20.6.2000

Fartölvuvæðing framhaldsskólanna



Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar ritar grein í Morgunblaðið, þjóðhátíðardaginn 17. júní, undir fyrirsögninni fistölvur í framhaldsskólum, raunar má segja, að þingmaðurinn fari úr einu í annað og vandi ekki alltaf rökstuðning sinn, eins og hér verður reifað.

Fyrsta fullyrðing Sigríðar: Í haust er gert ráð fyrir, að allir kennarar og nemendur fyrsta bekkjar í þremur framhaldsskólum noti fistölvur við nám sitt.

Þetta er ekki rétt, því að nemendum er frjálst að eignast fistölvur.

Önnur fullyrðing Sigríðar: Peningar til venjulegrar námsefnisgerðar fyrir grunnskóla eru skornir svo við nögl að til vandræða er, rétt eins og verið hefur um langa tíð.

Fjármunir til námsefnisgerðar hafa verið auknir verulega eftir að ný námskrá kom til sögunnar. Á hinn bóginn hefur ekki gengið jafnvel að þoka námsefnisgerð í nútímalegra horf. Námsgagnastofnun ríkisins er dæmigert ríkisfyrirtæki og þarf ekki annað en sjá útlit framleiðslu hennar til að átta sig á því, að það er frekar í ætt við það, sem var í Austur-Þýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins en kröfur einkaaðila til þeirra bóka, sem þeir framleiða.

Þriðja fullyrðing Sigríðar: Menntamálaráðuneytið ákvað að stofna nýja námsgrein, lífsleikni, með feitum og matarmiklum (svo!) orðum í nýrri námskrá en ekkert námsefni var til.

Námskráin kemur til framkvæmda á þremur árum og strax hefur skipulega verið hafist handa við að gefa út námsefni í lífsleikni, meðal annars hefur fjármunum verið varið til að setja efni Herdísar Egilsdóttur kennara á vefinn, svo að það sé sem flestum aðgengilegt, bæði innan og utan skóla.

Fjórða fullyrðing Sigríðar: Menntamálaráðuneytið sendir oft frá sér orðsendingar um að auka þurfi hlut lista- og verkmenntagreina eða ráð og nefndir á þess vegum.

Engin dæmi eru nefnd til að rökstyðja þessa fullyrðingu, enda á hún ekki við önnur rök að styðjast en þau, að þetta er almennt markmið framhaldsskólalaganna, sem þingmaðurinn tók þátt í að samþykkja. Menntamálaráðuneytið hefur ekki verið að senda sérstakar orðsendingar um þetta efni. Hér er um hugarburð þingmannsins að ræða til að geta haft þá sögu eftir ágætum skólamanni, að þessar orðsendingar ráðuneytisins væru orðnar svo tíðar, að hann héldi um tölvuvírus að ræða.

Fimmta fullyrðing Sigríðar: Menntamálaráðuneytinu tókst fyrir smáaura að koma af sér grunnskólanum.

Menntamálaráðuneytið framkvæmdi lög um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna, sem alþingi samþykkti og var Sigríður komin á þing, þegar það var gert. Um kostnaðarþáttinn vegna flutningsins var samið milli ríkis og sveitarfélaga og náðist gott samkomulag um hann. Er nú verið að fara yfir einstaka kostnaðarþætti og meta þá í ljósi reynslunnar, staðreynd er, að tekjur sveitarfélaganna hafa hækkað mikið vegna þeirra auknu heimilda til að innheimta skatta, sem þau fengu við flutning grunnskólans. Jafnframt hefur sveitarfélögum tekist að hagræða í rekstri skólanna með þeim hætti, sem jafnan var harðlega mótmælt, þegar þeir voru í rekstrarlegri forsjá menntamálaráðuneytisins. Kjarasamningar við kennara eftir flutning grunnskólann hafa að sjálfsögðu verið á hendi sveitarfélaganna og þau vissu vel um kjör kennara, þegar þau gengu til samninganna við ríkið um kostnaðarþáttinn á sínum tíma.

