og framsóknafélaganna í Reykjavík að taka ákvörðun um áframhaldandi samstarf við vinstri flokkana á vettvangi borgarmála. Hann vissi ekki betur en að forysta flokksins á landsvísu væri einnig ánægð með það hvernig þetta samstarf hefði gengið undanfarin misseri.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist sunnudaginn 25. júní, er fjallað um þessi mál og rakinn aðdragandi þess, að Reykjavíkurlistinn, R-listinn, varð til 1994 en blaðið segir, að Framsóknarflokkurinn hafi verið lykilflokkurinn við myndun R-listans, án framsóknarmanna hefði verið óhugsandi fyrir vinstri menn að ná meirihluta í borgarstjórn. 1994 hefðu framsóknarmenn verið utan ríkisstjórnar og margir hefðu trúað á samstarf Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn til langs tíma, þess vegna var það, að mati blaðsins, eðlileg og skiljanleg ákvörðun framsóknarmanna á þeim tíma að ganga til samstarfs við andstæðinga sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Nú séu framsóknarmenn hins vegar í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þá rifjar höfundur Reykjavíkurbréfs upp breytingar í stjórnmálum síðan 1994 og bendir sérstaklega á breytta stöðu Framsóknarflokksins, sem þurfi að styrkja stöðu sína á höfuðborgarsvæðinu, sé ekki lengur ótvíræður forystuflokkur á vinstri væng stjórnmálanna og hafi ekki ræktað tengsl við grasrót sína í Reykjavík vegna þátttöku sinnar í R-listanum. Þetta hafi skapað sterkan vilja hjá mörgum innan Framsóknarflokksins til að efna til sérstaks framboðs í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og halda ekki áfram samstarfi innan vébanda R-listans. Finnur Ingólfsson hafi verið helsti talsmaður þess að rifta samstarfinu innan R-listans. Alfreð Þorsteinsson sé því hins vegar andvígur vegna valdaaðstöðu sinnar í skjóli R-listans. Reykjavíkurbréfinu lýkur með þessum orðum:

„Sú ákvörðun, sem framsóknarmenn standa þarna frammi fyrir, getur haft grundvallarþýðingu fyrir stöðu flokksins í íslenzkum stjórnmálum næstu áratugi. Þótt ósennilegt sé að Framsóknarflokkurinn geti á ný náð þeirri pólitísku stöðu, að verða annar fylgismesti stjórnmálaflokkur landsins er augljóst, að hann hefur möguleika á, að skapa sér stöðu til þess að verða áfram annar áhrifamesti stjórnmálaflokkur landsins.

Þess vegna er afar ólíklegt að áframhaldandi samstarf á vettvangi Reykjavíkurlistans sé jafn sjálfsagt mál og Alfreð Þorsteinsson vill vera láta. Þvert á móti er þessi spurning sennilega stórpólitískasta spurning, sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið frammi fyrir áratugum saman.”

Föstudaginn 30. júní birtist síðan viðtal í Morgunblaðinu við Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, þar sem hann segir ekki sjálfgefið, að flokkurinn verði þátttakandi í framboði Reykjavíkurlistans í næstu borgarstjórnarkosningum. Telur hann, að Framsóknarflokkurinn hafi ekki notið samstarfsins eins og flokksmenn teldu eðlilegt. Hann sagðist vita, að framsóknarfélögin í Reykjavík myndu fjalla um framtíð samstarfsins innan R-listans í því ljósi, að breytingar hefðu orðið á vinstri væng stjórnmálanna frá því að R-listinn kom til sögunnar.

Þegar ummæli Alfreðs Þorsteinssonar í DV 18. ágúst eru metin verður að hafa í huga, hvað birtist á síðum Morgunblaðsins í lok júní. Þar voru lesendur upplýstir um ólíka strauma innan Framsóknarflokksins og það mat blaðsins, að þarna stæði Framsóknarflokkurinn hugsanlega frammi fyrir örlögum sínum. Auðvitað ráða ekki hagsmunir Alfreðs Þorsteinssonar ferðinni í þessu efni heldur hljóta framsóknarmenn að líta á málið í stærra samhengi.

Athyglisvert er, að í þessum umræðum um framtíð R-listans er lítið sem ekkert fjallað um afstöðu vinstri/grænna. Kvennalistinn skiptir ekki lengur neinu, því að hann hvarf úr sögunni sem pólitískt afl í borginni, eftir að Ingibjörg Sólrún var komin til valda. Vinstri/grænir eru hins vegar stjórnmálaafl, sem þarf ekki síður að leggja rækt við grasrót sína en Framsóknarflokkurinn, ætli hreyfingin að halda velli. Gerir hún það í Reykjavík með samkrulli við Framsóknarflokkkinn og Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar? Svarið við þessari spurninu er einfalt nei.

