12.8.2000

Valhallarmál

Í vikunni birtist forsíðufrétt um það í DV, að Jóni Ragnarssyni, eiganda hótels Valhallar á Þingvöllum, hefði borist um 460 milljón króna tilboð í hótelið frá fasteignasala í Mónakó. Jafnframt var skýrt frá því, að hreppsnefnd Þingvallahrepps hefði lýst yfir því, að hún mundi ekki nýta forkaupsrétt. Eftir að fréttin birtist fimmtudaginn 10. ágúst, hafa orðið nokkrar umræður um málið í fjölmiðlum.

Frá sjónarhóli okkar sem sitjum í Þingvallanefnd er sérkennilegt, að eigandi hótels Valhallar skuli ekki hafa kynnt nefndinni þetta mál. Það verður ekki til lykta leitt án atbeina opinberra aðila. Fyrir því eru margar ástæður. Málið þarf sérstaka meðferð, ef það er erlendur maður, sem vill kaupa fasteignina. Þá er ríkissjóður eigandi hluta þeirra mannvirkja, sem eru á lóðinni, fyrir utan að eiga lóðina sjálfa. Allar ráðstafanir á þessum stað eru undir forsjá Þingvallanefndar. Eignarhaldi á Valhöll fylgir skylda til að sinna þjónustuhlutverki innan þjóðgarðsins.

Um langt árabil hefur það verið markmið Þingvallanefndar, að ríkið eignaðist Valhöll og samþykki alþingis liggur fyrir slíkri ráðstöfun. Samkomulag hefur ekki náðst um verð.

Eignandi Valhallar hefur gefið til kynna, að hann hafi orðið afhuga hótelrekstri á Þingvöllum sumarið 1998, þegar Þingvallanefnd neitaði honum um heimild til að stækka hótelið. Til þess að hótel sé starfrækt í Valhöll þarf leyfi annarra aðila en Þingvallanefndar, þar á meðal heilbrigðiseftirlits og brunamálastofnunar. Hafa þessir aðilar látið í ljós gagnrýni á það, hvernig staðið er að málum í Valhöll. Snemma árs 1998 taldi Þingvallanefnd óljóst, hvort unnt yrði að halda úti starfsemi hótelsins þá um sumarið, vegna þess að ekki lá fyrir, hvernig hóteleigandinn ætlaði að fara að kröfum yfirvalda. Óskaði nefndin eftir upplýsingum um það 23. febrúar 1998, hvernig hóteleigandinn ætlaði að bregðast við athugasemdum, sem höfðu verið gerðar við ósk hans um endurnýjun á veitinga- og gistileyfi fyrir hótelið.

Í sumarbyrjun 1998 kom síðan í ljós, að ekki höfðu verið gerðar ráðstafanir af hálfu hótelsins til að vernda Öxará fyrir úrgangi frá því. Voru þessi mál til umræðu á vettvangi Þingvallanefndar, þegar henni barst bréfleg ósk frá eigandanum um viðræður við nefndina um framtíðarstækkun hótels Valhallar. Þingvallanefnd taldi engar forsendur fyrir slíkum viðræðum og lýsti undrun sinni yfir því, að henni skyldu við þessar aðstæður kynntar hugmyndir frá því í september 1996 um stækkun á hótelinu. Taldi nefndin ekki liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um það, hvernig farið yrði að kröfum yfirvalda varðandi starfrækslu hótelsins. Sérstaklega taldi nefndin ámælisvert, að ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir til að vernda Öxará fyrir úrgangi frá hótel Valhöll.

Þingvallanefnd taldi með öðrum orðum, að það ætti að haga framkvæmdum vegna Valhallar á þann veg, að fullnægja öllum kröfum yfirvalda vegna öryggismála og umhverfisverndar, áður en ráðist yrði í aðrar framkvæmdir. Gekk það eftir að rotþró staðarins var endurnýjuð en á hinn bóginn bar svo við nú í sumar, að umhirða um hana var með þeim hætti, að fréttir birtust um að úrgangur flæddi í Öxará.