Sjötta fullyrðing Sigríðar: Menntamálaráðuneytið þrútnar núna af metnaði í þágu grunnskólans sem bæjar- og sveitarstjórnir greiða meðlagið með.

Þetta er furðuleg aðdróttun, að menntamálaráðuneytið hafi aukið kröfur til grunnskólans vegna þess að aðrir greiði kostnað vegna hans en ríkið. Menntamálaráðuneytið hefur verið að framfylgja lögum um fjölgun kennslustunda í grunnskólum og var gert ráð fyrir þeim í samningum við sveitarstjórnir. Menntamálaráðherra beitti sér fyrir því, að frestur til að einsetja skóla var framlengdur einnig fylgdu fjármunir frá ríkinu til að auðvelda einsetninguna, þótt nokkur væru liðin frá því að ríkið hætti að greiða fyrir skólabyggingar, ríkið greiddi því með grunnskólanum að þessu leyti einnig. Ríkissjóður stendur straum af kostnaði við námsgagnagerð, hafa fjárveitingar aukist til hennar. Ríkissjóður lætur fé af mörkum til að endurmennta grunnskólakennara, hefur fé til endurmenntunar aukist. Ný námskrá fyrir grunnskóla hefur ekki aukinn kostnað í för með sér, því að hún er sniðin að umsömdum ramma við flutning grunnskólans.

Sjöunda fullyrðing Sigríðar: Leikskólinn glímir við vanda vegna lágra launa til starfsfólks. Misöflug bæjarfélög reyna að halda illa launuðum kennurum við efnið með aukasporslum af ýmsu tagi. Vafasamt, að mestu skipti núna að skylda nemendur þriggja framhaldsskóla til að verða sér úti um fistölvur.

Engar skyldur eru lagðar á nemendur í þremur framhaldsskólum, því að þeim er boðið að taka þátt í þessu tilraunaverkefni skólanna á eigin forsendum þeirra og nemenda. Sveitarfélög reka leikskóla og grunnskóla en ríkið framhaldsskóla – ákvarðanir ríkisins um tölvuvæðingu framhaldsskólanna breytir engu um rekstraraðstæður leikskóla og grunnskóla. Á hinn bóginn er ýmislegt, sem bendir til þess, að æskilegt væri að hefja fistölvuvæðingu skólakerfisins fyrr en í framhaldsskóla.

Áttunda fullyrðing Sigríðar: Vegna lágra launa hafa leik- og grunnskólakennarar ekki efni á því að kaupa fistölvu fyrir 100 þúsund krónur fyrir börn sín, þegar þau innritast í framhaldsskóla.

Ekki er ætlunin að menn reiði þessa fjármuni fram á einum greiðsludegi heldur verði unnt að dreifa kostnaði vegna tölvukaupanna á fjögur ár, ef nemandi er í svo löngu námi. Ætti í raun engum að verða ofraun að inna slíkar greiðslur af hendi, ef menn vilja á annað borð forgangsraða í þágu nútímalegrar menntunar, sem tryggir hverjum og einum í senn gjörbreytta kennsluhætti og þjálfun með tæki, sem á eftir að duga í störf og leik alla ævi.

Níunda fullyrðing Sigríðar: Gott og gilt er að menntamálaráðherra vilji að nemendur eigi og noti fistölvur, ef hægt er að fjármagna kaupin með öðrum hætti en úr vasa foreldranna.

Það verður aldrei unnt að fjármagna kaupin með öðrum hætti en úr vasa foreldranna, því að kaupi nemendur ekki sjálfir tölvurnar fyrir eigið fé eða foreldra sinna, verða skattgreiðendur að standa undir fistölvuvæðingunni með því að láta fjármuni sína fara um hendur ríkisins, vasinn, sem í er seilst, er ávallt hinn sami. Það fer hins vegar eftir pólitískri hugmyndafræði, hvort betra er talið að taka fé úr vasa foreldra í ríkissjóð með lagaboði eða gefa þeim færi á að ráðstafa beint fé í þágu barna sinna með því að taka þátt í að fjármagna afnot þeirra af fistölvu, ef þau kjósa að tileinka sér þá tækni til fulls í námi sínu.