Óli Björn Kárason, ritstjóri DV, leggur þannig út af ummælum Alfreðs Þorsteinssonar í Laugardagspistli í DV 19. ágúst:

„Vandséð er hvernig framsóknarmenn ætla sér að taka höndum saman við Samfylkinguna og vinstri-græna í næstu ríkisstjórn. Pólitískir andstæðingar Framsóknarflokksins hafa gengið óvenjuhart fram í gagnrýni sinni á ráðherra flokksins og erfitt er að sjá hvernig slíkt samstarf gengi - það þyrfti mikið pólitíkst geðleysi til að gleyma ýmsu sem sagt hefur verið á undanförnum mánuðum.

Fram til þessa hefur Halldór Ásgrímsson ekki sýnt mikið geðleysi ekki frekar en Siv Friðleifsdóttir, sem Alfreð Þorsteinsson vill gera að varaformanni. Þegar Alfreð hvetur félaga sína í Framsókn til að ganga til samstarfs við vinstrimenn er hann því jafnframt að senda þau skilaboð að tími Halldórs sé liðinn. Alfreð Þorsteinsson er óumdeilanlega einn af áhrifamönnum innan Framsóknarflokksins en mikið pólitískt haf virðist skilja hann og Halldór Ásgrímsson að”

Allir sem túlka afstöðu Alfreðs Þorsteinssonar, hvort heldur í júní eða 18. ágúst, komast að sömu niðurstöðu: Alfreð er fyrst og síðast að ýta undir ágreining innan Framsóknarflokksins og draga athygli að mjög viðkvæmri stöðu flokksins, sem byggist á því, að hann hefur verið í samstarfi innan R-listans, þar sem flokkurinn hefur ekki notið sín, þótt Alfreð hafi gert það og vilji engan spón missa úr eigin aski.

Síðdegis föstudaginn 18. ágúst var músíkdrama Jóns Leifs, Baldur, frumflutt í Laugardalshöll. Verður sú stund öllum ógleymanleg, sem hennar nutu, því að allt var með þeim stórbrotna blæ, sem fellur vel að þessu einstaka meistaraverki. Finninn Jorma Uotinen samdi dansa og gerði búninga fyrir dansara, sem komu bæði frá Finnlandi og Íslandi, og gáfu verkinu nýja dýpt í hinni glæsilegu leikmynd og lýsingu Kristin Bredal frá Noregi, en Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti tónlistina undir stjórn Leifs Segerstams, tónskálds frá Finnlandi, en hann stjórnar verkinu einnig í Helsinki, Kari Kropsu stjórnar í Bergen.

Ég man vel eftir því, þegar Paul Zukofsky, vinur minn, stjórnaði Sinfóníuhljómsveit æskunnar og frumflutti Baldur í mars 1991. Án þess afreks hefði tæplega verið unnt að búa verkið jafnvel úr garði og gert var í Laugadalshöllinni að þessu sinni, því að það var að sjálfsögðu forsenda þess að samin yrði dans við verkið, að það væri til í upptöku og danshöfundurinn gæti áttað sig á innviðum þess í flutningi. Leikur SÆ var tekinn upp og gefinn út á diski, uppfærslan í Laugardalshöll var tekinn upp af sjónvarpinu og varðveitist í þeim búningi.

Stundinn í Laugardalshöll minnti mig á það, þegar við Rut hlustuðum á Guðrúnarkviðu í dokkinni í Kaupmannarhöfn á sínum tíma, en Haukur Tómasson samdi tónlistina. Er magnað, hve Eddukvæðin hafa mikil áhrif á sköpunarmátt tónskálda, danshöfunda og leikmyndasmiða, því að í báðum tilvikum var þetta með einstaklega hrikalegum og stórbrotnum hætti. Í Laugardalshöllinni var það eldur og ís, sem mótaði rammann og setti svip sinn á Ragnarökin en í Kaupmannahöfn fylltist dokkinn af sjó.

Arvo Pärt, hinn heimsfrægi eistneski tónsmiður, kom hingað til lands laugardaginn 19. ágúst og fór Rut út á flugvöll og tók á móti honum og Michael syni hans. Arvo Pärt var hér í byrjun febrúar 1998, þegar Kammersveit Reykjavíkur og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðakórinn efndu til tónleika með verkum hans. Hann er einstakur maður og hafði mikinn áhuga á Jóni Leifs, þegar við hittum hann núna fyrr í dag, áður en þeir feðgar héldu uppi í Reykholt, þar sem þeir dveljast næstu viku með Röddum Evrópu, sem frumflytja verk Pärts, samið fyrir kórinn.