Tíunda fullyrðing Sigríðar: Þrátt fyrir fjallajeppavæðingu í höfuðborginni og mengun vegna hennar og 1000 milljónir í kristnitökuhátíð, getur fjöldi fólks ekki greitt mánaðarlaun í aukaskatt, þótt til menntunar barna sinna sé.

Rangt er að ganga að því sem vísu að hér sé um greiðslu á einum gjalddaga að ræða og vissulega kann slík greiðsla að knýja fólk til að forgangsraða í þágu menntunar barna sinna. Tölvan er þó miklu meira en hluti af þeirri menntun, sem skólakerfið veitir, en með milligöngu menntamálaráðuneytisins er stefnt að því, að nemendur geti fengið aðgang að hinum bestu tækjum fyrir lægsta verð auk þess ráðuneytið vinnur að því að búa til rafrænt kennslu- og menntakerfi. Þá á tölvan að auðvelda alla netvinnslu í skólum og færa hana á hið besta stig.

Ellefta fullyrðing Sigríðar: Hætt er við að börnum leikskólakennara og grunnskólakennara eða annars láglaunafólks sé gert erfiðara fyrir, jafnvel að þau séu hrakin frá námi með þessum skatti.

Eftir að því hefur verið lýst yfir, að foreldrar eigi ekki að greiða fyrir tölvur heldur að innheimta beri gjöld vegna fistölvuvæðingarinnar með sköttum, snýst hofundur á þá sveif, að ekki geti allir greitt þann aukaskatt. Verður ekki annað ráðið af þessum rökstuðningi, en alls ekki séu neinar fjárhagslegar forsendur til að fistölvuvæða skólana. Neikvæð afstaða höfundar minnir mig aðeins á það, þegar Guðrún Helgadóttir, flokkssystir hennar og fyrrverandi þingmaður, réðist á mig fyrir að ætla að nota tölvupóst og vefsíðu til að eiga samskipti við almenning. Féllu þessu orð Guðrúnar fyrir fimm árum eða svo og sjá allir núna, hve vitlaus og illa ígrunduð þau voru. Sigríður Jóhannesdóttir dettur í þá gryfju að sjá aðeins neikvæðu hliðarnar við nýsköpun í skólastarfi.


Tólfta fullyrðing Sigríðar: Hætta er á því að þrá okkar eftir því að jafnast í stærðfræði á við nemendur í Singapore raski þeirri skyldu ríkisvaldsins að tryggja öllum jafnrétti til náms.

Hugtakið jafnrétti til náms þarf að skýra á annan veg en þann, að það megi nota gegn öllum nýjungum í skólastarfi. Vinstrisinnar nota það einkum til að mæla með meðalamennsku í skólakerfinu. Þeir vilja ekki una því, að sköpuð séu ný og jafngild tækifæri, sem öllum gefst færi á að nýta sér. Fistölvuvæðing framhaldsskólanna hefur aldrei verið tengd stærðfræðikunnáttu skólanema í Singapore eða keppni við þá.

Ef sjónarmið úrtölumanna hefðu ráðið ferðinni, hefði mannkynið hætt tiltölulega snemma að leggja stund á nýsköpun. Hún er alltaf áhættusöm jafnt fyrir unga sem aldna, nemendur sem kennara, alþingismenn sem ráðherra. Við eigum að ráðast í þá nýsköpun, sem felst í fistölvuvæðingu framhaldsskólanna. Stefnan hefur verið rækilega kynnt í öllum framhaldsskólum og að framkvæmd hennar er unnið af þeirri varúð, sem þarf að einkenna allar breytingar á skólastarfi.